04.03.1969
Efri deild: 54. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í C-deild Alþingistíðinda. (2852)

126. mál, dragnótaveiði í fiskveiðilandhelgi Íslands

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég er nú að vísu ekki meðflm. að þessu frv. og þarf því ekki að taka að mér hlutverk frsm. og ætla ekki að gera. En ég á ekki sæti í þeirri n., sem þetta mál mun fá til meðferðar, og þess vegna langar mig til þess að láta í ljós skoðun á þessu máli, sem hér er um að ræða, með örfáum orðum.

Ég vil segja það í fyrsta lagi, að undanþága frá veiðum með dragnót í Faxaflóa hefur þráfaldlega komið til meðferðar í borgarstjórn Reykjavíkur, þar sem ég hef átt sæti undanfarin ár, vegna þess ákvæðis í 3. mgr. 1. gr. l. nr. 40 1960, að áður en gerðar eru till. um opnun einstakra veiðisvæða, skal Fiskifélag Íslands leita álits sveitarstjórna og annarra aðila, sem hagsmuna eiga að gæta á viðkomandi veiðisvæðum. Berist álitsgerðir, skal ráðh. óheimilt að opna veiðisvæði eða hluta þess, nema álitsgerðirnar styðji almennt þá framkvæmd. Skv. þessu lagaákvæði hefur það, eins og ég áður sagði, margsinnis komið til kasta borgarstjórnar Reykjavíkur að gefa þetta leyfi eða taka afstöðu til þess, hvort það skuli veitt. Þetta leyfi hefur ávallt verið veitt, en ég hef ávallt verið því andvígur, og mér sýnist, að það sé full nauðsyn á því að taka þetta vald af sveitarstjórnunum í þessu tilfelli, og þess vegna er ég algerlega sammála því, að þetta frv. nái fram að ganga.

Síðast þegar þetta mál var rætt, svo að ég muni eftir, það var 1967, færði ég m. a. fram sem rök fyrir minni afstöðu þau ummæli, sem höfð eru eftir Jóni Jónssyni fiskifræðingi og prentuð eru í grg. með þessu frv. og voru prentuð með sams konar frv., sem lagt var hér fyrir hv. Alþ. fyrir tveimur árum síðan. Þessa grein í Ægi, sem ummælin eru tekin úr, var ekki hægt að lesa öðruvísi en svo, að fiskifræðingurinn væri eindregið mótfallinn því, að dragnótaveiði yrði hér leyfð og hún hefði þau óheppilegu áhrif, sem hv. flm. skýra í grg. Þessu til andsvara var þá tekið fram bréf frá sama fiskifræðingi. Ég man nú ekki nákvæmlega hvað stóð í því bréfi, en einhvern veginn dugði sú umsögn hans þó til þess, að meiri hl. hv. borgarstjórnar Reykjavíkur gat fótað sig á því með skírskotun til þess, að dragnótaveiðin væri saklaus og þess vegna væri sjálfsagt að nota sér af því að þarna væru verðmæti, sem Íslendingar gætu aflað sér að meinbugalausu.

Ég vil náttúrlega mjög taka undir það, sem hv. síðasti ræðumaður, Jón Árm. Héðinsson 5. landsk. þm., sagði um það, að við verðum að treysta okkar sérfræðingum. Það vil ég undirstrika, að mikil nauðsyn er á. En ég bara verð að segja það sem mína skoðun, að á meðan hægt er að draga tvær gagnstæðar ályktanir af umsögnum sama sérfræðingsins, þá verða menn að fyrirgefa það, þó að ekki sé hægt að taka það allt sem góða og gilda vöru, sem frá þeim kemur.

Nú kann vel að vera, að hér verði sagt og það er út af fyrir sig rétt, að sú umsögn, sem borgarstjórnarmeirihlutinn hér í Reykjavík byggði afstöðu sína á í umræddu tilfelli, kom síðar fram heldur en greinin í Ægi. Og það kann vel að vera, að mönnum detti það í hug, að á tímabilinu milli þessara tveggja umsagna hafi mikil sannindi upp lokizt fyrir fiskifræðingum almennt. En mér þykja þessi skoðanaskipti fullsnögg til þess, að ég geti almennilega lagt trúnað á, að það hafi vísindalega sannazt á þessu stutta tímabili, sem þarna líður á milli, að dragnótin sé skaðlaus.

Þetta er nú það, sem mér finnst um þetta. Og ég álít, að það sé hin mesta nauðsyn að samþykkja þetta frv., sem hér er borið fram. Hún lítur vissulega vel út, þessi kenning um það, að við verðum að hagnýta landhelgina eins og kostur er og við verðum að treysta á vísindalegt eftirlit með því, að ekki verði þar um ofveiði að ræða. En ég segi það alveg eins og er fyrir mína parta, að ég er alltaf logandi hræddur, þegar farið er að fikta í þessum veiðiheimildum, alveg eins og ég lýsti hér úr þessum ræðustóli fyrir jólin, þegar undanþágurnar voru þá samþ., sem hér hafa verið gerðar lítillega að umtalsefni. Ég treysti út af fyrir sig hv. landhelgisnefnd vel til þess að koma með skynsamlegar till. um þessi mál, og ég tel víst, að þær séu nú bráðum að koma, þar sem sá tími, sem tiltekinn var hér fyrir jólin, er nú nær liðinn. En engu að síður vil ég undirstrika, að það er mín skoðun, að Faxaflóanum beri að loka fyrir þessari veiðiaðferð. Hv. 5. landsk. sagði hér áðan, að þannig væri ástatt, að útlendingar tækju 82 unga fiska af hverjum 100, sem veiddust, og Íslendingar þá aðeins 18 og spurði eitthvað á þá leið, hvort við ættum að sætta okkur við 18 eða fara kannske niður í 10. En mér finnst, að við ættum frekar að beina kröftum okkar að því að koma í veg fyrir, að útlendir fiskiskipstjórar taki 82 ungfiska af hverjum 100 heldur en halda þessum hlutföllum óbreyttum. Og ég tel, að leiðin til þess sé að sækja á með aukna friðun og að okkar eigin friðun sé sterkasta röksemd, sem við getum beitt á því málþingi. Ég ætla ekki að fara að halda langa ræðu um þetta eða endurtaka neitt af því sem ég sagði síðast, þegar þessi mál voru hér til umr. Ég reyndi þá að leiða rök að því, að friðunin hefði verið sterkasta forsendan, sem við beittum í málflutningi okkar, þegar landhelgin var stækkuð í 12 mílur, og ég trúi því, að svo hafi verið, og ég er sannfærður um, að í áframhaldandi sókn til aukinnar landhelgi og nýtingar hennar fyrir Íslendinga verður þetta sjónarmið það, sem okkur verður affarasælast að hafa í huga.