08.11.1968
Sameinað þing: 9. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í D-deild Alþingistíðinda. (2921)

45. mál, aðild að Fríverslunarsamtökum Evrópu

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í þessum umræðum, þá hefur starfað um nokkurt skeið sérstök n., skipuð fulltrúum allra stjórnmálaflokka hér á Alþ., til þess að kanna þetta mál, sem sú þáltill. fjallar um, sem hér liggur nú fyrir til umr. Í rauninni er það svo, að þessi n. hefur ekki lokið störfum enn, að mínum dómi, en hæstv. ríkisstj. eða flokkar þeir, sem hana styðja, hafa þó talið nauðsynlegt að flytja hér fyrirliggjandi till., um aðildarumsókn að Fríverzlunarsamtökunum, þó sýnt væri, að samstaða væri ekki orðin í nefndinni um að flytja málið. Ég vil því gera hér grein fyrir afstöðu okkar Alþb.–manna til þessarar till.

Við Alþb.-menn teljum rangt að leggja fram umsókn um aðild að EFTA, eins og nú er ástatt. Við bendum á, að nú er við þannig vandamál að fást í efnahags– og atvinnumálum, að óhjákvæmilegt er, að okkar dómi, að grípa til ráðstafana í innflutnings– og gjaldeyrismálum, sem mundu fara mjög í bág við grundvallarstefnu EFTA–samkomulagsins. Auk þess hafa Bretar nýlega ákveðið að leggja 10% innflutningstoll á freðfisk frá EFTA–löndum og þannig lýst yfir stefnu, sem er andstæð hagsmunum Íslendinga. Þá teljum við einnig, að nauðsynlegt sé, að ljósar liggi fyrir en nú, hver verða mundu grundvallarskilyrði af Íslands hálfu fyrir aðild að EFTA. Við teljum því rétt að fresta málinu og áfram verði unnið að athugun á því, hvort hagkvæmt sé, að Ísland tengist EFTA með einum eða öðrum hætti.

Ég skal nú rökstyðja nokkru nánar þessa afstöðu okkar til þessarar till. og gera þá jafnframt nokkra grein fyrir okkar viðhorfum til málsins sem heildar.

Það er okkar álit, eins og fram er tekið í þessari afstöðu okkar, að nú sé þannig komið í okkar efnahagsmálum, að það verði ekki undan því vikizt, eins og gjaldeyrisstaðan er þegar orðin, að grípa til ráðstafana, a.m.k. um stundarsakir, sem miða að því að draga úr innflutningi á ýmiss konar varningi til landsins eða stöðva hann alveg á tímabili, en slíkar ráðstafanir mundu auðvitað vera svo að segja í þveröfuga átt við það, sem ætlast er til samkvæmt EFTA–samningnum. Við teljum, að það sé mjög óheppilegt að leggja fram beiðni um aðild og taka upp viðræður við EFTA–löndin um aðild Íslands að samtökunum, einmitt um sama leyti og við teljum óhjákvæmilegt að gera þess háttar ráðstafanir í okkar efnahagsmálum. Við teljum það mjög óheppilegt og í rauninni óeðlilegt að sækja um aðild einmitt á þeim tíma. Þá teljum við einnig, að illa fari á því að leggja nú fram aðildarbeiðni um leið og Bretar tilkynna þá ráðstöfun sína, að þeir ætli að leggja 10% innflutningstoll á innflutt hraðfryst fiskflök til Bretlands, en þar var einmitt um að ræða eitt af aðalatriðunum, sem vöktu fyrir okkur nú eins og ástatt er. Það var einmitt að fá þau hlunnindi, sem a.m.k. var talið líklegt, að við gætum fengið með aðild að EFTA, þ.e.a.s. að losna undan því að þurfa að borga 10% toll af þeim freðfiskflökum, sem við kynnum að selja til Bretlands. Ef þau ákvæði, sem gilt hafa í Bretlandi varðandi innflutning á freðfiskflökum fyrir skandinavísku löndin, sem aðild hafa að EFTA, eru felld niður, þá er erfitt að sjá eftir hverju við værum að sækjast með aðild okkar að þessum samtökum, sérstaklega eins og nú standa sakir. Við teljum því mjög óheppilegt að tilkynna um aðildarumsókn okkar einmitt um sama leyti og Bretar lýsa yfir þessari afstöðu sinni.

Þá er það einnig okkar afstaða, að við teljum, að áður en lögð er fram beiðni um aðild, sé nauðsynlegt, að sem víðtækust samstaða sé sköpuð hér innanlands fyrir því, hvaða grundvallarkröfur eigi að gera eða setja fyrir aðild Íslands að þessum samtökum. Að sjálfsögðu hefur nokkuð verið rætt um þau atriði í þessari EFTA–nefnd, sem starfað hefur, en hún hefur engan veginn lokið við þær umræður enn. Þau atriði, sem hér hafa komið fram í þessum umræðum, sem telja mætti sjálfsögð grundvallarskilyrði af Íslands hálfu fyrir aðild okkar, er að leita eftir því, að iðnaður okkar fái a.m.k. 10 ára aðlögunarmöguleika og atriði eins og að reyna að ná sérstöku samkomulagi um, að hægt sé að halda áfram í aðalatriðum þeim viðskiptum, sem Ísland hefur haft við Austur–Evrópulöndin. Þessi atriði og nokkur önnur, sem hér hefur verið minnzt á, eru að okkar dómi engan veginn fullnægjandi. Hér koma til ýmis önnur mjög mikilvæg atriði, sem afstaða manna til þarf að liggja ljós fyrir. Í þeim efnum vildi ég alveg sérstaklega nefna, að það er augljóst, að ef Ísland gerðist aðili að EFTA og skuldbindi sig til að fella niður á ákveðnu tímabili alla tolla á iðnaðarvörum, sem fluttar eru til Íslands frá EFTA–löndum, að þá kemur að sjálfsögðu strax upp sú mikla spurning, hvernig eigi að fara með tollana á sams konar vörum frá öðrum löndum en EFTA–löndum. Dettur nokkrum manni í hug, að hægt verði að bjóða okkar stóru viðskiptalöndum, eins og t.d. Bandaríkjunum annars vegar og Sovétríkjunum hins vegar, upp á það, að við tollum iðnaðarvarning frá þeim, sem nemur 40, 50 eða 60% á sama tíma, sem sams konar vörur, sem fluttar yrðu inn, t.d. frá Bretlandi eða öðrum EFTA–löndum, væru ekki tollaðar neitt? Nei, ég hygg, að öllum sé ljóst, að slíkt kæmi ekki til greina. Það yrði einnig að koma til mjög veruleg tollalækkun gagnvart þeim löndum, sem eru utan EFTA–svæðisins. Þá er aðeins spurningin þessi: Geta menn þá t.d. fallizt á það sjónarmið, að um leið og við færum niður tolla á vörum frá EFTA–löndum, sé óhjákvæmilegt að gera það nokkurn veginn í sömu hlutföllum gagnvart a.m.k. þýðingarmestu viðskiptasvæðum okkar, sem standa utan EFTA. Þetta er atriði, sem ég fyrir mitt leyti legg mjög mikla áherzlu á og tel, að skipti miklu máli. Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að ef þannig yrði haldið á málum, að með þátttöku okkar í EFTA tækjum við upp tollastefnu, sem raunverulega mismunaði allverulega, t.d. Sovétríkjunum annars vegar og Bandaríkjunum hins vegar, borið saman við EFTA–löndin, þá mundu þessi ríki láta okkur kenna á því í viðskiptum sínum við okkur á öðrum sviðum. Ég er ekki í nokkrum vafa um það, miðað við fyrri samningagerðir, sem við höfum staðið í, t.d. við Austur–Evrópulöndin, að þau mundu taka tillit til þess arna í því verði, sem þau gæfu okkur kost á fyrir þær vörur, sem við værum að selja til þeirra. Þetta hefur sem sagt komið fram áður í svipuðum tilfellum í viðskiptum okkar, t.d. við þau lönd. Það liggur einnig fyrir, að Bandaríkin hafa að undanförnu verið að senda frá sér mjög harðorðar hótanir til ákveðinna landa í Evrópu, um að þau muni taka upp ákveðnar ráðstafanir, gagnráðstafanir, í nokkuð svipuðum tilfellum sem þessum, ef þau telji, að það sé verið að beita þau misrétti í viðskiptum. Nú liggur það hins vegar fyrir, að okkar þýðingarmestu markaðssvæði, eins og nú standa sakir, eru einmitt í Bandaríkjunum og Austur–Evrópu og það skiptir því mjög miklu máli fyrir hagsmuni þjóðarheildarinnar, hvernig á þessu máli verður haldið. Það hefur komið fram í þeim upplýsingum, sem fengizt hafa frá þeim, sem kunnugir eru framkvæmdinni á þessu EFTA–samkomulagi, að það verður að sjálfsögðu tilhneiging hjá hinum sterku aðilum innan EFTA, eins og t.d. Bretum, að reyna að knýja okkur til þess að mynda svona mismunun í tollum á milli EFTA–landanna annars vegar og hins vegar landa, sem standa utan svæðisins. Á því er enginn vafi. Það hafa þeir reynt að gera í ýmsum tilfellum við þær þjóðir, sem nú eru innan EFTA. Ég tel því, að mjög miklu máli skipti í þessum efnum að koma sér saman um, á hvaða megingrundvelli ætlunin er að standa, ef til aðildar kynni að koma. Þetta hefur ekki ennþá verið gert. Ég veitti því þó athygli, að hv. viðskrh. sagði hér, þegar hann talaði fyrir tillögunni, að hann teldi, að í þessum efnum yrði að gæta þess að haga ákvörðun um tolla frá löndum utan EFTA–svæðisins þannig, að ekki hlytust þar af vandkvæði fyrir íslenzka hagsmuni. En ég tel sem sagt, að þetta atriði liggi engan veginn nægilega ljóst fyrir. Það er þó mjög mikilvægt.

Ég vil einnig benda á annað atriði, sem engin samstaða hefur enn verið sköpuð um, en það er, hvaða grundvallarskilyrði skuli vera frá hálfu Íslendinga í sambandi við þátttöku varðandi ákvæði 16. greinar EFTA–samkomulagsins, þar sem fjallað er um eignarrétt og atvinnurekstrarréttindi borgara annarra EFTA–landa, t.d. á Íslandi, ef Ísland yrði þar aðili að, eða þennan gagnkvæma rétt borgara í EFTA–löndum hvers í annars landi. Ég tel fyrir mitt leyti, að það þurfi að marka þá stefnu, að það sé alveg ákveðið af okkar hálfu, að ísl. stjórnarvöld verði að hafa þar fullan ákvörðunarrétt um í hverju einstöku tilfelli, hvort borgarar annarra EFTA–ríkja eigi að fá hér réttindi til atvinnurekstrar eða annarrar starfsemi til jafns við Íslendinga eða ekki. Það verði að liggja alveg ljóst fyrir, að við stefnum að slíkum ákvæðum. Þetta tel ég, að liggi ekki fyrir. Það er t.d. upplýst, að það beri að skilja ákvæði þessarar 16. greinar EFTA–samningsins þannig, að um það sé ekki að villast, að borgarar EFTA–lands fái í hverju EFTA–landi um sig sams konar rétt og heimaaðilar hafa, t.d. til þess að koma upp og reka heildsöluverzlun. Upplýsingar um þetta atriði liggja þó alveg ljósar fyrir. Það mundi allt svo þýða, að ef Ísland gerðist aðili að EFTA, þá fengju brezkir borgarar sama rétt og Íslendingar til þess að koma upp og reka heildsölufyrirtæki hér á landi. Hins vegar er það aftur upplýst, að þessi réttur nái ekki til t.d. smásölurekstrar. Þessi ákvæði ná auðvitað miklu lengra út, heldur en aðeins til heildsölurekstrar. Þau ná einnig til ýmiss konar atvinnurekstrar, þar sem um er að ræða framleiðslu á svonefndum EFTA–varningi eða vörum, sem falla að fullu undir EFTA–ákvæði. Þarna er því um mjög mikilvægt atriði að ræða, þar sem þarf að liggja nokkuð ljóst fyrir, hver afstaða okkar Íslendinga er áður, en gengið er að því að semja við erlenda aðila um þátttöku í þessum samtökum.

Það hefur nokkuð verið rætt um það hér, hvaða kostir mundu fylgja því, að Ísland gerðist aðili að EFTA og ég tók eftir því, að hv, viðskrh. orðaði það eitthvað á mjög almennan hátt og þó mest þannig, að hann teldi, að þetta gæti skapað okkur mikla möguleika til viðskipta við EFTA–löndin í framtíðinni, þegar við hefðum komið upp útflutningsiðnaði hér á landi. En það er rétt að gera sér grein fyrir því, að eins og nú standa sakir, mundum við ekki hafa mikinn hag af því að verða aðilar að EFTA. Það er rétt, að við mundum spara okkur nokkrar greiðslur í tollum, eins og nú standa sakir, einkum í Bretlandi af útfluttu síldarlýsi, eitthvað lítillega af fiskimjöli og mjög lítið af niðursoðnum sjávarafurðum. Af þessum vörutegundum og einnig eitthvað lítillega af frosnum fiskflökum, þá hefðum við getað sparað okkur, ef reglurnar stæðu áfram um 10% tollalækkunina. En þarna er um tiltölulega litlar fjárhæðir að ræða miðað við það, sem verið hefur. Á undanförnum árum hefur þessi tollur af útflutningi frá okkur til Bretlands numið frá 14.4 millj. “66 til 41.4 millj. “65. Hér er ekki um fjárhæðir að tefla. Það er rétt, að hér gæti verið um talsverðar fjárhæðir að ræða, ef síldarlýsis framleiðsla okkar væri mjög mikil, því að stærstu kaupendurnir eru í Bretlandi. En brezki fiskmarkaðurinn hefur verið þannig, nú um nokkurra ára bil a.m.k., að hann hefur verið svo miklu lakari, en sá markaður, sem við hefðum getað snúið okkur að í Bandaríkjunum og Sovétríkjunum og í nokkrum öðrum löndum, að jafnvel þó við hefðum ekki þurft að borga 10% tollinn, þá hefðum við ekki notað þann markað, nema að sáralitlu leyti. Ég held því, að eins og háttað er framleiðslumálum okkar og útflutningsmálum, sé hér ekki um mikið að tefla, eins og sakir standa. Ég vil hins vegar ekki neita því, að það geti orðið í framtíðinni, að hér verði byggður upp einhver útflutningsiðnaður, sem þyrfti mjög á að halda að komast inn á markað EFTA–landanna og þá vitanlega fram hjá öllum tollum þar. Það gæti t.d. komið til þess, að við legðum meiri áherzlu, en við höfum gert á uppbyggingu niðursuðuiðnaðar og niðurlagningariðnaðar og þá gæti komið til þess, að þarna sköpuðust nokkrir möguleikar fram yfir þá, sem við höfum haft. Því vil ég ekki neita. En það er líka rétt að gera sér grein fyrir því, að markaður fyrir þessar vörur er sérstaklega erfiður viðureignar einmitt í þessum löndum. Á þessum markaði eru fyrir aðilar, t.d. með niðursoðnar sjávarafurðir og niðurlagðar sjávarafurðir, sem þar eru búnir að vera í mörg, mörg ár og búnir að vinna sér þar fótfestu. Og það verður ábyggilega ekkert auðvelt verk fyrir okkur að komast inn á þennan markað, jafnvel þó að þar væri ekki um neinn innflutningstoli að ræða. Það hefur líka sýnt sig, að við höfum leitað til ýmissa annarra aðila á þeim tímum, sem við höfum verið að byggja upp iðnað af þessu tagi. Við seljum nú, — t.d. í sambandi við okkar niðursuðuvörur, — langsamlega mest einmitt til Austur–Evrópusvæðisins. Verði það svo ofan á, að Bretar neiti með öllu að afnema 10% tollinn á frosnum fiskflökum, eins og þeir hafa lýst yfir nú, get ég ekki séð, að hagnaður okkar af því að ganga í EFTA sé, eins og sakir standa, nema hverfandi lítill. Og út frá því sjónarmiði sé ég ekki, að það sé nokkuð, sem kallar á með að leggja fram aðildarbeiðni einmitt nú áður, en við höfum að fullu komið okkur saman um, hvaða grundvallarskilyrði við viljum setja í sambandi við slíka samninga og á þeim tímum, sem við þurfum í rauninni fremur að snúa okkur að öðrum málum, en glíma við þetta mál. Það er ekkert, sem knýr hér á. En með þessu segi ég ekki, að ekki sé rétt að halda áfram að athuga þetta mál og kanna, með hvaða hætti við gætum helzt tengzt þessu verzlunarsvæði, þótt síðar yrði. Því er heldur ekki að neita, að það er vissulega hugsanlegt, að það takist að byggja upp aðrar iðngreinar, sem gætu orðið útflutningsgreinar, en þær, sem tengjast við okkar sjávarútveg. Það er ekki útilokað, og það ber vitanlega að leita að öllum slíkum möguleikum. En ég held, að þetta liggi ekki fyrir í dag. Það er a.m.k. mjög erfitt að fá nokkuð fram um, hvaða íslenzkur iðnaður á öðrum sviðum geti tekið þátt í útflutningi að ráði. Það er eigi að síður rétt og ég geri mér grein fyrir því, að það þarf að vinna að því að koma upp slíkum greinum, — reyna að styrkja þær til útflutnings — og þá væri vissulega hagstætt að hafa réttindi innan slíks verzlunarsvæðis og hér er um að ræða. En þetta sem sagt liggur ekki fyrir nú að mínum dómi.

Ég minntist á það áður, að það væri skoðun okkar Alþb.–manna, að svo væri nú komið í okkar efnahagsmálum, að við mundum þurfa að grípa til a.m.k. bráðabirgðaráðstafana í þá átt að vernda íslenzka framleiðslu meira, en er í dag, bæði til þess að spara okkur gjaldeyri og eins til þess að auka vinnu í landinu sjálfu. Við erum ekki einir um þessa skoðun. Ég hef t.d. veitt því athygli, að nýlega afstaðið flokksþing Alþfl. gerði einmitt samþykktir í þessa sömu átt og ég efast ekki um, að slík samþykkt hefur ekki farið fram hjá hv. viðskrh., sem nú er orðinn formaður Alþfl. En í verkalýðsmálaályktun þessa síðasta flokksþings Alþfl. segir m.a. um þetta atriði, orðrétt:

„Hagsmunir íslenzks iðnaðar verði tryggðir í samkeppni við innfluttar iðnaðarvörur með verndartollum eða með því að stöðva innflutning á þeim iðnaðarvörum, sem orsakað hefur samdrátt í íslenzkum iðnaði.“

Hér er því beinlínis lýst yfir sem stefnumáli þessa flokksþings, að það þurfi að grípa til aukinna verndarráðstafana fyrir innlendan iðnað. Ég hygg því, að það séu æði margir, sem eru á þeirri skoðun nú, að það sé þörf á að grípa til slíkra ráða, og þá sýnist okkur mjög óeðlilegt, að á sama tíma, sem við þurfum að setja slík lagaákvæði, séum við að óska eftir aðild að EFTA og þá einnig með það í huga, að það er ekkert, sem virkilega knýr á með að leggja fram þessa beiðni einmitt nú. Það er sem sagt augljóst mál, að það eru ýmiss konar vandkvæði fyrir okkur Íslendinga að gerast aðilar að fríverzlunarsvæðinu og við þurfum þar að gæta vel að þeirri sérstöðu, sem við höfum á ýmsum sviðum. En ég get tekið undir það, sem hæstv, viðskrh, sagði hér, að við þurfum auðvitað líka að gæta vel að því, að við einangrumst ekki frá eðlilegum viðskiptum við Evrópuþjóðir. Mér er það alveg ljóst, að til þess gæti dregið, ef við héldum allt of fast í ýmsar einangrunarreglur, sem hér hafa gilt og því tel ég, að við þurfum að huga vel að, með hvaða hætti við getum tengzt t.d. Fríverzlunarbandalaginu á þann hátt, að ekki þurfi að koma í bága við hagsmuni okkar hér sem heildar.

Ég efast ekkert um, að það mundi verða mikil breyting fyrir íslenzkan iðnað, þegar til þess kæmi, að sú tollvernd, sem hann nú nýtur í ýmsum greinum, væri afnumin. Ég held, að það gæti varla öðruvísi farið en svo, að ýmsar iðngreinar, sem hér hafa verið starfandi á undanförnum árum, hlytu að leggjast niður að mestu eða öllu leyti. Það er út af fyrir sig mikið alvörumál fyrir okkur, nema það sé nokkuð tryggt um leið, að aðrar komi í staðinn. Það liggur hins vegar ekki ljóst fyrir, að svo mundi verða. Af þeim ástæðum tel ég, að varlega þurfi að fara með framkvæmd þessa máls og hef ég því talið réttast að láta það bíða nú um sinn og vinna að því innan þeirrar n., sem með málið hefur haft að gera, að það yrði athugað betur og reynt yrði að fá meiri samstöðu um málið, en enn er orðið.

Ég hef hér í aðalatriðum gert grein fyrir afstöðu okkar Alþb.–manna til þessarar till. og til málsins sem heildar. Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða það hér í lengra máli að þessu sinni, en við leggjum sem sagt til, að þessi till. verði ekki samþykkt nú og málið verði lagt niður að þessu sinni.