11.11.1968
Neðri deild: 12. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í B-deild Alþingistíðinda. (29)

52. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal ekki eyða um of tíma þingsins, enda má segja það, að það sé kannske til lítils að vera að tala um orðinn hlut. En ég vil þó ekki láta þessa 1. umr. fara svo hjá án þess að segja hér nokkur orð.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að tekjur almennings hafa minnkað verulega á undanförnum tímum sökum margs konar samdráttar í atvinnulífinu og þar af leiðandi minni atvinnu. Svo er nú einnig komið, að atvinnuleysi hefur gert vart við sig um allt land. Og núna blasir við okkur ömurlegra útlit í þeim efnum en við höfum upplifað í sennilega meira en tvo áratugi. Ég fullyrði, að það hefur bókstaflega ekkert verið gert til að koma í veg fyrir þetta. Það blasir nú við öllum, hver þróunin er í þessum málum, og af hálfu stjórnvalda er ekkert að gert annað en það, sem þau hafa talið vera bezt allra ráða, þ.e. að hleypa hér útlendingum inn í landið með stórfelldan atvinnurekstur, sem þó ekki skilur neinn hagnað eftir sig í landinu sjálfu. Og nú er svo komið, að gripið er til stærstu gengisfellingar, sem framkvæmd hefur verið í þessu landi, og sagt er, að hún eigi að auka atvinnuna. Þetta eigi að vera sú blóðgjöf fyrir atvinnulífið, að það geti hresstst við og orðið annað en nú blasir við. Það má vera, að í einstökum greinum hafi þetta jákvæðar afleiðingar og þá alveg fyrst og fremst sennilega í iðnaðinum. Sjávarútveginum er ég ekki mjög trúaður á, að það skilji eftir sig stór spor til aukinnar atvinnu, í það minnsta ekki fyrsta kastið og ekki eitt út af fyrir sig. Hún opnar ekki þau hraðfrystihús, sem nú eru lokuð. Bátarnir, sem liggja við land og ekki eru gerðir út, fara ekki frekar út, vegna þess að þeirra vandamál eru allt önnur og þurfa aðrar ráðstafanir, til þess að svo verði. Hins vegar blasir við, að í öðrum greinum og alveg sérstaklega í byggingariðnaðinum, þar sem er um að ræða fjölmennustu atvinnustéttina, þar hafa þessar ráðstafanir beinlínis neikvæðar verkanir. Þær leiða til enn meiri samdráttar heldur en nú er. Þetta sýnist mér í mjög fáum orðum vera sú mynd, sem blasir við okkur hvað snertir sjálft atvinnulífið. Og síðan er ætlazt til þess, að launafólk upp til hópa, hvort sem það er í lægstu launaflokkum eða þeim hæstu, skuli taka á sig þessar ráðstafanir bótalaust. Ég held, að það sé rétt, að menn geri sér alveg grein fyrir, að með þessum hugmyndum eru menn að föndra við það ómögulega. Hæstv. forsrh. sagði hér í inngangsorðum sínum í dag, að kauphækkanir mættu ekki verða afleiðing þessara ráðstafana og þær bæru ekki árangur, nema laun ekki hækkuðu í það minnsta eitt ár. Ég ætla ekki hér að fara að tíunda það, hver eru laun láglaunafólksins nú, hins almenna verkafólks. Þar á ég líka við iðnaðarmenn marga hverja. En þessi laun eru nú þannig, með þeim tekjumöguleikum, sem þetta fólk hefur, að það hefur alls ekki nema rétt til hnífs og skeiðar. Kjör þessa fólks er ekki hægt að skerða. Nú er okkur sagt, að þessar ráðstafanir séu gerðar til þess að tryggja rekstrargrundvöll atvinnuveganna. Út af fyrir sig er það ákaflega göfugt verkefni og auðvitað mjög aðkallandi. En þessar ráðstafanir hafa það í för með sér hins vegar fyrir launafólk í mjög ríkum mæli, að því verður óbærilegt að öðru óbreyttu, gersamlega óbærilegt, að standa undir þeim skuldbindingum, sem það hefur tekið á sig, einkanlega varðandi húsnæðismálin. Það eru þúsundir manna nú í þeirri aðstöðu, að þeir verða að hafa tekjur, ríflegar atvinnutekjur, til þess að geta haldið sínu húsnæði. Það blasir við, að ef fram fer eins og nú horfir í atvinnumálunum og með þeirri gífurlegu kjaraskerðingu, sem hlýtur að verða afleiðing þessara ráðstafana, þá hlýtur þetta fólk í tugatali að missa sínar íbúðir. Það verður að því gengið, þegar það ekki getur greitt, og eignatilfærsla í þjóðfélaginu frá hinum fátæku til hinna ríku verður mun meiri og miklu meiri heldur en sjálf þessi ráðstöfun felur þó í sér. Ég ætla ekki að fara að endurtaka það, sem hér hefur verið áður sagt varðandi þau efni. Ég vil undirstrika það, sem áður hefur komið hér fram, að þær ráðstafanir, sem nú er verið að gera og eru sagðar eiga að mæta þeim gífurlega halla, sem hefur orðið á okkar þjóðarbúskap út á við — ég ætla út af fyrir sig ekki að segja, að það sé neitt annað heldur en satt er. Ég vil undirstrika það, að það er búið að gera áður ráðstafanir, sem áttu að mæta verulegum hluta þess halla, sem hér var nefndur í dag í inngangsorðum forsrh. Ég ætla ekkert að draga úr því, að vandinn, sem blasir við, er mikill. En ég er alveg sannfærður um, að hann væri ekki eins mikill í dag, ef í tíma hefðu verið gerðar ráðstafanir til þess að draga úr alveg sérstaklega gjaldeyriseyðslunni. Mér liggur við að segja, að hæstv. ríkisstj. hafi í þessum efnum hagað sér svipað og læknir, sem horfir á sjúklingi blæða út án þess að aðhafast nokkuð. Og svo koma nú þessar harkalegu aðgerðir. Frá sjónarmiði verkalýðshreyfingarinnar hafa atvinnumálin á síðustu mánuðum verið þýðingarmesta málið. Og við höfum talið, að það hafi þurft að gera ráðstafanir til þess að bægja frá þeirri vofu atvinnuleysis, sem við höfum talið okkur sjá á ferðinni. Losaralegar yfirlýsingar hæstv. forsrh. hér í dag og að ég nú ekki tali um skrúðmælgi þá, sem hæstv. viðskmrh. var með, segja ekkert í þessum efnum, ekki nokkurn hlut. Það er allt annað og miklu meira, sem þarf að gera. Verkalýðshreyfingin mun nú gera kröfu til þess, að fullri atvinnu verði haldið uppi í landinu og mun ekki láta af þeirri kvöð, og hún gerir einnig kröfur til þess, að kaup láglaunafólksins verði ekki fyrir neinni skerðingu. Það er alveg augljóst mál, að það er ekki hægt og verður ekki liðið, það væri sama, hvað við forystumenn í verkalýðshreyfingunni segðum við því. Fólkið getur ekki tekið þetta á sig. Þetta verða menn að gera sér ljóst. Það mun leita sér þá annarrar útrásar. Hæstv. forsrh. sagði hér í dag, að hann teldi, að þessar ráðstafanir mundu draga svo mikið úr innflutningi, að það yrði ekki þörf á neinum sérstökum ráðstöfunum til þess að takmarka gjaldeyriseyðsluna. Ósköp blátt áfram sagt þýðir þetta það, að kaupgetan yrði svo mikið minni heldur en hún hefur verið, að stórlega hlyti að draga úr neyzlu, þ.e.a.s. í staðinn fyrir það að hafa vitlega stjórn á gjaldeyrismálum á að láta skortinn ráða. Hann á að verða skömmtunarstjórinn. Ég vil endurtaka það, að það er vonlaust að reikna með því, að láglaunafólk geti tekið þessa hluti á sig bótalaust. Og ef ástandið virkilega er svona slæmt að dómi ráðamanna þjóðarinnar, þá verð ég að segja það, að það hefði verið alveg sjálfsagt að gera aðrar ráðstafanir áður eða a.m.k. jafnhliða, ráðstafanir til þess að virkilega kanna það, hvar þjóðarauðurinn er niður kominn. Og ég held, að það væri alveg sjálfsagt. Hlýtur það að vera siðferðileg krafa allra þeirra, sem nú á svo harkalega að níðast á, að það verði gert, það verði farið í vandlega eignakönnun í þessu landi. Ég held, að það sé algert lágmark þess, sem við hljótum að gera kröfu til, þegar svona harkalega er gengið á kjör þeirra, sem minnst bera úr býtum í þjóðfélaginu, að það verði virkilega skoðað, hverjir það eru, sem hafa getað veitt á undanförnum árum. Það er ekki það fólk, sem vinnúr á lægstu töxtum verkalýðshreyfingarinnar eða yfirleitt á hennar töxtum. Það er síður en svo. Það hefur aðeins með þrotlausu erfiði getað aflað sér sæmilegra tekna á undanförnum árum, en menn mega heldur ekki gleyma því, að það er þetta þrotlausa erfiði, sem hefur skapað þær miklu þjóðartekjur, sem við höfum haft úr að spila. Og það er alveg áreiðanlegt, að þar hefur launafólkið ekki borið stærstan hlut frá borði. Ég held þess vegna, að það sé rétt að reyna að gá betur niður í kjölinn í okkar þjóðfélagsbyggingu allri og síðan verði þeir, sem þá kynnu að hafa efni á því, fyrst og fremst látnir bera byrðarnar, en það verði ekki reynt það ómögulega, að skerða hlut láglaunafólksins svo grimmilega, sem hér er nú stefnt að.