26.03.1969
Sameinað þing: 37. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í D-deild Alþingistíðinda. (2984)

57. mál, störf unglinga á varðskipum

Frsm. (Ásgeir Pétursson):

Herra forseti. Það er fámennt og góðmennt í salnum eftir að við misstum margar af þessum ágætu hjúkrunarkonum, sem hér voru áðan, en engu að síður er rétt að koma að máli, sem varðar ungmenni, en það er mál, sem allshn. Sþ. hefur fjallað um og hv. 2. þm. Vestf. flutti. Það er um störf ungmenna á varðskipum. N. var sammála um að mæla með því, að till. yrði samþ. Í till. gerir flm. ráð fyrir því, að ríkisstj. verði heimilað að veita allt að 30 ungmennum færi á því að starfa á varðskipum ríkisins um þriggja mánaða skeið á hverju sumri. N. leitaði umsagnar Landhelgisgæzlunnar um málið og í svari hennar er málinu vel tekið, en greint frá því, að kostnaður við framkvæmdina muni nema um 1 millj. kr. Nm. líta svo á, að það sé unnt að þreifa sig áfram um þessa framkvæmd, þannig að það væri ekki nauðsynlegt að ráða þegar í stað frá öndverðu 30 manns í slíka þjónustu, heldur mætti vel hugsa sér, að það yrði byrjað með eitthvað færri ungmennum og síðan að sjálfsögðu reynt að byggja á þeirri reynslu, sem þannig fengist.

Þá kom fram í n. sú skoðun, að æskilegt væri að kanna, hvort ekki væri hægt að veita ungmennum sambærilega fyrirgreiðslu á öðrum sviðum atvinnulífs okkar, t.d. að veita ungmennum færi á því að þjálfa sig í ýmsum störfum á fiski- og kaupskipaflota landsmanna eða við iðju og iðnað eða landbúnað og að sjálfsögðu koma þá fleiri svið athafnalífs okkar til íhugunar.

Það eru gamalkunn sannindi, að reynslan er bezti skólinn, og þáltill. hv. 2. þm. Vestf. stefnir sýnilega að því að fylgja þroska og þekkingarstarfi fræðsluskyldunnar eftir með því að gefa ungmennum færi á því að leggja hönd á plóginn og kynnast einum af höfuðatvinnuvegum landsmanna af eigin raun. Þar á ég við sjómennskuna. Við störf á sjó læra þau að starfa undir stjórn hæfra manna og það má sjálfsagt gera ráð fyrir því með sannindum, að forsenda þess, að menn læri að stjórna öðrum, sé einmitt fólgin í því að kunna að vinna skipulega undir stjórn reyndra manna og þá er sennilega öllum hollt að kynnast nokkrum aga, ekki sízt ungmennunum, sem búa sig undir lífsstörf. Persónulega finnst mér aðalatriði þessa máls að veita piltunum færi á auknum þroska án tillits til þess, hvaða störf þeir hyggjast leggja fyrir sig síðar. Með öðrum orðum, að hér sé ekki beinlínis stefnt að því að þjálfa starfsmenn fyrir Landhelgisgæzluna, þó að vísu megi gera ráð fyrir því, að margir piltanna muni kjósa þau störf síðar meir á lífsleiðinni, heldur hitt að veita ungmennunum færi á því að kynnast mikilvægum þáttum atvinnuhátta okkar af eigin raun.

Ég leyfi mér þess vegna, herra forseti, fyrir hönd n. að leggja til, að þáltill. verði samþ.