02.05.1969
Efri deild: 84. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í C-deild Alþingistíðinda. (2864)

126. mál, dragnótaveiði í fiskveiðilandhelgi Íslands

Frsm. minni hl. (Jón Árm. Héðinsson) :

Herra forseti. Mér þykir ástæða til að gera hér smá aths. í umr. vegna þess, að fram kom við 2. umr. nokkur gagnrýni á Fiskifélag Íslands og fiskifræðingana, og eins og hv. þdm. muna, var talið, að þeir væru ekki algerlega hlutlausir í ákvörðunum sínum. Ég gerði þá strax aths. við þessi ummæli og sagðist mundi reyna að kynna mér þau betur og hef fengið svo hljóðandi bréf frá Fiskifélagi Íslands, sem ég, með leyfi hæstv. forseta, ætla að lesa:

„Athygli vor er vakin á því, að Fiskifélagið og störf þess við stjórnun dragnótamála samkv. l. frá 1960 hafi borið á góma í umr. í hv. Ed. Alþ. nýlega. Hefðu störf félagsins á þessu sviði verið gagnrýnd. Samkv. l. um takmarkað leyfi til dragnótaveiði í fiskveiðilandhelgi Íslands undir vísindalegu eftirliti, Sem samþ. voru á Alþingi hinn 3, júní 1960 eru Fiskifélaginu falin ákveðin störf sbr. 1. gr. l. Þar segir, að Fiskifélagið skuli leita álits sveitarstjórnar og annarra aðila, sem hagsmuna hafi að gæta á viðkomandi veiðisvæði, um hvort þessar veiðar skuli leyfðar eða eigi. Við teljum, að þessi störf séu samvizkusamlega unnin af starfsmönnum félagsins. Það hlýtur að vera nokkurt matsatriði, hverjir hagsmuna hafi að gæta. Auk umsagnar þess aðila, sem Fiskifélagið leitar til, berast jafnan umsagnir ýmissa annarra, bæði með og á móti opnun veiðisvæða. Fiskifélagið reynir ávallt að meta, hvort tillit skuli tekið til þessara aðila, en lokaorðið er frá sjútvmrn. Þar sem ekki má eiga sér stað, að störf stofnunar eins og Fiskifélagsins séu talin andstæð anda þeirra laga, sem unnið er eftir hverju sinni, teljum vér rétt, að óhlutdrægir aðilar rannsaki, hvort gagnrýni sú, sem fram hefur komið á þeim störfum, sem hér um ræðir, eigi við rök að styðjast.

Virðingarfyllst,

Már Elísson.

Til hr. alþm. Jóns Á. Héðinssonar, sjútvn. Ed.

Ég get ekki annað en gert þessa aths., og einnig vil ég greina frá því, að ég kynnti mér lítils háttar aflahreyfingu í Faxaflóa s. l. 3 ár, en í grg. frv. stendur á bls. 2:

„Hættan af dragnótaveiðum í jafnþýðingarmikilli uppeldisstöð og Faxaflóinn er felst ekki fyrst og fremst í veiði nytjafisks, heldur hinu gegndarlausa ungviðisdrápi, sem þessum veiðum fylgir. Það tjón, sem landsmönnum er búið af þessum veiðum í Faxaflóa, verður ekki með tölum talið.“

Nú vildi svo til, að ég spurði ágætan mann úr Garðinum, hvert væri hans álit í þessu efni, og þannig var ástatt, að hv. form. sjútvn. var við hliðina á mér, og hann svaraði því: „Raunverulega er ég á móti dragnótinni, en ekki á þeim forsendum, sem frv. gerir ráð fyrir, því að það er mat mitt, að aflamagn hafi ekki minnkað í flóanum.“ Ég spurði hv. form. sjútvn. að því á sínum tíma í umr., hvort ekki væri hægt að athuga, hvort aflamagnið í Faxaflóa hefði minnkað, því að það er meginrökstuðningur fyrir að banna dragnótina, ef hún er óumdeilanlega skaðvaldur. Ég skal vera talsmaður þess að banna að hafa dragnót eða önnur veiðarfæri, sem við óumdeilanlega getum sannað, að eru skaðvaldar. Það, sem ég fór fram á og undirstrika enn einu sinni, er, að við gefum okkur tíma til að athuga það, sem við erum að fjalla hér um. Það var allt og sumt sem ég bað um. Mér finnst þess vegna hreinlega, að forsendan fyrir að samþykkja þetta frv. sé brostin. Hún er brostin meðan við fáum ekki betri upplýsingar um það, sem segir í grg., vegna þess að þessi tvö atriði, sem ég hef bent á, sanna það, að hér er kveðið of fast að orði í grg.