27.11.1968
Sameinað þing: 15. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í D-deild Alþingistíðinda. (2962)

20. mál, starfshættir Alþingis

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Till. sú, sem hér er til umr., er vissulega athyglis– og umræðuverð sökum efnis síns og vegna þess, að hún er flutt af þeim þm., sem lengst allra hefur nú setið á þingi og hefur því mikla og mjög margháttaða reynslu að baki sér. Ég tel og að margar af þeim aths., sem hv. þm. hefur gert, einkanlega í framsöguræðu sinni, séu athyglisverðar. En það kemur einnig í ljós, að sumt af því, sem hv. þm. segir í sínum aths., fær ekki staðizt, þegar betur er skoðað og aðalefni hans ályktunar er svo hæpið, að ég tel, að því þurfi a.m.k. mjög að velta fyrir sér, áður en þm. fallist á að breyta starfsháttum Alþ. í þá átt, hvort þeim tilgangi verði náð, sem hv. þm. leggur aðal áherzluna á.

Ég er sammála hv. 1. þm. Austf. um það, að margt er nú með betra móti í starfsháttum þingsins, heldur en var áður fyrr. Enginn efi er á því, að umr. eru yfirleitt málefnalegri, en þær löngum voru og betri háttur á þeim í heild. Þær umr., sem hafa átt sér stað hér í dag og undanfarna miðvikudaga sýna þó, að margt stendur enn til bóta.

Það er engin nýjung, þótt ég segi það, sem margir hafa sagt hér áður, að alveg er ljóst, að fsp. í því formi, sem nú tíðkazt, hafa farið út yfir öll bönd og ná alls ekki sínum tilgangi. Það má vel vera, að margt skynsamlegt komi fram í þessum almennu umr., sem hér eiga sér stað, en þetta eru meira og minna umr. um daginn og veginn, ef svo má segja, naumast um almenn stjórnmálaefni, heldur um allt milli himins og jarðar og eiga ekkert skylt við eiginlegar fsp. Á þessu þarf að verða rík breyting og eins og ég hef tekið fram í sambandi við umr. um frv. til nýrra þingskapalaga eða breytingu á þingsköpunum, þá eru þær breytingar, sem þar er lagt til að gerðar verði, engan veginn fullnægjandi til þess, að ráðin verði fullkomin bót á vanköntunum, sem fram hafa komið í sambandi við fsp.–umr. Út yfir tekur þó, að því er haldið fram, að eftir sem áður eigi að tíðkast þær takmarkalausu umr. um fsp. og aths. utan dagskrár, sem mjög hafa farið vaxandi á síðustu árum. Sannleikurinn er sá, að ef þvílíkar umr. eiga að halda áfram, er öll þingskapasetning meira og minna þýðingarlaus. Ég vil engan veginn halda því fram, að ekki þurfi að finna eitthvað form fyrir því, að menn geti komið fyrirvaralaust að fsp. Það kann að vera rík ástæða til þess, en þá verður einnig að vera mjög takmarkaður tími, sem til umr. um slíka fsp. fer. Hér er því eitt dæmi þess, að breyta þarf starfsháttum Alþ. Þessar mjög víðtæku umr. um fsp. tíðkuðust ekki áður og hafa engan veginn náð þeim tilgangi, sem vakti fyrir mönnum, þegar þær voru lögfestar fyrir eitthvað 1 1/2 áratug.

Þá vil ég einnig gera aths. við það, að hv. flm. segir, að núv. þingskapaákvæði hafi sýnt eða tryggi réttara sagt, að ekki eigi sér stað málþóf og málþóf sé nú miklu minna, en var áður fyrri. Það er út af fyrir sig rétt, að málþóf er sjaldgæfara, heldur en var. Hins vegar kemst ég ekki hjá að vekja athygli á því, að þó að nú takist venjulega að fá afgreidd frv. af skyndingu, þegar mikið liggur við, þá fæst það einungis gert með því, að stjórnarandstæðingar svo að segja einir tali, að talsmenn ríkisstj. flytji einungis stuttar ræður til þess að gera grein fyrir höfuðatriðum máls, láti umr. að öðru leyti eiga sig og liggi sumpart undir ámæli fyrir að taka ekki þátt í umr. af hálfu hv. stjórnarandstæðinga. Er það þó öllum þm. vitanlegt, að til þess að mál nái fram að ganga, þegar þörf er að afgreiða fljótlega, eins og oft er óhjákvæmilegt, bæði í tíð núv. ríkisstj. og fyrri ríkisstj., bæði á Alþ. Íslendinga og öðrum þjóðþingum, þá hefur þetta einungis tekizt hér með því, að stjórnarandstæðingar einir hafi orðið. Þingskapaákvæði eru ekki, eins og þau eru nú, næg trygging til þess, að komið verði í veg fyrir þessa óvenju, sem ég vil svo kalla. Auðvitað væri það eina skynsamlega í þessum efnum, að ríkisstj. og stjórnarandstæðingar kæmu sér saman um ákveðinn tíma, sem tiltekið mál ætti að vera til umr. og síðan væri ræðutíma skipt nokkurn veginn jafnt á milli málssvara hvors málstaðar um sig. Ef annar hvor aðili kærir sig ekki um að flytja sitt mál, þá hann um það, en það eina eðlilega væri, að báðir aðilar fengju færi á því að láta uppi sínar skoðanir í nokkurn veginn réttu hlutfalli hvor um sig, án þess að það þyrfti að verða til þess, að mál drægjust óhæfilega.

Þá kem ég að því, sem ég hef einnig oft vikið að áður og umr. um þessa till. hv. flm. er einmitt gott dæmi og það er, hvernig umr. eru oft algerlega sundurslitnar. Ég hygg, að það séu nú einar 2–3 vikur frá því að hv. 1. þm. Austf. flutti hér sína athyglisverðu ræðu um þessi mál. Í stað þess að halda þeirri umr. áfram og þannig, að það gætu orðið lifandi umr. um mjög athyglisvert mál, sem hv. þm. á þakkir skilið fyrir að hreyfa hér, þá dregst þetta. Það má búast við því, að nú gefist mönnum kostur á að tala um þetta kannske nokkur korter til viðbótar, síðan verði umr. frestað, e.t.v. fram yfir áramót, ef svo vill verkast. Auðvitað er það eina eðlilega, að forsetar, með samþykki fulltrúa þingflokka, komi sér saman um að ætla vissum meiri háttar málum tiltekinn tíma til umr. á ákveðnum dögum, þeim sé svo lokið á þeim tilsetta tíma. Menn viti h.u.b. fyrir fram hversu langan tíma þeir hafi til umr. og honum sé skipt nokkurn veginn jafnt á milli meðhaldsmanna og móthaldsmanna. Þannig er þessu t.d. háttað í því þingi, sem er fyrirmynd um þingræði, brezka „parlamentinu“ og að því er ég hygg allvíða annars staðar, án þess að ég skuli rekja einstök dæmi þess. Að vísu er hægt, ef umr. teygjast mjög úr hófi, að stytta umræðutíma samkv. núgildandi þingsköpum, en það yrði þó ekki gert fyrr, en fullkomin misbeiting hefði átt sér stað, miðað við nútímahugmyndir. Og ég hygg einmitt, að sú breyting hafi orðið á frá því hv. 1. þm. Austf. fyrst kom á þing. Þá gátu menn enzt til þess dögum og jafnvel vikum saman að rífast á eldhúsdegi og út úr tiltölulega ekki mjög mikilvægum málum. Nú skilja menn, að bæði til þess að umr. verði skipulegri og til þess að þær vekji einhvern áhuga hjá almenningi á þeim tíma, þegar allir hafa miklu að sinna, þá er um að gera að þjappa umr. saman, þannig að þær taki tiltölulega skamman tíma og séu með þeim hætti, að líkur séu til þess, að menn endist til að veita þeim einhverja athygli. Annars er þetta meira og minna unnið fyrir gýg.

Það má vel vera, eins og hv. þm. segir, að ef forsetar og þá aðalforsetar, væru úr mismunandi þingflokkum, gæti tekizt betur að koma skipun á þetta, — með mismunandi þingflokkum er átt við, að þeir séu bæði frá ríkisstj. og stjórnarandstæðingum. Ég tel, að till. hv. þm. um þetta sé mjög athyglisverð, en hún hvílir þó á þeirri forsendu, að það séu nokkurn veginn sömu hugmyndir, sem eru hjá öllum þingflokkum um það, hvernig störf þingsins verði bezt rekin, þannig að allir hafi gagn af. Það er ekki vegna þess, að ég er hér í bili sem talsmaður stjórnarflokka og hv. þm. sem talsmaður stjórnarandstöðu, að við höfum á þessu nokkuð ólík sjónarmið. Við vitum, að það getur breytzt. Annar er í stjórn í dag og hinn á morgun. Við höfum þau sameiginlegu áhugamál, sem ég er mjög fús að ræða við hv. þm. og íhuga með honum og vonast til þess, að aðrir þm. íhugi, — athuga, hvernig betri skipan verði komið á störf þingsins. Það verður að vera með þeim hætti, að greitt sé fyrir framgangi mála, að þau tefjist ekki úr hófi og þm. sé raunverulega gefinn nokkuð jafn kostur á því að taka til máls, þannig að hv. stjórnarandstaða noti ekki aðstöðu sína vegna þess, að stjórnarliðar þurfa yfirleitt að fá mál afgreidd sem fyrst, — þá misnoti hv. stjórnarandstæðingar ekki aðstöðu sína til þess svo að segja einir að tala vegna þess, að þeir telji ekki svo mikið við liggja, að málin fái skjótan framgang. Þetta er atriði sem við höfum vikið hér að áður og ég skal ekki fara fleiri orðum um að sinni.

En það eru önnur veigameiri atriði, sem hv. þm. minnist á, þar sem mun meiri ágreiningur hlýtur til að koma. Hv. þm. heldur því fram, að vegna þess að þingið sitji nú of skamman tíma á hverju ári miðað við þau mörgu aðkallandi verkefni, sem þjóðþing þurfi nú að sinna, þá hafi þingstörfin meira og meira komizt í hendur ríkisstj. og embættismanna á þann veg, að ýmist séu gefin út brbl. eða að samning laga og vinna að lagasetningu sé meira og minna komin úr höndum hv. alþm. Hér hygg ég, að mjög sé málum blandað í raun og veru. Í fyrsta lagi hefur það aldrei farið eftir lengd þingtíma, hversu mörg brbl. eru gefin út á hverju ári. Enda er það svo, að þegar á heildina er litið er þingtíminn nú yfirleitt lengi, en hann var t.d. fyrir einum mannsaldri, þegar hv. þm. tók fyrst sæti á Alþ. Það er um hitt að ræða, á hvers konar tímum menn eru uppi, hvort það eru óróatímar, umrótstímar, sem krefjast skjótra aðgerða eða ekki. Ég hygg t.d., að það hafi verið á árinu 1934, þegar hv. þm. fyrst var ráðh., að voru gefin út svo mörg brbl., að það eru ekki mörg ár, sem geta keppt við það ár um fjölda brbl. Og það einkennilega um setningu þeirra brbl. var annars vegar það, að sum þeirra voru gefin út einum eða tveimur dögum eftir þingslit, einungis af því að hæstv. ríkisstj. sýndist þá hentara að láta þingið ekki sitja, meðan löggjöfin var drifin í gegn og hitt kom einnig fyrir, að það voru gefin út brbl. rétt áður en Alþ. kom saman, sem ekki áttu að taka gildi, fyrr en eftir slit Alþ. og hygg ég, að það sé nokkurt einsdæmi í bráðabirgðalagasetningu. Þetta var auðvitað umdeilt á sínum tíma, eins og oft vill verða, að stjórnarandstæðingar bera brigður á nauðsyn setningar brbl. Ég skal ekki fara að rekja þær deilur að sinni, heldur einungis fullyrða, að það er ekki meiri löngun nú, en áður til að gefa brbl. út, út af fyrir sig. Það fer eftir aðstæðum hverju sinni. Það fer eftir því, hversu aðkallandi mál það eru, sem úrlausnar krefjast. Þetta veit ég, að hv. þm. getur auðveldlega áttað sig á, ef hann kynnir sér fjölda brbl. og ástæðu fyrir setningu þeirra hverju sinni.

Hitt er svo rétt, sem hv. þm vekur athygli á, að það hefur orðið breyting á seinustu áratugum, getum við sagt, eða síðasta áratug, e.t.v. 15 árum, um það, að lengst af áður var mun meira af þmfrv., sem voru samþ. á Alþ., heldur en stjórnarfrv. Þó var þetta ekki undantekningarlaust. Ég held t.d., að á hinu mikla löggjafartímabili, einu því glæsilegasta í sögu þjóðarinnar, fyrst eftir að heimastjórnin var hér lögfest, á tímabilinu frá 1905–1907, hafi stjórnarfrv. verið fleiri, sem voru lögfest, heldur en þmfrv. Þetta var hins vegar undantekning og hefur breytzt á seinni árum, þannig að nú eru stjórnarfrv. yfirleitt orðin fleiri, sem ná fram að ganga, heldur en þmfrv. Hv. þm. lætur að því liggja í ræðu sinni, hvort sem hann segir það berum orðum eða ekki, að þetta sé einstætt fyrirbæri hér á landi og sýni það, að þm. hér taki minnkandi þátt í löggjafarstarfsemi gagnstætt því, sem með öðrum þjóðum er. Sannleikurinn er sá, að með öðrum þjóðum, bæði á Norðurlöndum og í Bretlandi, upphafslandi þingræðis, er það alger undantekning, að þmfrv. yfirleitt séu samþykkt. Það var eitt af því, sem gerði Alþ. áður fyrri og gerir það enn, ólíkt því, sem er um flest önnur þjóðþing hjá okkur skyldum þjóðum, að þm. beittu frumkvæðisrétti til löggjafar í miklu ríkara mæli en tíðkaðist annars staðar. Þetta kom af auðskildum ástæðum. Það kom af því, að á fyrstu árum eftir endurreisn Alþ. var ríkisstj. útlend og sinnti ekki mikið íslenzkum málefnum, svo að ef menn vildu koma þarflegum nýjungum fram og breytingum, þurfti á frumkvæði þm. að halda. Annars staðar hefur venjan sem sagt orðið öll önnur. Það er alger undantekning, bæði í Bretlandi og öllum Norðurlöndum, að þmfrv. í okkar skilningi séu flutt eða nái fram að ganga og enn er það svo, að frumkvæðisrétti þm. á Íslandi er beitt í miklu ríkara mæli og þmfrv. eru miklu stærri hluti af þeim frv., sem að lokum eru samþ., heldur en tíðkast í þeim löndum öðrum, sem ég gat um.

Breytingin hér, að stjórnarfrv. hafa orðið æ tiltölulega fleiri, hygg ég, að stafi fyrst og fremst af því, að eftir því sem löggjafarmálefni hafa orðið flóknari er það svo, að þm. eiga erfiðara með að semja lagafrv. og þess vegna hefur ríkisstj. og hennar starfsmenn meira og meira tekið að sér að forma þær till., sem menn telja þörf á, að gerðar séu til endurbóta. Þetta hygg ég, að sé höfuðorsökin í miklu ríkara mæli heldur en það, að þm. út af fyrir sig hafi ekki nægan tíma til þess að sinna löggjafarmálum eða þessi ríkisstj. eða þær sem á undan henni voru, hafi haft nokkra löngun til þess að sölsa meiri völd í stjórnkerfinu undir sig en áður var. Hér er um að ræða eðlilega afleiðingu þess, að málefni eru orðin flóknari og margbreyttari, krefjast óhjákvæmilega meiri sérþekkingar, en áður, til þess að þau séu sæmilega undirbúin. Hv. þm. hefur einnig að nokkru opin augu fyrir þessari staðreynd og af þeim sökum telur hann, að nauðsynlegt væri, að betur sé búið að þingflokkum, en gert er í dag hér á hinu háa Alþ. Ég hygg, að nokkuð sé til í þessu, að ekki væri óeðlilegt, að þingflokkar fengju sérfræðinga, hjálparmenn til þess að vinna að undirbúningi mála með sér í ríkara mæli, en verið hefur. Það hefur að vísu löngum tíðkazt, að menn hafi fengið vissa aðstoð hér hjá starfsmönnum skrifstofu Alþ. til þeirra hluta, en vitanlega eru þar starfskraftar allsendis ónógir til þess að geta tekið að sér löggjafarsamningu, þannig að í nokkru lagi sé. Raunar getum við því miður sagt það sama um stjórnarráð Íslands, að miðað við það, sem tíðkast hjá öðrum þjóðum, er þar alger skortur á nægum mannafla til undirbúnings löggjafar, sem við verðum sárlega varir við, t.d. í starfi okkar í Norðurlandaráði, þar sem yfirleitt stendur upp á okkur um tillögugerð, af því að við njótum ekki sams konar aðstoðar og starfsfélagar okkar í öðrum löndum. Við þessu verður aldrei gert til hlítar vegna mannfæðar okkar og ólíkra aðstæðna. En ég hygg, að þó væri hægt að gera hér mun betur, heldur en gert hefur verið, án þess að af því stafaði óhæfilegur kostnaður. Sums staðar annars staðar hefur verið tekinn upp sá háttur, að flokkar hafa fengið beinan styrk úr ríkissjóði til sinnar starfsemi og þá er, að því er mér skilst, yfirleitt miðað við þingmannafjölda hvers flokks. Hér hafa menn ekki talið ráðlegt að hafa þennan hátt á. Í stað þess var tekin upp í fyrra, með samþykki þingflokka, viss fyrirgreiðsla við blöð, að vísu ekki sem beinn styrkur, heldur á þann veg, að nú var greitt fyrir þjónustu blaðanna, sem áður var látin ókeypis í té. En hvort menn vilja breyta til og láta flokka hafa beina styrki, það er mál, sem vissulega er til athugunar. Hitt fær aftur á móti ekki staðizt hjá hv. flm., þegar hann segir, að hjá flestum nágrannaþjóðum okkar sé nú búið að taka upp þann hátt, að formenn stjórnarandstöðuflokka séu launaðir sérstaklega, að því er mér skilst, á borð við ráðh. Þetta er að vísu tíðkað í Bretlandi. Ég hygg, að það sé einnig í Kanada um formenn stjórnarandstöðuflokka, þó einungis einn svokallaðan formann stjórnarandstöðunnar, en samkv. þeim gögnum, sem ég hef aflað mér, er þetta með öllu óþekkt t.d. á Norðurlöndum. Menn hafa ekki treyst sér til að taka þennan hátt upp þar, ekki einu sinni um formann stærsta stjórnarandstöðuflokksins, hvað þá um alla formenn stjórnarandstöðuflokka, eins og varð að skilja ummæli hv. þm., að þar væri tíðkað. Með þessu móti er ekki sagt, að eitthvað slíkt gæti ekki komið til greina hér. Ég vil ekki halda því fram. Það er að sjálfsögðu til athugunar, en það verða þá að vera önnur rök fyrir því en þau, sem hv. þm. færir, að þetta sé orðin almenn regla í þeim lýðræðislöndum, sem okkur eru skyldust og við tökum helzt okkur til fyrirmyndar.

Þá kem ég að því, sem skoðanir mínar og hv. þm. fara mest á mis og ég verð að telja, að þar sé komið að slíku meginvandamáli, — því að ég viðurkenni, að það er vandamál, — sem full ástæða er til að vekja athygli á og hv. þm. á vissulega þakkir skildar fyrir að hafa vakið athygli á, þó að ég sé honum algerlega ósammála um ályktunina. Hv. þm. telur, að þingmannsstarf sé nú orðið svo viðamikið, að bæði verði að miða þinghald við það og starfsskilyrði þm., að þingmennska sé í raun og veru einkastarf þess, sem á þing er kosinn. Ef þessi háttur væri upp tekinn, yrði sannarlega gerbreyting á aðstöðu þm. og aðstöðu Alþ. í íslenzku þjóðlífi. Það má vel vera, að ætíð hafi nokkur hópur þm. verið, sem hafi mjög stuðzt við þingmannslaun um sína afkomu. En þó hygg ég, að það hafi ætíð talizt til undantekninga og það er að vísu svo nú, að þingmannslaun eru orðin þannig, að menn geta dregið fram lífið á þeim launum. Það skal viðurkennt. En þá verður einnig að hafa í huga, að margfaldur kostnaður er þingmennsku samfara, sem þar kemur til frádráttar. En hv. þm. lætur sér þetta ekki nægja, heldur telur, að launakjör og starfsaðstaða þm. þurfi að breytast, svo að það verði meginregla, að þm. sinni ekki öðrum störfum, þ.e.a.s., þá á ekki að nægja að halda uppi hinu fasta embættiskerfi, stjórnarkerfinu, ríkisstj., heldur ættum við til viðbótar að fá 60 manna hóp, sem sæti hér á Alþ. og hefði yfirleitt ekki öðrum störfum að sinna. Ég hygg, að hvað sem líður kostnaðarhliðinni á þessu máli, — og stundum hafa menn þó talið hana ekki vera einskis virði og vitanlega yrði mjög að hækka laun þm. frá því, sem er, ef menn ættu að fást til þess að sitja hér á þingi og sinna ekki öðrum störfum, — en hvað sem kostnaðarhliðinni líður og ég álít, að hún sé aukaatriði, þá sé hér um mjög varhugaverða breytingu að ræða. Ég hygg, að það sé nánast sagt lífsskilyrði fyrir Alþ., að það sé í sem nánustum tengslum við hið almenna starfslíf í landinu, að það skapist ekki sérstök stétt stjórnmálamanna. Látum vera að tala um stétt stjórnmálamanna, þeirra, sem hafa atvinnu af að skrifa í blöð sem stjórnmálamenn, þeirra, sem starfa fyrir flokka, e.t.v. okkur hv. 1. þm. Austf., sem lengi höfum verið í ríkisstj., þó að við höfum sinnt öðrum störfum inn á milli, en ef til viðbótar slíkum undantekningum ætti að koma, að hér væri 60 manna hópur eða fast að því, sem fyrst og fremst stundaði stjórnmál sem sitt lífsuppihald og hefði sínar tekjur af því, þá mundi það verða til þess að veikja mjög Alþ. frá því, sem er, bæði í skoðun almennings og í möguleika þm. til þess að sinna sínum störfum. Nú vitum við að vísu, að það hefur verið mjög breytilegt, hvaða starfsstéttir hafa átt setu á Alþ. Í gamla daga voru það einkum bændur og prestar. Síðan hafa það orðið öðru hverju tiltölulega margir lögfræðingar, sem hafa setið á Alþ. Stundum hafa verið margir blaðamenn. Nú er talað um, að það séu margir bankastjórar. Þannig má telja upp ýmsa hópa, sem eftir því, sem tíðarandi hverju sinni hefur verið, hafa sérstaklega valizt til þessara starfa eða haft til þess þær ytri aðstæður, að þeir gætu sinnt þeim. En yfirleitt hefur það verið svo — og það er ekki neitt sjálfshrós um þm., það er bara viðurkenning á staðreynd, — að yfirleitt hafa þeir valizt til þingsetu, sem hafa í venjulegum borgaralegum störfum unnið sér álit og virðingu, þannig að menn hafa litið upp til þeirra vegna þess trausts, sem þeir hafa aflað sér utan þingsins og halda áfram að afla sér utan þingsins fyrir sín störf. Og ég hygg, að Alþ. megi ekki með nokkru móti vera án þessarar stöðu, að Alþ. mundi mjög veikjast og virðingu þess þá verulega stefnt í hættu, ef frá þessu væri horfið og menn yrðu hér einungis fastir starfsmenn. Þeir geta gert gagn með því að ferðast um landið, eins og hv. þm. gerir till. um, farið og talað við sína kjósendur og allt það. Ég efast ekkert um, að þeir geta að vissu leyti gert gagn, en þeir missa þá stöðu, sem þm. hingað til hafa haft og hefur verið ekki sízt uppistaðan í þeirri virðingu, sem hið háa Alþ., þrátt fyrir allt, hefur notið.

Við megum ekki kippa okkur upp við það, þó að um þessar mundir sé hnýtt í þingið. Það var gert fyrir endurreisn þess. Jónas Hallgrímsson, það ljúfa skáld, orti þá níðbrag um hið væntanlega þing. Margir fróðir menn hafa síðan — af ekki meiri þekkingu en Jónas Hallgrímsson þá — tekið undir skammir um þm. og það er ekkert nýtt, því að stjórnmálamenn eru almennt skammaðir. En það er annað mál, hvort menn skamma þm. fyrir það, að þeir standi sig ekki nógu vel eða menn geri enn þá hærri kröfur til þeirra, en þeir reynast menn til að fullnægja eða hvort við viljum vísvitandi kippa þm. úr tengslum við hið starfræna líf í landinu og gera þá í raun og sannleika að sérstakri stétt stjórnmálamanna, sem væri þá óneitanlega hlutfallslega mjög stór stétt miðað við það, sem hjá öðrum þjóðum gerist. Ég hygg, að þetta þurfi mjög að athugast og sé þess eðlis, að ekki megi taka til endurskoðunar starfshætti þingsins, nema menn hafi alveg gert sér grein fyrir og áttað sig á þessu: Vilja þeir stefna að þessari breytingu, eða vilja þeir stefna að því, sem ég tel, að eigi að stefna að, að menn geti verið á Alþ. og stundað, — þó að með nokkrum frátöfum sé, — venjuleg borgaraleg störf samfara sinni þingmennsku? Það getur verið, að slíkt eigi að leiða til þess, eins og hv. þm. segir, að þingtímanum eigi að dreifa í fleiri smærri tímabil eða það ætti að leiða til þess, að þingtímanum ætti að ýta saman og hann ætti að verða sem allra skemmstur, einmitt um hávetur, haust og fram á vor. Ég hygg sannast að segja, að öllu skaplegu, að ef menn koma sér saman um skynsamlega starfshætti, sé hægt að ná því, eins og hv. þm. segir, að menn væru e.t.v. ekki að fundarhöldum hér nema þrjá daga í viku, en þó væri hægt, með því að koma saman fyrst í okt., að öllu forfallalausu, að ljúka þingi seint í marz eða í byrjun apríl, ef menn kæmu sér saman um skipuleg vinnubrögð og tæku það upp, að þó að menn deili um málefni, sameinuðust þeir um, að málefnin þurfa afgreiðslu, þau þurfa framgang og það er engum til góðs að liggja lengi yfir því, sem ekki þarf langa athugun, ef menn vilja á annað borð afgreiða málið og það er enginn vinningur að því fyrir stjórnarandstöðu að halda uppi málþófi, þó í minna mæli sé en áður fyrri var, en í of ríkum mæli tíðkast í dag. Ég hygg, að ef menn einbeittu sér að slíkri endurskoðun á starfsháttum þingsins væri hægt að ná því, sem ég tel mikið keppikefli, að stytta þingtímann, þannig að hægt sé að búast við því, að athafnasamir menn, — einnig aðrir en þeir, sem á kafi eru í stjórnmálum, — gefi sig að þingmennsku.