08.11.1968
Sameinað þing: 9. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í D-deild Alþingistíðinda. (2923)

45. mál, aðild að Fríverslunarsamtökum Evrópu

Tómas Árnason:

Herra forseti. Umr. virðast hafa fallið í þann farveg, að í aðalatriðum virðast þeir ræðumenn, sem tekið hafa til máls, hafa verið sammála um það, að æskilegt væri fyrir Íslendinga að stefna að því að tengjast Fríverzlunarbandalagi Evrópu með tilliti til þess stóra markaðar, sem þar er boðið upp á. Hins vegar hefur orðið ágreiningur um það í umr., hvort tímabært sé að sækja um aðild til þess að kanna með hverjum hætti Íslendingar gætu tengzt Fríverzlunarbandalagi Evrópu. Samkv. ákvæðum þessa samnings, EFTA–samningsins, er Fríverzlunarbandalag Evrópu fríverzlunar svæði með iðnaðarvörur og tilteknar sjávarafurðir. Og meginkvöðin við aðild að EFTA er að fella niður verndartolla á iðnaðarvörum. Hagsbótin, aftur á móti, sem fylgir aðildinni, er aukinn frjáls aðgangur að 100 millj. manna markaði, sem telur þær þjóðir, sem hvað fremstar eru meðal iðnaðar– og viðskiptaþjóða. Það er gengið út frá því, að þær þjóðir, sem gerast aðilar, fái aðlögunartímabil til afnáms tolla og hafta og hefur verið talað um að miða við 10 ár í því efni. Samningurinn er ekki gerður til ákveðins tíma, heldur er gert ráð fyrir því, að aðilar geti sagt sig úr bandalaginu með tilteknum hætti og er gert ráð fyrir 12 mánaða uppsagnartíma. Um breytingar á ákvæðum samningsins skal slíkt borið undir aðildarríkin til samþykktar.

Hér liggur fyrir til umr. till. til þál. um aðildarumsókn að Fríverzlunarsamtökum Evrópu, EFTA. Hér er um að ræða mjög alvarlegt mál, mál, sem kemur til með að hafa veruleg áhrif á efnahagslíf þjóðarinnar um langa framtíð. Það varðar fyrst og fremst viðskiptahagsmuni okkar, en hefur áreiðanlega auk þess áhrif á, hvernig íslenzkt efnahagslíf og atvinnuvegir þróast á næstu árum og áratugum. Þess vegna er okkur Íslendingum vandi á höndum um það, hvernig tekið skuli á málinu. Þegar litið er til lengri framtíðar, álít ég, að þýðingarmikið sé fyrir Íslendinga að fá aðgang að þessum markaði.

Íslenzka þjóðin hefur óvefengjanlega mikla sérstöðu meðal þjóðanna og jafnvel meðal þeirra þjóða, sem eru aðilar að EFTA. Það er eðlilegt, að tengsl Íslands við EFTA markist af þeirri sérstöðu. Þess vegna er þýðingarmikið, að við gerum okkur ljóst þegar í upphafi, hvað það er, sem við sækjumst eftir í samningum við EFTA–ríkin um aðild okkar. Mér sýnist þetta ekki koma nægjanlega fram, hvorki í aths. við þáltill., sem hér er til umr., né í skýrslu EFTA–nefndarinnar. En hvaða atriði eru það helzt, sem hér koma til álita? Hvaða stefna er það, sem Íslendingar eiga að byggja á umsókn umaðild að EFTA? Ég vildi nefna nokkur atriði og þá er það fyrst, að Íslendingar fái sem allra lengst aðlögunartímabil til niðurfellingar eigin tolla, sem kvöð yrði um niðurfellingu á, og mætti nefna í þessu sambandi 10–20 ár. Í öðru lagi, að við njótum þegar við inngöngu fulls tollfrelsis gagnvart EFTA–löndunum. Að við fáum undanþágu fyrir afnámi innflutningstolla á olíum og benzíni eða annað jafngott fyrirkomulag. Í fjórða lagi, að athugað verði, hvort við getum fengið frekari undanþágur fyrir iðnað okkar og þá auðvitað hverjar. Að við fáum breytt ákvörðun Breta í annaðhvort að hækka samanlagðan útflutning Skandinavísku þjóðanna á frystum fiskflökum til Bretlands úr 24 þús. smál. árlega eða Ísland fái viðunandi kvóta fyrir freðfiskútflutning sinn til Bretlands. Að það sé tryggt, að íslenzk stjórnarvöld hafi úrslitaráð um stofnsetningu og rekstur atvinnufyrirtækja ríkisborgara EFTA–landa á Íslandi.

Þá vildi ég víkja stuttlega að því, hvaða áhrif líklegt er, að innganga í EFTA mundi hafa á íslenzka atvinnuvegi. Auðvitað fer ekki hjá því, að einhverjar endurtekningar komi fram á því, sem aðrir ræðumenn hafa hér áður minnzt á. Ef við lítum fyrst á landbúnaðinn, er aðalreglan sú, að afnám tolla og hafta, svo og samkeppnisreglur gilda ekki um landbúnaðarvörur. Af framleiðsluvörum Íslendinga taka fríverzlunar ákvæði EFTA, þegar litið er til landbúnaðarins, aðeins til ullar og skinna og vara, sem unnar eru úr þeim. Ef við lítum nánar á þetta og athugum, hvaða þýðingu þetta hefur, er það þegar ljóst, að það mundi verða jákvætt fyrir íslenzkan landbúnað, að Íslendingar gerðust aðilar að EFTA, ef litið er á hann sem slíkan. Um það þarf ekki að deila. Á ullinni hafa ekki verið teljandi tollar í aðildarríkjum samtakanna og svo er heldur ekki um óunnar saltaðar gærur, en þannig er mikill meiri hluti af íslenzkum gærum fluttur út. Aftur á móti hafa verið nokkrir tollar á unnum, sútuðum gærum eða frá 12–15%, í þeim löndum, sem við helzt skiptum við í þessu efni, sem eru Danmörk, Svíþjóð og Bretland. Árið 1967 voru fluttar út 800 þús. saltaðar gærur, en aðeins 45 þús. sútuð skinn. Það er enginn vafi á því, að þessi mismunun á tollum hefur nokkur áhrif í þessum efnum. Að öðru leyti en því, sem ég hef nú lýst, virðast EFTA–ákvæðin ekki hafa áhrif á stöðu íslenzks landbúnaðar.

Ef við lítum aftur á sjávarútveginn, þá falla undir EFTA–ákvæði sjávarafurðir. Það eru fyrst og fremst fryst fisk– og síldarflök, frystar afskeljaðar rækjur, fiski– og síldarmjöl og lýsi, niðursoðnar og niðurlagðar sjávarafurðir, tilbúnir frystir fiskréttir og hvalaafurðir. Þær sjávarvörur, sem aftur á móti falla ekki undir fríverzlunar ákvæði EFTA eru ísaður eða nýr fiskur, heilfrystur, saltaður, þurrkaður og reyktur fiskur ásamt skeldýrum, að undanteknum þó ákveðnum rækjutegundum. Það mætti e.t.v. orða það svo, að helzti ávinningur Íslands af því að ganga í EFTA, væri fólginn í væntanlegri aukningu á sölu sjávarafurða til EFTA–landanna. Því er ekki að neita, að það fellur nokkur skuggi á þetta nú, þegar Bretar hafa lýst því yfir, að ríkisstj. hafi ákveðið að leggja 10% toll á innflutning frystra fiskflaka frá Fríverzlunarbandalagslöndunum, þar sem þau virðast ekki sinna samkomulagi um að takmarka innflutning sinn til Bretlands á þessum vörum. Í raun og veru er þetta ákvæði um hámarkskvóta í andstöðu við anda samningsins og bendir nú kannske til þess, að við eigum í vændum erfiðleika í þessu sambandi. Í sambandi við sjávarútveginn koma auðvitað viðskiptin við Austur–Evrópuþjóðirnar til athugunar og það er lögð á það áherzla af hálfu samtaka sjávarútvegsins, að þeim viðskiptum verði ekki stofnað í hættu.

Ef við lítum svo á iðnaðinn, þá er það auðvitað ljóst, að þar eru aðalvandkvæðin í sambandi við aðild að Fríverzlunarbandalagi Evrópu og aðalkvöðin, sem við Íslendingar verðum að gangast undir með aðild að EFTA er að fella niður verndartolla á iðnaðarvörum á tilteknum tíma. Hvaða þýðingu hefur þetta fyrir íslenzkan iðnað? Þetta er auðvitað lang–þýðingarmesta spurningin, sem svara verður í sambandi við þetta mál. Stenzt verulegur hluti íslenzks iðnaðar þá raun, sem fylgir aðild að EFTA? Ég álít, að veikasti punkturinn í EFTA–skýrslunni fjalli einmitt um þetta atriði. Um þetta segir — og hefur nú raunar verið vitnað til þess í ræðum fyrri ræðumanna — á bls. 55 í skýrslunni, með leyfi hæstv. forseta, að í þessari skýrslu sé ekki ætlunin að meta afkomu og vaxtarmöguleika íslenzks iðnaðar eða einstakra greina hans við þær breyttu aðstæður, að hann njóti frjáls aðgangs að stóru markaðssvæði, en taki jafnframt að lokum á sig fulla samkeppni utan frá.

Það er mjög þýðingarmikið í þessu efni, að við vitum sjálfir, hvaða undanþágur það eru á sviði iðnaðarins, sem við viljum fara fram á í sambandi við aðild að EFTA eða í sambandi við samninga um hugsanlega aðild að EFTA. Þess vegna væri mjög æskilegt og nauðsynlegt, að fyrir lægi eins ítarleg könnun í þessu efni og unnt er að koma við og að slík könnun lægi fyrir, áður en við sækjum um inngöngu í Fríverzlunarbandalagið. Það má benda á í þessu efni ýmsar undanþágur frá þeirri höfuðstefnu, sem samningurinn markar, undanþágu, sem sum ríki hafa fengið, eins og t.d. Austurríki og Sviss varðandi vörur eins og framleiðslu á súkkulaði og kexi. Bretar hafa sett hjá sér kvóta um innflutning á frystum fiskflökum og Bretar hafa sett á hjá sér 15% innflutningsgjald á vörur án þess að ráðfæra sig um það áður við hinar aðildarþjóðirnar. Og þetta hefur gerzt án þess að slitnaði nokkuð upp úr samningum, þó að aðrar aðildarþjóðir hafi lýst mikilli óánægju með þessa ráðstöfun, þegar hún var gerð á sínum tíma. Það er gerð grein fyrir því, hvernig þetta gerðist hér í EFTA–skýrslunni, en þessi dæmi og mörg fleiri, sem mætti benda á, sýna eða benda til þess, að það sé ástæða til þess að ætla, að þessar þjóðir meti okkar sérstöðu á þá leið, að unnt verði fyrir okkur að fá samninga um einhverjar til slakanir í sambandi við verndartolla á iðnaðarvörum okkar. Og þess er að vænta, að þessar þjóðir sýni Íslandi góðan skilning í samningum með tilliti til sérstöðu landsins, en vitanlega verðum víð sjálfir að vita, hvaða undanþágu við viljum sækjast eftir. Það er ekki von til þess, að aðrir bendi okkur á slíkt. Og ég álít, að það sé þýðingarmikið, að slík vitneskja, að svo miklu leyti, sem hún gæti legið fyrir, liggi fyrir þegar í upphafi og verði við hana miðað, þegar sótt er um aðild að Fríverzlunarsamtökunum.

Það hefur verið rætt um það hér í umr. áður, að nauðsyn bæri til að móta alhliða stefnu í iðnaðarmálum, alveg sérstaklega með tilliti til þess, að við hugsanlega tengjumst nú Fríverzlunarbandalagi Evrópu. Rannsókn á málefnum iðnaðarins og einstökum greinum hans, sem lagt gæti grundvöll að mótun alhliðastefnu í iðnaðarmálum með tilliti til inngöngu í EFTA, bíður úrlausnar, segir í skýrslu EFTA–nefndarinnar. Það er mjög þýðingarmikið, að við gerum okkur ljóst, þegar við förum að hreyfa þessum málum og ræða þau við aðildarþjóðir EFTA, gerum okkur ljóst, að það verður að breyta um stefnu í iðnaðarmálum og það mjög verulega, ef íslenzkur iðnaður á að hafa nokkra möguleika til þess að lifa af og þróast með eðlilegum hætti innan EFTA eða undir EFTA–ákvæðum. Það er almenn afstaða af hálfu frammámanna iðnaðarins, að íslenzkur iðnaður geti ekki komizt af innan EFTA, nema hann verði settur á bekk með öðrum útflutnings atvinnuvegum og þá fyrst og fremst sjávarútveginum. Það er ljóst, að það mál á mjög langt í land og þarf auðvitað að skoðast rækilega. Ef við lítum til þess, hvernig horfir í efnahagsmálum þjóðarinnar einmitt núna í þann mund, sem umsókn um aðild að EFTA er sett fram, eru auðvitað allir sammála um það, að fyrir dyrum standa alvarlegar ráðstafanir í efnahagsmálum. Hverjar þær ráðstafanir verða, er ekki vitað. Í hvaða átt þessar ráðstafanir ganga, er heldur ekki vitað, t.d. hvort þær miðast við það að skapa iðnaðinum, þegar til lengdar lætur, aðstöðu, sem gerir honum kleift að þróast og starfa innan EFTA. Um það liggur ekkert fyrir. Ef þær ráðstafanir ganga gegn þeirri almennu stefnu, að auðvelda Íslandi aðild að EFTA, þá vaknar spurningin: Er skynsamlegt að leggja inn umsókn samtímis? Meðan ekkert er um það vitað, hverjar slíkar ráðstafanir verða og með hliðsjón af mjög alvarlegu ástandi íslenzkra atvinnuvega, er þá ekki hyggilegra að fresta umsókn um aðild að sinni? Bíða átekta, þar til mótuð hefur verið heildarstefna iðnaðarins, eins og segir í EFTA–skýrslunni og ég vitnaði til hér áður. Þetta segi ég ekki vegna þess, að ég sé almennt andvígur því, að Ísland sæki um aðild að EFTA til að kanna, með hverjum hætti við getum tekið upp efnahagssamvinnu við EFTA–ríkin eða tengzt bandalaginu, heldur vegna hins, að meðan við sjáum ekki fram úr hinum miklu erfiðleikum íslenzkra efnahagsmála, hinkrum við, við í þessu efni.