18.02.1969
Efri deild: 47. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 598 í C-deild Alþingistíðinda. (2881)

141. mál, sala Holts í Dyrhólahreppi

Flm. (Björn Fr. Björnsson) :

Herra forseti. Frv. það til laga, sem hér liggur fyrir, um heimild fyrir ríkisstj. til að selja eyðijörðina Holt í Dyrhólahreppi í V.-Skaft. er flutt af okkur hv. 6. þm. Sunnl.

Þetta mál hefur í tvö skipti borið að á Alþ., en í hvorugt skiptið fengið fullnaðarafgreiðslu. Vildi ég leyfa mér að fara örfáum orðum um málsdrög til þess, að þetta frv. er hér enn fram komið.

Jörðina Holt í Dyrhólahreppi hafði Þorsteinn Einarsson, eiginmaður Jóhönnu Sæmundsdóttur, sem um getur í frv., keypt árið 1907 af sínum foreldrum. Áður höfðu foreldrar hans átt þessa jörð og búið á henni um áratugi. Hafði jörðin þannig, í ábúð þeirra feðga, tekið stakkaskiptum miklum og þeir framkvæmt allverulegar jarðabætur með meiru á þessari jörð sinni. En svo kom að því, að þau hjónin Þorsteinn og Jóhanna neyddust til að selja ríkissjóði jörðina, það var árið 1936. Höfuðástæðan til þess var sú, að vegamálastjórnin hafði ákveðið að veita Hafursá í ána Klifandi og brúa síðan þessar báðar ár í einu lagi. Hafði Pálmi Einarsson verið til kvaddur, og enda fleiri sérfræðingar, til mats um það og álitsgerðar, hvernig færi um nærliggjandi jarðir, ef þessar framkvæmdir væru látnar fara fram. Þeir töldu, að breyting á farvegi Hafursár mundi geta valdið slíkum landspjöllum á þessari jörð, að hún yrði lítt eða ekki byggileg eftir. Um það leyti sem Þorsteinn seldi jörðina voru hús orðin nokkuð úr sér gengin, þó góð hefðu verið fyrr á tímum, og það var ætlun þeirra hjóna að byggja húsin á jörðinni upp að nýju, og hafði bóndinn Þorsteinn í því skyni aflað sér byggingarefnis að nokkru leyti og enn fremur ráðið smið til byggingarframkvæmda, en vegna þessara miklu landspjalla varð ekki af neinni framkvæmd og sannast sagna mun jörðin Holt varla hafa verið talin veðhæf, eins og á stóð og ætlað var, að færi um jörðina. Hjónin bjuggu síðan á jörðinni, þrátt fyrir þetta, til ársins 1942, en þá fluttist fjölskyldan brott, vegna þess að íveruhús var þá ekki talið lengur íbúðarhæft. Þorsteinn dó þetta sama ár, 1942, og kona hans Jóhanna fluttist síðan að Nikhól, sem er í sömu sveit og í grennd við jörðina Holt, og þaðan hefur hún ásamt sonum sínum nytjað jörðina.

En vegna þess að betur rættist úr með jörðina og eigi varð af þeim landspjöllum, sem talin var hætta á, og afnot jarðarinnar hafa verið og eru enn í dag mikils virði fyrir Jóhönnu og syni hennar, þá hefur Jóhanna um nokkurn tíma haft mikinn hug á því að eignast þessa jörð aftur, svo að hún komist þannig að nýju í eign ættarinnar.

Þá hef ég rakið í mjög stórum dráttum tildrög þessa máls. Ástæðan til þess, að ríkið keypti jörðina á sínum tíma, mun að sjálfsögðu aðallega og kannske einvörðungu hafa verið sú, að það var þarna mikil hætta á, að jörðin færi illa og yrði fyrir verulegum landspjöllum og jörðin þannig keypt af hálfu ríkissjóðs til að firra ríkissjóð verulegri skaðabótaskyldu. En eins og ég sagði, þá kom ekki til þess, að spjöll á löndum jarðarinnar yrðu veruleg. Ég fæ nú ekki séð, að ríkissjóði sé mikill akkur í að eiga þessa jörð. Bæði er hún ekki sérlega stór, þetta er fremur lítil jörð, að ég hygg, og ekki sérstaklega miklar nytjar af henni fram yfir það sem gerist og gengur og engar aukanytjar eða hlunnindi, svo að ég viti um. En það er auðsætt öllum þeim, sem líta á þetta mál, að það hlýtur að vera nokkurt sanngirnismál, að ekkjunni Jóhönnu Sæmundsdóttur verði seld jörðin, svo að hún og synir hennar, sem búa í grennd við jörðina Holt, geti notið ættaróðalsins að nýju og síðan verndað það og prýtt í framtíðinni sér til nytja og ánægju. Svo vil ég geta þess, sem er alkunna, að reglan hefur jafnan verið sú, að ríkið hefur selt af hendi jarðir eða jarðarhluta, þegar ábúandi eða notandi hefur eftir leitað, og hafi það komið fyrir, að slík heimildarfrv. sem þetta hafi ekki náð fram að ganga hér á hv. Alþ., þá hafa ástæður til þess að sjálfsögðu verið mjög ríkar, en slíkar ástæður fáum við flm. ekki séð að séu til staðar í þessu máli, og við væntum þess, flm., að það megi fá greiðari afgreiðslu en tekizt hefur á undanförnum tveim þingum.

Vil ég svo ljúka þessum fáu orðum mínum, en að lyktum óska þess, að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umræðu og til hv. landbn.