09.05.1969
Neðri deild: 92. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í C-deild Alþingistíðinda. (2752)

208. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það er enn örlítil viðbót um aðstöðugjöldin. Hv. 1. þm. Reykn. (MÁM) spyr, hvernig sveitarfélögin eigi að fara að því að ná tekjum, sem þau þurfa á að halda, ef það sé takmörkuð heimild þeirra til að leggja á aðstöðugjöld. Ég hef gert grein fyrir skoðun minni á því í umræðum um þessi frv., sem hér hafa legið fyrir bæði nú í vetur og í fyrra um breytingar á tekjustofnalögum sveitarfélaganna að því er varðar aðstöðugjöldin. Það er til sjóður, sem heitir Jöfnunarsjóður sveitarfélaga, og þegar þannig er ástatt fyrir einhverju sveitarfélagi, að það fær ekki tekjuþörfum sínum fullnægt með álögum eftir almennum reglum, á það að fá framlag úr Jöfnunarsjóði. Hitt er óhæfa, að ætla fólki og fyrirtækjum á vissum stöðum á landinu að borga allt upp í 300% hærri opinber gjöld en á öðrum stöðum.

Það er mikið talað um það nú á tímum, að það þurfi að efla atvinnurekstur sem víðast um landið og stuðla að því, að byggð haldist við sem víðast, þar sem eru byggileg héruð á annað borð. En það er alveg vonlaust mál að koma upp fyrirtækjum úti um land, ef þeir, sem fyrir því standa, eiga von á því að þurfa að borga margfalt hærri gjöld af atvinnurekstri sínum en aðrir landsmenn eiga við að búa. Það er algerlega vonlaust, og ég vona, að hv. 1. þm. Reykn. fari að skiljast þetta, svo að hann fari að verða liðsmaður í þeim hópi, sem vill leiðrétta þetta ranglæti.

Það er náttúrlega ýmislegt í þessum skattamálum, sem þarf að athuga. Þetta er eilífðarmál. Ég held, að það væri hægt að koma þessu miklu betur fyrir og með einfaldari hætti. Nú er þetta þannig, ef við tökum t. d. skatta á vörur, að það er tekið aðflutningsgjald af vörunum, þegar um útlendar vörur er að ræða, þegar þær koma til landsins. Síðan er lagður á þetta söluskattur hjá þeim, sem verzla með þessar vörur. Og svo er lagt aðstöðugjald á þessar vörur líka. Væri ekki réttara að reyna að sameina þetta allt í einn skatt og skipta honum eftir ákveðnum reglum á milli sveitarfélaga og ríkisins? En þá þyrfti sjálfsagt um leið að gera athugun á verkaskiptingu ríkisins og sveitarfélaga. Þar gæti verið ástæða til að breyta til. Ríkið gæti kannske tekið að sér eitthvað af þeim verkefnum, sem voru falin sveitarfélögum, og svo öfugt. Þetta er mál, sem þyrfti að skoða. Það er alveg eins með beinu skattana. Ríkið tekur tekjuskatt og eignarskatt, og svo eru sveitarfélögin að leggja á fyrir sig á þessa sömu gjaldstofna. Það væri miklu einfaldara að taka þetta í einu lagi og skipta því eftir vissum reglum. En þetta er vitanlega mál, sem krefst vandlegrar skoðunar. Ég er ekki að slá því föstu, að það sé auðvelt að gera þetta. En ég segi: Þetta á að athuga og þetta á að athuga vandlega, því að það væri stórum einfaldara, ef það væri hægt að koma því fyrir með þolanlegu móti að taka þetta í einu lagi en að vera með þessa margföldu skattlagningu. Þetta kostar mikið, þessi álagning öll og innheimta. Það væri stórum betra, ef það væri hægt að sameina þetta, í stað þess að halda í þetta gamla fyrirkomulag, sem við búum við.

Já, það er með aðstöðugjöldin enn þá. Sumir segja nú, að þetta komi almenningi ekki við, því að það séu verzlanir og fyrirtæki, sem borgi þetta. En þetta er hin mesta villukenning. Ef verzlun á einum stað þarf að borga allt upp í fjórum sinnum hærra aðstöðugjald en á öðrum stað, bitnar það á fólkinu, sem býr á þeim stöðum, þar sem þessi háu gjöld eru. Það bitnar á því í hærra vöruverði eða lakari þjónustu hjá verzlunarfyrirtækjunum, nema hvort tveggja sé. Og að því er snertir frystihúsin, bitnar þetta vitanlega á fólkinu á þeim stöðum, þar sem háu gjöldin eru. Þetta eru undirstöðuatvinnufyrirtæki á ýmsum stöðum. Það er rekstur þeirra, sem afkoma fólksins byggist á, og það er þess vegna mál, sem snertir allan almenning ákaflega, hvort það er búið þannig að þessum fyrirtækjum, að þau geti lifað eða rekstur þeirra sé eyðilagður með miklu meiri skattlagningu en annars staðar tíðkast. En ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð núna, ég tala um þetta síðar við hv. 1. þm. Reykn. og reyni að fá hann til liðs við okkur aðra til að leiðrétta þetta ranglæti.