30.04.1969
Sameinað þing: 45. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í D-deild Alþingistíðinda. (3022)

101. mál, rannsóknir á málmvinnslu á Austurlandi

Frsm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Allshn. hefur haft til meðferðar þáltill., sem hv. 3. þm. Austf. flutti á þessu þingi um rannsóknir á málmvinnslu og jarðefnum á Austurlandi og undirbúning stóriðju á Reyðarfirði. Allshn. leitaði umsagnar nokkurra aðila, m.a. Iðnaðarmálastofnunar Íslands og Rannsóknastofnunar iðnaðarins og mæltu báðar þessar stofnanir með samþykkt till. Enn fremur var leitað umsagnar hjá Rannsóknaráði ríkisins og var þáltill. tekin fyrir í framkvæmdanefnd Rannsóknaráðs. Sendi framkvæmdanefnd Rannsóknaráðs ríkisins svar sitt til allshn., þar sem rakið er allýtarlega, hvað Rannsóknaráðið hefur gert í sambandi við rannsóknir á Suðausturlandi og jafnframt er getið um fjárþörf til undirbúningsrannsókna á Suðausturlandi. En bein meðmæli Rannsóknaráðsins um samþykkt till. eru ekki, hins vegar eins og ég sagði áðan, lýst því, hvað Rannsóknaráðið hefði gert og fjárþörfinni, til þess að ýtarlegri rannsóknir geti átt sér stað á málmvinnslu og jarðefnum á Austurlandi.

Að þessum umsögnum fengnum var allshn. sammála um að leggja til, að till. verði samþ. með nokkrum breytingum, þannig að fyrirsögn till. orðist þannig: „Till. til þál. um rannsóknir á málmvinnslu og jarðefnum á Austurlandi og könnun til undirbúnings stóriðju á Austfjörðum.“ Breytingin frá upprunalegu till., eins og hv. 3. þm. Austf. bar hana fram, til þess, sem allshn. leggur til, er í niðurlagi till., sem orðist þannig: „Enn fremur að hefja nú þegar könnun til undirbúnings stóriðju á Reyðarfirði eða öðrum stað á Austfjörðum,“ en í upprunalegu till. var talað um að hefja nú þegar undirbúning stóriðju á Reyðarfirði. Allshn. taldi, að rétt væri að hafa hér ekki svo ákveðið orðalag og þó öllu heldur að miða þessa könnun ekki við einn ákveðinn stað á Austfjörðum, heldur einnig, ef slík könnun leiddi í ljós, að aðrir staðir væru jafnvel hagkvæmari, en sá staður, sem flm. nefnir í sinni till., að þá nái þetta til Austfjarðasvæðisins alls.

Einn nm. í allshn. var fjarverandi afgreiðslu málsins, en eins og ég sagði áðan, mæla aðrir nm. með því, að till. verði samþ. eins og hún er prentuð á þskj. 546.