05.03.1969
Sameinað þing: 34. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í D-deild Alþingistíðinda. (3048)

149. mál, veðurathugunarstöðvar í grennd við landið

Flm. (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Á þskj. 278 flyt ég svo hljóðandi þáltill.:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta hið fyrsta gera áætlun um kostnað við að koma upp og starfrækja sjálfvirkar veðurathugunarstöðvar úti á fiskimiðum, þar sem helzt væri talin þörf á, í því skyni að veita skipstjórnarmönnum sem nákvæmasta veðurlýsingu.“

Með till. þessari er lagt til, að kannað verði, hvort ekki er unnt af tæknilegum og fjárhagslegum ástæðum að veita sjómönnum aukna þjónustu í sambandi við veðurfregnir, með því að koma fyrir úti á fiskimiðum, þar sem þörfin væri talin brýnust, sjálfvirkum veðurathugunarstöðvum, sem sendu upplýsingar um veðurhæð, vindátt o.fl. beint af sjálfum miðunum. Slíkar upplýsingar ættu að geta komið sjómönnum að meira gagni, en þær upplýsingar, sem þeir fá nú einungis frá landstöðvum, því að augljóst er, að oft og tíðum er mikill munur á veðri úti á miðum og því veðri, sem á sama tíma er á þeim veðurathugunarstöðvum, sem næst liggja. Verulegur munur getur t.d. verið á veðurhæð hjá veðurstöð í Keflavík og svo aftur úti á Faxaflóa. Í norðaustanátt segir veðrið á Síðumúla nokkuð nákvæmlega til um veðrið úti í Faxaflóa, en allt öðru máli gegnir svo í suðaustanátt. Veðurhæð undir Eyjafjöllum og á Stórhöfða í Vestmannaeyjum getur á sama hátt verið allt önnur en úti á miðunum rétt fyrir utan Vestmannaeyjar. Allt þetta læra sjómenn að vega og meta og reynslan kennir þeim að draga ályktanir af þeim upplýsingum, sem Veðurstofan veitir þeim frá þeim veðurstöðvum, sem næst liggja fiskimiðunum. En bæði kemur til, að öruggast væri að sjálfsögðu að fá vitneskju um veðrið á miðunum sjálfum og eins kynnu að vera tök á því, að sjómenn gætu átt kost á upplýsingum frá sjálfvirkum veðurstöðvum oftar en frá landstöðvunum með því t.d. að hafa samband við Veðurstofuna, ef á þyrfti að halda, milli þess, sem venjulegar veðurfregnir eru sendar út.

Enginn vafi er á því, að upplýsingar um veðrið á miðunum mundu gera veðurspár öruggari og hafa nokkurt gildi við almennar veðurfarsrannsóknir. Ef upplýsingar frá slíkum stöðvum gætu annars vegar í einstökum tilfellum leitt til þess, að bátar réru ekki í ófæru, sem þeir ella hefðu farið út í og hins vegar gætu upplýsingar um veðrið úti á miðunum orðið til þess, að sjómenn yrðu ekki af bærilegu róðrarveðri, mundu slík tæki mega kosta nokkuð mikið, svo að þau borguðu sig ekki fljótlega. Og síðast en ekki sízt gætu slíkar veðurupplýsingar til viðbótar við þá þjónustu, sem Veðurstofan veitir nú, verið nokkur slysavörn. Ég hef átt tal um þetta mál við veðurfræðinga og þeir hafa verið þeirrar skoðunar, að þetta mál sé þess virði, að það sé kannað. Með till. þessari er aðeins gert ráð fyrir athugun á tæknilegum og fjárhagslegum möguleikum við að koma upp og starfrækja slíkar sjálfvirkar veðurstöðvar úti á miðunum. Síðar, þegar frekari upplýsingar lægju fyrir, væri svo hægt að taka ákvörðun um, hvort unnt væri að láta verða af framkvæmdum.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um málið að þessu sinni, en leyfi mér að leggja til, að umr. verði nú frestað og till. vísað til hv. allshn.