09.05.1969
Neðri deild: 91. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 531 í C-deild Alþingistíðinda. (2812)

251. mál, Kvennaskólinn í Reykjavík

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. leggur áherzlu á, að þessu máli verði hraðað, svo að það geti orðið samferða menntaskólafrv., sem nú er komið til 2. umr. í hv. Ed. Ég er mjög sammála honum um þetta og tel bráða nauðsyn að verða við þessum tilmælum hans, og ekki skal standa á mér í því.

Hæstv. ráðh. tók fram í ræðu sinni hér áðan, að skiptar skoðanir væru um þetta mál hér í þessari hv. deild. Ég hef ekki orðið var við það, það hefur nefnilega ekkert verið rætt hér í deildinni núna. Þegar menntaskólafrv. var til umr., hreyfði hæstv. ráðh. þeirri hugmynd, sem fram hafði komið hjá höfundum menntaskólafrv., en ekki náði þar fram að ganga, að veita Kvennaskólanum í Reykjavík réttindi til þess að útskrifa stúdenta. En ég held, að ég muni það rétt, að þar hafi nokkrir þm. lýst því yfir, að þeir styddu mjög þá hugmynd, og ekki einn einasti mótmælti — ekki einn einasti. Í menntmn. bar þetta að sjálfsögðu á gáma, og ég man ekki eftir því, að þar kæmi nokkur andstaða fram heldur gegn þessari till. um Kvennaskólann. Aftur á móti lýstum við tveir þm. í n. því yfir, að við mundum styðja það, að Kvennaskólinn fengi þessi réttindi, eins og ég hef áður sagt frá. Hvar er þessi andstaða þá? (Gripið fram í.) Jú, ég þori að gera það, ég vona það a. m. k. Nú hefur hæstv. ráðh. lýst því yfir einu sinni enn, að hann sé persónulega stuðningsmaður þess, að frv. gangi fram. Það er þá einhver andstaða kannske annars staðar. Hann lýsti þessu sama yfir í hv. Ed. í gær, og ég efast ekkert um, að hann meinar þetta líka. Og hæstv. forsrh. hefur lýst yfir stuðningi sínum við málið. Hvar er andstaðan gegn málinu? Ja, hún er til, ég trúi því, eins og hæstv. ráðh. segir, að hún sé til, því að það, að málið skuli nú vera til 1. umr. í fyrri deild, sýnir, að eitthvað hefur hindrað það. Eftir öllum guðs og manna lögum er máli, sem er til 1. umr. í fyrri deild viku fyrir þingslit, ekki lífs auðið, nema ráðh. blási lífi í meðferðina, og það er það, sem ég ætla að fara fram á við hæstv. ráðh., að hann geri. (Gripið fram í.) Ja, ég veit það ekki. Eitthvað var hæstv. ráðh. að tala um, að hann væri persónulega með því, — ég er ekki viss um það. En það hafa gerzt í meðferð málsins atriði, sem ég á erfitt með að skilja og skil eiginlega ekki enn, annars vegar áhyggjur tveggja ráðh. um, að málið gangi fram, hins vegar alveg óvenjulegur seinagangur og hindranir á leið þessa frv.

Það var 25. marz, sem menntmn. skrifaði hæstv. ráðh. þá skoðun sína, að n. teldi, að það þyrfti að flytja sérstakt frv., ef veita ætti Kvennaskólanum rétt til þess að útskrifa stúdenta. Hæstv. ráðh. tók sér mánaðarfrest til að hugsa sig um. (Menntmrh.: Þetta er ekki rétt, ég svaraði strax, það lá hér í þinginu.) Nei, er það? (Gripið fram í.) Við fengum bréf frá hæstv. ráðh., dags. 25. apríl, er það rangt? (Gripið fram í.) Ég man það, það er dags. 25. apríl, og mér reiknast til, að það sé mánuði frá 2–5. marz. Þá fengum við bréf frá ráðh. (Gripið fram í.) Ég á eftir að koma að því. Það leið mánuður þangað til hæstv. ráðh. skrifaði okkur og bað okkur að flytja frv. um þetta mál. En þó að það sé ekki langur spölur frá Arnarhvoli niður í þinghús, þá tók það viku að við fengjum bréfið. Það var af tilviljun, að formaður menntmn. opnaði möppu, sem n. tilheyrir, þá veltur út úr möppunni bréf, skrifað utan á til menntmn. Hann opnaði bréfið, því að það var lokað, og þar er undirskriftin Gylfi Þ. Gíslason, Birgir Thorlacius, þar sem n. er góðfúslega beðin að flytja frv. um málið, að veita Kvennaskólanum réttindi til að útskrifa stúdenta. En það fylgdi ekkert frv. bréfinu. Ég veit ekki til, að það sé venja, að ráðh. biðji n. að flytja frv. án þess að senda frv. til að flytja það, og ekki minntist hann heldur á það í bréfinu, að við skyldum semja frv. Hvað áttum við að flytja? Formaður n. talaði síðan við ráðh. sama daginn og benti honum á þetta, að bréfið hefði ekki komið fram fyrr en núna og ekkert frv. í því. (Gripið fram í.) Jú, svo fékk n. nýtt bréf. Nú man ég ekki nákvæmlega dagsetningu, hvort hún var 2. maí, 3. eða jafnvel 5. maí. Það var einhvern af þessum dögum, minnir mig, þar sem hæstv. ráðh. biður n. enn að flytja nú þetta frv., og frv. fylgir, en óprentað, það var bara vélritað. Formaður menntmn. fór til Ísraels og gat ekki gert meira í málinu. Þá kom einhver sjálfboðaliði til, held ég, og tók við þessu. Ég held, að það hafi verið hv. 7. þm. Reykv. Svo er farið að prenta og frv. var útbýtt í gær.

Þetta er gangurinn í málinu. Og svo að sleppt sé öllu gamni, getur það verið, að ríkisstj. hafi áhuga á að koma málinu fram með svona vinnubrögðum? Ég er ekkert að draga í efa áhuga hæstv. ráðh. Er ekki einhver dragbítur innan ríkisstj. sjálfrar, sem veldur þessu?

Nú er málið til 1. umr. og nú er bezt að tefja ekki mikið umr. En af því að ég veit, að hæstv. ráðh. getur hraðað máli, ef hann vill, og með því að hann hefur nú lagt áherzlu á, að þetta mál geti orðið samferða menntaskólafrv., sem er komið til 2. umr. í Ed., gæti hann nú ekki fallizt á að reyna að koma því til leiðar, að þetta mál geti komizt út úr þessari þingdeild í dag? Hann var að leggja til að vísa málinu til menntmn. Við höfum ekkert með það að gera lengur. Við flytjum það, og ég segi fyrir mig, að ég þarf ekki þess vegna að koma á neinn fund út af þessu máli. Það er svo einfalt, að það má afgreiða það mín vegna, án þess að það komi til n. aftur. Það er eiginlega ekki um neitt að deila annað en þetta: vilja menn veita Kvennaskólanum þessi réttindi eða vilja menn það ekki? Ég vil veita skólanum þau. Ég sé enga ástæðu til þess að tefja málið með því að fara að vísa því til n. eða mælast til þess, að n. taki það frekar til umr. Ég sé enga ástæðu til þess, og ég vona, að hæstv. ráðh. verði nú við þessari beiðni minni.