08.11.1968
Sameinað þing: 9. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í D-deild Alþingistíðinda. (2924)

45. mál, aðild að Fríverslunarsamtökum Evrópu

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Nú er illt í efni. Það vantar hæstv. fjmrh. hingað í salinn. Mér er ekki nóg að hafa hér hæstv. viðskrh., ég verð að hafa hinn líka. Báðir voru þeir í svonefndri EFTA–nefnd og þetta er líka mál, sem snertir fjmrh. mjög. Ég sé því ekki annað, en ég verði bara að doka við, þangað til hann er mættur, nema hæstv. forseti vildi fresta fundi þangað til. Hann er kominn, hæstv. ráðh., það gleður mig. Þá er hægt að byrja.

Fyrir skömmu var þm. afhent bók, sem nefnist „Skýrsla um Fríverzlunarsamtök Evrópu (EFTA).“ Þetta er allmikið rit, 122 bls. Skýrslan er sögð samin í viðskrn. og er hún verk þeirra embættismanna, sem um hana hafa fjallað. Framan á kápu bókarinnar, efst til vinstri, er prentað: „EFTA–nefndin“. Sú nefnd var sett á laggirnar í desember í fyrra og átti hún að athuga, hvort hagkvæmt væri fyrir Ísland að gerast aðili að Fríverzlunarsamtökum Evrópu. Í n. völdust 5 menn, þar af tveir ráðh. og er annar þeirra formaður n. N. hefur ráðið sér tvo ritara og ekki af verri endanum, ráðuneytisstj. og deildarstj. í stjórnarráðinu. Nm. og ritarar þeirra virðast ekki hneigjast mjög að bókaramennt, því að ég hef frétt, að engar fundargerðir hafi verið skráðar á fundum n., og það eina, sem n. hefur skilað af sér til Alþ. í rituðu máli, er formálinn fremst í bókinni, og hann er 27 línur. Að þessu leyti virðist EFTA–nefndin svokallaða vera svipuð saumaklúbbum, að þar er ekkert skrifað, en nokkuð skrafað. Að öðru leyti er þetta ekki sambærilegt og ég vil biðja elskulegar frúrnar afsökunar á því, að ég nefni þetta tvennt í sömu andránni, þeirra ágætu smáfélög og EFTA–nefndina.

Á bls. 66 í bókinni eru þátttökuríkin í Fríverzlunarsamtökunum talin upp, sjö að tölu og þar að auki er Finnland aukaaðili að samtökunum. Á bls. 9 segir, að aðildarríkin stofni til tollfrjálsra og haftalausra viðskipta sín á milli og á bls. 34 segir, að meginskuldbindingin með aðild að EFTA, sé niðurfelling verndartolla og hafta á iðnaðarvörum.

Mér sýnist ástæða til að athuga viðskipti okkar við önnur lönd, EFTA–löndin sérstaklega. Hagtíðindin segja okkur, að árið 1966 hafi vöruskiptajöfnuðurinn í viðskiptum við önnur lönd verið okkur óhagstæður um 806 millj. kr. og árið 1967 um 2.820 millj. kr. Og ekki batnar enn. Á fyrstu 9 mánuðum þessa árs, jan. til sept., að báðum meðtöldum, var hallinn 2.733 millj. Í skiptum við EFTA–löndin hefur hallinn á vöruviðskiptunum orðið okkur í óhag þessi: 1966 um 411 millj., 1967 um 1.008 millj. Verstir viðskiptis eru nágrannar okkar, Danir og Norðmenn. Hallinn á vöruskiptunum við þá, okkur í óhag, hefur verið 1966 699 millj., 1967 957 millj. og fyrstu 8 mánuði ársins 1968, þ.e. frá janúarbyrjun til ágústloka, 684 millj. kr. Mér þykir trúlegt, að flestir menn séu sammála um, að það leiði til glötunar að halda áfram að auka skuldir þjóðarinnar við útlönd svo gífurlega sem nú er gert, enda eru sjálfsagt takmörk fyrir því, hvað mörg og stór eyðslulán er hægt að fá hjá öðrum þjóðum. Og þó að unnið sé að því að auka útflutning eftir því sem mögulegt er, hygg ég, að greiðslujöfnuðurinn verði ekki lagfærður, nema með því að draga úr innflutningi fyrst og fremst frá þeim nágrannalöndum okkar, EFTA–löndunum, sem kaupa minnst af okkur. En hvernig má það verða eftir að við erum komnir í EFTA–samtökin og getum hvorki beitt innflutningshömlum né tollahækkunum gegn þessum löndum? Það er mér ráðgáta.

Önnur spurning í sambandi við þetta mál er sú, hvernig ríkissjóður geti bætt sér upp tekjutapið við niðurfellingu tolla af vörum frá EFTA–löndunum. Og þó að við kunnum að fá einhvern frest í því efni, þannig að við þurfum ekki að fella tollana af vörum frá fríverzlunarlöndunum strax niður að öllu leyti, kemur bráðum að því, að þeir verða að hverfa. Og fráleitt verður hjá því komizt að lækka einnig tolla af vörum frá öðrum þjóðum, sérstaklega þeim, sem kaupa mest af okkar útflutningsvörum. Hér verður því vafalaust um mjög háar fjárhæðir að ræða, sem ríkissjóður missir vegna tollalækkana. Á bls. 40 í hinni merku bók er nokkuð að þessu vikið. Þar segir, að það sé að sjálfsögðu tímabært, að tekið verði til gagngerðrar athugunar, hvernig bregðast megi við því vandamáli, sem ríkissjóði verður á höndum vegna hugsanlegrar aðildar landsins að fríverzlun. Og síðan segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Hefur fjmrn. nú í undirbúningi heildarendurskoðun á tekjuöflunarkerfi hins opinbera, m.a. út frá þeirri forsendu, að Ísland taki þátt í EFTA og verður þar að nokkru leyti stuðzt við erlenda sérfræðiaðstoð. Búast má við, að þessu verki verði lokið á árinu 1969, þannig að tillögur að fjáröflun hins opinbera, með tilliti til breyttra aðstæðna, lægju fyrir, áður en þátttaka hæfist.“

Samkvæmt þessu er ekki gert ráð fyrir, að hinir innlendu sérfræðingar, aðstoðarmenn hæstv. ríkisstj., dugi til, heldur þurfi að fá erlenda sérfræðiaðstoð og þetta er nú í undirbúningi, segja embættismennirnir. En ég held, að það hefði átt að vera búið að athuga þessa hluti, áður en farið var að ræða um að ganga í EFTA. Það er talið, að niðurstöður af þessum athugunum muni liggja fyrir einhvern tíma á árinu 1969. Hvort svo verður, veit enginn náttúrlega. Á bls. 41 í bókinni eru einnig nokkrar hugleiðingar um þetta, hvernig með skuli fara. „Til mála kæmi,“ segir þar, með leyfi hæstv. forseta, „að hugsanlegt tap ríkissjóðs þessa vegna, það er á þessu stigi órannsakað mál, yrði bætt upp með því að hækka tolla á nokkrum þýðingarmiklum tolllágum vörutegundum, svo sem kornvörum, kaffi og sykri.“

Og þá er það söluskatturinn, sem hæstv. viðskrh. var að minnast á í þessu sambandi í sinni ræðu. Það er orðinn eftirlætisskattur hans nú í seinni tíð. Það söng dálítið öðruvísi í honum, áður en hann tók þátt í þeirri ríkisstj., sem hann situr í núna. Þá taldi hann, með réttu, að sá skattur væri allra skatta verstur, en nú er hann ágætur og til hans á að grípa skilst manni — æ, nú fór fjmrh. víst burtu. Það var nú verra. Ég vona, að hann verði ekki lengi. (Gripið fram í: Ég skal koma því til skila.) Nei, það er ekki tekið gilt. Ef þetta dregst nokkuð verulega, að hann komi, verður maður líklega að grípa til þess ráðs að fara með rímur eða einhvern kveðskap til dægrastyttingar fyrir hv. þm. og aðra áheyrendur og fyrir upptökutækið, sem hér er. (Gripið fram í: Hann er kominn.) Það er gott, þá sleppir maður því í bili.

Íslendingar þurfa að kosta kapps um að framleiða iðnaðarvörur til útflutnings í framtíðinni. En leiðin til að efla iðnaðinn er ekki sú að halda áfram að eyðileggja þann iðnað, sem fyrir er í landinu, en að því er stefnt með því að leyfa hömlulausan og tollfrjálsan innflutning á erlendum iðnaðarvörum. Ríkisvaldinu ber að aðstoða innlend iðnaðarfyrirtæki við rannsóknir á markaðsmöguleikum fyrir íslenzkar iðnaðarvörur hjá öðrum þjóðum og markaðsleit fyrir þær. Á þetta ber að leggja hina mestu áherzlu. Og þegar nýir möguleikar opnast til sölu á útfluttum iðnaðarvörum héðan, getur verið fullkomlega réttmætt að veita útflytjendum þeirra opinbera aðstoð, meðan þeir eru að ná fótfestu í markaðslöndunum, t.d. með útflutningsuppbótum eða á annan hátt, en slíkt er útilokað, eftir að við erum komnir í EFTA. Ef tækist að vinna verulega markaði fyrir íslenzkar iðnaðarvörur erlendis, mætti þegar svo væri komið, taka til athugunar að leita eftir þátttöku í EFTA, til að fá niður fellda tolla af okkar útflutningsvörum, ef það þá álitist hagkvæmt. Þá fyrst væri komið í ljós um hvað við þyrftum að semja við Fríverzlunarsamtök Evrópu varðandi iðnaðinn. Nú er þetta allt í lausu lofti og því er ekki tímabært að senda umsókn. Ef EFTA lifir áfram, verðum við í kallfæri við það, hvenær sem okkur þykir hagkvæmt að leita einhverra samninga við það. En sá tími er ekki kominn. Fyrst þarf að rannsaka ýmsa hluti, sem eftir er að skoða.

EFTA–nefndin segir í þeim fáu línum, sem hún hefur lagt fyrir alþm. á bls. 3 í bókinni, að nú hafi þeim áfanga verið náð, að hægt sé að taka ákvörðun um, hvort sækja eigi um aðild að EFTA og fá úr því skorið, hvort og með hvaða kjörum Ísland gæti gerzt aðili að samtökunum. Þetta er ákaflega vafasöm fullyrðing, að ekki sé meira sagt. EFTA– nefndin hefði átt að rannsaka ýmislegt varðandi þetta efni, t.d. um tekjuöflun ríkissjóðs í stað tollanna, sem lækka eða falla niður, um afkomu iðnaðarins og hvernig unnt sé að bæta viðskiptajöfnuðinn við aðrar þjóðir, ef við gerumst aðilar að EFTA. Ekkert af þessu hefur nefndin gert, en það hefði hún átt að gera og athuga fleira í þessu sambandi og því tel ég rétt að fela henni að athuga málið nánar, áður en Alþ. stígur nokkurt skref í áttina til inngöngu í Fríverzlunarsamtökin.

Svo er að lokum ein fsp. til hæstv. fjmrh. Mig langar að frétta hjá honum, hve mikill kostnaður er orðinn við klúbbinn, sem nefndur er EFTA–nefnd. Ég get nú ekki ætlazt til þess, að hæstv. ráðh. hafi þessa tölu í höfðinu, en ég hef það fyrir satt, að það sé símasamband á milli Alþingishússins og stjórnarráðsins og gæti hann þá trúlega fengið þetta upplýst eftir þeirri leið hjá sínum mönnum í rn., því að ég óska að fá svar við þessu um kostnaðinn við n. á þessum fundi.