20.12.1968
Sameinað þing: 25. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í D-deild Alþingistíðinda. (2948)

119. mál, frestun á fundum Alþingis

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Mörg aðkallandi vandamál bíða úrlausnar á næstunni. Þau verða mörg hver ekki leyst án lagasetningar. Ég tel því, að alþm. ættu að þessu sinni aðeins að fá hæfilegt jólaleyfi og Alþ. ætti að koma saman aftur til funda strax eftir áramótin. Annað væri ábyrgðarlaust að mínum dómi, eins og á stendur.

Með svo langri þingfrestun, sem hér er ráðgerð, er opnuð greið leið fyrir ríkisstj. til að skipa málum með brbl. Þegar svo þingið kemur saman aftur, standa þm. andspænis gerðum hlut, og á það ekkert síður við um stjórnarstuðningsmenn, en stjórnarandstæðinga. Það eru óeðlileg vinnubrögð að mínum dómi. Með slíkum starfsaðferðum er Alþ. í reyndinni sett til hlíðar. Við framsóknarmenn munum því greiða atkv. gegn þessari þingfrestunartill.