12.11.1968
Sameinað þing: 10. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í D-deild Alþingistíðinda. (2936)

45. mál, aðild að Fríverslunarsamtökum Evrópu

Sveinn Guðmundsson:

Herra forseti. Þáltill., sem hér er til umr., um að afla heimildar til að sækja um aðild að Fríverzlunarbandalagi Evrópu, EFTA, er fram borin af hæstv. ríkisstj. eftir ýtarlega rannsókn og athuganir. Þar sem iðnaður hefur verið mjög mikið á dagskrá í sambandi við þetta mál af eðlilegum ástæðum, finnst mér rétt að lýsa skoðun minni.

Ég lýsi mig sammála því, að kannað sé, hvaða kjör Ísland geti hlotið sem aðili að Fríverzlunarbandalaginu, þótt ég hins vegar viðurkenni mörg þau rök, sem fram hafa komið, andstæð aðild Íslands og þá sérstaklega hversu mjög þarf að færa aðstöðu iðnaðarins til betri vegar, áður en til slíks samstarfs kemur. Að vísu má segja, að þetta séu einnig rök fyrir því, að við könnum nú aðild að EFTA, eins og þáltill. gerir ráð fyrir.

Þetta samstarf 7 eða 8 Evrópuþjóða á sér nokkuð langa sögu að baki eða líklega nær 20 ár, þótt aðeins séu 9 ár síðan undirritun EFTA–sáttmálans kom til framkvæmda og segja má reyndar, að framkvæmd EFTA–sáttmálans hafi nú loks tekið fullkomlega gildi, þar sem einstök lönd, eins og Portúgal, hafa fengið svo langan aðlögunartíma.

Þótt ekki hafi farið mikið fyrir því, að þessi mál hafi verið rædd hér á hv. Alþ., hafa þau verið rædd því meira í einstökum félagssamtökum, sem telja sig hafa hagsmuna að gæta, hvort Ísland gerist aðili að EFTA. Mér er ekki grunlaust um, að t.d. iðnaðardeild Sambands ísl. samvinnufélaga líti jafnvel öðrum augum á þessa umsókn, heldur en hér hefur komið fram hjá sumum framsóknarmönnum. Það liggur fyrir t.d. skýlaus yfirlýsing frá Landssambandi ísi. útvegsmanna, þar sem þeir telja nauðsyn vegna fiskveiðanna að nálgast þetta efnahagsbandalag, Fríverzlunarbandalagið. Það liggur fyrir frá því í ár athyglisverð till. frá Vinnuveitendasambandi Íslands, og ég vil leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér seinni hluta till., sem ég tel athyglisverða:

„Aðalfundur Vinnuveitendasambandsins leggur áherzlu á, að slíkri könnun“ — þ.e. aðild að EFTA — „verði hraðað sem mest, þannig að ýmsum atvinnugreinum gefist kostur á að undirbúa viðbrögð við væntanlegum breyttum starfsskilyrðum, jafnframt því, sem of langt óvissuástand í þessum efnum verði umflúið.“

Nú hafa þessi mál verið rædd svo mjög, að öll óvissan er óþolandi öllu lengur. Þess vegna er alveg nauðsynlegt, að sem fyrst verði ákvörðun tekin með eða móti aðild að EFTA. Hv. 3. þm. Norðurl. v. og hv. 1. þm. Austf. hafa báðir í þessum umr. bent á bréf og samþykktir Félags ísl. iðnrekenda. Hæstv. viðskrh. las reyndar hér áðan upp þetta bréf, sem stílað er til viðskrh., dags. 30. okt. s.l. Ég vil hins vegar, með leyfi hæstv. forseta, lesa síðustu mgr. þessa bréfs, svo að ekki fari milli mála neinna, sem hér heyra. En þar segir, — það eru iðnrekendur, sem skrifa þetta til viðskrh.:

„Vér álítum rétt, að sótt yrði um aðild að EFTA til þess að kanna rækilega, hvers konar kjörum verður náð. Endanlega afstöðu til aðildar teljum vér oss þá fyrst geta tekið, þegar niðurstöður þeirra samningsviðræðna liggja fyrir og ríkisstj. Íslands hefur gert grein fyrir því, hverjum aðgerðum hún hyggst beita sér fyrir til þess að leggja grundvöll að þeirri iðnþróun, sem hér verður að eiga sér stað í næstu framtíð.“

Þetta vil ég undirstrika, og þetta er afstaða iðnrekenda um allt Ísland.

Þegar rætt er um Fríverzlunarbandalagið, er rétt að hafa í huga, að innan vébanda þess býr aðeins 3% af fólksfjölda heimsins eða 100 millj. íbúa. Hins vegar fer 15% af heimsviðskiptunum fram yfir þessi lönd. Einnig er rétt að hafa í huga, að meðal aðildarríkja eru nágrannaríki okkar, sem við erum bundin margháttuðum tengslum frá ómunatíð. En höfuðtilgangur EFTA er einmitt að koma á frjálsari samskiptum milli aðildarríkjanna í iðnaði, í verzlun og viðskiptum, stuðla að fullri atvinnu, aukinni framleiðni, betri lífskjörum og jafnvægi í efnahagsmálum. Stór þáttur í þessu samstarfi er að sjálfsögðu niðurfelling tolla og samstilling gjalda milli landanna.

Þótt Ísland sæki nú um aðild að EFTA, getur enginn sagt fyrir um, hvaða skilyrði þarf að uppfylla. Þetta verður heldur ekki upplýst, nema málið sé fullkannað. Ákveðnar staðreyndir eru okkur þó kunnar. Við vitum t.d., að lánsfé milli EFTA–landanna er að nokkru frjálst. T.d. hafa Svíar og Svisslendingar lýst yfir, að þeir muni auðvelda EFTA–ríkjum aðgang að fjármagni í sínum löndum. Lítið land sem Ísland verður að vísu að gæta margs, þegar slíku samstarfi verður komið á með stærri þjóðum. En eitt er þó víst: Fjármagn höfum við ekki í landinu til að framkvæma allt, sem krafa er um á næstu árum og nauðsynlegt verður, til þess að fullri atvinnu sé hægt að viðhalda á komandi tímum.

Af ýmsum hefur verið talað um fjárfestingaraðgerðir milli EFTA–landanna, að þær væru frjálsar. Í framkvæmd hefur þó sýnt sig, að viðkomandi ríkisstj. geta ráðið slíku. Aðildarríkin geta með lagasetningu — án þess að brjóta EFTA–sáttmálann — samþykkt takmarkanir á stofnun fyrirtækja innan vissra atvinnugreina. T.d. þarf í Noregi sérstakt leyfi viðkomandi ráðh. til að byggja fiskvinnslustöðvar eða greinar innan fiskiðnaðarins, svo sem frystihús. Þá er gengið út frá, að aðildarríki geti haft fulla stjórn á fjárfestingu og atvinnuréttindum, hvert í sínu landi. Landbúnaður er algerlega utan við EFTA, nema tvíhlíða samningar milli einstakra ríkja, en slíkt mundi einnig henta okkur bezt, eins og við erum staddir með landbúnað okkar. Sama gildir um nýjan fisk og ísaðan. Hér kæmu til greina tvíhlíða samningar, sem okkur væru mjög mikilsverðir.

Mest af því, sem heyrir undir EFTA–samstarfið, eru iðnaðarvörur og þar stöndum við áreiðanlega höllum fæti, eins og nú er. Ljóst er, að okkur yrði mikil nauðsyn að fá langt aðlögunartímabil til niðurfærslu á tollum iðnaðarvara til þess að koma fjármálum iðnaðarins í betra horf og til þess að læra af hinum stóra markaði eða læra á hinn stóra markað réttara sagt. Langt aðlögunartímabil ætti líka að vera möguleiki að semja um eftir reynslu t.d. Portúgals að dæma.

Nú berast fréttir um, að Bretar hafi enn sýnt samstarfi innan EFTA skilningsleysi með því að setja 10% toll á ferskan fisk frá EFTA–löndum, eins og við Íslendingar búum reyndar við. Áður hafa Bretar einnig farið sínar leiðir með 15% innflutningstolli, 3–4% ríkisstyrk á útflutning um stundarsakir og 40–45% ríkisframlag í nýja álbræðslu í Bretlandi. Ekki skal ég dæma um, hvern endi þetta hefur, en áreiðanlega verða þessi mál fullupplýst, áður en til kemur, að við Íslendingar tökum lokaákvörðun okkar.

Ekki er ólíklegt, að á sérsjónarmið okkar Íslendinga innan EFTA yrði litið svipað og var með t.d. Finna. Skyldur Finnlands sem aukaaðila eru t.d. mun minni. Þannig hafa þeir viðhaldið innflutningshöftum á olíur, kol, áburð o.fl. vegna Rússlandsviðskipta. Benda má einnig á, að átölulaust hefur innlend framleiðsla verið vernduð þannig í Noregi t.d., að það opinbera kaupir af innlendum framleiðendum þar í landi, þótt verðmismunur sé allt að 10%.

Höfuðrök fyrir jákvæðri afstöðu minni í þessu máli tel ég þessi: Ég viðurkenni fullkomlega þau sjónarmið, sem fram hafa verið sett, t.d. af forstjóra Efnahagsmálastofnunarinnar, að á næstu 20 árum verði að skapa atvinnu hér í landi fyrir 34 þús. verkfærra manna. Að fækka muni hlutfallslega við landbúnaðarstörf, standa í stað við fiskveiðar, en iðnaðurinn og þjónustuatvinnuvegirnir verða að taka við meginfjölgun vinnufærra landsmanna auk þeirra, sem þessar greinar sjá fyrir atvinnu nú. Til þess að þetta megi takast, vantar stærri markað. Með aðild að EFTA ætti iðnaðurinn að geta gengið inn í 100 millj. manna markað. Það er eftirtektarvert, að skyndikönnun um ástand í iðnaði, sem fram hefur farið nýlega á vegum Félags ísl. iðnrekenda og Landssambands iðnaðarmanna, sýnir berlega, að það háir íslenzkum atvinnuvegum, hversu heimamarkaður er lítill.

Sem rök fyrir afstöðu minni í öðru lagi: Ef samstarfið við EFTA–löndin yrði til þess að breyta hugarfari í íslenzkum fjármálaheimi iðnaðinum í vil auk þess, sem EFTA–samstarf yrði til að skapa íslenzkum iðnaði aðgang að eðlilegu fjármagni, þá er til mikils unnið.

Í þriðja lagi: EFTA–samstarf ætti að geta leitt okkur Íslendinga áfram á braut iðnþróunar. Ég segi ekki, að við séum vanþróuð þjóð á iðnaðarsviðinu, en mér er vel ljóst, að við erum mun styttra á veg komnir en nágrannaþjóðirnar, einmitt þær þjóðir, sem við nú höfum hug á að leita samstarfs við. Fyrir stuttu voru t.d. hér á hv. Alþ. rædd rannsóknarmál. Það voru lesnar upp margar tölur um, hvað einstök lönd leggja mikið fram til rannsóknarstarfa. Ef ég man rétt, vorum við Íslendingar aðeins með 1/10 hluta fjármagns til rannsókna miðað við Bandaríkin og þá er miðað við íbúatölu og þjóðartekjur. Það er mín skoðun, að í mörgum tilvikum sé ekki afgerandi fyrir svo litla þjóð sem Íslendingar eru eða fyrir einstök fyrirtæki að keppa við stórþjóðirnar með því að ausa um of fjármunum til rannsóknarstarfa. Hitt tel ég meira virði að leggja kapp á að fylgjast með nýjungum, sem fram koma úti í hinum stóra heimi og vera fljótir að tileinka okkur þær nýjungar, sem hugsanlega keppa við okkar aðstæður. Og þetta á einmitt við, hvað EFTA–samstarfi við kemur. Það er okkur lífsspursmál að fá tækifæri til þess að tileinka okkur — sérstaklega í iðnaði — þær nýjungar, sem alltaf eru að fæðast hjá stórþjóðunum og með samstarfi við EFTA–löndin ættum við að komast nær eða ná því takmarki.

Í fjórða lagi verður það að vera skýlaus krafa bæði atvinnurekenda og launþega, ef til EFTA–samstarfs kemur, að atvinnureksturinn sitji ekki á neinn hátt við lakari kjör en í öðrum EFTA–löndum. Á ég þar við skattlagningu, fyrningarákvæði verksmiðjuhúsnæðis og véla, hráefnaöflun, orkuverð og m.a. betri möguleika atvinnurekstrarins, en nú er, að jafnað sé á milli mögru og feitu áranna. Slíkt kæmi sér ekki hvað sízt vel fyrir launþega, sem verða að sjálfsögðu að taka á sig erfiðleikana ekki síður en atvinnurekendur, þegar illa árar.

Herra forseti. Ég held, að þjóðhagslega sé rétt að kanna nú þegar möguleika á aðild að Fríverzlunarbandalagi Evrópu og greiði því atkv. með fram kominni till.