30.04.1969
Sameinað þing: 45. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í D-deild Alþingistíðinda. (3078)

202. mál, alþjóðasamningur um að dreifa ekki kjarnavopnum

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í till. þessari er lagt til, að Alþ. heimili ríkisstj. að staðfesta fyrir Íslands hönd samning um að dreifa ekki kjarnavopnum, þann samning, sem gerður var í Washington, London og Moskvu 1. júlí 1968.

Í höfuðdráttum er tilgangur samningsins fjórþættur: Í fyrsta lagi að hefta frekari dreifingu kjarnavopna. Í annan stað að tryggja eftirlit með því, að kjarnorku verði ekki beitt til vopnaframleiðslu. Í þriðja lagi að efla friðsamlega notkun kjarnorku. Og loks er samningurinn allur mikilvægt spor í átt til raunverulegrar afvopnunar og eftirlits með vígbúnaði, enda hvetja samningsaðilar til áframhaldandi og áhrifameiri átaka á þeim vettvangi.

Eins og segir í tillgr. sjálfri, var þessi samningur undirritaður í Washington, London og Moskvu hinn 1. júlí s.l., og skrifuðu þá þegar fulltrúar 56 ríkja undir samninginn. Íslendingar skrifuðu undir strax á fyrsta degi og enn fremur fulltrúar allra hinna þjóða Norðurlanda annarra en Svía, sem undirrituðu samninginn 19. ágúst s.l. Hinn 5. febr., en frá þeim degi er síðasta skýrsla, sem utanrrn. hefur um stöðu málsins, var svo komið, að fulltrúar 81 ríkis höfðu skrifað undir samninginn, en þeim á eflaust eftir að fjölga. Undirskriftirnar eru hins vegar háðar staðfestingu hlutaðeigandi löggjafarsamkomu og fjallar till. um það, að hið háa Alþ. staðfesti þessa undirskrift með samþykki sínu.

Samningurinn tekur gildi, þegar 40 ríki hafa staðfest hann auk kjarnavopnaríkjanna þriggja, sem hafa skrifað undir, Bandaríkjanna, Bretlands og Sovétríkjanna. Bretar hafa þegar staðfest samninginn og voru í hópi þeirra 9 ríkja, sem ég gat um áðan, að hefðu staðfest samninginn hinn 5. febrúar s.l., en búizt er við, að hin stórveldin staðfesti samninginn innan skamms.

Þetta er efni þess máls, sem hér er um að ræða og vildi ég mega leyfa mér að leggja til, að umr. verði frestað og till. vísað til hv. utanrmn.