08.11.1968
Sameinað þing: 9. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í D-deild Alþingistíðinda. (2926)

45. mál, aðild að Fríverslunarsamtökum Evrópu

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Eftir að hafa hlýtt á málflutning leiðtoga stjórnarandstöðuflokkanna um þessa till., er mér mikil ánægja að geta sagt, að þar var um mjög hóflegan málflutning að ræða. Það kom greinilega fram í ræðum beggja flokksleiðtoganna, að þeir viðurkenna, að þeir gera sér fulla grein fyrir mikilvægi þessa máls, sem hér er um að ræða. Í ræðum okkar, sem hér höfum talað af hálfu stjórnarflokkanna, hefur hins vegar einnig komið greinilega fram, að við gerum okkur fulla grein fyrir þeim vanda, sem þessu máli er samfara, þeim vanda, sem aðild að Fríverzlunarsamtökunum er samfara. Og ég skil ummæli þeirra þannig, að þeir séu reiðubúnir til þess að verða við þeirri ósk ríkisstj. að hafa áfram sams konar samstarf við ríkisstj. og hingað til hefur verið um að ræða við allan undirbúning málsins. Að öðru leyti eru það aðeins tvö atriði, sem fram komu í ræðum flokksleiðtoganna, sem ég vildi gera að umtalsefni með örfáum orðum.

Annað var það, sem formaður Framsfl. sagði um 16. gr., þ.e.a.s. jafnréttisákvæði 16. gr. á ýmsum sviðum atvinnurekstrar. Varðandi það vildi ég aðeins endurtaka og undirstrika það, sem ég sagði að mjög vel yfirveguðu máli í framsöguræðu minni, en þar sagði ég, með leyfi hæstv. forseta:

„Jafnframt þeirri stefnu að halda tengslum við nágrannalönd okkar og efla þau og fylgjast með þjóðfélagsþróun þeirra, hljótum við að halda fast við mikilvæg einkenni þess þjóðfélags, sem við höfum komið hér á og leggja áherzlu á að halda í eigin höndum úrslitavaldi yfir þróun efnahagsmála okkar og hagnýtingu náttúruauðlinda landsins.“

Það er bjargföst sannfæring mín, að mjög vel athuguðu máli og að undangengnum viðræðum við aðila, sem ég hef trú á, að hafi nákvæma þekkingu á málinu og ber fullt traust til, að þessum skilyrðum, þessari stefnu sé hægt að framfylgja samfara aðild að EFTA, sumpart með löggjöf hér innanlands og sumpart með samningum við EFTA–samtökin sjálf. Ef þetta er misskilningur, á það eftir að koma í ljós og þá á eftir að koma í ljós í hverju sá misskilningur kann að verða fólginn. Það mál allt mun verða lagt algerlega undanbragðalaust fyrir Alþ. á sínum tíma, og þá getur hver þingflokkur og hver þm. tekið þá afstöðu til þess, sem hann telur sannasta og réttasta.

Hitt atriðið var í ræðu hv. formanns þingflokks Alþb. og laut að þeirri óvæntu, skyndilegu og ég vil segja furðulegu ráðstöfun Breta nú alveg nýlega að leggja á 10% toll á innflutt fryst flök frá hinum EFTA–löndunum. Ég ræddi þetta mál ekki í framsöguræðu minni og gerði það af ráðnum hug. Ég gerði það vegna þess, að enn veit enginn um hvers konar ráðstöfun hér er að ræða. Það liggur fyrir, að brezka stjórnin hefur tekið ákvörðun um, að 10% tollur verði lagður á innflutt fryst fiskflök. En það liggur ekkert fyrir um það, hvort hér er um að ræða beina bráðabirgðaráðstöfun, sem ég vona, að sé, og eigi að gilda t.d. út þetta ár eða eitthvað fram á næsta ár, meðan samningum lýkur milli EFTA–landanna um innflutning á frystum fiski til Bretlands. Þær samningaviðræður hafa staðið yfir undanfarnar vikur. Um það hefur verið vitað, með því hefur verið fylgzt. Bretar hafa verið að óska eftir tryggingum fyrir því, að ekki yrði flutt meira til Bretlands af frystum flökum frá hinum EFTA–löndunum en samningsbundið magn eða það magn, sem gert er ráð fyrir í EFTA–samningnum sjálfum, 24 þús. tonn. Innflutningurinn hefur á þessu ári farið fram úr því, fór það raunar líka í fyrra og hitteðfyrra og það er sem gagnráðstöfun gegn því, sem Bretar hafa gert þessa ráðstöfun. Það hafa staðið yfir — og standa enn yfir mér vitanlega — samningaviðræður milli helztu fiskútflutningsþjóðanna í EFTA og Breta um þessi mál, þó að þar hafi hvorki gengið né rekið, en ég trúi því ekki, að þeim samningum sé lokið með þessari ákvörðun Breta, heldur geri ég ráð fyrir, að á þeim muni frekar verða hert, því að þetta getur ekki verið endanleg lausn á því deilumáli, sem þar var um að ræða og ég skal ekki víkja nánar að hér. En jafnvel þó að hér væri um ráðstöfun að ræða, sem tekin væri til nokkurra ára, sé ég ekki, að þessi skyndiákvörðun Breta geti verið rök gegn því, að við könnum nú með hvaða skilyrði við getum fengið aðild að EFTA. Ég mundi þvert á móti segja, að það væru viðbótarrök fyrir því, að við ættum að reyna að hraða þessari könnun. Í fyrsta lagi, mundum við fá fyrr en ella aðstöðu til þess að fá að vita, hvað hér er raunverulega á ferðinni. Er hér um að ræða skyndiákvörðun, lið í viðskiptastefnu Breta gagnvart öðrum EFTA–löndum eða er hér um að ræða stefnubreytingu af hálfu Breta varðandi innflutning á freðfiskflökum? Leiðin, til þess að fá úr þessu skorið, er einmitt að hefja þær könnunarviðræður, sem þessi till. gerir ráð fyrir, að hafnar verði. Jafnvel þó að það ólíklega kæmi í ljós, að hér væri um stefnubreytingu af hálfu Breta að ræða, útilokar það auðvitað ekki, að nýr EFTA–aðili fengi tollkvóta á frystum fiski, þ.e.a.s. fengi heimild til að flytja ákveðið magn af frystum fiskflökum til Bretlands án greiðslu tolls, alveg eins og hin EFTA–löndin fengu, þegar EFTA var stofnað 1960, leyfi til þess að flytja tolllaust til Bretlands 24 þús. tonn, þótt Bretar annars héldu þeirri skoðun, að freðfiskur ætti ekki að vera EFTA–vara, ekki að vera vara, sem tollfrelsi gilti um.

Eitt af því, — ef till. verður samþ., — sem íslenzk stjórnvöld mundu að sjálfsögðu leggja mikla áherzlu á að kanna, er það, hvað hér er raunverulega á ferðinni og reyna að fá sem fyrst úr því skorið, ef hér er um stefnubreytingu af hálfu Breta að ræða, hvort við gætum ekki fengið undanþágu frá þessari ákvörðun, þ.e.a.s., hvort við gætum ekki tryggt okkur tollkvóta í Bretlandi. Mér er það fullkomlega ljóst, — ég játa það fúslega, — að ef við ættum ekki kost á slíku, þá stórminnkar hugsanlegur hagnaður okkar af því að gerast aðili að Fríverzlunarsamtökunum. Það er mér jafnljóst eins og hverjum öðrum. Þessi atriði vildi ég láta koma fram áður en þessum umr. lyki, herra forseti.