18.03.1969
Neðri deild: 66. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í D-deild Alþingistíðinda. (3003)

158. mál, aðstoð við fiskiskip sem stunda veiðar við Grænland

Flm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 4. þm. Vestf. að flytja þáltill. á þskj. 307 um undirbúning og aðstoð við fiskiskip, sem stunda veiðar við Grænland. Í grg. með till. er getið um tilraunir, sem gerðar hafa verið s.l. 2 ár. Í þessari grg. er að vísu ekki getið um fyrri leiðangra, sem farnir hafa verið á Grænlandsmið og að sjálfsögðu er öllum kunnugt um, að togarar okkar hafa um langt árabil nýtt miðin bæði við austur– og vesturströnd Grænlands og fengið þar góðan afla. En hafandi í huga, hver útkoman varð af síldveiðunum á s.l. ári, hafandi það ennfremur í huga, að allt útlit er fyrir, að mögulegt sé fyrir okkur að stórauka sölu á frosnum fiski til Bandaríkjanna og hafandi það einnig í huga, að skipafloti okkar, fiskiskipastóllinn, hefur breytzt og stækkað svo á undanförnum árum, að sókn á þessi mið er allt önnur en var með flota okkar fyrir nokkrum árum, 10—20 árum, virðist ekki aðeins vera nauðsynlegt, heldur sjálfsagt að kanna, hvort ekki megi ýta undir og aðstoða útgerðarmenn okkar í því að stunda þessar veiðar.

Þær tilraunir, sem gerðar voru í fyrra og hitteðfyrra, virðast sýna, að þarna sé grundvöllur fyrir starfrækslu nokkurs hluta fiskiskipaflotans og öll líkindi eru á, að geti gefið mjög góða raun, ef ytri aðstæður, svo sem hafís, hamla ekki veiðum á þessum miðum. Við bendum einnig á það í grg., að auðvitað sé ákaflega þýðingarmikið vegna okkar atvinnuástands, að af þessum veiðum gæti orðið. Það er enginn vafi á því, að bæði þessi skip og hugsanlega sérstök flutningaskip geta flutt þennan fisk ísaðan til hafna hér á landi, a.m.k. þeirra hafna, sem eru á vesturströnd landsins og allir geta þá séð, hve mikil atvinnuupplyfting gæti orðið af þessu á þessum stöðum eftir að vetrarvertíð lýkur og fram á haust.

Í grg. bendum við á nokkur atriði, sem við viljum, að verði athuguð og könnuð. Við bendum m.a. á þá reynslu, sem þegar er fengin í þessu máli, og það er enginn vafi á því, að þeir, sem sendu skip sín, ekki aðeins í fyrra, heldur einnig í hitteðfyrra, búa yfir reynslu, sem sjálfsagt virðist að reyna að virkja þannig, að öðrum geti orðið til góðs. Og virðist sjálfsagt, ef þessi till. verður samþ., að leita einmitt fyrst og fremst til þeirra.

Ég þykist ekki þurfa að hafa fleiri orð um till. Málið er skýrt í grg. og þar eru tekin fram ýmis atriði, sem bent er á, að athuga þurfi. Það má kannske bæta við, að það gæti og verður sjálfsagt verkefni þeirra, sem málið verður falið, að það getur jafnvel verið sjálfsagt að kosta til þess að annaðhvort eitt af væntanlegum veiðiskipum verði styrkt til þess að hafa fiskileit með höndum eða sérstakt skip verði sent til þess. Það er enginn vafi á því, að ef um einhvern flota að marki væri að ræða á þessum miðum, gæti verið mikil hagkvæmni i því, að allur flotinn væri ekki að endaskellast um þessi stóru og miklu mið, heldur væri einu skipi eða jafnvel fleirum falið að stunda þessa leit.

Ég vil leyfa mér að leggja til, að umr. verði frestað og till. vísað til sjútvn. hv. deildar.