27.11.1968
Sameinað þing: 15. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í D-deild Alþingistíðinda. (2963)

20. mál, starfshættir Alþingis

Flm. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð, því að mér er áhugamál, að málefnið komist til n., og ég ætla þess vegna ekki að ræða í einstökum atriðum það, sem hæstv. forsrh. sagði. Ég vil þakka honum fyrir undirtektir hans, því að þó að við værum ekki sammála um allt í þessu efni, þá heyri ég, að hann hefur áhuga fyrir því að endurskoða þessi mál og mér leikur grunur á, að í raun og veru beri minna á milli, en mætti ráða af síðari hluta ræðu hæstv. forsrh. En aðalatriðið er, að þessi mál séu tekin til skoðunar og það vona ég, að menn geti sameinazt um.

Ég vil ekki ræða einstök atriði, sem hann drap á, nema aðeins eitt og það var þetta, að það vakir ekki fyrir mér, að það þurfi að fara svo langt, að þingmennska verði algerlega fullt starf. En hinu vil ég halda fram, að þingtíminn í heild þurfi að verða eitthvað lengri, en hann er nú og sérstaklega, að það sé ekki mögulegt að hafa þingið í einni lotu, eins og ég hef lagt aðal áherzluna á og það þurfi að bæta kjör alþm. frá því, sem þau eru núna. Það má vera, að hæstv. forsrh. hafi eitthvað misskilið mig og ég hafi lagt það sterka áherzlu á þetta atriði, að það hafi valdið misskilningi. En það er þetta tvennt, sem ég legg aðal áherzluna á, að þingtímanum verði skipt niður í a.m.k. tvö tímabil og kjör þm. verði bætt. Þingfundir þurfi þá ekki að vera nándar nærri því daglega og menn geti haft samband við heimili sín utan höfuðborgarinnar og atvinnu sína ekkert síður en nú. Ég vildi aðeins benda á, að ég hygg, að í þessu atriði beri mikið minna á milli, en mætti ætla, af því sem sagt hefur verið fram að þessu og fer ég ekki lengra út í þetta að svo vöxnu.