08.11.1968
Sameinað þing: 9. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í D-deild Alþingistíðinda. (2928)

45. mál, aðild að Fríverslunarsamtökum Evrópu

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Júgóslavar sendu ekki umsókn um aðild og þær könnunarviðræður, sem fram hafa farið, hafa mér vitanlega verið í losaralegu formi. Það hefur ekki verið um að ræða alvarlegan áhuga Júgóslava — að því er ég bezt veit — um aðild að samkomulaginu. Þetta atriði var vandlega athugað, hvaða form væri bezt að hafa á þessu og niðurstaða varð sú, — eins og ég segi, að vandlega athuguðu máli, — að eðlilegast væri að efna til þeirra viðræðna, sem nú er meiningin að efna til, á grundvelli umsóknar. Það væru mestar líkur á því, að þá fengjust viðræður við þá aðila, sem mikilvægast er að ræða við, þ.e.a.s. fullkomlega ábyrga aðila, sem taka mætti fullkomið mark á, ef svo mætti segja. Það liggur alveg ljóst fyrir, að í umsókninni felst engin skuldbinding. Finnar fóru nákvæmlega eins að, þegar þeir óskuðu, — þegar þeir hugðust tengjast bandalaginu á sínum tíma. Niðurstaða þeirra viðræðna varð af ýmsum ástæðum aukaaðild eða sérstök tengsl við EFTA. Niðurstaða okkar umsóknar gæti orðið, — þó að hún sé í formi almennrar umsóknar, — gæti orðið nákvæmlega sams konar samningur og Finnar gerðu við EFTA, ef okkur sýnist það henta betur heldur en full og óskoruð aðild.