30.04.1969
Sameinað þing: 45. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í D-deild Alþingistíðinda. (3068)

151. mál, rannsóknir á loðnugöngum

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég skil vel, að hæstv. forsrh. reyni að bera blak af starfsbræðrum sínum í ríkisstj., en það breytir ekkert þeirri staðreynd, að það mætti nefna fjölmörg dæmi þess, að þegar mál hefur verið til umr., þá hefur ráðh., sem þessi málaflokkur heyrði undir, ekki verið viðstaddur. Ef hæstv. forsrh. efar þetta, þá mætti kannske gera meira af því í framtíðinni að benda á, þegar slík tilefni gefast. En eins og ég sagði áðan, þá hefur forsrh. yfirleitt rækt þá skyldu mjög vel að vera hér á þingfundum, jafnvel manna bezt. Ég álít, að þess vegna sé honum mjög vel fært að leggja fyrir starfsbræður sína að sinna ráðherraskyldu sinni og þingmannsskyldu sinni á sama hátt.

Nú er það svo um alla núverandi ráðh., að þeir eru kjörnir þm. jafnframt og eiga þess vegna að sinna sömu skyldu hér á þinginu og við aðrir þingmenn. Okkur ber að sjálfsögðu að vera viðstaddir umr. Það er engin afsökun í þessu efni, hvort okkur þykir málin vera ómerkileg eða leiðinleg.

Ég er ekki sammála forsrh., að þau mál, sem t.d. eru á dagskrá í dag í Sþ., séu neitt sérstaklega ómerkileg eða leiðinleg mál og ég álit, að það eigi að vera skylda okkar að vera viðstaddir og fylgjast með umr. og ráðh. ekkert síður en hinir.

Forsrh. minntist nokkuð á starfshætti Sþ. Ég álít, að það séu miklir gallar á starfsháttum Sþ. að því leyti, að Sþ. sé ætlaður allt of skammur tími, óþarflega skammur tími. Eins og ráðh. réttilega minntist á, kemst hér yfirleitt ekki annað að en fsp. Það er hægt að finna rýmri tíma fyrir Sþ. en bara þessa tvo tíma á miðvikudögum. Þm. geta vel komið hér saman á kvöldfundum og jafnvel næturfundum. Það er óþarfi að fella niður föstudagsfundi. Það á að byrja á þeim miklu fyrr á veturna en gert hefur verið. Mér finnst það satt að segja hálfgert hneyksli að þurfa að horfa á dagskrána í dag og sjá þar mál á dagskrá, sem er búið að flytja fyrir 2 mánuðum og hefur ekki enn komið til umr. Þetta eru ekki vinnubrögð, sem eru til fyrirmyndar. Þau þarf vissulega að bæta, alveg eins og það þarf að bæta, að ráðh. mæti betur á fundum.