28.10.1968
Efri deild: 6. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í C-deild Alþingistíðinda. (2829)

31. mál, ungmennahús

Flm. (Einar Ágústsson) :

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 2. þm. Reykv. fyrir þær undirtektir, sem fram komu hér í ræðunni áðan við þessu vandamáli.

Eins og ég sagði áðan í minni framsöguræðu, er mér það ekki fyrst og fremst kappsmál, að þetta frv. verði samþykkt óbreytt. Ég er, eins og hv. síðasti ræðumaður, að reyna að leita að einhverri færri og heppilegri leið til lausnar á þessum vanda ungmenna hér í borginni, og ég vonast til þess, að hv. n., sem fær þetta til athugunar, verði minnug þess, að það stendur ekki á flm. frv. að hnika einhverju til, ef n. sér annað fyrirkomulag betra.

Það má vel vera, að það sé rétt, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði, að það sé kannske a. m. k. hluti vandamálsins, að ekki hafi fundizt heppilegar leiðir, sem laða æskufólkið eins mikið að og gera þyrfti, og það þarf vafalaust alltaf að leita að nýjum leiðum í því, eins og hún benti á, en ég hygg þó að hluti af þessu vandamáli sé fjárhagslegs eðlis. Ég óttast það nokkuð, að 75 kr. inngangseyrir, eins og templarar hafa talið sig þurfa að taka til þess að hleypa æskufólki inn til sín, kunni að vera nokkur þrándur þar í götu. Enn fremur veit ég, að eigendur veitingahússins Lídó tóku allháan aðgangseyri til þess að veita ungmennunum kost á þessum skemmtunum, og það getur vel skeð, mér dettur það a. m. k. fyllilega í hug, að þessi aðgangseyrir verði að vera mjög lágur til þess að laða fólkið að þessum skemmtunum, því að ef ungt fólk fer á annað borð að eyða peningum í stórum stíl er náttúrlega margt fleira, sem laðar að, heldur en skemmtanir templara við Eiríksgötu og jafnvel í Lídó. Þess vegna m. a. gerði ég ráð fyrir því í þessu frv., að það kæmi til nokkur rekstrarstyrkur við húsið, af því að ég er hræddur um, að hluti af vandamálinu sé fjárhagslegs eðlis, eins og ég áðan sagði.

Ég ætla ekki að þreyta þm. á lengri ræðuhöldum. Ég endurtek þakkir fyrir undirtektirnar og vona, að hv. Afþingi bregðist nú vel við og afgreiði málið a. m. k., en svæfi það ekki.