12.11.1968
Sameinað þing: 10. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í D-deild Alþingistíðinda. (2930)

45. mál, aðild að Fríverslunarsamtökum Evrópu

Frsm. meiri hl. (Pétur Benediktsson):

Herra forseti. Till. þessari var vísað til utanrmn., sem ekki gat orðið sammála um afgreiðslu hennar. Hv. minni hl. hefur skilað séráliti og mun gera grein fyrir till. sínum, en till. meiri hl. er sú, að þáltill. verði samþykkt óbreytt. Málefnalega var gerð full grein fyrir þessu máli af hæstv. viðskrh. og öðrum við fyrri umr. málsins, og er því ástæðulaust að fara um það mörgum orðum.

Ágreiningurinn er ekki svo mjög um efni till., heldur aðferðina í málinu. Er rétt að sækja um aðild nú, eða eigum við að bíða? Við í meiri hl. álítum, að ekki sé eftir neinu að bíða. Þetta mál hefur verið athugað gaumgæfilega í n., þar sem allir þingflokkar eiga sæti og ég tel, sem einn af nm., að eftir þeirri leið verði að svo stöddu í rauninni ekki komizt lengra. Það sem við þurfum að fá að vita núna er, hvað það kostar að ganga í þetta bandalag.

Í fyrsta lagi: Eigum við nokkurn kost á því, vilja þeir taka á móti okkur og ef þeir vilja hleypa okkur inn í bandalagið, vilja þeir taka til greina hina sérstöku hagsmuni Íslands, sem liggja öllum mönnum ljósir fyrir og hvaða gjald þurfum við að greiða fyrir þátttökuna og í hve mörgum árlegum afborgunum þurfum við að greiða aðgangseyrinn? Til þess að fá úr þessum höfuðatriðum skorið, er aðeins ein leið. Hún er sú að ræða við þá, sem fyrir eru í Fríverzlunarbandalaginu. Hins vegar er engu tapað við slíkar umr., því að ef við komumst að þeirri niðurstöðu að þeim loknum, að aðgöngumiðinn sé of dýr, segjum við: Nei takk, herrar mínir, þá ætlum við heldur að hætta við þátttökuna.

Yrði niðurstaðan á hinn bóginn sú af athugunum, að okkur sé hagkvæmt að vera aðilar, þá eigum við að hefja þátttökuna svo fljótt sem unnt er og einmitt þátttaka í EFTA gæti hugsanlega verið þáttur í þeirri endurreisn efnahagslífsins, sem nú er höfuðnauðsyn þessa lands. Þess vegna álít ég, að afstaða hv. minni hl. sé sú að bíða af sér tækifærið, — að hún sé til þess eins fallin að færa fram nýja sönnun fyrir hinu fornkveðna: Að hika er sama og tapa. Þess vegna vil ég hvetja hv. Alþ. til að standa með meiri hl. n. um samþykkt till., eins og hún liggur fyrir.