03.12.1968
Efri deild: 21. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í B-deild Alþingistíðinda. (303)

89. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenskrar krónu

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja, hversu miklum erfiðleikum íslenzkur sjávarútvegur hefur átt í undanfarin tvö ár. Þessir erfiðleikar hófust með hinu mikla verðfalli afurðanna sumarið 1966 og mögnuðust síðan af aflabresti, fyrst á vetrarvertíð 1967 og síðan á síldarvertíð sama ár og nú loks á síldarvertíð þessa árs, sem hefur brugðizt með öllu að heita má. Þessir erfiðleikar eru svo stórfelldir, að hreint aflaverðmæti hefur á tveimur árum minnkað um meira en helming. Alger stöðnun sjávarútvegsins hefði átt sér stað þegar á árinu 1967, ef víðtæk aðstoð ríkisvaldsins hefði ekki komið til. Sú aðstoð var látin í té á árinu 1967 með greiðslu viðbótar við fiskverð og aðstoð hraðfrystihúsa vegna verðfallsins. Gengisbreytingin í nóvember 1967 varð sjávarútveginum til mikillar hjálpar, en áframhaldandi verðfall afurða og hækkun kostnaðar innanlands eyddu áhrifum hennar fljótlega að verulegu leyti. Reyndist því nauðsynlegt að halda áfram mikilli beinni aðstoð til frystihúsa og veita síldveiðunum beina aðstoð í fyrsta sinn. Mátti því heita, að því nær allar greinar sjávarútvegsins yrðu aðstoðar aðnjótandi í meira eða minna mæli.

Með þeirri gengisbreytingu, sem nú hefur verið framkvæmd, er stefnt að því að skapa sjávarútveginum eðlileg rekstursskilyrði. Er þá ekki gert ráð fyrir, að nein teljandi hækkun verði á útflutningsverðlagi á næstunni, né heldur að afli muni batna frá því, sem verið hefur á undanförnum tveimur árum. Virðist þetta vera sá eini raunhæfi grundvöllur, sem unnt er að byggja framtíðaráætlanir á. Á hinn bóginn hefur þess verið freistað að ganga eins skammt í leiðréttingu gengisins eins og frekast var unnt. Hin nýja gengisskráning mun þess vegna ekki skapa sjávarútveginum sérlega hagstæðan grundvöll. Flestar greinar hans munu varla gera betur en að standa undir rekstrarkostnaði og vöxtum og afborgunum af stofnlánum og sumar varla það. Af þessum sökum skiptir það höfuðmáli, að ekki verði nú að nýju þær hækkanir á framleiðslukostnaði innanlands, sem á skömmum tíma mundu eyðileggja þann nýja grundvöll, sem nú hefur verið myndaður. Til þess að gengisbreytingin nái þeim tilgangi sínum að skapa sjávarútveginum eðlileg rekstrarskilyrði, þarf ýmislegt fleira að koma til en gengisbreytingin sjálf. Aðrar nauðsynlegar ráðstafanir, sem sjávarútveginn snerta, hafa verið færðar saman í það frv., sem hér er nú lagt fram, frv. til l. um ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenzkrar krónu. Falla þessar ráðstafanir í þrjá höfuðflokka og fjalla þrír kaflar frv. um hvern þeirra.

Í 1. kafla eru ráðstafanir, sem snerta ákvörðun nýs fiskverðs, stofnsjóðsgjald, kostnaðarhlutdeild fiskkaupenda í útgerðarkostnaði. Í II. kafla eru ákvæði, er snerta útflutningsgjald, og í III. kafla ákvæði, er snerta ráðstöfun gengishagnaðar.

Ef gengisbreytingin á að koma sjávarútveginum að tilætluðum notum, er nauðsynlegt, að útgerðarmenn og útgerðarfyrirtæki geti staðið undir þeim aukna rekstrarkostnaði skipanna, er af gengisbreytingunni hlýzt. Í öðru lagi er nauðsynlegt að tryggja það, að útgerðin geti greitt vexti og afborganir af stofnlánum sínum til Fiskveiðasjóðs og annarra stofnlánasjóða. Í þriðja lagi er nauðsynlegt, að tryggingakerfi skipanna, sem rekið er á sameiginlegum grundvelli, hafi nægar tekjur til að standa undir kostnaði vegna trygginganna, en sá kostnaður hækkar mjög vegna gengisbreytingarinnar. Ekkert af þessum atriðum getur náðst, nema sérstök lagaákvæði komi til.

Ég vil leggja sérstaka áherzlu á þýðingu allra þessara atriða fyrir rekstur sjávarútvegsins og framtíðarþróun hans og þar með fyrir rekstur og framtíð alls atvinnulífs í landinu. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um nauðsyn þess, að útgerðarmenn eða útgerðarfyrirtæki hafi nægjanlegar tekjur til þess að standa undir mikilli hækkun rekstrarkostnaðar, svo sem af olíu og veiðarfærum, sem óhjákvæmilega hlýzt af gengisbreytingunni. Um nauðsyn þess geta varla verið skiptar skoðanir, þar eð sízt er þýðingarminna, að vextir og afborganir af stofnlánum bátanna greiðist. Íslenzk fiskiskip eru byggð með lánum úr Fiskveiðasjóði fyrst og fremst og með erlendum lánum, sem Fiskveiðasjóður ber ábyrgð á. Mjög mikið er nú ógreitt af slíkum lánum, vegna þess hve ör uppbygging bátaflotans hefur verið á undanförnum árum. Erfiðleikar útgerðarinnar hafa leitt til þess, að útgerðarmenn hafa ekki getað staðið í skilum með þessi lán, og varð að grípa til sérstakra ráðstafana í því skyni á s.l. ári með stofnun sjóðs, Stofnfjársjóðs fiskiskipa, og framlagi ríkissjóðs að upphæð 124 millj. kr. til þessa sjóðs. Fái Fiskveiðasjóður ekki með skilum vexti og afborganir af þessum útistandandi lánum, mun hann ekki geta staðið í skilum með skuldbindingar sínar gagnvart öðrum aðilum og þá fyrst og fremst erlendum lánveitendum, og hann mun ekki hafa fé til útlána til endurnýjunar skipastólsins eða meiri háttar viðgerða á skipunum. Hér er því um framtíð sjálfs fiskiskipaflota landsins að tefla. Sé ekki gengið tryggilega frá fjáröflun til þess að greiða vexti og afborganir af stofnlánum, verða þau fiskiskip, sem nú eru í eigu landsmanna, þau seinustu, er þeir eignast. Jafnframt því sem nauðsynlegt er að sjá fyrir greiðslu aukins rekstrarkostnaðar og endurnýjun fiskiskipastólsins verður svo einnig að sjá til þess, að fiskiskipaflotinn sé á hverjum tíma nægjanlega vel tryggður og fjár sé aflað til þess að standa undir iðgjöldum af þeim tryggingum.

Gert er ráð fyrir, að greiðsla aukins rekstrarkostnaðar sé tryggð með sérstakri kostnaðarhlutdeild fiskkaupenda í útgerðarkostnaði. Er lagt til, að þessi greiðsla fari fram við fiskkaup og nemi 17% af fiskverði eins og það er ákveðið á hverjum tíma. Er þessi upphæð miðuð við þá kostnaðaraukningu, sem verður í þorskveiðum vegna gengisfellingarinnar, en er allmiklu minni en kostnaðaraukningin verður í öðrum veiðum og þá einkum á síldveiðum.

Á hinn bóginn er lagt til, að stofnfjárvandamálið verði leyst með því að halda áfram starfsemi Stofnfjársjóðs fiskiskipa, sem stofnaður var, eins og ég áðan sagði, með l. nr. 58 frá 1. maí 1968. Til þessa sjóðs mundi nú renna stofnfjársjóðsgjald, er greiddist af hráefnisverðmæti aflans. Er lagt til, að gjaldið verði yfirleitt 10%, en þó 20% fyrir síld og humar. Eðlilegt er, að fjár til greiðslu stofnlana sé aflað með gjaldi af hráefnisverði, en ekki með fullunnum vörum. Eindregnar óskir hafa komið fram af hálfu útgerðarmanna um, að slíkt fyrirkomulag verði tekið upp, þannig að tryggt væri, að vextir og afborganir af stofnlánum væru greidd og Fiskveiðasjóður og aðrir opinberir sjóðir, er stofnlán veita, hefðu nægjanlegt fé undir höndum til veitingu stofnlána framvegis.

Tekjur af stofnfjársjóðsgjöldum eru áætlaðar 300–400 millj. kr. á ári eftir aflabrögðum, en það er nokkuð lægri upphæð en vextir og afborganir af fiskiskipum, sem nema rúml. 400 millj. kr. Ef stofnfjársjóðsgjöld og kostnaðarhlutdeild eiga að koma að þeim notum, sem ætlazt er til, þ.e.a.s. að standa undir auknum rekstrarkostnaði og sjá fyrir stofnfjárkostnaði skipanna, verða þau að ganga til þessara þarfa eingöngu og geta ekki komið til skipta í hlut eða til aflaverðlauna. Þetta er ekki aðeins í þágu útgerðarmannsins. Það er einnig í þágu skipshafnarinnar og má raunar segja, að það sé ekki sízt í hennar þágu, því að án þess að skipið geti staðið undir rekstrarkostnaði, án þess að tryggt sé, að stofnfjárkostnaður skipsins sé greiddur, verður ekki um neina útgerð fiskiskipa að ræða hér á landi, hvorki nú né framvegis. Af þessum sökum eru ákvæði í þessu frv. um, að kostnaðarhlutdeildin og greiðslur úr Stofnfjársjóði komi ekki til hlutaskipta eða aflaverðlauna. Þýðingarmikið er, að sjómenn og samtök þeirra geri sér grein fyrir því, að með þessu er verið að skapa nauðsynleg skilyrði fyrir atvinnu þeirra og afkomu í nútíð og framtíð. Hins vegar er því ekki að leyna, að hér er um breytingu að ræða frá núgildandi hlutaskiptareglum.

Þá er í frv. ákvæði, um að nýtt lágmarksverð á fiski skuli ákveðið, er gildi frá og með 15. nóvember. Það er gert ráð fyrir, að Verðlagsráð sjávarútvegsins ákveði þetta verð í samræmi við lög sín og starfsreglur. Að sjálfsögðu er ekki hægt að segja fyrir um það, um hversu mikla hækkun fiskverðsins getur orðið að ræða. Óhætt mun þó að fullyrða, að þessi hækkun muni tryggja sjómönnum tekjuhækkun, er sé a.m.k. ekki minni en launahækkun verkafólks í landi hefur orðið á þessu ári.

Ég vil nú víkja nánar að tryggingarmálum fiskiskipanna og þeim ráðstöfunum varðandi þau, sem þetta frv. hefur að geyma. Sterk rök mæla með því, að fyrir greiðslum tryggingariðgjalda sé séð úr sameiginlegum sjóði. Fyrirtæki í sjávarútvegi, einkum í bátaútgerð, eru smá og dreifð. Sveiflur og áföll geta kippt grunninum undan getu þeirra til þess að inna af hendi tiltölulega háar greiðslur fyrir heildarreksturstímabilið eða reksturstímabilið í heild, svo sem til trygginganna. En alvarleg vanskil á þessum greiðslum geta riðið fjárhag fyrirtækjanna að fullu svo að leiði til rekstrarstöðvunar þessara framleiðslutækja, atvinnuskorts og truflana á gjaldeyrisöflun. Jafnframt mundi slík atburðarás raska stórlega félagslegri skipun atvinnuvegarins og stuðla að því, að framleiðslutæki söfnuðust á hendur tiltölulega fárra aðila. Mæla því sterk rök með þeirri þróun, sem átt hefur sér stað að því er snertir fyrirkomulag á iðgjaldagreiðslum trygginganna. Raunar gildir nákvæmlega hið sama einnig varðandi það fyrirkomulag um stofnfjárgreiðslur, sem tekið var upp fyrr á þessu ári og áður hefur verið minnzt á. En jafnsterk rök mæla jafnframt með því, að þessu kerfi sé þannig fyrir komið, að það dragi ekki úr ábyrgðartilfinningu manna og viðleitni til þess að halda niðri kostnaði við rekstur fyrirtækjanna. Fyrir þessu var séð, að því er stofnlán snertir, með því fyrirkomulagi, sem tekið var upp með Stofnfjársjóðnum frá byrjun, að tekjur sjóðsins skiptust í samræmi við aflaverðmæti bátanna, þannig að bátseigandi hefur hag af því, að aflaverðmætið verði sem mest. Jafnframt hefur hann hag af því, að þær greiðslur, sem Stofnfjársjóður eigi að standa undir, verði sem lægstar, þar sem hann sjálfur fær féð í sinn hlut að því leyti, sem fjárins er ekki þörf til greiðslu stofnfjárkostnaðar. Að því er tryggingariðgjöldin snertir var hliðstætt fyrirkomulag hins vegar ekki tekið upp frá byrjun með þeim afleiðingum, að mjög dró úr viðleitni útgerðarmanna og tryggingarfélaganna til að halda niðri tryggingarkostnaði. Þrátt fyrir þá einingu, sem ríkt hefur um megindrættina í greiðslukerfi iðgjaldanna, hefur fram til þessa ekki náðst nægjanleg samstaða um leiðir til þess að bæta úr þessum ágöllum, enda þótt ítrekaðar athuganir á kerfinu hafi farið fram á undanförnum árum og þær hafi leitt til ákveðinna till. til úrbóta. Að vísu hefur stöðugt verið leitazt við að haga reglum um greiðslu tryggingariðgjalda svo, að það hvetti til árvekni og ábyrgðar að því er tekur til iðgjalda og tjóna einstakra fiskiskipa, einkum með því að miða greiðslur við meðaltal iðgjalda í hverjum stærðarflokki, en ekki við iðgjald hvers skips. Engu að síður hafa tjón haldið áfram að aukast og iðgjöld að hækka.

Þeir miklu örðugleikar, sem hafa leitt til þess, að tekjur Tryggingasjóðs fiskiskipa hafa stórlega lækkað og sjóðurinn átt í miklum greiðsluerfiðleikum, hafa fært mönnum heim sanninn um nauðsyn mikilla endurbóta á tryggingakerfinu. Í apríl s.l. skipaði ég nefnd til þess að fjalla um þetta mál. Var nefndin skipuð fulltrúum samtaka úfvegsmanna, sjómanna, tryggingafélaganna og Samábyrgðar íslenzkra fiskiskipa auk tveggja fulltrúa af opinberri hálfu. Till. nefndarinnar liggja nú fyrir í höfuðdráttum, þó ekki fullunnar. Gera þær ráð fyrir víðtæku samstarfi allra hlutaðeigandi aðila um að færa tryggingar fiskiskipa að meginhluta inn í landið í stað þess, að yfirgnæfandi hluti þeirra fari í reynd fram erlendis. Jafnframt verði iðgjöldin ákveðin með samkomulagi hlutaðeigandi innlendra aðila og með rétti þeirra um málsskot til rn. Skilmálar hafa verið endurskoðaðir og þrengdir nokkuð, einkum með aukinni eigin ábyrgð á tíðum smátjónum, og þá eru fyrirhugaðar ráðstafanir einnig til þess að öruggt sé, að samræmi verði í mati tjóna og í samanburði við tryggingafjárhæð skipanna.

Framkvæmd þessara till. er tryggð með samkomulagi þeirra aðila, sem hlut eiga að máli innan nefndarinnar. Nokkurn tíma mun þó taka að koma þeim í framkvæmd og afla reynslu á hinu nýja fyrirkomulagi. Gert er ráð fyrir, að tryggingasjóðsnefnd starfi áfram að frekari ákvörðunum um greiðslur úr sjóðnum og fylgist með allri framkvæmd þessa máls. Mikil nauðsyn er til þess, að sjóðurinn hafi nægjanlegt fé til að standa undir greiðslum á iðgjöldum meðan hið nýja fyrirkomulag er að komast í framkvæmd, en það mun væntanlega smátt og smátt geta leitt til þess, að iðgjöldin lækki og tekjur sjóðsins minnki.

Eins og kunnugt er, koma tekjur Tryggingasjóðs af útflutningsgjaldi og rennur meginhluti þess gjalds, eða nær því 80%, til Tryggingasjóðsins. Eins og nú horfir við, er þess brýn nauðsyn, að sjóðnum sé aflað meiri tekna en verið hefur að undanförnu, er hann hefur verið rekinn með miklum halla, er skapað hefur stórfelld vandræði, bæði fyrir tryggingarfélögin og fiskiskip. Tekjur Tryggingasjóðs af framleiðslu ársins í ár verða sennilega meira en 100 millj. kr. lægri en útgjöldin, þrátt fyrir hækkun gjalds af birgðum vegna gengisbreytingarinnar. Er það annað árið í röð, að tekjur sjóðsins bregðast svo hrapalega. En á því tímabili hefur æ ofan í æ þurft að forða sjóðnum frá greiðsluþroti, þ. á m. með töku 66 millj. kr. láns í Seðlabankanum á miðju þessu ári, en auk þess hafa greiðslur til tryggingafélaganna verið dregnar langt úr hófi fram. Vonir standa til, að brýnustu úrbætur á greiðslustöðu sjóðsins náist nú með framlagi af gengishagnaði, sem ráð er fyrir gert í III. kafla þessa frv. Hins vegar miðast till. frv. um breytingu útflutningsgjalds við það að leggja nægilega traustan grundvöll að framtíðarrekstri Tryggingasjóðsins og þar að auki að afla Fiskveiðasjóði að nokkru meiri tekna en verið hefur og sömuleiðis öðrum þeim aðilum, er njóta góðs af útflutningsgjaldi. Er af þessum sökum lagt til, að nokkur hækkun verði á útflutningsgjaldi umfram þá hækkun í krónum, sem af gengisbreytingunni sjálfri leiðir. Verður þessi hækkun að koma niður á þorskafurðum, sem á undanförnum tveimur árum hafa greitt mjög lág gjöld. Jafnframt eru gjöld á síldarafurðum lækkuð nokkuð, en þær afurðir hafa borið mjög mikinn hluta útflutningsgjaldsins að undanförnu, eins og eðlilegt var, meðan þessar veiðar voru í hámarki. Meðalgjald af þorskafurðum mundi nú verða 4.5% af verðmæti í stað 3% áður, en af síldarafurðum 7.5% í stað 8.6% áður. Ekki hefur verið talið fært að ganga lengra í þessu efni og mun mörgum þykja of langt gengið, enda kemur hér og til greina, að við síldveiðarnar eru notuð stór og dýr skip, er stöðugt hafa verið að hækka í iðgjaldi á undanförnum árum auk þess, sem stofnlán Fiskveiðasjóðs hafa á undanförnum árum að yfirgnæfandi hluta gengið til þessara skipa. Innan meginflokks afurðanna hafa einnig verið gerðar breytingar til betra samræmis, svo sem nánar er frá skýrt í aths. með frv. Þá hefur verið gerð þýðingarmikil breyting á verðmætisgrundvelli afla, sem fiskiskip sigla með. Með henni eru afnumin sérstök fríðindi, sem komið hafa fram sem styrkur til togaraútgerðarinnar. Hins vegar liggja engin rök til þess að undanskilja fiskiskip skyldum sínum, þegar þau eru á siglingu, jafnframt því að þau halda réttindum sínum óskertum. Með þessu er þó ekki nóg að gert gagnvart því misræmi, sem gæti komið fram við sölu á nýrri síld erlendis miðað við gjald af sömu síld, sem unnin væri hérlendis, einkum væri hún söltuð. Hins vegar geta aðstæður þessa máls verið mjög breytilegar og því örðugt að setja ákveðið gjald á síldina, er jafnan ætti við. Er því lagt til, að sjútvmrn. geti ákveðið hækkun gjaldsins á þessum sölum innan hæfilegra marka.

Skipting tekna af útflutningsgjaldinu breytist aðallega við það, að til Tryggingasjóðs verði að ganga sú aukning tekna, sem lögð er til hans vegna, og mundi hlutdeild sjóðsins því nema 80%. Tekin er til greina stóraukin tekjuþörf til byggingar haf- og fiskirannsóknaskips, sem lagt er til, að fái 2% gjaldsins í stað 1.2% áður. Að öðru leyti er Fiskveiðasjóður látinn halda bezt hlut sínum, en tekjur annarra aðila af gjaldinu miðast nánast við fyrri tekjuáætlanir. Til þess að tryggja framgang till. til tryggingasjóðsnefndar um bætta skipan fiskiskipatrygginga er lagt til, að sett verði heimildarákvæði þess efnis, að sjútvmrn. geti sett reglur um endurtryggingasamtök fiskiskipatrygginga og ákvörðun iðgjalda og annarra skilmála. Þá eru og tekin upp í frv. ákvæði, er áður voru í gildi um rétt til endurskoðunar á gjaldi af afurðum, er fluttar hafa verið út og seldar og enn fremur, að útflytjendur hafa getað fengið frest á greiðslum 2/3 hluta gjaldsins þar til gjaldeyrisskil hafa farið fram. Þetta síðara ákvæði var þó sett í formi heimildar og er ætlazt til, að það taki gildi, þá er gengið hefur verið nægilega tryggilega frá fjárreiðum Tryggingasjóðs.

Ég vil þá víkja örfáum orðum að III. og síðasta kafla frv., er fjallar um ráðstöfun gengishagnaðar á útflutningsbirgðum. Þegar gengisbreytingin kom til framkvæmda, voru allmiklar birgðir í landinu af sjávarafurðum, sem ætlaðar voru til útflutnings. Það hlýtur ávallt að vera nokkurri hendingu háð, hverjir eru eigendur slíkra birgða auk þess, sem þær eru framleiddar við þær aðstæður, sem ríktu fyrir gengisbreytinguna, og hafa framleiðendur margra þeirra notið styrkja úr ríkissjóði til framleiðslunnar. Af þessum sökum hefur þótt eðlilegt, að slíkur mismunur, sem verður með gengisbreytingu, renni ekki að jafnaði til eigenda birgðanna, sem þær eiga þá, heldur sé honum varið til hagsbóta þeim atvinnuvegi, sem birgðirnar eru komnar frá. Þessari stefnu hefur enn verið fylgt við þá gengisbreytingu, sem nýlega var framkvæmd, og var í því skyni sett ákvæði um það í 4. gr. l. nr. 74 frá 1968 um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um nýtt gengi íslenzkrar krónu. Ekki er unnt að segja um það með nákvæmni, hver gengismismunurinn gæti orðið. Fer þetta að sjálfsögðu eftir því, hvernig gengur með sölu á þeim birgðum, sem fyrir voru við gengisbreytinguna. Það hefur því orðið að meta verðmæti birgðanna eftir því verðlagi, sem er í dag, og er á þeim grundvelli áætlað, að verðmæti birgða sjávarafurða gæti numið um — eða því sem næst — 1000 millj. kr. Gengismunur af þeirri upphæð yrði samkv. því 540 millj. kr. Auk þess er gengismismunur af verðmæti útfluttra, ógreiddra afurða áætlaður um 200 millj. kr., en samtals nemur þetta um 740 millj. kr. Gert er ráð fyrir að verja gengismun vegna sölu sjávarafurða til ýmissa brýnna þarfa þessa atvinnuvegar. Að meginhluta rennur mismunurinn í Gengishagnaðarsjóð, en ákvæði um ráðstöfun hans er að finna í 16. gr. frv. Áður en kemur til myndunar þess sjóðs, er þó gert ráð fyrir að greiða nokkrar upphæðir til sérstakra þarfa svo sem ákveðið er í 14. gr. frv. Sérstök ráðstöfun er jafnframt gerð vegna skreiðarinnar, enda má segja, að óvenjulegar aðstæður séu þar fyrir hendi. Meginhluti skreiðarframleiðslunnar frá árinu 1967 liggur enn í landinu og enn fremur birgðir allt frá árinu 1966 og lítils háttar frá þessu ári. Borgarastyrjöldin í Nígeríu hefur komið í veg fyrir sölu á þennan langstærsta skreiðarmarkað okkar um meira en hálfs annars árs skeið, enda þótt eitthvað hafi rætzt úr nú síðustu vikurnar er fyrirsjáanlegt, að enn líður langur tími þar til birgðirnar hafa selzt allar. Hafa eigendur skreiðarbirgðanna orðið fyrir miklu tjóni og þykir því eðlilegt, að heimild sé til þess að ráðstafa gengismun, sem verður af skreiðarbirgðum, til stuðnings skreiðarframleiðendum, en leggja hann ekki í hinn sameiginlega sjóð.

Ég hef nú lýst efni þessa frv. í megindráttum. Ég vil að lokum aðeins leggja á það áherzlu, hversu brýn hagsmunamál íslenzks sjávarútvegs og auðvitað þjóðarinnar allrar er hér um að ræða. Án þeirra ráðstafana, sem frv. felur í sér, mun gengisbreytingin ekki megna að skapa sjávarútveginum þau starfsskilyrði, sem ætlazt var til og sjávarútvegurinn þarf svo mjög á að halda. Séu sjávarútveginum hins vegar ekki tryggð þessi starfsskilyrði, mun atvinna ekki geta haldizt í landinu. Hér er því um sjálfa afkomu almennings í nútíð og framtíð að tefla og viðkvæmasta atriðið í afkomumöguleikum vinnandi fólks, þ.e. burðarás atvinnulífsins.

Ég geri það að till. minni, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.