12.11.1968
Sameinað þing: 10. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í D-deild Alþingistíðinda. (2943)

45. mál, aðild að Fríverslunarsamtökum Evrópu

Frsm. minni hl. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Mér fannst ekki vera mikill ávinningur að þessari ræðu hv. frsm. meiri hl. eða hún hjálpa mönnum mikið til þess að móta sér afstöðu í þessu máli eða kasta yfir höfuð nokkru nýju ljósi á það.

Það eina, sem ég ætla að minnast á af því, sem hv. frsm. sagði, er þetta: Hann sagðist undrast, hversu ókunnugur ég væri málinu miðað við það, sem komið hefði fram hjá mér, því að það væri auðheyrt, að ég hefði ekki fengið upplýsingar, um ýmislegt, sem hefði komið fram á fundum EFTA- nefndarinnar frá mætum mönnum, m.a. úr öðrum löndum, varðandi framkvæmd EFTA–landanna á samningnum. Ég játa, að mér er þetta ókunnugt af þeirri einföldu ástæðu, að ég hef aldrei heyrt það. En þetta gefur mér tilefni til að spyrja hv. þm., sem sjálfur var í nefndinni: Hvað er það, sem hann saknaði vitneskju um hjá mér? Hvað er það? Hvaða upplýsingar um meginatriði í þessu máli eru það, sem komu fram á fundum n. og augljóst var, að ég vissi ekki um og þá væntanlega ekki heldur ýmsir aðrir hv. þm? Ég held, að það hefði haft meiri þýðingu fyrir málið, að hv. þm. hefði greint frá því, en sumt af því, sem hann sagði. Ég vil þess vegna spyrja hv. þm: Vill hann ekki gefa okkur upplýsingar um þessi grundvallaratriði, fyrst hann varð þess svona átakanlega var, að ég hafði ekki vitneskju um mjög þýðingarmikla þætti í þessu máli? Hvað er það, sem komið hefur fram um höfuðatriði í EFTA–nefndinni, sem ég og þá vafalaust margir aðrir hv. þm. hafa ekki fengið að vita um? Ég hygg, að ávinningur væri að því fyrir málið að fá þetta fram, þannig að af því kæmi fram gleggri mynd og ég hef litið svoleiðis á, að þessar umr. væru til þess, en ekki leikaraskapur eða fjas.