26.02.1969
Sameinað þing: 33. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í D-deild Alþingistíðinda. (3019)

101. mál, rannsóknir á málmvinnslu á Austurlandi

Flm. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Samkvæmt landnámssögu okkar hófst byggð í þessu landi á þann veg, að landnemarnir settust að um allt land frá strönd til dala. Þeim var þá strax ljóst, að undirstaða búsetu í landinu voru náttúrugæði þess og þau varð að nýta. Það varð ekki gert og verður ekki gert, nema með búsetu um allt land. Í þær tæpar 11 aldir, sem liðnar eru frá upphafi Íslandsbyggðar, hefur íslenzk þjóð lifað í landi sínu með búsetu um það allt. Landið frá strönd til dala, fyrir sunnan og norðan, austan og vestan, hefur með kostum sínum og göllum gert Íslendinga að þjóð. Það er þessi íslenzka þjóð, sem við teljumst til, sem við erum að leitast við að vinna fyrir. Við kennum þess með klökku stolti að vera Íslendingar. Og það er sú kennd, sem knýr á mig að verja kröftum mínum á þann veg, að aldrei rofni tengsl þjóðar við landið allt. Því er það mikilvægt, að eftir því, sem hlutur iðnaðar vex í atvinnumálum þjóðarinnar, sé fyrst og fremst leitazt við að hagnýta þær verðmætalindir, sem finnast kunna í fórum landsins. Og til þess að treysta búsetuna sem jafnast um landið þarf ekki sízt, eins og nú stendur á, að gefa gaum að verðmætum, sem finnast kunna í hinum fábyggðari hlutum landsins, eins og t.d. austanlands og þeim möguleikum, sem eru til iðnaðarframleiðslu þar.

Þessi þáltill., sem ég hef flutt á þskj. 127, er fram borin á grundvelli þeirrar þjóðfélagshugsunar, sem ég hef hér lýst. Þær rannsóknir, sem bent er á í fyrri hluta till., eru um jarðefni, sem frumrannsóknir hafa bent til, að gefa ætti gaum.

Um alllangt skeið hafa farið fram rannsóknir á biksteini í Loðmundarfirði. Þetta mál var rætt hér fyrir fáum dögum, þegar hæstv. iðnrh varaði fyrirspurn frá mér um þetta efni og hann lýsti því þá yfir, að rannsóknum yrði haldið áfram á þeim verðmætum, sem þarna væri væntanlega um að ræða. Og því er heldur ekki að leyna, að biksteinninn í Loðmundarfirði er mjög mikilvægt mál, fyrst og fremst fyrir Austurland, en einnig fyrir þjóðina alla mætti hann verða að verðmæti, sem við gætum flutt úr landi.

Rannsóknir á koparmagni í Svínhólalandi í Lóni hafa nokkrar farið fram nú þegar og samkvæmt upplýsingum, sem Þorleifur Einarsson jarðfræðingur hefur gefið, hefur fundizt koparmagn í einstökum sýnishornum, sem hann telur, að sé tvöfalt meira, en talið er þurfa til þess að vinnsla borgi sig, þ.e.a.s. ef slíkt kopargrýti hefði nægilega útbreiðslu. Þar liggur næsta verkefnið í rannsóknum á þessari koparnámu — að kanna útbreiðslu efnisins. Alþ. hefur nú þegar — við afgreiðslu fjárl. fyrir jólin — samþ. nokkra fjárveitingu í þessu skyni og það liggur fyrir, að fjárhagsaðstoð fæst erlendis frá til þess að vinna að þessari rannsókn. Kopar er mjög verðmætur málmur og má binda miklar vonir við þessi verðmæti í Lóni, ef útbreiðslan er nægileg. Það má einnig vera, að fleiri málmar kunni þar að finnast. Og ég vil minna hér á, að Einar frá Hvalnesi trúir á gullið í Hvalneslandi. Og hver veit, hvað kemur í ljós? Við könnumst við, að trúin flytji fjöll og margt gott mætti leiða af hetjuskap og bjartsýni Einars frá Hvalnesi.

Í þáltill. er bent á rannsóknarefni, þar sem er járnmagn í söndunum við Héraðsflóa og Hornafjarðarfljót. Eðlilegt er, að spurt sé, á hvaða röksemdum séu byggðar till. um slíkar rannsóknir og vil ég þess vegna gera því máli nokkru nánari skil. Ég vil þá fyrst minna á, að þegar Jón Jónsson á Hvanná var alþm. fyrir N.-Múlas., kom hann í gegn löggjöf um einkaleyfi til járnvinnslu á Héraðssöndum. Þessi l. eru nr. 70 frá 3. nóv. 1915: „Um heimild til að veita einkarétt til að hagnýta járnsand.“ 1. gr. fyrri málsgr. hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Ráðherra heimilast að veita Magnúsi yfirdómslögmanni Gíslasyni á Fáskrúðsfirði og Þórarni Böðvari Guðmundssyni á Seyðisfirði einkarétt um 50 ár til að hagnýta sér á hvern þann hátt, er þeim sýnist, járnsand („vulkaniksand“) fyrir innan landhelgislínu á Héraðsflóa, þó ekki nær landi, en 60 faðma fyrir utan lægsta fjöruborð.“

Á 25. fundi Nd., 5. ágúst 1915, var útbýtt frv. um heimild til að hagnýta járnsand, fyrst og fremst við Héraðsflóa. Þetta frv. kom til 1. umr. í Nd. laugardaginn 7. ágúst. Flm. var Jón Jónsson á Hvanná, eins og áður segir og fleiri alþm. Í þeirri framsöguræðu, sem hann flutti, komu fram ýmsar upplýsingar. Sumarið áður 1914, hafði verið enskur maður, Lambert að nafni, á ferð um Fljótsdalshérað í leit að járnsandi, og fann hann járn í sandi við Jökulsá, sem hann taldi vera allálitlegan. Það hafði verið athugað um eignarhald á landi með hafnargerð við Unaós fyrir augum, jafnvel leigu á hálfum Lagarfossi til aflstöðvar. Enskt félag hugðist vinna sandinn og hagnýta og talið var, að hraða þyrfti málinu. Þá varð að ráði að veita tveim Íslendingum — eða gerð till. um það — að veita tveim Íslendingum einkaleyfið og stofnfé þessa félags átti að vera 3 millj. sterlingspunda. Sandinn átti að soga upp úr sævarbotni með dælum, en þetta enska „firma“ var þá hið eina, er hagnýtti sand á þennan hátt. Upplýsingar um þetta enska félag var talið, að hægt yrði að fá hjá Bank of London og Bank of England og fyrirhugaðar framkvæmdir voru miðaðar við Héraðsflóa og áformað að flytja út 1 millj. lesta af sandi. Sýnishorn af sandinum, sem hafði verið rannsakað af Ásgeiri Torfasyni efnafræðingi, sýndi sig að hafa að innihaldi 13.8% járn. Það var tekið á landi, en talið líklegt að mundi vera dálítið meira í sandinum, sem var í sjó. Þetta mál fékk ekki hlýlegar móttökur hjá öllum, en var þrátt fyrir það lögfest.

Ég hef rakið þetta hérna og vil minna á þetta, vegna þess að mér finnst, að þarna komi fram skemmtileg og lofsverð framsýni hjá Jóni á Hvanná og kjarkur og manndómur.

Í bókinni Náttúra Íslands, sem gefin var út af Almenna bókafélaginu fyrir nokkrum árum, er m.a. ritgerð eftir Tómas heitinn Tryggvason jarðfræðing um járnvinnslu hér og líkur á járnnámi. Hann segir þar, með leyfi hæstv. forseta: „Sums staðar við strendur landsins er fjörusandurinn nokkru ríkari af járni heldur en annað berg. Gerðar hafa verið tilraunir til þess að vinna járnið úr sandinum, en ekki hafa þær heldur borið svo góðan árangur, að unnt sé að binda við þær vonir um íslenzka járnvinnslu á nýjan leik.“

Þannig komst hann þar að orði, en áður hafði hann rætt nokkuð um hina fornu járnvinnslu, rauðablásturinn. Segja má, að þetta sé ekki til þess að glæða vonir um, að hægt verði að hefja járnvinnslu, en þessu hefur verið haldið vakandi og nú fyrir skömmu síðan hefur verið safnað sýnishornum af Héraðssöndum af áhugamanni og send bandarísku stálfirma, „United States Steel“, til rannsóknar. Þessi sýnishorn voru tekin á tvennan hátt. Annars vegar upp og ofan sandurinn og hins vegar var tekið aðeins það, sem segulstál dró til sín, — það, sem tolldi við það. Við efnarannsókn á sandinum kom í ljós, að sýnishornin, sem tekin voru upp og ofan, innihéldu um 8–11% járn, en sýnishornin, sem voru tekin með segulstáli, innihéldu hins vegar frá 22–30%. En í sýnishornunum reyndist einnig vera mikið af öðrum málmi, þ.e. títan, allt upp í 8% og niður í 1–2%. En það er talið, að mikið magn af títan torveldi mjög vinnslu járnsins, en það er þó rétt að benda á, að títan er einnig mjög verðmætur málmur.

Fleira kann að koma til, sem rannsaka ætti og mætti verða til eflingar atvinnulífi á Austurlandi. Ég vil benda á skeljasandinn, sem mun vera víða við Austurland, t.d. við Djúpavog. Á nesinu austur af þorpinu er svonefndi Hvítisandur, en það er hreinn skeljasandur, sem aldan skolar þar í flæðarmál og hægt er að moka upp á þurru á fjöru. Einn af ráðunautum Búnaðarsambands Austurlands tók t.d. í nokkra poka þar s.l. sumar í því skyni að prófa hann til jarðvegsbóta, en e.t.v. er hann helzt til grófur óbreyttur. Það þarf að kanna magn skeljasandsins fyrir austan, því að ýmislegt kemur til greina með nýtingu hans, m.a. til jarðvegsbóta, þar sem það ætti við og enn fremur kynni að mega nota hann fínmalaðan sem kalkgjafa í steinefnablöndu handa búfé. Björn Jóhannesson jarðvegsfræðingur, sem nú starfar í Ameríku, var á ferð hér heima um jólin og hélt því fram við mig, að skeljakalkið mætti nota með ágætum árangri sem kalkgjafa í steinefnablöndur, sem er mikilvægasti þáttur þeirra. Það er gömul reynsla fyrir gildi skeljasands handa hænsnum til þess að styrkja skurn eggja.

Ýmislegt fleira mætti minna á, sem þarf meiri rannsókna við. Ég vil minna t.d. á þaravinnslu og þangs. Hún er nú í undirbúningi, sérstaklega á Reykhólum, en t.d. á Breiðdalsvík fyrir austan er einnig mikið um þara og á s.l. hausti var gerð þar tilraun með þaravinnslu í síldarverksmiðjunni og var þar framleitt nokkuð af þaramjöli. Þetta var nú ekki nema lítil tilraun, en það sýndi sig þó, að þetta er hægt og raunar tiltölulega auðvelt til þess að gera að nota a.m.k. litlar síldarverksmiðjur í þessu skyni og þyrfti að gera þarna frekari tilraunir með slíka vinnslu.

Í þessu sambandi vil ég einnig minna á gasið við Lagarfljót. Það hafa verið gerðar nokkrar rannsóknir á því, sem bentu til þess, að hér væri ekki um djúpgas að ræða. En ég held, að það sé ekki fullkannað, að þarna geti ekki veruleg verðmæti leynzt undir. Norðlægar slóðir eru sífellt að verða meira og meira rannsóknarefni einmitt í þessum efnum, t.d. hvað olíu snertir, eins og t.d. Svalbarði og svo einnig vestan við Grænland. Ég hef að vísu nýlega séð haft eftir Sigurði Þórarinssyni jarðfræðingi, að þau svæði væru eldri jarðfræðilega séð, en Ísland og þess vegna kannske minni líkur fyrir þessu hér. En ég held þó, að ekki sé rétt að glata öllum vonum um, að það kunni að vera hér um einhver verðmæti að ræða. Hitt má telja nokkuð víst, að það verði a.m.k. í bráð okkur Íslendingum ofraun að framkvæma stórfelldar rannsóknir á þessu sviði og yrði því að koma til samninga við erlend félög, til að frekari rannsóknir mætti framkvæma í þessum efnum.

Í niðurlagi þáltill. er lagt til að hefja nú þegar undirbúning stóriðju á Reyðarfirði. Ég varð þess nokkuð var, eftir að till. kom fram, að nokkur tilhneiging var að hafa þessa málsgr. í flimtingum. Hún þótti eitthvað fjarstæðukennd. Ég kippi mér nú ekki upp við það. Stóriðju verður aldrei komið á fót nema stórhugur standi að baki. En einhlítur er hann náttúrlega ekki. Ég vík að því í grg., að ég hafi ekki sízt í huga álbræðslu eða — og ekki síður — að vinna úr áli, t.d. því, sem framleitt verður í Straumsvík. Annars sá ég það nýlega einhvers staðar, að aukning á notkun áls væri gífurleg í veröldinni og mundi að líkindum tvöfaldast á 10 ára bili. Má því vera, að enn verði leitað eftir aðstöðu fyrir slík iðjuver hér og um leið sé ástæða til að leita eftir því hjá erlendum aðilum, hvort þeir hafi ekki áhuga fyrir að koma hér upp frekari stóriðjuverum á þessu sviði. En í sambandi við þetta mál, — a.m.k. álvinnslu í svipuðum stíl og er í Straumsvík, — þá er spurningin um orku meginatriðið. Mun ég koma lítið eitt að því máli síðar. En hitt er augljóst að hafa það meginsjónarmið, ef möguleikar verða á fleiri álverksmiðjum, að dreifa þeim um landið til þess að styðja byggðina sem víðast. Og ég hef nefnt Reyðarfjörð vegna þess, að hann hefur að minni hyggju einna bezt skilyrði austanlands og er þá metið út frá m.a. hafnaraðstöðu, sem að vísu er ágæt miklu víðar, en einnig og ekki síður vegna landrýmis og svo þess, að hann liggur sunnarlega og ísa hætta er þar þess vegna minni. En ef ekki verður um möguleika til álbræðslu að ræða, m.a. af orkuástæðum, kemur til álita með vinnslu úr áli, hrááli, eins og það er nefnt. Og þar getur líka verið um stóriðju að ræða eða þá iðju í smærri stíl. En aðalatriðið er að taka þetta rannsóknarefni föstum tökum, ekki með spotti eða vantrú, heldur einbeitni og einbeittum vilja til að sigrast á öllum erfiðleikum, sem mannlegur máttur má ráða við, taka á því með einbeittum huga þess ásetnings að byggja traustar undirstöður mannlífs í öllum fjórðungum landsins, við landbúnað, sjávarútveg og iðnað, — sem fer vaxandi í þjóðfélaginu, — og þjónustustörf, sem líka vaxa við meiri framleiðslu og fjölbreytni.

Ég er sannfærður um, að með festulegri framkvæmd á þessari þáltill. fæst varanlegur árangur, t.d. í biksteinsvinnslu, í vinnslu kopars, járns og e.t.v. fleiri málma og í álframleiðslu eða úrvinnslu úr áli — í einhverju þessa, ef ekki á öllum þessum sviðum.

En í sambandi við stóriðju eru, eins og ég sagði áðan, orkumálin meginatriði. Það er kunn sú saga, að ég held, m.a. flestum alþm., að það skortir raforku á Austurlandi. Það er að vísu sæmilega séð fyrir henni í augnablikinu með dísilvélum, en það þarf ekki að fjölyrða um, að það er ekki framtíðarlausnin í orkumálum okkar. Eins og stendur er höfuðbaráttumálið fyrir austan að fá virkjun í Lagarfljóti. Þar er að vísu ekki um svo stóra virkjun að ræða, að hún mundi leysa orkuþörf fyrir álbræðslu í líkum mæli og t.d. verksmiðjuna í Straumsvík eða jafnvel þó að hún væri ekki nema hálfu minni. Þar yrði til að koma annað og stærra orkuver. Því var skotið að mér í sambandi við flutning þessarar þáltill. með áskorun um að undirbúa stóriðjuna, hvort ég mundi ekki e.t.v. með því bregða fæti fyrir þetta óskamál okkar fyrir austan — að virkja Lagarfljót. Ég held, að það sé fjarri því, að það hafi neikvæð áhrif á það mál.

Ég hef lagt mig fram að undanförnu að kynna mér virkjunarmálin og ég fæ ekki annað séð, en að það sé í raun og veru mjög einfalt mál að taka ákvörðun um virkjun í Lagarfljóti. Ég skal draga fram hér nokkur höfuðatriðin, sem ég byggi þessa skoðun á.

Ég hef oft sagt, að það séu fjögur meginatriði, sem við lifum á í landinu og megi tilgreina þau í fernu lagi: 1. Moldin, 2. fiskimiðin, 3. vatnsorkan og 4. jarðhitinn. Þetta eru höfuðþættirnir. Vatnsaflinu breytum við í raforku, en eins og öllum er ljóst, er raforkan sífellt vaxandi stærð í öllu okkar lífi, — hlutfallslega stærri með hverju ári vegna tækniframfara, sem krefjast raforku. Og við vitum, að Ísland getur breytt feikimikilli vatnsorku í raforku. En vatnsföllin eru misjafnlega hagstæð. Það eru tveir höfuðkostir vatnsfalls, annars vegar mikil orka og hins vegar og ekki síður jöfn orka. Höfuðvandinn, sem víða er við að stríða, er of mikill breytileiki í vatnsmagni.

Það eru nokkrir staðir hér á landi, sem bera af um hagkvæmni vegna öruggs rennslis. Í mínum huga eru þrír fremstir, þ.e. Sogið, Laxá og Lagarfljót. En jafnvel þessir staðir geta verið dálítið mismunandi. Það er mest um vert að geta sett orkuverið þannig, að vatnsinntakið sé beint úr lygnu í stórri uppistöðu. Þetta mun vera svo með efsta orkuver Sogsins og svo við Lagarfoss í Lagarfljóti. Í þessu felst nær alger vörn gegn ístruflunum, sem er ómetanlegur kostur. Enn má nefna, að bæði Mývatn og Þingvallavatn eru með vatnsforða háð úrkomumagni umhverfisins. Mörg þurr ár í röð kunna að geta dregið úr vatnsmagni og miðlunarhæfni og þar með orkuvinnslu. En þetta á ekki við um Lagarfljót. Að því fellur Jökulsá í Fljótsdal úr Vatnajökli, sem tryggir fyllingu í Löginn á hverju ári. Virkjun við Lagarfljót eða við Lagarfoss hefur því að öllu samanlögðu mest öryggi við að styðjast í orkuveri af hæfilegri stærð. Virkjunaraðstæður eru þar einnig mjög hagstæðar, fremur lágt fall, sem er að öðru jöfnu hagkvæmara í stofnkostnaði en hátt fall og öruggt berg í undirstöðu. Allar þessar staðreyndir liggja nokkuð ljósar fyrir leikmannssjónum, að vísu með hjálp rannsókna og skýringa hinna tæknimenntuðu manna. Við athugun þessara staðreynda, sem ég hef lýst hér, virðist mér mjög einfalt mál að taka ákvörðun um orkuöflun fyrir Austurland með virkjun í Lagarfljóti. Með því er hrint í framkvæmd einni hagstæðustu virkjun á landinu. Með því er virtur nokkurs héraðaréttur til mannvirkja og með því stigið stærsta framfarasporið, sem enn hefur verið stigið á Austurlandi. Og með því er beinlínis kallað á framkvæmdir eystra til hagnýtingar orkunnar og þá ekki sízt vil ég nefna á því stórfellda framleiðslusviði, sem enn er að mestu ónumið, húshitun með raforku.

Ég vil láta þetta koma fram hér við þessa umr. í sambandi við orkumálin, sem vitanlega eru undirstaða, þegar verið er að ræða um stóriðju á Austurlandi. Það má hugsa sér ýmsar tegundir iðnaðar, sem sjálfsagt má flokka undir stóriðju, þar sem virkjun í Lagarfljóti mundi nægja um orkuöflun til að byrja með. Ef maður miðar t.d. við framkvæmd á borð við Kísiliðjuna í Mývatnssveit, mun raforkuþörf þeirrar framleiðslu ekki meiri en svo, að orkuver af svipaðri stærð og virkjun í Lagarfljóti mundi nægja. En ætti að vera, eins og ég sagði áðan, — ef ætti að koma þarna á vinnslu áls, þá þyrfti að koma á fót öðru og stærra orkuveri.

Ég skal ekki leggja á það dóm, hvort þá mundi verða hugsað til Jökulsár á Fjöllum eða einhvers annars vatnsfalls. Ég hef séð það nýlega, að sérfræðingar okkar í raforkumálum hafa beint í vaxandi mæli augum að Jökulsá á Dal. Ég verð að játa, að ég hef ekki trú á því, að virkjun í Jökulsá á Dal sé alveg á næsta leiti og það hefur nú hvarflað að mér, að e.t.v. væri sú hugmynd núna vakin upp með það fyrir augum að slæva eitthvað einhug Austfirðinga um virkjun í Lagarfljóti. En hitt er jafnvíst, að það kemur að því, að við snúum okkur að því að beizla orku Jökulsár á Dal. En ég hygg, að þrátt fyrir það sé hún með erfiðari vatnsföllum við að fást vegna hins geipilega aurframburðar, sem þar er um að ræða. Það yrði vitanlega að koma upp mikilli stíflu, miklu lóni, mikilli vatnsmiðlun og þegar við hugsum til þess, að mikill hluti af út Fljótsdalshéraði mun vera framburður úr Jökulsá, þá kann að vera, að þar verði um meiri erfiðleika að ræða en við a.m.k. sjáum í fljótu bragði, hvernig á að ráða við, þó að allmikil uppistaða verði útbúin fyrir það fljót.

Það er líka rétt, — ég vil, að það komi hér fram, — að enda þótt vatnsmagn Jökulsár á Dal fari oft upp í um 700 kílólítra, eins og það er kallað, á sekúndu, sem er óhemju vatnsmagn, þá fellur það einnig mjög langt niður, og ég hef komið að Jökulsá á Dal 19. marz að vetri til, þar sem hún var blátær eins og Laxá í Þingeyjarsýslu. Og ég hef séð það í vatnafræði eftir Sigurjón Rist vatnamælingamann, að mig minnir, að hún geti farið niður í 15–20 teningsmetra á sekúndu; þ.e. vatnsrennslið.

Ég er engan veginn að draga þetta fram til þess að draga úr því, að gerðar séu ýtarlegar rannsóknir með þessa virkjunarmöguleika og það er vafalaust um fleiri leiðir að ræða með vatnsorku á Austurlandi, en í bráð a.m.k. er enginn staður, sem nokkuð kemur til mála, að menn séu að velta fyrir sér til samanburðar við Lagarfljótið. Og það mætti vel segja mér, að hægt væri að koma upp einhverri tegund stóriðju, þar sem slík orkuöflun mundi nægja í fyrstu.

Ég hef nú dregið fram hér meginþættina í sambandi við þá þáltill., sem ég hef hér flutt. Ég held, að þarna sé um að ræða mörg rannsóknarefni, sem er nauðsynlegt að snúa sér að með festu að taka til rannsóknar. Og ég vildi að lokum leggja á það áherzlu, að þessi till. verði afgreidd. Henni verður væntanlega vísað til n. og ég vildi vænta þess, að hún dveldi þar ekki lengur en svo, að Alþ. gæfist tími til að afgreiða hana í svipuðu formi eða kannske eitthvað breyttu frá því, sem ég hef hér flutt málið. Ég er ekki alveg viss um, hvort ég á heldur að leggja til að vísa málinu til allshn. eða fjhn. Ég skal játa, að eðli málsins samkv. er sennilega eðlilegra, að fjhn. fengi þessa till. til athugunar, en ég hef þó nokkra tilhneigingu til þess, að hún færi til allshn., þar sem ég á sæti í henni, en ég vil sem sagt leggja það í úrskurð forseta, hvort hann telur eðlilegra, en alla vega verði málinu nú vísað til n. og síðari umræðu.