14.11.1968
Efri deild: 14. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 560 í C-deild Alþingistíðinda. (2838)

49. mál, menningarsjóður og menntamálaráð

Flm. (Tómas Karlsson) :

Herra forseti. Á þskj. 52 flyt ég frv. til l. um viðauka við l. nr. 50 frá 5. júní 1957, um menningarsjóð og menntamálaráð. Við lögin bætist nýr kafli:

„Um þýðingarsjóð.

1. gr. Menntamálaráð fer með stjórn þýðingarsjóðs. Hlutverk þess sjóðs er að veita íslenzkum rithöfundum styrki til að láta þýða verk sín á erlend tungumál með útgáfu á verkunum erlendis í huga. Menntamálaráð skal árlega, eftir að sjóður þessi hefur tekið til starfa, auglýsa eftir umsóknum um styrki úr þýðingarsjóði. menntamálaráð úthlutar styrkjum þessum, og skal úthlutun miða að því að koma íslenzkum athyglisverðum samtímabókmenntum á framfæri erlendis. Menntamálaráð skal aðstoða rithöfunda við útvegun hæfra þýðenda. Þýðingarsjóður menntamálaráðs tekur til starfa, þegar fé hefur verið veitt til hans á fjárl. Heimilt er menntamálaráði að nota hluta af starfsfé sjóðsins til að kynna íslenzk samtímaskáldverk erlendis. Menntamálaráðherra setur nánari reglugerð um nánari ákvæði um starfsemi þýðingarsjóðs.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Í frv. þessu er lagt til, að stofnaður verði þýðingarsjóður, er sé í vörzlu og undir stjórn menntamálaráðs, og skal menntamálaráð úthluta styrkjum úr þessum sjóði til rithöfunda, sem vilja láta þýða skáldverk sín á erlendar tungur með útgáfu þeirra erlendis í huga. Flm. telur heppilegast, að rithöfundarnir sjálfir hafi hér algert frumkvæði og sæki um styrki úr þessum sjóði og afli sér sjálfir af eigin rammleik sambanda erlendis eða hérlendis til útgáfu verka sinna á erlendum málum. Þannig yrðu það aðeins samtímaverk, er stuðningur þessi næði til.

Þá er lagt til, að menntamálaráði verði heimilað að nota starfsfé sjóðsins að hluta til að kynna íslenzk samtímaskáldverk erlendis, og hef ég þar í huga, að ýmis ríki — menningarríki vinna markvisst og skipulega að því að kynna samtímaverk rithöfunda sinna meðal annarra þjóða með útgáfu og dreifingu bæklinga og bóka, þar sem getið er höfunda og verka þeirra, og er þetta talið rithöfundum í þessum löndum mikill styrkur. Með þessu ákvæði er líka tryggt, að það fé, sem þessum sjóði yrði væntanlega árlega úthlutað á fjárl., nýttist þá með þessum hætti slíkri kynningarstarfsemi ef ekki sæktu nægilega margir rithöfundar um styrk úr sjóðnum til að láta þýða verk sín með útgáfu erlendis í huga.

Eins og í hinu síðasta máli, er ég mælti hér fyrir áðan, er ég hógvær í kröfum mínum nú í sambandi við þetta frv. og þá með tilliti til þess efnahagsástands, sem ríkir nú í landinu, og ég legg því til, að það verði í hendi meiri hluta Alþingis, verði þetta frv. að lögum, hvenær fært sé að hefja starfsemi þessa þýðingarsjóðs, og því er lagt til í frv., að sjóðurinn taki þá fyrst til starfa, er fé hefur verið veitt til hans á fjárl. ríkisins.

Við Íslendingar teljum okkur bókmennta- og bókaþjóð, og því hefur verið haldið fram með réttu, að hinar fornu bókmenntir okkar Íslendinga hafi átt meiri þátt í því en nokkuð annað, að við héldum við ríkri þjóðerniskennd um dimmar aldir og hófumst til sjálfstæðis undan erlendu oki. Og enginn vafi er á því, að þessar bókmenntir hafa aukið hróður okkar og skapað virðingu fyrir íslenzkri menningu. En það er nú svo, að lítil þjóð getur ekki lifað eingöngu á fornri frægð, ef hún ætlar að viðhalda sérstæðri þjóðmenningu sinni í fjölskyldu þjóðanna. Það er heldur ekki nóg, að við sköpum á Íslandi við tiltölulega mjög erfiðar aðstæður allgóðar samtímabókmenntir. Við höfum mörgum ágætum rithöfundum á að skipa. En við verðum að kynna þessar bókmenntir meðal annarra þjóða, ef við viljum halda reisn okkar í þjóðafjölskyldunni. Það er sagt svo nú, að Ísland liggi um þjóðbraut þvera nú orðið og við megum búa okkur undir sífellt nánari samskipti við aðrar þjóðir heimsins. En hvað snertir bókmenntir okkar og kynningu þeirra erlendis erum við enn, miðað við ýmsar aðrar þjóðir, tiltölulega einangraðir.

Þjóðir, sem tala og skrifa á lítt þekkta tungu, eins og t. d. Finnar, Ungverjar og Íslendingar, svo að einhverjar þjóðtungur séu teknar sem dæmi, eiga við stöðuga og erfiða einangrun að stríða í menningarlegu tilliti. Einkum kemur þetta hart niður á bókmenntum þessara þjóða, meira niður á bókmenntunum en annarri listsköpun, því að tónlistin er alþjóðleg, sömuleiðis myndlistin og fleiri listir. En þráfaldlega kemur það fyrir, að úrvalshöfundar hafa ekki orðið kunnir utan heimalands síns, vegna þess að ekki var hægt að koma þeim á framfæri á fjöllesnum tungum. Hið lítt þekkta og einangraða mál, sem þeir skrifuðu á, var þeim fjötur um fót. Og hvert og eitt ríki á hagsmuna að gæta í þessu efni, og það er óhætt að fullyrða það, að eftir því sem þjóðin er fámennari, eru hagsmunirnir meiri, sem í veði eru. Viðhorf milli þjóða innbyrðis mótast líka alltaf mikið af verðmætum, sem felast í góðum listum og sterkum menningararfi, Þar hafa framúrskarandi einstaklingar, snillingarnir, meiri áhrif en tölur, sem sýna mannfjölda. Þetta á einnig við um Ísland og ekki sízt um Ísland. Nóbelsverðlaunin í bókmenntum juku miklu við stærð okkar sem þjóðar, og rithöfundar hafa bæði fyrr og síðar aukið mjög hróður landsins út á við. En sjálfsagt hefði sá bróður getað orðið enn meiri, hefði íslenzka verið lesin af milljónaþjóðum. En það hefur reynzt erfitt að koma íslenzkum skáldverkum á framfæri erlendis, m. a. vegna þess, hve fáir það eru í raun og veru, sem færir eru um það að þýða úr íslenzku á önnur tungumál. Og frá hinum Norðurlöndunum er sömu sögu að segja, þótt það sé þó ólíkt greiðara um þýðingar úr þeim málum yfir á fjöllesnustu tungur heimsins en íslenzku. Og Finnar, sem eru einangraðir í þessu tilliti eins og við, hafa t. d. farið þá leið til þess að auka möguleikana á því að fá hæfa þýðendur að ráða til sín, ég held árlega, 35 stúdenta frá háskólunum í Oxford og Cambridge í Bretlandi, stúdenta, sem leggja stund á málvísindi eða ,tungumál, ráða þá til launaðra starfa í Finnlandi til kennslu og ferðalaga milli skála þar í landi og til að þeir lærðu málið, finnsku. Þetta hefur gefið mjög góða raun og einhverjir ötulustu þýðendur af finnskri tungu á ensku munu nú vera úr hópi þessara stúdenta. — Ég skýt þessu fram aðeins til ábendingar.

En þótt við séum svo einangraðir sem raun ber vitni varðandi kynningu á bókmenntum okkar, fer forvitnin um íslenzkar bókmenntir vaxandi, einkum meðal frændþjóðanna á Norðurlöndum, og fer þeim höfundum fjölgandi, sem fá bækur sínar gefnar út meðal þeirra. Hins vegar er augljóst, að hvergi er nóg að gert í þessum efnum, og ráða oft frekar tilviljanir einar en skipuleg sókn á þessum vettvangi, hver fær sín verk út gefin og hver ekki.

Í nokkur ár hafa tvö skáldverk verið þýdd árlega á eitthvert Norðurlandamálanna vegna aðildar Íslendinga að bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs. Þessar þýðingar hafa þegar leitt það af sér, að ein fimm eða fleiri skáldverk íslenzk hafa verið gefin út á Norðurlöndum og líka í Þýzkalandi með ágætum árangri og lofsamlegum dómum um verkin. En þar sem þátttaka íslenzkra höfunda er árlega miðuð við tvær bækur og þýðingin miðuð við einhver tvö af Norðurlandamálunum, hefur hringurinn ekki verið víkkaður, sviðið ekki verið fært nóg út, þótt þessar þýðingar hafi engu að síður borið góðan árangur. En fyrst svona hefur vel tekizt með þessar þýðingar og þótt þær hafi aðeins, eins og ég sagði, náð til tiltölulega mjög lítils tungumálasvæðis, Norðurlanda og Þýzkalands, er ástæða til að ætla, að enn betur mundi ganga, ef sviðið væri fært út og leitað væri eftir þýðingum á fleiri tungumál og hef ég þar efst í huga enska tungu. En með það fyrir augum að afla viðurkenningar á íslenzkri sérstöðu í menningarlegu tilliti sem öðru og færa mönnum heim sanninn um það, að við séum fulltækir meðlimir í samfélagi þjóðanna, einnig og ekki sízt hinnar virtustu listgreinar, er nauðsynlegt að hlutast til um það, að auknar verði þýðingar íslenzkra skáldrita á erlend tungumál, og sá er tilgangur þessa frv.

Ég tel svo, herra forseti, ekki ástæðu til að fjölyrða meira um málið, en legg til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.