18.12.1968
Sameinað þing: 24. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í D-deild Alþingistíðinda. (2982)

57. mál, störf unglinga á varðskipum

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil aðeins segja það, að ég þakka hæstv. dómsmrh. og hv. 10. þm. Reykv. fyrir góðar undirtektir við þá hugmynd, sem liggur til grundvallar þessari till. Ég vil taka fram, að fyrir mér hefur aldrei vakað, að vist þessara 30 pilta um borð í varðskipunum yrði til þess að draga í nokkru úr launum eða rýra kjör varðskipsáhafnanna. Því fer fjarri. Ég vil einnig í tilefni af því, sem hæstv. dómsmrh. sagði, taka það fram, að ég hef alveg fyllilega gert mér ljóst, að af samþykkt þessarar till. og framkvæmd hennar hlýtur að leiða nokkurn kostnað. Uppihald unglinganna um borð í skipinu og nokkur launagreiðsla til þeirra hefur í för með sér útgjöld. En ég tel það hins vegar nokkuð þýðingarmikið atriði, að þeim yrðu greidd nokkur laun, þó að einhver kunni að líta þannig á, að þarna sé um að ræða einhvers konar þegnskylduvinnu. Það er ekki fyrst og fremst það, sem fyrir mér vakir, heldur hitt, að unglingarnir kynnist hinum þýðingarmiklu störfum, sem Landhelgisgæzlan vinnur og hennar starfsmenn, að þeir kynnist sjónum og komist þar með í nánari snertingu við mjög mikilvægan þátt í íslenzku athafna- -og þjóðlífi.

Ég hef ekkert á móti því að sjálfsögðu, að sem nákvæmust athugun og undirbúningur fari fram undir samþykkt till. og mér finnst sjálfsagt, að það sé leitað álits forstjóra Landhelgisgæzlunnar og fleiri aðila í því sambandi. T.d. fyndist mér eðlilegt, að haft yrði samband við Slysavarnafélag Íslands, sem þetta mál snertir og sjómannasamtökin, eins og hv. 10. þm. Reykv. minntist á. Að öðru leyti vil ég segja, að hér er um ósköp einfalt mál að ræða og ákaflega auðvelt að koma þessu í framkvæmd eftir því, sem forstjóri Landhelgisgæzlunnar hefur sagt mér. Og raunar hefur það verið þannig, að á undanförnum árum hafa fáeinir piltar verið um borð í stöku varðskipi.

Hv. 10. þm. Reykv. minntist á skólaskip, sem er gömul og merkileg hugmynd, sem margsinnis hefur verið rædd hér á Alþ. En þessi hugmynd hefur aldrei verið framkvæmd í raun og veru. Reykjavíkurbær hefur að vísu haft merkilega forustu um sjóvinnunámskeið og útgerð á skipi í nokkrar vikur, sem unglingum hefur verið gefinn kostur á að vera um borð í og læra nokkuð til vinnubragða. Það er mjög virðingarverð tilraun og — ég játa — fyrsta stigið að stofnun og starfrækslu skólaskips, sem ég er sannfærður um, að í framtíðinni verður rekið í þessu landi, sem svo mikið á undir sjómennsku, farmennsku og útgerð komið. En aðalatriðið er, að þessi hugmynd fái byr undir vængi og sem fyrst verði hafizt handa um framkvæmd hennar og ég treysti bæði Landhelgisgæzlunni og hæstv. dómsmrh. sem yfirmanni hennar til þess að sjá um, að svo verði.