14.11.1968
Efri deild: 14. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 557 í C-deild Alþingistíðinda. (2835)

47. mál, þjóðleikhús

Flm. (Tómas Karlsson):

Herra forseti. Á þskj. 49 leyfi ég mér að flytja frv. til l. um breyt. á l. nr. 86 5. júní 1947, um þjóðleikhús. 1. gr. frv. er svo hljóðandi:

„Við 3. gr. l. bætist svo hljóðandi mgr.: Heimilt skal þjóðleikhússtjóra að ráða til eins árs í senn á kjör fastra leikara í hæsta launaflokki rithöfund til að rita íslenzk leikrit. Skal viðkomandi leikritahöfundur skila minnst einu íslenzku leikverki í lok starfsárs, en það er í höndum þjóðleikhússtjóra og þjóðleikhúsráðs að ákveða, hvort eða hvenær verkið verði sýnt. Verði verkið tekið til sýningar, skal leikritahöfundurinn fá þóknun fyrir, í samræmi við það, sem höfundum íslenzkra verka er greitt fyrir leikrit þau, sem tekin eru til sýningar í þjóðleikhúsinu.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi:“

Með frv. þessu er lagt til, að þjóðleikhússtjóra verði heimilað að ráða til starfa í þjóðleikhúsinu leikritahöfund eftir eigin vali. Og skal starfstími höfundarins ákveðast eitt ár í senn. Þjóðleikhússtjóri metur það hverju sinni ásamt þjóðleikhúsráði, hvort verk þau, sem höfundur ritar á starfsárinu, þykja heppileg til sýningar í þjóðleikhúsinu. Og ætlazt er til, að höfundur haldi höfundarrétti sínum óskertum til þeirra verka, er hann semur á vegum þjóðleikhússins það ár, sem hann er á starfslaunum leikhússins.

Það má öllum vera ljóst, sem eitthvað fylgjast með leiklistarlífi í þessu landi, að mikill hluti þeirra leikrita, sem hér eru sýnd árlega, er fenginn erlendis frá og þýddur á íslenzka tungu. Með flutningi þessa frv. er út af fyrir sig ekki verið að amast við erlendum leikhúsverkum almennt, heldur í rauninni verið að harma, hve lítið framboð er af íslenzkum leikritum, samtímaleikritum, til að færa upp á svið okkar leikhúsa, því að á það ber að líta, að þjóð, sem á sér þjóðleikhús og stendur í öflugri leikstarfsemi, bæði hérna í höfuðborginni og í kaupstöðum og kauptúnum og sveitum landsins, stendur höllum fæti og er sannarlega í nokkurri hættu menningarlega í þessu tilliti á þessu sviði, ef hún jafnframt þessum mikla leiklistaráhuga sínum eflir ekki sínar eigin leikbókmenntir. Það er rétt, að Íslendingum er nauðsynlegt að efla leikbókmenntir sínar. Um það vottar þessi mikli og sívaxandi leiklistaráhugi, sem ég gerði hér að umtalsefni, bæði meðal almennings og þeirra mörgu, sem leggja sig fram um að ná vænlegum árangri í leiklist, en þeim fer fjölgandi í landinu. Bezt væri að vinna að þessari eflingu innan leikhúsanna sjálfra, svo að höfundarnir séu hverju sinni í sem nánustum tengslum við leikarana og leiksvið, þar sem verk þeirra eru flutt. En það er líka eðlilegt, að leikhúsin setji ákveðin skilyrði og ákveðnar takmarkanir, sem miði að því að tryggja sem beztan og skjótastan árangur í þessu sambandi. En með því að tengja höfundana við leikhúsin, eins og hér er gert ráð fyrir varðandi þjóðleikhúsið, er verið að hjálpa leikhúsunum út úr þeim vítahring eða leggja til að gefa þjóðleikhúsinu heimild til þess að geta gripið til ráða til þess að komast úr þeim vítahring, sem erlendu leikritin verða í þjóðleikhúsinu, ef á að styðjast við þau til langframa í jafnríkum mæli og nú er og allt bendir til, því miður, að verði í framtíðinni, verði íslenzk leikritun ekki stórlega efld.

Hér vantar framboð á góðum, íslenzkum leikhúsverkum og þeir, sem fylgjast með verkefnaskrám leikhúsanna, sjá, að óhjákvæmilegt er að efla íslenzkar leikbókmenntir með einhverjum ráðum, svo að þær reynist nægar þeim ágæta umbúnaði, sem þegar er fyrir hendi og fyrirhugaður er í leikhúsum okkar og einnig til að svara miklum og sívaxandi leiklistaráhuga almennings um allt land. Með því að tengja leikritahöfundana við leikhúsin og skapa þeim hin réttu starfsskilyrði og aðgang að þeirri tæknilegu aðstoð, sem þeim er nauðsynleg, sérstaklega byrjendum á þessu sviði, ætti þetta að geta tekizt. En það er rétt að leggja áherzlu á það í þessu sambandi enn frekar en ég hef þegar gert, hv. þdm., að hér er aðeins um heimildarákvæði að ræða. Þjóðleikhússtjóri og þjóðleikhúsráð metur það hverju sinni, ef þetta frv. verður að l., hvort fjárhagur þjóðleikhússins leyfir notkun heimildarinnar og enn fremur mundi hún ekki notuð væntanlega nema þjóðleikhússtjóri hefði rökstudda ástæðu til að ætla, að notkun heimildarinnar mundi verða að fullum notum fyrir þjóðleikhúsið og fengur íslenzkum leikbókmenntum. Því er þannig farið, að við eigum mjög mörgum góðum rithöfundum á að skipa, en af einhverjum ástæðum er það svo, að rithöfundar okkar hafa heldur lítið lagt sig fram við smíði leikhúsverka. Sýnist mönnum þó, að þar skjóti allskökku við þann mikla og almenna leiklistaráhuga, sem í landinu er. Það liggur í augum uppi, að ýmsir rithöfundar hljóta að hafa ýmis verk á prjónunum og ýmsar hugmyndir í huga og drög að verkum, sem mundi verða fengur að fá á leiksvið í formi leikhúsverks, leikrits, í okkar leikhúsum. Það, sem kann að valda því, að þessi verk eða þessar hugmyndir og drög verða æði treglega að leikhúsverkum, leikritum, er kannske skortur á þeirri tæknilegu aðstoð, sem leikhús og leikarar einir geta látið í té og jafnframt að öðrum þræði naumur tími höfundar til að sinna ritstörfum vegna brauðstrits til framfærslu sér og sínum og því verði hugmyndir fremur að smásögum eða skáldsögum, þegar verkin koma endanlega frá rithöfundunum, þar sem það er auðfarnari og hér á landi hefðbundnari leið í bókmenntum.

Notkun þessarar heimildar, sem í þessu frv. er farið fram á til handa þjóðleikhússtjóra, mun að sjálfsögðu bera að með þeim hætti, að menn með drög að leikritum eða hugmyndir að leikritum mundu leita til þjóðleikhússtjóra eða hann til þeirra, ef hann frétti af slíkum drögum höfundar, og það væri þá algerlega á valdi þjóðleikhússtjórans sjálfs að ákveða það og meta, hvort umrædd drög að verkum gætu hæft sviði þjóðleikhússins. Það væri hans mat um það atriði og enn fremur trú hans, að höfundurinn mundi ljúka verkinu á því ári, sem hann væri á launum þjóðleikhússins, og fengi þá t. d. ársleyfi frá því starfi, sem hann gegndi, ef um mann í föstu starfi væri að ræða, sem er í langflestum tilfellum hvað snertir rithöfunda á okkar landi, því að það eru fáir, sem lifað geta af ritstörfum einum í þessu þjóðfélagi.

Yrði niðurstaða þjóðleikhússtjóra jákvæð við þessar aðstæður, sem ég hef hér drepið á, og eftir þetta umrædda mat hans sjálfs, og leyfi fjárhagur þjóðleikhússins það, en fjárhagur hússins mun nú reyndar bágborinn nú, þá og væntanlega ekki fyrr mundi þjóðleikhússtjóri nota þá heimild, sem hann hefði til að ráða höfundinn til eins árs á launum leikara, verði frv. það, sem hér er til umræðu, að lögum.

Það er rétt, að góð list verður trauðla sköpuð eftir pöntun fyrir peninga í boði. Hér er ekki um það að ræða með flutningi þessa frv., heldur að leggja til að feta sig inn á þá braut, að heimild verði að ráða rithöfund í eitt ár, ef þær ástæður eru fyrir hendi, að telja má fullvíst, að það mundi ríða baggamuninn varðandi það, hvort íslenzkt leikhúsverk kæmist á svið. Í þessu sambandi þátti flm. þessa frv. þó rétt að undirstrika, að hér væri ekki átt við ölmusu til handa viðkomandi höfundi með því að slá þann varnagla í 1. gr. frv., að höfundur héldi óskertum sínum höfundarrétti til þeirra verka, er hann semdi á launum leikhússins. Hér væri því um hreint framlag þjóðleikhússins að ræða til að efla íslenzkar leikbókmenntir.

Þjóðleikhúsið rekur myndarlegan leiklistarskóla. Það rekur og listdansskóla og til þessarar starfsemi er varið miklu fé. Þetta er nauðsynleg starfsemi í þjóðleikhúsi, en framlagið til þeirrar undirstöðu, sem þarf að vera að hverju þjóðleikhúsi, þjóðlegar leikbókmenntir, framlagið til þeirra er of lítið. Menn gætu reyndar haft þá mótbáru gegn þeirri hugmynd, sem hér hefur verið sett fram í frv.-formi, að heppilegra væri að nota þessa peninga, sem um er að ræða, til verðlaunasamkeppni á vegum leikhússins. Slíkar verðlaunasamkeppnir hafa reyndar nokkrar verið, ef ég man rétt. En það er nú einu sinni svo, að raunverulega eru rithöfundar í sífelldri samkeppni hver við annan, og margir þeir beztu fást ekki til að taka þátt í slíkri verðlaunasamkeppni af ástæðum, sem ég tel að liggi þeim, sem kynna sér þessi mál nokkuð, í augum uppi.

Þetta frv. er hógvært og lítið, og á þessum tímum mikilla fjárhagsörðugleika er hér aðeins farið fram á heimild, sem þjóðleikhússtjóri notar aðeins ef honum sýnist svo og fjárhagur þjóðleikhússins leyfir og þá væntanlega við þær aðstæður, sem ég hef hér drepið á.

Herra forseti. Ég legg svo til, að að lokinni þessari umr. verði þessu frv. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.