22.04.1969
Neðri deild: 80. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í D-deild Alþingistíðinda. (3006)

158. mál, aðstoð við fiskiskip sem stunda veiðar við Grænland

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur á þskj. 485, mælir sjútvn. hv. deildar með samþ. þeirrar till. til þingsályktunar, sem er á þingskjali 307, með þeirri breyt. einni, að fyrirsögn orðist þannig: „Till. til þingsályktunar um aðstoð við fiskiskip, sem stunda veiðar við Grænland.“ Eins og kemur fram í þáltill. og í grg. með henni, hefur síðustu tvö ár farið í vöxt, að fiskibátar hafa stundað veiðar að vori til á Grænlandsmiðum. S.l. sumar munu 15–20 skip hafa stundað þessar veiðar. Það má öllum vera ljóst, að eins og hagar til í útgerð okkar nú orðið, þá er það mikilvægt, að flotinn dreifist þannig, að það stundi ekki allur skipastóll okkar sams konar veiðar á sömu miðum. Síldin hefur brugðizt, svo sem mönnum er kunnugt, undanfarin ár og nú orðið er það þannig, að stór hluti bátaflotans, sem áður gat með nokkuð góðum árangri stundað síldveiðar við Norður– og Austurland, getur ekki lengur sótt á þau mið, þar sem síldin hefur haldið sig undanfarin 2 ár. Þangað leita einungis stærstu skipin. Mörg skip af stærðinni frá 70 og upp í 250 tonn mundu þannig hafa lítil verkefni, eftir að vetrarvertíð lýkur, ef ekki væri m.a. sá möguleiki að stunda veiðar við Grænland á vorin og fram eftir sumri. Það er ekki eins langt á þau mið og á síldarmiðin norður í hafi, en samt sem áður er það svo, að þetta verða að teljast fjarlæg mið við okkar aðstæður. Það er nauðsynlegt, að þau skip, sem þangað sækja, fái ýmsa aðstoð, m.a. glöggar upplýsingar um veður, ís og fiskileit. Það er m.a. þetta, sem fyrir flm. þáltill. vakir, að gert sé. Sömuleiðis, að þeim flota, sem kann að safnast á þessi mið, sé séð fyrir ýmiss konar fyrirgreiðslu annarri, svo sem sjúkraflutningum eða læknishjálp eftir atvikum og viðgerðarþjónustu eftir því, sem við verður komið.

Það fer að sjálfsögðu eftir því, hvernig veiðin er hér á heimamiðum og hvað hún helzt lengi fram eftir vori, hvenær á þessum veiðum er byrjað. Það fer líka eftir því, hvernig ísinn hagar sér á miðunum og það er mjög mikilvægt allt, sem hægt er að gera til þess að greiða fyrir þessari útgerð með upplýsingaþjónustu um þessi atriði. Einnig þarf að athuga, á hvaða hátt á að reikna aflaverðmæti þeirra skipa, sem þessar veiðar stunda, ef til þess kemur, að þau þyrftu að leita til Aflatryggingasjóðs um bætur. Sjútvn. er sammála flm. till. um, að allt þetta þurfi nánari athugunar við og mælir þess vegna með tillgr. óbreyttri.

Ég skal geta þess, að ég spurðist fyrir um það hjá Fiskifélagi Íslands í gær, hvort þar lægi fyrir yfirlit um þessar veiðar frá árinu í fyrra og hitteðfyrra, en svo er ekki. Fiskifélagið hefur ekki og gat ekki gefið mér upplýsingar um tölu skipanna, sem höfðu stundað þessar veiðar og heldur ekki, hvað mikinn afla þau höfðu fengið, en það er augljóst, — það vita menn af fréttum — að skipin, sem þarna voru, bæði í fyrra og hitteðfyrra, fengu oft mjög góðan afla og í 1. hefti Ægis frá 1968 er sagt frá árangrinum af fyrstu ferðunum, sem línuveiðarinn Þrymur BA 7 fór til A.–Grænlands vorið 1967. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég hef nú haldið, að maður hafi stundum séð fisk á mælunum, þegar verið var að leggja ofan í lóðningar á Breiðafirðinum í aflahrotu, en það er aðeins brot af þeim feikna dyngjum, sem fram komu á mælinum hjá mér í síðustu veiðiferð.“

Þannig fórust skipstjóranum á m.b. Þrym BA 7, frá Patreksfirði orð, er hann kom úr einni veiðiferðinni af línuveiðum við A.–Grænland s.l. vor.

„Hinn 29. apríl s.l. lagði mótorbáturinn Þrymur BA 7 úr höfn frá Patreksfirði til veiða með netum við A.–Grænland, en lítill árangur varð af þeirri veiðiferð og var þá ákveðið að reyna línuveiðar. Hinn 10. maí er svo haldið af stað frá Patreksfirði í fyrstu veiðiferðina með línu við A.–Grænland, og hinn 16. júní, að lokinni 3. veiðiferðinni, var aflinn um 180 tonn af slægðum fiski með haus. Eftir fyrstu veiðiferð mótorbátsins Þryms var ákveðið að senda mótorbátinn Þorra ÞH 10 og lagði hann upp í fyrri veiðiferð sína frá Patreksfirði þ. 20. maí og var aflinn, að lokinni veiðiferð, sem lauk 31. júní, um 130 tonn slægður fiskur með haus.

Þó að aflinn á línuveiðum væri góður, þá var heildarúthaldstíminn of stuttur, ýmsir byrjunarörðugleikar og ókunnugleiki á veiðisvæðinu það mikill að rekstrarafkoma af þessum veiðitilraunum var í heild léleg. Aftur á móti hefur fengizt allgóð reynsla og þekking á öllum aðstæðum þarna og talið er öruggt, að hefja megi veiðar við A.–Grænland um miðjan apríl og stunda þær fram eftir öllu sumri, jafnvel fram að síldveiðum, miðað við að síldin komi á miðin hér við land í ágúst og væri þá viðunandi verkefni fundið fyrir stærri bátana allt árið.“

Þannig segir í 1. hefti Ægis 1968 frá veiðitilraununum 1967, en eins og ég sagði áðan, þá liggur því miður ekki fyrir yfirlit um veiðina á s.l. ári, en þá voru miklu fleiri bátar gerðir út á Grænlandsmið, en árið áður og var afli þeirra, a.m.k. á köflum, mjög góður. Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar, en ég vænti þess, að þáltill. fái góðar undirtektir í hv. deild, eins og hún hefur fengið í sjútvn. deildarinnar.