09.05.1969
Neðri deild: 91. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 533 í C-deild Alþingistíðinda. (2813)

251. mál, Kvennaskólinn í Reykjavík

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég ætla að byrja að taka það fram, að ég tala fyrir minn reikning hér alveg. Það þarf enginn að hafa neinar áhyggjur af því, að hann beri ábyrgð á því, sem ég segi, hvorki einstaklingar né flokkar.

Það er farið að gera nokkuð mikið að því að veita skólum heimild til þess að útskrifa stúdenta og segja svo, að það séu ekki menntaskólar. Gert er ráð fyrir, að stúdentar frá þessum skólum hafi sömu réttindi og frá menntaskólunum. Ég sé þá ekki annað en að það væri þá auðveld leið að hætta að hafa nokkra menntaskóla, heldur bara að veita þessum miðskólum eða hvað þeir heita — kvennaskólum, eða hvað það er, heimild til að útskrifa stúdenta, það þurfi enga sérstaka menntaskóla. Þeir hafa sömu réttindi til háskólanáms og eiga að hafa svipaða menntun til stúdentsprófs eða sömu, og þá sé ég ekki, að það sé nein sérstök ástæða til að kalla suma af þeim skólum, sem hafa þessi réttindi, menntaskóla, en aðra annaðhvort kvennaskóla eða gagnfræðaskóla eða miðskóla, kennaraskóla eða verzlunarskóla, sem mega útskrifa stúdenta. Hvar endar þetta? Mér er sagt, að þetta sé gert í tilefni af einhverju afmæli hjá Kvennaskólanum. Nú, það eiga allir skólar einhvern tíma afmæli, miðskólar, gagnfræðaskólar og samvinnuskólar og allir skólar, og ef t. d. 30, 40 og 50 ára afmælis ætti að minnast með því, að þeir fái réttindi til að útskrifa stúdenta, þá er það þannig, að flestir af þessum miðskólum okkar geta fengið þessi réttindi.

Það var hér frv., eins og þið vitið, til umr. um menntaskóla í Nd. Ég las þetta frv., og ég segi það hræsnislaust, að ég hef eiginlega aldrei lesið frv., sem ég hef verið eins ánægður með, grg. og efnið. En það er nú þannig með þessa virðulegu 60 manna samkomu, að ef hún fær frv., sem er reglulega mikið vit í, þá þarf hún alltaf eitthvað að limlesta það, eða pínulítið að skemma það. Hins vegar skal það sagt þessari stofnun til heiðurs, að ef hún fær ákaflega vitlaust frv., þá lagar hún það oft. En svo eru svona frv., sem eru á milli þess að vera viturleg og vitlaus, eins og þetta frv. um heimild fyrir Kvennaskólann að útskrifa stúdenta. Það er líklegt, að það fljúgi algjörlega í gegn, því að það er svona mitt á milli þess að vera vitlaust og vit í því.

En þetta menntaskólafrv. var mjög skynsamlegt, og það voru valdir menn, sem hafa samið grg. fyrir frv., og þar kemur fram í raun og veru meiri víðsýni en ríkt hefur í okkar skólamálum. Aðalatriðin eru, að það eigi að vera meira valfrelsi í skólunum en verið hefur, sem sagt að gera námið hagnýtara, og að nemendurnir fái að velja, hvaða námsgreinar þeir vilja helzt leggja stund á. Við vitum það t. d., að afburða stærðfræðingum getur gengið illa í málum o. s. frv., og þó geta þetta orðið frábærir menn í sínu lífsstarfi. Við vitum það líka, að þeir menn, sem kannske hafa lengst skarað fram úr í vísindum og ýmsu öðru, þeir hafa ekki reynzt alhliða námsmenn í mörgum tilfellum. Og þetta tel ég til stórra bóta. Annað, sem þessir menn benda á, er það, — ég get gjarnan tekið þetta orðrétt upp eftir n., ég geri ráð fyrir, að þið hafið flestir lesið þetta frv. og grg. jafnvel líka, get þó raunar ekkert fullyrt um það, en ef þið hafið ekki gert það, þá held ég, að það væri engu tapað, þó að þið gerðuð það. Hér segir t. d., með leyfi forseta:

„Í lýðræðisþjóðfélagi hlýtur það að gerast þannig, að mönnum sé með fræðslu og fortölum beint inn á æskilegar námsbrautir, en ekki með því, að lokað sé nokkurri leið til mennta. Af þessum sökum telur n. óæskilegt, að fjöldi menntaskóla í landinu sé bundinn í lögum. Hins ber þó jafnan að gæta, ekki sízt er velja skal nýjum skólum stað, að menntaskóli, er fullnægi öllum kröfum um starfslið, húsrými og tækjabúnað, er dýr stofnun og því dýrari hlutfallslega sem hann er minni.“

Það gefur auga leið, að eftir því sem skólarnir verða minni, eftir því verða þeir meira af vanefnum búnir, og í þeim skólum eru minni möguleikar til þess að skipta þeim í deildir. Í þessu frv. er gert ráð fyrir, að í hinum stærri skólum verði deildirnar þrjár, og það er einmitt hreyfingin meðal unga fólksins: máladeild, stærðfræðideild og náttúrufræðideild. Ég efa það ekki, að þessum deildum eigi eftir að fjölga. En möguleikarnir til þess að skipta skólunum í deildir og skapa meira úrval og meiri stórhug og víðsýni, það er það, að við höfum skólana fáa, en góða. Það má deila um, hvar þeir eigi að vera staðsettir. Það gæti vel verið, að að ýmsu leyti væri betra að byggja menntaskóla fyrir Reykvíkinga einmitt úti í sveif með heimavist. Sannleikurinn er sá um þennan menntaskóla, sem við höfum lengst búið við hér í Reykjavík, að hann hefur verið ægilega vanræktur. Hér átti vitanlega að koma heimavist miklu fyrr, þannig að það yrði ekkert dýrara fyrir fólk utan af landi að vera hér en annars staðar. Matur er ekkert dýrari hér en annars staðar, síður en svo, jafnvel ódýrari.

Nú er þessi andi uppi, að dreifa skólunum sem allra mest og láta miðskóla, kvennaskóla, verzlunarskóla og ýmsa aðra skóla hafa heimild til að útskrifa stúdenta. Þetta er bæði til að gera námið dýrara og lakara. Það er ekki sama, hver kennarinn er, og það háir mjög mikið ýmsum af þessum miðskálum, að við höfum ekki nógu gott kennaraval, sem kemur m. a. fram í því, að í fjölda af skólum eru að tiltölulega fá prósent, sem ná landsprófi. Ég hef talað við kennara um þetta. Mismunurinn á því, hvað þeim gengur vel að ná landsprófi, er fyrst og fremst undir kennslunni kominn, því að það hafa margir kennarar sagt mér, að það er ekki ýkjamikill munur á námshæfni unglinga á hinum ýmsu stöðum. Gerum við svo þessum aðilum nokkurn greiða með þessu? Haldið þið, að það sé á nokkurn hátt hagkvæmara fyrir ungu stúlkurnar hérna í Reykjavík að útskrifast í Kvennaskólanum en Menntaskólanum? Stúlkum þykir meira gaman að vera í samskóla, og það er beint tekið fram í þessari grg., að það sé eðlilegt, að menntaskólarnir séu samskólar pilta og stúlkna. Kvenfólk hefur sérstaklega áhuga fyrir einu í lífinu, og það er að giftast, og þær kynnast piltunum meir og betur og á heilbrigðari hátt í skólum heldur en aðeins á böllum. Þær hefðu meiri möguleika að velja um, hvaða deild þær eiga að fara í, í fullkomnum menntaskóla heldur en í Kvennaskólanum. Og þeim finnst samskólarnir vera skemmtilegri en sérskólar, sem eru valdir bara eftir kynjum. Við gerum þess vegna ungu stúlkunum í Reykjavík ekki nokkurt minnsta gagn, hvorki fjárhagslega, menntunarlega né andlega, að fara að heimila þessum skóla að útskrifa stúdenta. Við gerum þeim ógagn, en ekki gagn.

Ég er dreifbýlismaður og bý úti í dreifbýlinu, en ég hef ekki minnstu trú á, að það geri okkur gagn að fara að hola niður menntaskólum hér og þar úti um landsbyggðina. Ég hef alltaf haldið mikið upp á Vestfirðinga. Ég hef einu sinni komið þar á flestar hafnir. Ég tók eftir, hvað þetta voru stórir og myndarlegir menn, og þeir eru afburða duglegir sjómenn, sem eðlilegt er, þeir búa í einhverju harðbýlasta héraði landsins. Mér var einu sinni sagt það, að ísfirzku skipstjórarnir bæru af öðrum skipstjórum, bæði hvað menningu snerti og menntun í sínu starfi. Og ég tók eftir því, þegar þeir voru að flytja fyrir okkur kindur til Skagastrandar í fjárskiptunum, að þetta voru eins og „lordar“, bæði hvað framkomu snerti og mennileika á allan hátt. Þessir menn hafa unnið okkar þjóð mikið gagn, bæði á Ísafirði og á fjörðunum þarna vestur frá. Væri okkar þjóð betur stödd, þótt þessir menn hefðu orðið stúdentar, lært lögfræði eða viðskiptafræði, setzt að hér í Reykjavík og orðið annaðhvort rukkarar eða samið vitlaus frv. fyrir ríkisstj.? Værum við betur settir með það? Nei. Það, sem þessi byggðarlög eiga á hættu, ef þau fá menntaskóla, það er, að allir, sem geta lært Faðir vorið með auðveldu móti, þeir fari að verða stúdentar, bjálfist svo hingað suður og taki eitthvert háskólapróf, setjist hér að, úrkynjist og verði að engu.

Hitt er svo annað mál, að við þurfum að breyta andrúmsloftinu í þessum skólum, bæði háskólum og menntaskólum, og það á kennaraliðið að gera. Það vottar fyrir því í þessu frv., að þeir menn, sem hafa samið frv., skilji þetta. Það þarf að blása því í brjóst þessara nemenda, að þeir eru ekki komnir til að læra þessi fræði, setjast svo á einhverja stóla inni á einhverri skrifstofu eða að verða málaflutningsmenn eða eitthvað slíkt. Þeir eiga að afla sér þessarar menntunar til þess að geta farið í fremstu víglínu í þjóðfélaginu, og fremsta víglínan er ekkert síður úti í byggðum en hér í Reykjavík. Til þess læra menn herþjálfun, til þess eru menn gerðir að hermönnum, að þeir eigi að geta verið í fremstu víglínu, ef á þarf að halda. Þess vegna verðum við að breyta þessum hugsunarhætti, sem er kominn inn einmitt hjá okkar svokölluðu menntuðu mönnum, þessum langskólagengnu mönnum, — við þurfum að breyta hugsunarhætti þeirra. Það er fjórði eða fimmti hver verkfræðingur og læknir, sem vinnur erlendis. Þjóðin er búin að eyða ærnu fé til þess að mennta þessa menn.

Hugsunarhátturinn var ekki eins, þegar okkar fátæku stúdentar um og eftir aldamótin voru að læra. Þeir fengu eiginlega engan styrk frá sínu þjóðfélagi. Þeir börðust áfram í bláfátækt. En þeir komu heim, og þeir voru ekki hræddir við að fara út í byggðirnar og vera þar læknar. Og þá gátu þeir ekki ferðazt um á bílum, þeir urðu að fara á hestum og skíðum. Þeir töldu ekki eftir sér að vinna. Þessir menn gerðu okkar þjóðfélagi ómetanlegt gagn, bæði andlegt og heilsufarslegt. Sama mátti í raun og veru segja jafnvel um prestana á þeim tíma. Þá fengum við presta úti í landsbyggðunum, og þeir áttu mikinn þátt í því að kenna ungum drengjum, sem ekki höfðu efni á að fara á skóla.

Ég held því, að stefna okkar í menntamálunum eigi að vera að hafa skólana færri og fullkomnari. Það hefur verið skipulagslaust, þetta skólakerfi okkar. Það eru allir að heimta skóla hér og skóla þar. Þeir verða litlir og ófullkomnir, og skólakerfið er að verða svo dýrt fyrir þjóðfélagið, að það rís ekki undir því. Ég hef orðið var við í tveimur liðum eiginlega einhverja sparnaðarviðleitni hjá ríkisstj. núna. Það er að taka framlagið af Fiskveiðasjóði og Aflatryggingasjóði. Ég sat nefndarfundi í morgun, og það gæti vel komið til mála, að ég væri með þessari framkvæmd, ef ætti að fara að nota alhliða ráðdeild í þjóðfélaginu og spara á fleiri liðum, — og hefði átt að vera búið að því fyrr að nota meiri hagsýni við ríkisbúskapinn. En ég held, að við séum í þessu atriði að fara út í hreina vitleysu, og við gerum ungu fólki ógagn með þessu. Það er heimskt heimaalið barn, og við vitum, að ungt fólk þráir að kynnast einhverju, sjá eitthvað. Það er þess vegna ekkert við það að athuga, þó að sveitadrengirnir og stúlkurnar úr minni byggðarlögunum komi, setjist að í stórum skóla, kynnist jafnvel bæjarlífi. En það á bara að haga menntuninni þannig, að þau skilji það, að fyrir þau sjálf og þjóðfélagið í heild er það hvorki til vansæmdar né skaða, heldur nauðsyn, að fara aftur út í byggðirnar og vinna þar þörf störf, því að okkur vantar tilfinnanlega menn við stjórnsýslu úti í byggðunum.

En hitt er hættuleg þróun, að allir, sem hafa einhverja hæfileika, fari í langskóla og skili sér aldrei aftur til heimabyggðanna.

Ég mun því ekki greiða þessu frv. atkv., vegna þess að ég álít, að það sé öfugþróun, þessi skólaþróun hjá okkur. Hins vegar viðurkenni ég, að frv. það, sem samið var um menntaskóla yfirleitt, sýnir víðsýni og þroska, og það kemur beinlínis fram í því frv., að þeir eru sjálfir á móti því, að Kvennaskólinn fái þessi réttindi. Þeir segja hreint út, að við eigum að hafa skólana færri, en fullkomnari, og þetta frv. er tvímælalaust samið af mjög færum mönnum í þessum efnum. Það eru þessi músarholusjónarmið, sem við metum allt of mikils, sem koma fram á öllum mögulegum sviðum hjá okkur. Þau koma fram í skólamálum, þau koma fram í félagsheimilum, byggingu þeirra, og ýmsum öðrum sjónarmiðum, þessi smávægilega hreppapólitík. Við erum lítil sveitarfélög. Það skapast af þeirri aðstöðu, sem við bjuggum við, lélegum samgöngum og gisinni byggð. En þetta þarf bara að breytast. Aðstæðurnar hafa breytzt, samgöngurnar hafa breytzt. Við erum fljótir nú á milli í bílum og höfum önnur farartæki en við höfðum, og við þurfum að vaxa upp úr þessu.

Ég hef verið að athuga lauslega, að það eru eitthvað tæpir 500 stúdentar, sem gert er ráð fyrir að útskrifist núna. Það er ca. einn maður af 400 mönnum. Nú eru Ísfirðingar að tala um að fá sinn menntaskóla. Ef þar væri svipað og er að meðaltali á landinu, þeir eru eitthvað 2700 manns, þá yrðu það 7 stúdentar, sem árlega útskrifuðust. Það er ekkert ódýrara fyrir Strandamenn og Barðastrandarmenn að hafa sín börn á skólum á Ísafirði heldur en hér, og ég stórdreg það í efa, að þeir sendi þau til Ísafjarðar, því að hér yrði meira val um deildaskiptingu. Og þeim þætti kannske að sumu leyti alveg eins gaman að vera hér, þessum nemendum þaðan. Þá yrðu það 7 nemendur, sem þyrftu að útskrifast, ef það er einn af 400 á Ísafirði. Haldið þið, að það borgi sig fyrir þjóðfélagið að halda uppi fullkomnum skóla með deildaskiptingu aðeins til hagsbóta fyrir þessa einu byggð? Ekki gætu einu sinni Bolvíkingar farið heim á kvöldin til þess að borða hjá foreldrum sínum.

Nei, þetta er að verða hrein vitleysa og þetta gerir byggðunum ógagn, en ekki gagn. Andi skólanna þarf að vera þannig, að fólkið sé ekki hrætt við að fara og stunda líkamlega vinnu og standa í fylkingarbrjósti í baráttu þjóðarinnar fyrir sínu lífsbrauði. Bæði í háskólanum og menntaskólanum þarf andinn að vera þannig, að það verði fúst að vera þar, sem þjóðfélagið hefur þörf fyrir það, en flýi ekki til annarra landa. Og það er framtíðin. En það er annað, sem fylgir þeirri kjördæmaskipun, sem nú er. Ef einhver þm. kemur upp með eitthvert frv., þáltill. eða eitthvað slíkt, sem hinir óttast að hann geti unnið einhver atkv. á, þá eru þeir allir hlaupnir og allir segjast vera með því. Þetta er auðvitað hættulegt í okkar kjördæmaskipun. Og það verður þannig, að þó að einhver komi með eitthvað, sem hann heldur að hann geti unnið einhver atkv. á, þá eru hinir jafnákafir eða ákafari, þannig að enginn flokkur vinnur neitt við að gera vitleysuna. Þess vegna er mikil nauðsyn að breyta kjördæmaskipuninni, þó að ekki væri fyrir annað en þetta.

Sem sagt, ég las með eftirtekt frv. um menntaskólana, sem nú er búið að afgreiða til Ed., og mér líkaði frv. frábærlega vel. En ég sé ekki, að þetta frv. sé í neinu samræmi við þann anda, sem kemur fram í frv. frá þeirri n., sem hæstv. menntmrh. skipaði til að semja frv. um menntaskólana, heldur hið gagnstæða. Þeir leggja áherzlu á, að skólarnir séu stórir og fullkomnir, telja það ódýrara og hagkvæmara, en ekki margir og smáir. Það er sagt: Þetta eru engir menntaskólar nema bara rétt til að útskrifa stúdenta. — Þetta er eins konar skrípaleikur. Þessir menn eiga að hafa sömu réttindi og stúdentar frá menntaskólunum. Þess vegna er þetta ekkert annað en bara óbeinn menntaskóli. Við höfum eitthvað tæpa 504 stúdenta. Ef við værum ekki í þessu kotþjóðfélagi sem við erum, væri þetta mátulegt fyrir einn skóla. Menntaskólinn er fjögurra ára skóli. Það er annað atriði að lofa t. d. þeim úti í dreifbýlinu að taka 1. bekk menntaskólans heima. Deildaskiptingin byrjar aðallega eftir það, og það hafa þeir þegar, t. d. á Ísafirði, það er allt í lagi, hafa svo stóran skóla með fullkominni deildaskiptingu og fullkominni kennslu. Það er ódýrast fyrir okkur. Og það er alveg nægilegt að hafa slíka skóla tvo á landinu og hafa þá bara fullkomna, bæði að kennaravali og öðrum aðbúnaði, og miklu praktískara og betra, bæði fyrir nemendurna og eins þjóðfélagsheildina. Við þurfum að vinna okkur upp úr þessum smáborgaralegu músarholusjónarmiðum og blása okkar nemendum þeim manndómi og kjarki í brjóst, að þeir séu ekki hræddir við að verða skipstjórar, bændur eða það, sem þjóðfélagið þarf á að halda, þegar þeir eru búnir að læra og þjóðfélagið er búið að hjálpa þeim til þess, gera menntunina hagnýtari, eins og koma fram óskir og till. um í þessu menntaskólafrv., og blása þeim svo manndómi og kjarki í brjóst, en ekki að þeir flýi til annarra landa, þegar þjóðin er loksins búin að hjálpa þeim til að læra. Það er náttúrlega alveg rétt, það sem kom fram hjá Magnúsi Jónssyni fjmrh. og ég minntist á einu sinni, að það er ekkert vit í því að vera að ausa styrkjum í menn svo að skiptir hundruðum til að læra eitthvað, sem við höfum ekki þörf fyrir að þeir læri og þeir hafa ekki aðstöðu til að vinna við, þegar þeir eru búnir að ljúka því námi, heima í sinni heimabyggð. Ef þeir vilja læra eitthvað annað, sem þeir aðeins geta stundað í öðrum löndum, þá verða þeir bara að kosta sig sjálfir eða þeirra aðstandendur.