03.12.1968
Efri deild: 21. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í B-deild Alþingistíðinda. (305)

89. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenskrar krónu

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Enda þótt frv. það til laga um ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenzkrar krónu sé stórmál og viðamikið á marga lund, þá mun ég ekki hafa um það ýkjamörg orð nú við 1. umr. málsins. Hvort tveggja er, að lítið tóm hefur gefizt til þess að kanna einstök atriði þessa frv., sem er — eins og ég sagði — býsna margþætt og var lagt hér fram í gær, og svo er hitt, að það má gera ráð fyrir, að ýmis atriði að því er varðar undirtektir mikilvægra aðila undir þetta mál liggi fljótlega enn þá ljósar fyrir heldur en þær gera jafnvel í dag, þó að býsna ljóst sé um mörg atriði varðandi þær undirtektir. Þá hefur hv. 3. þm. Norðurl. v., Ölafur Jóhannesson, fjallað mjög ítarlega um flesta þætti þessa frv., og er ég sammála honum í öllum meginatriðum og þeim röksemdum, sem hann flutti fram gegn ýmsum stórum og viðurhlutamiklum ákvæðum þessa frv.

Það, sem ég vildi fyrst og fremst segja og leggja áherzlu á, það eru nokkur varnaðarorð í tilefni af flutningi frv. Ég óttast það, að frv. þetta, ef að lögum verður óbreytt eða lítið breytt, þá hafi það ófyrirsjáanlegar afleiðingar, afleiðingar, sem gætu orðið hættulegar — verulega hættulegar — íslenzkri þjóð, eins og nú er ástatt. Ég á þar sérstaklega við I. kafla þessa frv., og um hann ætla ég einkum að ræða.

Það er ljóst og skal ekki á nokkurn hátt úr því dregið. að hæstv. ríkisstj. er mikill vandi á höndum í sambandi við það ástand, sem nú ríkir í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar. Það er þar vissulega um að ræða mjög mikla erfiðleika í atvinnulífi landsmanna, og það er ljóst og kom raunar allgreinilega fram í ræðu hæstv. sjútvmrh., að gengislækkunin, sú ákvörðun að lækka gengi íslenzkrar krónu, er ekki út af fyrir sig einber stuðningur við útgerðina eða atvinnuvegina yfirleitt, henni fylgja margvíslegir baggar. Erlendu skuldirnar hækka, útgerðarkostnaður stórhækkar. Við þessu verður að bregðast, á því er enginn vafi. Þann vanda eða allverulegan hluta þess vanda, sem bæði hefur skapazt af ýmsum ástæðum og — ég ætla nú ekki að fara út í að rekja nú eins og oft hefur verið gert — og sem enn bætist að vissu leyti við vegna gengisfellingarinnar, þann vanda á nú að allverulegu leyti að reyna að leysa með þessu frv. Það á m.a. að leysa hann með því að raska stórlega lögum um sjómannasamninga, lögum þeim, sem gilda, eða sjómannasamningum þeim, sem gilda um hlutaskipti á fiskiskipum. Þetta kemur sérstaklega fram í I. kafla frv., eins og þegar hefur verið rakið. Það er gert ráð fyrir að taka samtals frá 27% og upp í 37% af óskiptu aflaverðmæti og færa þá hundraðshluta frá sjómönnum og yfir til útgerðarinnar til þess að standa undir ýmsum kostnaði, eða leysa tiltekinn vanda, sem að útgerðinni steðjar. Þetta eru meginatriðin í I. kafla frv. og þau atriði, sem ég tel alveg sérstaklega háskaleg í þessu frv. Það er kunnugt, að hlutaskiptafyrirkomulagið er mjög gamalt hér á landi, og um það hefur lengi verið samið milli sjómanna annars vegar og útgerðarmanna hins vegar. Í rauninni má segja, að samningar um hlutaskipti hverju sinni séu algjörlega hliðstæðir við samninga um kaup og kjör, sem verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur gera sín í milli. Nú á með ákvæðum þessara laga að raska stórlega þeim samningum, sem gilt hafa og gilda um hlutaskiptafyrirkomulagið. Hæstv. sjútvmrh. var mjög fáorður í ræðu sinni í dag um þetta stóra atriði málsins. Ég tel víst, að ástæðan hafi ekki sízt verið sú, að honum sé það engan veginn ljúft að ganga inn á þessa braut að raska stórlega þessu fyrirkomulagi og breyta þar með eða upphefja að mjög verulegu leyti gildandi samninga. Ég býst við, að hann hafi í þessu efni talið, að hann yrði þó að taka sem fyllst tillit til þess, sem efnahagssérfræðingar hæstv. ríkisstj. segja um þessi mál og að honum hafi þó engan veginn verið það ljúft að taka slíka ákvörðun og bera ábyrgð á henni.

En ég vil spyrja hæstv. sjútvmrh.: Trúir hann því, að þessi ráðstöfun fái staðizt? Trúir hann því, að slík þvingunarlög á sjómannastéttina fái staðizt, an þess að valda harðvítugum átökum, vinnudeilum, sem stefnt geta atvinnu og afkomuöryggi fjölda fólks í hættu? Er ekki hér verið að efna til stórhættulegra átaka í þjóðfélaginu? Ég óttast þetta, og ég hygg, að margir muni ala þann ugg í brjósti, að svo muni verða. Við megum þó sízt við því, eins og nú er ástatt, að til harðvítugra verkfalla komi eða að útgerðin stöðvist af völdum kjaradeilu við sjómenn, ef nokkur leið er að forðast slíkt. Og það ætti að vera ein af frumskyldum hæstv. ríkisstj. að gera sitt til að koma í veg fyrir þetta. Nú er það vitað, og ég hygg, að það sé viðurkennt af öllum, að sjómannastéttin hefur orðið fyrir meiri kjaraskerðingu á undanförnum misserum heldur en flestar, sennilega allar þjóðfélagsstéttir aðrar. Hún hefur orðið fyrir stórfelldri kjaraskerðingu vegna verðfalls afurða og aflabrests, alveg sérstaklega á síldveiðum. Sjómönnum er þess vegna alveg tvímælalaust mikil nauðsyn að fá hlut sinn nokkuð bættan af því hækkaða aflaverði í íslenzkum krónum talið, sem af gengisfellingunni leiðir. Þetta held ég, að sé óumdeilanlegt. En hitt er þó sízt minna atriði, að með þessu lagafrv., sem hér liggur fyrir, skuli eiga með þvingunarlöggjöf að gjörbreyta samningsbundnu. hlutaskiptafyrirkomulagi og raska þannig mjög mikilvægum ákvæðum gildandi kjarasamninga. Þetta tel ég svo stórvægilegt atriði, að það sé full ástæða til að undirstrika mjög þau varnaðarorð, sem ég hef þegar mælt í sambandi við þetta mál.

Það er nú orðið nokkuð langt síðan, að fregnir tóku að berast um það, að hæstv. ríkisstj. hefði í undirbúningi einhverjar slíkar ráðstafanir, að því er þessi efni varðar — kjaramál sjómanna — sem nú liggja fyrir mótaðar í þessu frv. Og eftir að fréttir tóku að berast um það, að slíkt væri í undirbúningi, kom það einnig fljótlega í ljós, að andstaða gegn þessu var mjög mikil meðal sjómanna, eins og skiljanlegt og eðlilegt er. Sjómannasamtökin hafa þegar lýst því mjög skorinort yfir, að stórfelld röskun hlutaskipta með lögum verði ekki þoluð.

Ég veit ekki betur heldur en að sjómannastéttin standi alveg sameinuð um þetta atriði og að hún geri það alveg án tillits til þess, hvaða stjórnmálaflokkum menn fylgja, eða nokkurra annarra sérsjónarmiða. Sjómenn, sem fylgja stjórnarflokkunum að málum, eru ekkert myrkari í máli um þetta atriði heldur en aðrir. Andstaða sjómanna við þvingunarlög varðandi kjör þeirra og samninga er því ekkert pólitískt tafl stjórnarandstöðunnar, en stundum er það látið í veðri vaka, að þegar til átaka dregur um kjaramál, þá séu það fyrst og fremst sundrungaröfl stjórnarandstöðunnar, sem þar séu að verki. Um afstöðu sjómannastéttarinnar til þessa máls, þá hygg ég að ráði algjörlega stéttarleg afstaða, þar ráði sú nauðsyn, sem sjómannasamtökin telja á því að verja lífshagsmuni og þá alveg sérstaklega samningsrétt fiskimanna.

Einmitt þess vegna, þá ætti ríkisstj. að fara varlega, þá ætti hún að athuga betur heldur en hún virðist hafa gert, hverjar afleiðingar þessara laga geta vissulega orðið.

Ég veit það, að stjórnarvöldunum er mikill vandi á höndum, eins og nú er komið í íslenzkum efnahags- og atvinnumálum. Ég viðurkenni, að ýmissa og það róttækra ráðstafana er þörf til þess að tryggja útgerð fiskiskipaflotans og þar með öflun lífsnauðsynlegra útflutningsverðmæta og til þess að tryggja arðbæra atvinnu. Um þetta tjáir ekki að deila, og um þetta er í sjálfu sér ekki deilt. En eru þær ráðstafanir, sem í þessu frv. felast, og þá einkum þær, sem ég hef nú þegar rætt nokkuð um, eru þær líklegar til þess að tryggja þetta? Til þess að tryggja það, að sjávarútvegurinn geti starfað áfalla- og stöðvunarlaust? Ég held ekki. Raunar má alveg vafalaust kveða miklu fastara að orði. Ég er þess fullviss, að lausnin getur ekki verið fólgin í lögþvingun til þess að skerða kjör og samningsrétt sjómanna. Það hefði þess vegna verið brýnt og vitanlega er það brýnt enn að leita annarra og vænlegri leiða, leiða, sem líklegri væru til þess að ná árangri, sem líklegri væru til þess að leysa raunverulega vanda útgerðarinnar en ekki jafnvel að auka hann eins og gæti orðið afleiðing þessara ákvæða um hlutakjörin.

Ég fullyrði, að íslenzkir sjómenn eru sízt óþjóðhollari en aðrar stéttir þjóðfélagsins og sjómenn skilja alveg vafalaust manna bezt nauðsyn þess, að hægt sé að gera út skipaflotann. Þetta liggur svo í augum uppi, að um það þarf tæplega að hafa mörg orð. Samtök sjómanna hafa líka bent á ýmis atriði, sem alveg vafalaust gætu orðið þættir í lausn þess vanda, sem hér er við að glíma. Og væri nú ekki skynsamlegra, áður en lengra er haldið, að stöðva meðferð þessa frv. hér á Alþ. eða þó allra helzt að draga það til baka meðan leitað væri lausnar, sem líklegri er til að bera árangur heldur en sú, sem hér er lögð fram? Væri ekki tilvinnandi að freista þess, að fulltrúar allra þingflokka gerðu slíka tilraun nú ásamt hæstv. ríkisstj. og með viðræðum við fulltrúa sjómanna og útgerðarmanna? Ég býst við, að tilraun slík sem þessi sé stórum torveldari, eftir að þetta frv. er komið fram, heldur en áður heldur en það var lagt fram. Það hefði að mínum dómi átt að gerast löngu fyrr að leita slíkrar sameiginlegrar lausnar á þessum vanda. Það hefði átt að gerast strax eftir að hin mjög svo umdeilda gengisfelling var orðin staðreynd og menn hlutu að taka afstöðu til máls eftir að svo var. En þó að þetta hefði átt að gerast án þess, að slík ákvæði sem þessi um sjómannakjörm hefðu verið sýnd í frv.-formi, þá finnst mér, að enn kynni að vera hægt að finna sameiginlegan flöt á þessu máli, sem sjómenn sættu sig a.m.k. fremur við heldur en þessi þvingunarlög.

Það er alveg ljóst, að sjómenn og samtök þeirra standa ekki ein í baráttunni fyrir rétti sínum í sambandi við sjómannasamninga og hlutaskiptakjör. Öll verkalýðshreyfingin hefur tekið mjög eindregna afstöðu gegn þvingunarlöggjöf sem þessari. Og hún hefur alveg sérstaklega, eins og fram kom í ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v., varað við slíkri lagasetningu. Í ályktun nýlokins Alþýðusambandsþings um kjaramál er það alveg sérstaklega undirstrikað, að réttur fiskimanna til óskerts aflahlutar sé sambærilegur rétti verkafólks til verðtryggingar launa. Og í þessari ályktun sambandsins um kjaramál segir enn fremur:

„Því aðeins er verkalýðshreyfingin reiðubúin til samvinnu við ríkisstj. og atvinnurekendur um nýja stefnu í atvinnumálum, að engar lögþvinganir verði á verkalýðshreyfinguna lagðar.“

Þessi ályktun eða aðalatriði hennar, mótmæli gegn því, að nokkrar lögþvinganir verði á verkalýðshreyfinguna lagðar og alveg eindregin yfirlýsing um það, að samningar við ríkisstj. geti ekki komið til greina undir slíkum kringumstæðum, þetta er undirstrikað svo sterklega, og það mun hafa verið gert af mörgum fulltrúum á Alþýðusambandsþingi og kemur fram í því, að ályktun þessi var samþykkt þar einróma, og margir helztu forystumenn alþýðusamtakanna hafa bæði á þinginu og eftir það lagt á þetta atriði alveg sérstaka áherzlu, að ekki komi til mála að taka upp samninga undir þeim kringumstæðum, að þvingunarlög hafi verið sýnd eða sett. Þessi yfirlýsing er svo eindregin og afdráttarlaus, að það fer ekkert á milli mála. Og það er útilokað, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki veitt henni hina fyllstu athygli. Þess vegna er það óneitanlega næsta furðulegt, að þetta frv. í þeim búningi, sem það er, skuli nú komið fram, án þess að neinna annarra hugsanlegra leiða hafi verið leitað. Það er því mjög stórt og að mínu viti ákaflega háskalegt skref, sem hæstv. ríkisstj. er að stíga með þeim ákvæðum í frv. að raska hlutaskiptakjörum. Er ekki bókstaflega með þessum aðgerðum verið að útiloka samningaleiðina við verkalýðshreyfinguna um ákveðna þætti efnahags- og atvinnumála?

Er ekki með þeim verið að framkalla hörð átök, miklar deilur, sem alveg tvímælalaust yrðu til mikils tjóns fyrir þjóðarheildina? Margir bera þann ugg í brjósti, að svo sé.

Um önnur atriði þessa frv. heldur en þau, sem ég hef nú farið um nokkrum orðum, ætla ég ekki að ræða við þessa umræðu. Þó mætti vitanlega sitt hvað segja um sum ákvæði í síðari köflum frv., svo sem um hækkun útflutningsgjalds af ýmsum tegundum sjávarafurða enn á ný. En þar sem ég tel, að ákvæðin um röskun sjómannasamninganna séu langvarhugaverðasti og háskalegasti þáttur þessa frv., þá ætla ég mér eingöngu að ræða um það atriði, eins og ég hef nú gert í stuttu máli. Ég skora svo á hæstv. ríkisstj. að endurskoða afstöðu sína til þessara ákvæða og taka nú upp þann hátt, sem ég nefndi hér fyrr í ræðu minni, að stöðva þetta frv. eða draga það til baka og gera ítarlega og alvarlega tilraun til þess að þoka málinu áfram með samninga- og samkomulagsleið.