17.04.1969
Neðri deild: 78. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í C-deild Alþingistíðinda. (2757)

214. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Það er ástæðulaust að hafa langa framsögu fyrir þessu litla frv. Hámarksákvæði það í lögum um tekjuskatt, sem hér um ræðir, hefur staðið óbreytt í mörg ár og er vitanlega orðið í algjöru ásamræmi við allt verðlag. Það má út af fyrir sig deila um það, hvort rétt er að gera þann greinarmun á, sem tekju- og eignarskattslögin gera varðandi skattlagningu hjóna, þann mikla greinarmun, sem þar er gerður á eftir því hvort kona vinnur fyrir tekjum sínum við atvinnurekstur annarra eða við þann atvinnurekstur, sem fjölskyldan á sjálf að miklu leyti. Við flm. þessa frv. teljum í sjálfu sér hæpið að gera þennan mikla mun þar á. Þess vegna er það, að þó að við leggjum ekki til að fella þetta hámarksákvæði niður úr lögunum þá leggjum við til, að það sé hækkað mjög mikið, þannig að það yrði í langflestum tilfellum eftir mati, hversu mikinn þátt konan ætti í öflun tekna, þegar hún vinnur við fyrirtæki fjölskyldunnar.

Ég hef þessi orð ekki öllu fleiri. Mér sýnist þetta einsætt réttlætismál, og jafnvel þó að svo kynni að fara, sem viðbúið er, að hv. Alþ. sæi sér ekki fært, þar sem mjög er liðið á þingtímann, að afgreiða þetta mál nú, þá er það ætlun okkar flm., að flutningur frv. geti orðið til þess að vekja athygli á þessu atriði og að það mætti þá ná fram að ganga eða breyting í þessa stefnu mætti þá ná fram að ganga á næsta þingi. En í sjálfu sér er málið svo einfalt, álít ég, að það væri vel hægt að afgreiða það nú.

Herra forseti. Ég leyfi mér svo að leggja til, að frv. verði að lokinni umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.