21.10.1968
Efri deild: 4. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í B-deild Alþingistíðinda. (288)

8. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. ( Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. það til breytinga á tollskránni, sem hér liggur fyrir, er töluvert fyrirferðarmikið að rúmmáli til, en hins vegar ekki svo mjög veigamikið að efni, þannig að þar er ekki um að ræða neinar grundvallarbreytingar á tollskránni.

Síðustu heildarlög um tollskrá voru sett árið 1963, og þau lög voru sniðin eftir tollskrárfyrirmynd Tollasam­ vinnuráðsins í Brüssel, svonefndri Brüssel-tollskrá, eins og hún var 1959. Þetta frv. er fyrst og fremst borið fram til þess að samræma íslenzku tollskrána þeim breytingum, sem orðið hafa á Brüssel-tollskránni frá þeim tíma, en alls hafa verið gerðar á henni þrettán breytingar, án þess að íslenzku tollskránni hafi verið breytt til samræmis. Þannig höfum við dregizt aftur úr og höfum þess vegna ekki fyllilega notið þess hagræðis, sem því er samfara að hafa sama tollskrárform og helztu viðskiptaþjóðir okkar, en nú munu 93 þjóðir í öllum heimsálfum hafa sniðið tollskrár sínar eftir Brüssel-fyrirmyndinni. Eftirleiðis verður stefnt að því að breyta íslenzku tollskránni jafnóðum, þannig að ekki komi til misræmis við aðrar þjóðir, sem nota sömu fyrirmynd. Má segja, að samræming þessi hafi dregizt úr hömlu, en er nú meira aðkallandi en áður, þegar við erum orðnir fullgildir aðilar að GATT-samkomulaginu, en allar aðildarþjóðir þess í Evrópu hafa hjá sér tollskrár í samræmi við Brüssel-fyrirmyndina og GATT- samþykktir eru gerðar í samræmi við hana. Eftir þá 5 ára reynslu, sem fengin er á notkun Brüssel-skrárinnar, er óþarfi að rekja í löngu máli þá kosti, sem því eru samfara að hafa tollskrá, sem byggð er upp á sama hátt og nær allar viðskiptaþjóðir okkar hafa, enda er það samdóma álit allra, sem fást við innflutning vara, að mikið hagræði hafi verið að þeim breytingum, sem gerðar voru á árinu 1963.

Með þessu frv. fylgir ítarleg grg., og eins og sést á athugasemdum við einstakar brtt., valda þessar breytingar ekki eins miklum breytingum á tollflokkum vara og tollum og ætla mætti, miðað við það, hvað breytingarnar eru margar. Stafar þetta af því, að tolltaxtar íslenzku tollskrárinnar eru ekki eins margvíslegir og víðast hvar annars staðar, og sömu tolltaxtar eru hér fyrir skyldar vörur og fyrir vörur innan sama flokks og kafla. Þó að vörur færist þannig milli flokka, kafla og númera, breytist tollurinn ekki af þeim, eða þá aðeins mjög óverulega, eins og gerð er grein fyrir með hverri brtt. fyrir sig.

Þegar samþykktin um sameiginlega tollskrárfyrirmynd var, að undirlagi Sameinuðu þjóðanna, gerð í Brüssel um miðjan desember 1950, var einnig undirrituð samþykkt sú um verðákvörðun vara til tollútreiknings, sem hér fylgir með þessu frv. sem fskj. nr. 1. Nú hafa margar þjóðir tekið í tollalög sín reglur, sem byggðar eru á verðskýringu Brüssel-samþykktarinnar, þar á meðal allar Norðurlandaþjóðirnar. Í 3. gr. þessa frv. er lagt til að leggja að öllu leyti verðskýringu Brüssel-samþykktarinnar til grundvallar við ákvörðun tollverðs hér á landi. Till. þessi, þó samþykkt yrði, hefur ekki áhrif á niðurstöðu varðandi tollverð vara, þar sem það verður eftir sem áður verð varanna á innflutningsstað hér á landi, en það, sem breytist, eru einungis reglurnar um uppbyggingu tollverðsins. Samkv. núgildandi ákvæðum er tollverðið verð vöru í útflutningslandinu að viðbættum sendingarkostnaði og öðrum kostnaði, sem fellur á vöruna, unz hún kemur í íslenzka höfn. Samkv. þeirri breyt., sem hér er lagt til, verður tollverð vara það verð, sem mundi fást fyrir vöruna á frjálsum markaði á þeim tíma, sem vara fer til tollmeðferðar og verður, eins og áður, miðað við innflutningsstað hér á landi eða cif-verð. Er verð þetta í frv. nefnt eðlisverð, normalverð eða það verð, sem hingað til hefur verið nefnt tollverð eða tollútreikningsverð.

Ég held svo ekki, herra forseti, að öðru leyti sé ástæða fyrir mig að ræða þetta mál í einstökum atriðum, nema ef tilefni gefst til þess. Það er að sjálfsögðu eðlilegt, að það verði athugað af þeirri hv. n., sem fær það til meðferðar, hvort hér er um nokkrar þær efnisbreytingar að ræða, sem gefa tilefni til þess að taka málið til nánari athugunar. Eins og ég áðan sagði, hygg ég það ekki vera, og ég legg á það áherzlu, að það hefur með þessu frv. ekki verið ætlunin að efna til neinna sérstakra efnisbreytinga á tollskránni umfram þær samræmingar, sem hér er gert ráð fyrir að lögfesta. Það hefur komið í ljós, síðan Brüssel-tollskráin var samþykkt og innleidd hér, að það eru alltaf að koma upp ný og ný vandamál, sem ekki hafa verið höfð í huga, þegar tollskráin var innleidd, og það er að sjálfsögðu nauðsynlegt fyrir alla aðila, til þess að menn viti, hvar þeir standa í þessu efni og ekki skapist neitt ósamræmi í túlkun á tollaákvæðum, að þessar lagfæringar séu gerðar, sem hér er lagt til að gerðar verði.

Ég vænti þess vegna þess, að hv. þdm. geti fallizt á að afgreiða þetta mál án þess að blanda inn í það áhugamálum öðrum, sem menn kynnu að hafa varðandi almennar tollabreytingar. Ég skal ekki um það segja á þessu stigi, hvort frv. um það efni verður lagt fyrir þetta þing, það fer eftir ýmsum atvikum, hvort svo verður. Tollamálin öll eru mjög í deiglunni, ekki hvað sízt vegna hugsanlegrar aðildar okkar að EFTA, og það verður að sjálfsögðu að marka heildarstefnu varðandi þær tollabreytingar, ef til kemur, því þar yrði um mjög veigamiklar breytingar að ræða.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.