27.02.1969
Neðri deild: 57. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í D-deild Alþingistíðinda. (3011)

147. mál, athugun á auknum siglingum

Flm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér á þskj. 274 till. til þál. um athugun á auknum siglingum. Till. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Neðri deild Alþingis ályktar að skora á ríkisstj. að skipa þriggja eða fimm manna nefnd til athugunar á, hvort mögulegt sé og hagkvæmt fyrir Íslendinga að koma sér upp auknum skipastól til vöruflutninga milli erlendra hafna til atvinnuaukningar og gjaldeyrisöflunar. Ef svo telst, skal n. athuga sérstaklega, eftir hvaða leiðum því yrði helzt við komið og þá einnig, hvaða stærð skipa væri talin arðvænlegust og bezt henta.“

Eins og öllim hv. alþm. er kunnugt, hefur gjaldeyrisöflun þjóðarinnar á undanförnum árum og allt frá fyrstu að segja má byggzt nær eingöngu á útflutningi sjávarafurða. Er talið, að útflutningur sjávarafurða nemi milli 90—95% af útflutningi landsins. Það sem oft hefur valdið nokkrum erfiðleikum í sambandi við þá aðstöðu, sem Íslendingar eru í, að byggja gjaldeyrisöflun sína nær eingöngu á einum atvinnuvegi, eru þær sveiflur, sem oft og alltaf verða öðru hverju í aflabrögðum og verðlagi sjávarafurða á erlendum mörkuðum. Ég hygg, að það efnahagsfrv., sem fram var sett árið 1960 og þær ráðstafanir, sem þá voru gerðar, hefðu orðið til þess að skapa nokkurt jafnvægi í efnahagsmálum þjóðarinnar, ef ekki hefðu komið til sveiflur, fyrst upp á við og síðan aftur niður á við, í sambandi við minnkandi afla og verðfall sjávarafurða á erlendum markaði. Meðan sveiflan gekk upp á við, meðan aflaaukning átti sér stað og verð á erlendum markaði hækkaði á sjávarafurðum, var þetta að sjálfsögðu minni vandi við að ráða, því að þá fór fram skipting aukinna þjóðartekna í nokkuð eðlilegu hlutfalli á milli atvinnuveganna og launþega annars vegar. Þegar það aftur átti sér stað á miðju ári 1966, að verðfall varð á erlendum mörkuðum á sjávarafurðum, sem hélzt út allt það ár og árið 1967 og mestan hluta ársins 1968, þá skapaðist auðvitað verulegur vandi, því að þá var um minni þjóðartekjur að ræða, en áður hafði verið og erfiðara fram úr því að komast og hafði víssulega mjög truflandi áhrif á efnahagslíf þjóðarinnar í heild, sem leiddi til þess, eins og kunnugt er, að gengi íslenzku krónunnar var breytt, til þess að sjávarútvegur og fiskiðnaður gætu haldið áfram með nokkuð eðlilegum hætti.

Þegar litið er á, að Íslendingar hafa á undanförnum áratugum verið að byggja það upp, sem kallað er nútíma þjóðfélag og sambærilegt því, sem þekkist annars staðar meðal nágrannaþjóða okkar og sennilega mun betra að sumu leyti en annars staðar þekkist, segir það sig sjálft, að óhjákvæmilegt mun reynast að renna fleiri stoðum undir þjóðartekjur og gjaldeyrisöflun en nú er, enda hefur verið að því stefnt og má benda á aðgerðir stjórnvalda og Alþ. í því sambandi, bæði virkjun Þjórsár við Búrfell og í framhaldi af því, álbræðsluna í Straumsvík, sem gert er ráð fyrir, að auki þjóðartekjur, veiti nokkurt atvinnuöryggi og auki einnig gjaldeyristekjurnar. Þá má einnig benda á í þessu sambandi þá athugun, sem fram fer á því, hvort hagkvæmt muni reynast að stofna til stórfellds efnaiðnaðar, er byggðist á jarðefnum og gufuorku á Reykjanesskaga og einnig hugmyndina um olíuhreinsunarstöð.

Ég tel, að sú till., sem hér liggur fyrir, stefni í þá átt, að athugað verði, hvort Íslendingar hafi möguleika á því og það sé þeim hagkvæmt til atvinnuaukningar og gjaldeyrisöflunar að koma hér á auknum siglingum eða koma á auknum siglingum milli erlendra hafna. Það er vitað, að aðrar þjóðir og þjóðir okkur náskyldar, eins og t.d. Norðmenn, hafa um langan aldur byggt nokkurn og ég vildi segja verulegan hluta af gjaldeyrisöflun sinni á þessari leið. Ég ætla að sjálfsögðu ekki að fara að nefna nokkrar tölur í þessu sambandi, því að ég hygg, að það sé um það háar tölur að ræða hjá þeim í sambandi við siglingar á erlendum vettvangi, að það mundi ekki gefa rétta mynd af þeirri hugmynd, sem a.m.k. ég er með í huga í sambandi við auknar siglingar okkar. En hitt er staðreynd, sem alkunn er, að þetta er leið hjá mörgum öðrum þjóðum til þess að afla sér aukins gjaldeyris og til þess að byggja upp, að talið er, nokkuð öruggan atvinnuveg.

Íslendingar hafa frá fyrstu tíð, frá því að land var numið, verið siglingamenn og taldir sjófarendur góðir og hygg ég, að svo megi segja um íslenzka sjómenn enn í dag, að þeir mundu vissulega verða til þess hæfir að taka að sér það verksvið, sem þessi till. gerir ráð fyrir. Íslendingar hafa á öðrum vettvangi getið sér nokkurn orðstír, en það er í sambandi við það átak, sem forsvarsmenn og framámenn Loftleiða h.f. hafa unnið á undanförnum árum. Íslendingar eru á þeim vettvangi — í loftsiglingum — orðnir nokkuð hlutgengir meðal annarra þjóða og hafa þeir vissulega sýnt þar lofsvert framtak, sem hefur orðið til þess að auka hróður Íslands meðal annarra þjóða og hygg ég, að einmitt þetta atriði sé mjög sterk ábending um það, að Íslendingar gætu einnig með siglingum farskipa staðið sig og verið samkeppnis færir við aðrar þjóðir. Ég tel ekki nokkra ástæðu til að ætla annað en svo mætti verða og við eigum vissulega dugandi sjómannastétt til þess að ráða við þann atvinnuveg ekki síður, en Íslendingar hafa sýnt á undanförnum áratugum, að þeir standa öðrum þjóðum ekki að baki í sambandi við fiskveiðar, nema síður sé, þar sem sú staðreynd mun liggja fyrir, að afli á hvern sjómann hér á landi er mun meiri en annars staðar þekkist og — að ég hygg — einna hæstur að því er vitað er um nokkurs staðar hjá öðrum þjóðum.

Þá kemur spurningin um það, sem eðlilegt er, að fram komi, hvaða rekstrarfyrirkomulag ætti að viðhafa við slíkan atvinnuveg, eins og hér er gert ráð fyrir. Ég tel, að þar komi til greina fleiri en ein leið. Það er vitað, að Íslendingar eiga nú þegar nokkurn skipastól til vöruflutninga og á ég þar aðallega við Eimskipafélag Íslands, sem er orðið gamalt félag og ætti vissulega að hafa bæði reynslu og þekkingu á þessu sviði. Ég tel, að einnig kæmi mjög til greina stofnun almenningshlutafélags í sambandi við þetta mál. Þegar Eimskipafélag Íslands var stofnað á sínum tíma má segja, að það hafi verið stofnað eftir þeirri hugmynd, sem menn hafa nú um almenningshlutafélag, þar sem hlutafjár var leitað um land allt og þátttaka í stofnun þess mjög almenn, ekki einasta hér í Reykjavík, heldur víða og víðast um land. Sú leið hefur vissulega gefið góða raun. Eimskipafélag Íslands hefur frá fyrstu tíð verið traust og mjög gott fyrirtæki og hygg ég, að svo geti enn farið. Ef ráðizt yrði í stofnun hlutafélags á þeim grundvelli um rekstur skipastóls til vöruflutninga milli erlendra hafna eða flutninga á erlendum vettvangi eins og benda má á, að Loftleiðir byggja sinn rekstur nú orðið á, þar sem þeir annast flutninga að langmestu leyti á erlendum farþegum þjóða og heimsálfa á milli, þá koma að sjálfsögðu einnig til greina einkaaðilar, í hvaða formi, sem það yrði, hvort það yrði um þrengri hlutafélög að ræða eða einstaklinga, sem fjármagn kynnu að hafa og vildu leggja í slíkan atvinnuveg eða fjármagn gætu útvegað til skipakaupa. En ef þetta ætti að vera í nokkrum verulegum mæli, er það fyrir fram vitað, að það útheimtir verulegt fjármagn og spurningin er þá, hvort Íslendingum er kleift að fjármagna slíkt fyrirtæki og þá einnig, eftir hvaða leiðum það yrði gert. Ég hygg, að hér sé um það stórfellt eða mundi verða um það stórfellt fyrirtæki að ræða, ef talið væri hagkvæmt að ráðast í það, að stjórnvöld og Alþ. yrðu þar að koma til greina í sambandi við útvegun fjármagns, lántökur erlendis og einnig í sambandi við ríkisábyrgðir. Ég hygg, að þetta sé stærra mál en svo, að einstaklingar eða samtök einstaklinga mundu við það ráða, nema til kæmi verulegur stuðningur ríkisvaldsins bæði í sambandi við útvegun fjár og eins í sambandi við nauðsynlegar ábyrgðir.

Ég skal nú ekki og tel ekki þörf á að hafa um þetta lengri framsögu. Till. fylgir allýtarleg grg., en ég tel, að þetta mál sé mjög þess virði, að það sé athugað mjög gaumgæfilega, hvort það gæti talizt hagkvæmt fyrir Íslendinga að stofna til slíks atvinnurekstrar sem hér er lagt til, að gert verði. Ég undirstrika það, sem ég hef áður sagt, að fyrir liggur óvefengjanlega, að hjá öðrum þjóðum — þarf ekki stórar þjóðir til — hefur þessi atvinnugrein þróazt nokkuð og verulega hjá sumum þeirra á undanförnum árum og er orðin snar þáttur í atvinnulífi þeirra og gjaldeyrisöflun. Ég sé ekkert, sem mælir því mót, að þetta geti eins orðið hjá okkur Íslendingum, ef við á annað borð teljum okkur ráða við það fjárhagslega að koma upp nægilega stórum skipastól, til þess að þessi atvinnuvegur gæti haft veruleg áhrif eða einhver áhrif á atvinnulíf hér á landi og gjaldeyrisöflun.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að umr. um málið verði frestað og till. vísað til hv. fjhn.