12.11.1968
Sameinað þing: 10. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í D-deild Alþingistíðinda. (2933)

45. mál, aðild að Fríverslunarsamtökum Evrópu

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Að undanförnu hefur nokkrum sinnum verið vikið hér að starfsháttum Alþ. og þar hefur hv. 1. þm. Austf. haft nokkra forustu með merkum ræðum um vinnubrögð Alþ. Mér finnst að alþm. ættu að hlusta betur á. Við erum þessa dagana að reyna einn þátt í starfsemi Alþ., sem ég tel vera mjög óeðlilegan. Í gær var umr. um ákaflega veigamikið efnahagsmál hespuð í gegn um Alþ. á tæpum sólarhring, á nótt og degi, með endalausum afbrigðum og án þess að n. hefðu nokkurt ráðrúm til þess að kanna málið.

Það mál, sem hér liggur fyrir, till. um, að við sækjum um aðild að EFTA, var lagt fyrir s.l. föstudag og það er ætlazt til þess, að hið háa Alþ. taki lokaákvörðun um þetta í dag. Það er að vísu rétt, að n. frá öllum þingflokkum hefur unnið með ríkisstj. að þessu máli um langt skeið og það eru sjálfsögð vinnubrögð. En slík n. kemur á engan hátt í staðinn fyrir Alþ. Hér er um svo veigamikið mál að ræða, að Alþ. á að taka sér tíma til að fjalla um það í nokkrar vikur. Þannig er farið að, þegar minni háttar mál ber hér á góma. Þau mál eru send til n., sem fjallar um þau á alllöngum tíma og ber þetta undir ýmsa aðila utan Alþ.

Því er svo varið með þetta mál, að umr. um það hafa ennþá verið furðu takmarkaðar utan þings. Samt er hér um svo veigamikið mál að ræða, að þjóðin öll þarf að taka þátt í umr. um það og stuðla að endanlegum ákvörðunum. N. þingsins verða að hafa ráðrúm til þess að ráðgast við ýmsa aðila í þjóðfélaginu, áður en slíkt mál sem þetta er afgr. Ég tel, að þessi ljóður á starfsháttum Alþ. sé það alvarlegur, að úr honum verði að bæta og ég vil beina því alveg sérstaklega til hv. forseta Alþ., að þeir hyggi að þessum vinnubrögðum. Það má ekki svo til ganga, að Alþ. sé einhver afgreiðslustofnun fyrir ríkisstj. hverju sinni. Hv. forsetar mega ekki líta á sig sem neina verkstjóra ríkisstj. Þeir eru fulltrúar Alþ. í samskiptum við ríkisstj. Og hv. forsetum ber að tryggja, að Alþ. fái að fjalla um mál á eðlilegan hátt.

Þegar við ræðum um hugsanlega aðild að EFTA, þá sakar ekki, að menn geri sér grein fyrir því, hvers konar fyrirbæri þessi bandalög í Evrópu eru í raun og veru. Þessi bandalög, Efnahagsbandalag Evrópu og EFTA, eru hagsmunasamtök auðugra og iðnþróaðra ríkja í Evrópu. Tilgangur þeirra er að efla velgengni þessara samtaka í samskiptum við aðra. Ég tel, að þessi bandalög séu í sjálfu sér mjög óheppileg og stuðli að rangri alþjóðlegri þróun. Nú er svo ástatt í heiminum, að andstæðurnar milli auðugra ríkja og snauðra eru án efa það vandamál, sem mestum sköpum mun skipta á næstu áratugum. Bilið á milli þessara ríkja hefur haldið áfram að víkka að undanförnu. Og haldi svo enn áfram, þá munu hljótast af því mjög alvarlegar afleiðingar.

Þessi efnahagsbandalög í Evrópu hafa þann tilgang að tryggja sem hæst verð á iðnaðarvarningi, en reyna jafnframt að tryggja, að iðnaðarríkin fái hráefni á sem lægstu verði. Þetta er tilgangur þessara bandalaga og við höfum komizt í nokkur kynni við þennan tilgang, vegna þess að við erum fyrst og fremst hráefnaframleiðendur. Við höfum reynt það núna að undanförnu, að þau hráefni og þær hálfunnu vörur, sem við flytjum út, hafa lækkað ákaflega mikið í verði á þessum mörkuðum, fullunnar vörur, sem framleiddar eru úr okkar hráefnum, hafa haldið óbreyttu verði. Þarna er verið að færa ágóða frá okkur til þessara iðnvæddu ríkja. Þetta tel ég, að menn verði að gera sér ljóst, þó að ég viti að sjálfsögðu, að það er ekki á okkar valdi að breyta því, hvernig iðnaðarríki í Evrópu haga samskiptum sínum. Og það er einnig ljóst, að við komumst ekki hjá því að lifa í þeim heimi, sem umhverfis okkur er og aðlaga okkar hluti eftir þeim staðreyndum, sem við okkur blasa. En þegar nú er rætt um, að við eigum að sækja um aðild að EFTA, þá eru röksemdirnar fyrir því ekki fyrst og fremst staða okkar, eins og hún er núna. Þeir tollar, sem eru lagðir á útflutning okkar í þessum löndum, eins og sakir standa, skipta ekki sérlega miklu máli, eins og nú er og allra sízt, ef Bretar halda stíft við þá ákvörðun sína að leggja sérstakan toll á fiskflök, einnig frá aðildarríkjum EFTA. Ef aðeins væri um að ræða þá annmarka, sem nú blasa við, þá efast ég um, að nokkur yrði þess fýsandi að ganga í EFTA og verða að taka á sig þá gjörbreytingu, sem því fylgir, á öllu fjárhagsskipulagi hér innanlands, þ.e.a.s. á tollamálum og skattheimtu. Við höfum heyrt það hér, að afnám tolla eigi að hafa í för með sér stórhækkun á söluskatti eða mjög verulega hækkun á fasteignasköttum, nema hvort tveggja sé.

Aðalröksemdin fyrir því, að við eigum að sækja um aðild í EFTA, eru röksemdir um framtíðina. Menn benda réttilega á, að við verðum að breytast úr hráefnaframleiðanda í iðnaðarríki. Við verðum að iðnþróa Ísland bæði til þess að hafa hér traust efnahagskerfi og eins til þess að tryggja vaxandi þjóð næg verkefni. Þetta er alveg augljós nauðsyn. Um þetta getur ekki verið neinn ágreiningur. Og það er einnig augljós nauðsyn, að ef við eigum að leggja áherzlu á iðnaðarframleiðslu, þá verður hún að vera við það miðuð, að hún sé seljanleg á stórum erlendum mörkuðum. Það er ekki hægt að koma hér upp öflugum iðnaði, sem aðeins er miðaður við hinn þrönga markað okkar. Þetta eru augljósar staðreyndir. Það er ekki þar með sagt, að þær séu röksemd fyrir því, að við eigum hér með á þessari stundu að sækja um aðild að EFTA. Það er margt, sem við þurfum að vita áður. Mér er t.d. spurn: Hvaða iðngreinar eru það, sem menn hugsa sér að efla á Íslandi? Ég hef ekki fengið nokkur svör við því. Menn eru með almennt umtal um blómleg iðnfyrirtæki, sem eigi að starfa hér eftir 10–20 ár. Ég hef hvergi heyrt nokkra hugmynd um það, hvaða iðnfyrirtæki þetta eigi að vera. Í hvaða greinum eigum við að efla iðnað okkar? Þetta verðum við óhjákvæmilega að vita. Ef við ætlum að laga efnahagskerfi okkar eftir einhverjum tilteknum mörkuðum, þá verðum við að vita hvaða vörur við ætlum að selja og velja markaðinn út frá því. Hvar er tiltæk sú vitneskja nú, að við munum sérstaklega framleiða vörur, sem henta EFTA frekar en öðrum samtökum, t.d. Efnahagsbandalaginu eða Bandaríkjamarkaði, A.–Evrópu eða Sovétríkjunum eða einhverjum öðrum mörkuðum? Um þetta er engin vitneskja, en ákvörðun okkar um tengsl við einhver markaðssvæði verður að byggjast á því, hvað það er, sem við ætlum að framleiða og selja. Fyrr, en við höfum gert um þetta einhverjar raunsæjar áætlanir, er hreinlega ekki tímabært að taka ákvörðun eins og þessa. Það er ekki hægt að sækja um aðild að EFTA og láta svo kylfu ráða kasti. Við verðum að vita, hvað við ætlum að gera. Og ég tel, að það sé eitthvert brýnasta verkefni stjórnarvaldanna einmitt nú að láta grandskoða þetta mál og komast að niðurstöðu um það, hvaða atvinnugreinar í iðnaði á sérstaklega að efla hér. Og síðan er það þessi vitneskja, sem hlýtur að skera úr um, hvaða markaðssvæði við reynum að tengjast. Og það þarf meira til en vita, hvaða iðnaður það er, sem við hugsum okkur, að við getum reynzt samkeppnis færir við aðrar og margfalt stærri iðnaðarþjóðir. Við þurfum einnig að skipuleggja fyrirtæki okkar á þann veg, að þau geti staðizt einhverja samkeppni.

Það er kannske óþarfi að vera sífellt að endurtaka þá staðreynd, að við erum efnahagslega örlítil. Samt virðist þess þó vera þörf, því að mér virðist, að hv. ríkisstj. hugsi ævinlega um þessi mál eins og við séum milljóna þjóð, en við erum það ekki. Ef við ætlum að vera með iðnaðarframleiðslu til útflutnings, þá verður kjarni hennar að vera nokkur stór fyrirtæki, eins stór og við erum menn til þess að starfrækja hér. Það þarf að fara fram alger endurskipulagning á iðnaði okkar, ef það á að vera nokkurt vit í því, að við reynum að keppa við margfalt stærri og auðugari þjóðir. Þessi endurskipulagning þarf einnig að fara fram, áður en við sækjum um tengsl við einhvern sérstakan markað erlendis. Því að ef við ætlum að ganga í EFTA, eða einhver hliðstæð samtök, án þess að hafa styrkt undirstöður iðnaðar okkar nægilega, þá erum við að kippa undan þeim fótunum. Það er ósköp auðvelt að standa hér, eins og hv. viðskrh. gerði áðan, og vera með almennt bjartsýnis umtal. Hann sagði, hv. ráðh. að iðnaðinum á Íslandi hefði að undanförnu vegnað mjög vel. Þetta virðist mér nú vera mikið öfugmæli á flestum sviðum. Við höfum hér t.a.m. inni í þessum sal núna einn af forustumönnum íslenzks iðnaðar. Það væri fróðlegt, að hann kæmi hér upp í ræðustól og greindi hv. ráðh. frá því, hvernig ástatt hefur verið í járniðnaði að undanförnu, hvað hann hefur starfað af miklum afköstum, hvernig fjármagnsnýtingin hefur verið þar og hvernig honum hefur vegnað í samkeppni við erlenda verktaka, sem fengið hafa að vinna hér á íslandi. Við skulum ekki leika okkur að nokkru bjartsýnistali í þessu sambandi. Þetta er tvímælalaust erfitt vandamál. En við eigum að vera menn til þess að ráða fram úr því, ef við sýnum nægilega fyrirhyggju og gerum okkur ljóst, að við verðum sjálfir að ákveða fyrir fram, hvað við erum að gera. Ekki leggja út í neina óvissu, heldur leggja á ráðin um það fyrir fram, hvaða iðnfyrirtæki við ætlum að efla og hvernig við ætlum að skipuleggja þau.

Annars eru margar ástæður til þess, að ég skil ekki svo gjörla, hvers vegna hv. ríkisstj. leggur þvílíkt ofurkapp á að taka þessa ákvörðun núna. Mér virðist ýmislegt vera á hverfanda hveli í bandalögunum í Evrópu um þessar mundir. Innan Efnahagsbandalagsins eru t.d. uppi tillögur núna að fara að lækka tollmúrana umhverfis bandalagið og gefa ríkjum utan þess aukna möguleika til viðskiptasamninga við bandalagið.

Hvers vegna er það afskrifað gjörsamlega, að við Íslendingar getum átt kost á viðskiptasamningum við þessi bandalög? Ég þekki engin fullkomin rök til þess að afskrifa, að við getum átt viðskiptasamninga við þessi bandalög. Og ég tel, að við verðum einnig að athuga það gaumgæfilega, áður en nokkrar ákvarðanir eru teknar. Og hvernig er staða EFTA, þessara samtaka, sem við eigum að sækja um aðild að? Ég fæ ekki betur séð en í EFTA sé býsna mikið upplausnarástand. Bretar fara þar í sífellu öllu sínu fram. Þeir taka ár eftir ár ákvarðanir, sem brjóta gersamlega í bága við þennan sáttmála. Ef Bretum hentar eitthvað, þá framkvæma þeir það, hvað sem bandalagsþjóðirnar segja. Þetta hefur leitt til þess, að samstæðasti hluti EFTA, Norðurlönd, hafa tekið upp mjög alvarlegar umr. um sérstaka efnahagssamvinnu Norðurlanda. Þessar umr. hafa staðið yfir allt þetta ár og ætlun þeirra, sem mestan áhuga hafa fyrir þessari samvinnu, er sú, að Norðurlönd komi sér upp mjög vel skipulögðu efnahagsbandalagi, sem taki til flestra eða allra þátta efnahagsmála. Og í þeirri samvinnu er rætt um atriði, sem hljóta að vekja sérstaka athygli Íslendinga. Þar er t.d. rætt um samvinnu við fiskveiðar, fiskiðnað og sölu á fiskafurðum. Ég hygg, að Íslendingum hafi lengi verið ljóst, að það mundi gefa okkur sterkari stöðu, ef við gætum unnið meira með Norðmönnum í stað þess að keppa stundum við þá á þann hátt að báðum aðilum verði til tjóns. Í þessum samningum um Efnahagsbandalag Norðurlanda hefur einnig verið rætt um að stofna mjög öflugan fjárfestingabanka, sem aðstoði vanþróaða hluta innan Norðurlanda við að byggja upp atvinnulíf sitt. Ef þessi áform um Efnahagsbandalag Norðurlanda takast, þá er EFTA í rauninni komið í tvennt eða e.t.v. fleiri hluta, því að samstæðasti hluti EFTA er Norðurlönd. Sá hluti, sem auk þeirra skiptir máli, er að sjálfsögðu Bretland, en hin ríkin skipta okkur ákaflega litlu máli.

Ég hef talið, að við Íslendingar ættum að fylgjast sérstaklega vel með umr. þeim, sem fram hafa farið á Norðurlöndum um þessi mál. Og mér þykir það mjög miður farið, að hv. ríkisstj. þáði það ekki, þegar henni var gefinn kostur á að leggja til starfsmenn til þess að vinna að rannsóknum á þessu máli núna í ár. Hv. ríkisstj. átti kost á þessu, en hún hafnaði því boði með þeim skýringum, að hana skorti mannafla til að taka þátt í slíku. Mér virðist nú, að hv. ríkisstj. sendi starfsmenn sína til ýmissa verkefna, sem eru veigaminni en þetta. Ég er alveg sannfærður um, að ef við Íslendingar eigum að taka upp nána efnahagssamvinnu við aðra, þá eigum við fyrst og fremst að hugsa um Norðurlönd. Ástæðan er sú, að við verðum að geta notið sérstöðu og vinsemdar í öllu slíku samstarfi. Og við vitum, að Norðurlandaþjóðir hafa þannig afstöðu til okkar, að ef við eigum að geta notið fríðinda einhvers staðar, þá eigum við að geta notið þeirra þar. Ég tel algjörlega ótímabært að taka ákvörðun um aðildarumsókn að EFTA, fyrr en við vitum, hvernig málalok verða í þessum rannsóknum á Norðurlöndum. Það er talað um, að þeirri rannsókn ljúki um næstu áramót og eftir það verði hægt að taka ákvarðanir á næstu mánuðum á eftir. Ég tel ekki, að það sé tímabært fyrir okkur að taka nokkra ákvörðun um slíka hluti, fyrr en við vitum, hver útkoman verður af þessari athugun. Og ég sé ekki, að nokkuð geti rekið á eftir því, að við bíðum ekki eftir henni. Ég veit ósköp vel, að reglur EFTA eru hin sameiginlega undirstaða að þessu Efnahagsbandalagi Norðurlanda, sem talað er um. En verði af þessu efnahagsbandalagi, þá er það komið á allt annað stig en EFTA–samvinnan og þá eru Norðurlönd í raun og veru komin út úr EFTA að vissu leyti.

Margir hafa orðið til þess að benda á, að erfitt sé að sjá, hvað það sé, sem reki á eftir því, að þessi ákvörðun sé tekin núna í staðinn fyrir næsta ár eða þar næsta. E.t.v. er ástæða til þess að velta því máli svolítið fyrir sér. Ég hygg, að skýringarnar séu tvær. Í fyrsta lagi hygg ég, að hv. ríkisstj. vilji, að samþ. verði beiðni um aðild að EFTA, vegna þess að í þeirri beiðni er fólgin meginstefna um ýmis atriði í efnahagsmálum. Ríkisstj. vill binda þessi atriði nú þegar. Þegar vandkvæði ber að höndum á næstunni og tillögur kunna að koma fram um aðgerðir í innflutningsmálum og tollamálum og öðru slíku, þá munu svör ríkisstj. verða þau, að þessi vandamál verðum við að leysa í samræmi við aðildarumsóknina að EFTA. Við verðum að haga ákvörðunum, sem við tökum hér, þannig, að þær brjóti ekki í bága við umsókn okkar og þær vonir, sem menn bindi við að komast inn í EFTA. Með þessu telur ríkisstj. sig vera að taka ákvörðun um ýmsa meginþætti í efnahagsmálum fyrir okkur sjálfa, hvað svo sem líður samningunum við EFTA á sínum tíma. En ég óttast einnig, að þarna sé um að ræða annað atriði. Hér hafa ýmsir orðið til þess að minnast á 16. gr. samninganna, jafnréttisákvæðin um atvinnurekstur. Það er alveg rétt; að í 16. gr. er að finna mikla fyrirvara og að slíkum fyrirvörum er hægt að fylgja eftir með lagasetningu í hverju landi um sig. Ég dreg ekki í efa, að dugmiklar ríkisstj. geti haldið þannig á málum, að þessi 16. gr. leiði ekki yfir þjóðirnar neinar kvaðir. En ég hef því miður ekki nokkra ástæðu til að ætla, að þessi sé afstaða ríkisstj. Íslands. Henni hefur verið það sérstakt áhugamál um langt skeið að fá til Íslands sem mest af erlendum atvinnurekstri. Í haust, þegar blöstu við augljós vandkvæði í íslenzkum atvinnumálum og mjög víðtækt atvinnuleysi framundan, fór hv. iðnrh. til útlanda og þegar hann kom aftur skýrði hann útvarpi og blöðum frá heilum lista af erlendum aðilum, sem hann gerði sér vonir um, að kynnu að hafa áhuga á því að stofna fyrirtæki á Íslandi. Ef í ljós kemur í sambandi við þessa 16. gr., að einhverjir aðilar innan EFTA hefðu áhuga á því að koma sér fyrir á Íslandi, þá hugsa ég, að hv. ríkisstj. Íslands mundi ekki hafa nokkurn áhuga á því að beita þeim fyrirvörum, sem hugsanlegir eru, heldur þvert á móti. Það er fullkomið alvörumál, að hv. ríkisstj. hefur horft upp á það núna í mörg ár, að hinir þjóðlegu atvinnuvegir okkar hafa verið á stöðugri niðurleið. Hv. ríkisstj. hefur ekkert í þessu gert. Það hefur ekki dulizt nokkrum manni, að vonir hennar um framtíðina hafa verið við það bundnar, að erlendir aðilar tækju í vaxandi mæli við þessum þætti af okkur. Ein meginástæða til þess, að ég er andvígur þessari aðildarumsókn, er einfaldlega sú og ég segi það af fullri hreinskilni, að ég vantreysti þessari ríkisstjórn gjörsamlega til þess að halda þannig á málum, að það sé í samræmi við hagsmuni Íslendinga.