25.04.1969
Efri deild: 78. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í C-deild Alþingistíðinda. (2861)

126. mál, dragnótaveiði í fiskveiðilandhelgi Íslands

Frsm. minni hl. (Jón Árm. Héðinsson) :

Herra forseti. Aðeins nokkur orð í áframhaldi hér. 4. þm. Reykn. talaði um það, að hann skildi ekki, af hverju ég væri að spyrja um heildaraflamagnið. Það er auðvitað kjarni málsins. Sé dragnótin slíkt gereyðingartæki, eins og hún er sögð undanfarin ár, hefði hún átt að vera búin að hafa þau áhrif, að hér færi heildarmagnið sífellt minnkandi. Við hljótum því að spyrja: Hefur heildaraflinn farið verulega minnkandi og er það eingöngu dragnótinni að kenna? Það er ekki hægt annað, ef við ætlum að komast að réttri niðurstöðu. Ég tók það skýrt fram, að ég vil, að málin séu vel athuguð og miklu meira heldur en hæstv. sjútvn. gerði, miklu meira. Alveg að skaðlausu má n. eyða meiri tíma í að athuga þau mál, sem hún fjallar um, heldur en þetta mál.

Hann drap á þær till., sem var útbýtt í dag í frv.-formi, um breyttar heimildir til togveiða. Það er alveg rétt. Við leggjum til aðeins lítinn skika af Faxaflóa til togveiða. Það gerum við að undangenginni rækilegri athugun og samtölum við fjölda manna, sem hér eiga hagsmuna að gæta. Ég er auðvitað alveg tilbúinn að loka fyrir dragnótina hér að undangenginni rækilegri athugun. En ég tel ekki ástæðu til þess að samþykkja svona frv., sem ekki fylgja meiri grg. og meiri athugun, öðruvísi heldur en ég fái meiri upplýsingar í sambandi við meðferð málsins. Það kemur mér nokkuð spánskt fyrir sjónir, ef Fiskifélagið er svo mjög hlutdrægt, eins og hv. 2. þm. Vesturl. gaf hér í skyn, að það sæki málin einhliða til opnunar á dragnótinni. Ég mun síðar fá upplýsingar um, hvort þetta eru réttar umsagnir, en mér þykja það mjög undarleg vinnubrögð hjá stofnun, sem á að vera hlutlaus og hefur það að markmiði að hjálpa mönnum við að veiða sem hagkvæmast og bezt við landið, að hún sæki málið einhliða svo hart, að hún leiti eftir umsögnum aðeins og þá sérstaklega þeirra, sem eru meðmæltir. Þetta þykir mér merkilegt að heyra hér á hv. Alþ.

Hann talaði um, að þetta væri ekki fallegur leikur, og ég skal taka undir þau orð, ef þetta er rétt staðhæfing. Grundvallarskoðun mín er sú, að við nennum að leggja vinnu í að athuga þau mál, sem okkur er falið að fjalla um. Það er grundvallarskoðun mín og taka afstöðu samkv. því. Við hljótum að hafa þá skyldu, að við eigum að reyna að gera það, sem æskilegast og réttast er, algerlega öfgalaust. Ég þekki nokkuð til fiskveiða á svæði, þar sem dragnótin hefur haft þau áhrif, að við, sem vorum á öðrum veiðum, vorum ekkert hrifnir af dragnótinni, síður en svo. Af hverju vorum við ekki hrifnir? Hún var snjallara veiðarfæri en það, sem við höfðum sjálfir í höndum. Og við viljum auðvitað halda okkar veiðimöguleikum sem allra mestum, það er ekki nema eðlilegt og mannlegt. Ég skil vel afstöðu þeirra í Garðinum, að þeir vilji auðvitað halda sem stærstum sjó hreinum fyrir dragnót og botnvörpu framan við hjá sér, þar sem þeir veiða með línu og handfæri, og það er sjálfsagt að styðja þá í þeirri viðleitni, en ég vil þá athuga öll þessi mál gaumgæfilega, ekki einhliða, því að það eru til menn í Reykjavík og jafnvel annars staðar við Faxaflóa, sem hafa áhuga á dragnótinni, og ég vil hlusta á báða aðila og taka síðan afstöðu. Þess vegna var það mín afstaða í þessu máli, að við skyldum flýta okkur hægt og þetta mátti vel bíða eitt sumar, en kanna málið rækilega og heyra, hvaða áhrif dragnótin hefur haft í Faxaflóa og taka síðan þá æskilegustu og vonandi réttustu ákvörðun, sem þær athuganir sýndu, að rök væri til að taka. Okkur greinir, held ég, ekki á um annað. Ég held, að deilan standi einmitt um þessi vinnubrögð. Það er enginn okkar talsmaður þess, að hér sé drepið eitthvert ungviði án þess að hægt sé að nýta það, ekki nokkur maður.

Ég vil aðeins benda á það, af því að talað var um, hvað dragnótin hafi gert hér áður fyrr, að það kemur greinilega fram í skýrslu Jóns Jónssonar, að möskvastærðin á þessu veiðarfæri er nú miklu meiri en áður með þeim blessunarlegu áhrifum, að minna af ungfiski er drepið. Engu að síður eru þessi veiðimál okkar hér innan fiskveiðilögsögunnar þannig vaxin, að þau þurfa rækilegrar athugunar við á mörgum sviðum. Hvað skeði um páskana hérna? Þá voru drepin 3–4 þús. tonn af þorski, og hvað varð af þeim? Beint í verksmiðju. Eru menn talsmenn slíkra vinnubragða og að eyðileggja um 10–14 þús. net að óþörfu? Ég hef verið talsmaður þess, að netin verði tekin upp um þessa helgi, þegar allir Íslendingar vilja vera í fríi. Það væru miklu raunhæfari vinnubrögð á hv. Alþ. að snúa sér að slíkum vandamálum heldur en þessu. Það er mín skoðun. Þess vegna vil ég, að við flýtum okkur hægt í þessu, en höfum ákveðið markmið, sem er það, að við vinnum að veiðiaðferðum, sem gefa okkur mesta hráefnið við sem minnstum kostnaði, þó án þess að við séum að ganga um of á stofninn, þannig að við séum að veikja þá undirstöðu, sem við byggjum á hér á Íslandi.