19.03.1969
Sameinað þing: 36. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í D-deild Alþingistíðinda. (3085)

181. mál, vegáætlun 1969--1972

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Það orkar ekki tvímælis, að Alþ. hefur verið verulega örlátt við núv. hæstv. vegamálaráðh. um tekjur til vegagerðar. Strax í upphafi þeirrar ríkisstj., sem hann var vegamálaráðherra í haustið 1959, voru benzínskattur og þungaskattur hækkaðir verulega til vegagerðarinnar. 1963 voru svo vegalög sett og þá sameinaðist Alþ. um að auka tekjur vegasjóðs um 100 millj. kr. með nýjum sköttum. 1965 voru þessir skattar hækkaðir á nýjan leik og 1968 — í fyrra vor — voru þessir skattar enn hækkaðir, svo að gert var ráð fyrir, að árstekjur af þeirri hækkun mundu vera um 150–190 millj. kr. Þegar hæstv. ráðh. gat um það hér áðan, að það væri aukið fé, eins og hann orðaði það, til framkvæmda í vegagerð umfram þær verðhækkanir, sem orðið hefðu á kostnaði við vegaframkvæmdina frá því að síðasta vegáætlun var endurskoðuð, þá gleymdi hann að geta þess, hver breyting var gerð á tekjustofnunum til vegagerðarinnar á s.l. ári, sem nam þeirri fjárhæð, sem ég hef nú greint. Ég tel það öfugmæli, að nú fáist meira fyrir hverja kr. í vegagerð en fékkst, þegar vegáætlun var sett haustið 1965. Svo mikil breyting hefur orðið á verðlagi í landinu og kostnaði við framkvæmdirnar, að ég held, að hér hafi hæstv. ráðh. misnefnt sig.

Mig langar við þessa fyrri umr. vegáætlunarinnar að víkja nokkuð að ástandinu í vegagerð í landinu og þeim atriðum, sem koma efst í huga, þegar vegáætlun er rædd. Ég kem nokkuð inn á notagildi fjárins, sem hæstv. ráðh. vék hér að áðan.

Þessi vegáætlun, sem hér liggur fyrir til fyrri umr., er sú fyrsta, sem gerð er, eftir að lögin hafa staðið í 5 ár og bráðabirgðaákvæði um ýmsa vegi, sem ekki voru felld niður úr þjóðvegatölu, þegar lögin voru sett, tapa nú gildi sínu. Þess vegna styttast landsbrautirnar um 682.3 km frá því, sem var, þegar vegáætlunin var afgreidd hér síðast. Hins vegar lengjast sýsluvegirnir um 430 km, en 252 km falla alveg úr þjóðvegakerfinu.

Þetta er nýtt hér á hv. Alþ., því að venjan hefur verið sú, að þjóðvegakerfi landsmanna hefur verið að lengjast og það var kapp hv. þm. að koma því yfirleitt þannig fyrir, að vegir færu yfir í þjóðvegatölu og ríkissjóður annaðist framkvæmdir þeirra. Um þetta er það að segja, að margir af þeim vegum, sem nú falla út úr þjóðvegakerfinu, verða ekki fyrir nokkru tjóni, vegna þess að það hefur ekki verið hægt að sinna fjárþörf þeirra með þeim fjárhæðum, sem hafa verið til skipta í landsbrautum og þjóðbrautum. Þess vegna er það von okkar þm., að einmitt við að færast úr þjóðvegatölu, verði þeim betur sinnt en áður var. Svo er um suma af þeim vegum, sem falla nú úr þjóðvegatölu í Vesturlandskjördæmi, að það hefur ekki verið hægt að veita fé til þeirra á síðustu árum eða sinna þeim að nokkru marki. Af þessari ástæðu mun þar ekki verða sá harmagrátur, sem hefði mátt reikna með, þegar þessir vegir færast í aðra vegaflokka. Hins vegar sýnir þetta, að þrátt fyrir þær stóru aukningar á fjárveitingum til vegamála með nýjum sköttum hefur ekki verið hægt að sinna þeim sem skyldi.

Þegar litið er á einn stóran flokk útgjalda í sambandi við vegamálin, sem er viðhald þjóðvega, er fróðlegt að bera saman, hvernig þróunin hefur orðið i þessum málum einmitt nú síðustu árin. Hæstv. ráðh. gat þess, að vegakerfið í landinu væri alltaf að batna, en því er ekki að neita, að viðhald þjóðvega er nú mjög fráleitt og er víða orðið þannig, að það er í raun og veru orðið erfitt að halda uppi eðlilegri umferð um vegina. Ef við tökum síðustu árin, árin 1967 og 1968, og berum þau saman við þá áætlun, sem hér liggur fyrir til fyrri umr., varð kostnaður eða fjárveiting til hvers ekins km í viðhaldskostnaði árið 1967 6.9 aurar og árið 1968 6.3 aurar á hvern ekinn km. 1969 er gert ráð fyrir, að ekki verði hægt að verja til viðhaldsins nema 5.3 aurum á ekinn km, 1970 5.4, 1971 5.1 og 1972 4.8. Þessi þróun sýnir, að það er alltaf að minnka það fjármagn, sem varið er til viðhalds á hvern ekinn km, þrátt fyrir það, að þróunin hafi orðið sú á síðari árum, að bílarnir stækka með hverju ári og umferðin krefst þess vegna meira viðhalds, en ella hefði verið. Þessi þróun er mjög alvarleg og sýnir, að þessum málum er ekki sinnt sem skyldi og fjarlægist mjög, eftir því sem lengra gengur í þessa áttina, að viðhaldið sé eðlilegt.

Á bls. 29 í grg. þáltill., kemur fram, að árið 1960 var 81% bifreiða af stærðinni 2–5 tonn. 1967 hefur þetta breytzt þannig, að 42.l% er af þessari stærð, en á bilinu 5-7 tonn voru árið 1960 12.3%, en nú 33.7%. Hins vegar var á árinu 1960 6.l% af bifreiðum stærri heldur en 7 tonn, en nú eru þær 21.8%. Þannig hefur þróunin orðið á síðari árum, að bifreiðarnar hafa þyngzt og þess vegna hefur skapazt meiri þörf fyrir aukið viðhald veganna, en í staðinn fyrir þessa auknu þörf viðhaldsins fer það minnkandi með hverju árinu miðað við ekinn km.

Á síðasta ári flutti ég og nokkrir hv. þm. till. um, að vegagerðin ynni verulega í því að skipta blindhæðum og blindbeygjum. Eins og venja er, urðum við stjórnarandstæðingar að sætta okkur við, að þessi till. var ekki afgreidd hér á hv. Alþ. Höfðu menn ýmislegt við hana að athuga. Hins vegar hafði hún þau áhrif, að sérstakri fjárhæð var varið í þeirri áætlun, sem gerð var hér í fyrravor í sambandi við hækkun á tekjustofnum vegasjóðs, til þess að framkvæma þetta. Það hefur nokkuð áunnizt í því að gera það, og ég vildi leyfa mér að spyrja hæstv. samgrh., hvort ekki verði stefnt að því núna að hafa nokkra fjárhæð til þess. Ennfremur hefur verið tekin af þessu viðhaldsfé nokkur fjárhæð til þess að setja upp vegamerki og ég geri ráð fyrir, að því verði haldið áfram. Þess vegna sýnist mér og ekki sýnist, heldur er það augljóst, að með þessari vegáætlun verður haldið enn þá lengra áfram á þeirri braut að draga úr eðlilegu viðhaldi veganna. Er það þó langt frá því, að svo megi verða.

Þegar kemur til framkvæmdanna, er ekki uppi nein gleði yfir því að ég hygg hjá hv. þm., þegar þeir fara að virða fyrir sér, hvað verður til framkvæmda á næstu árum í vegamálunum. Ég kem þar fyrst að þjóðbrautunum, en á árinu 1968 voru til framkvæmda í þjóðbrautum 31.8 millj. kr., þegar frá eru dregnar þær fjárhæðir, sem fóru til þess að greiða vexti og afborganir af eldri lánum. Á árinu 1968 verður samkv. till. vegáætlunarinnar 17.7 millj. kr. til framkvæmda í þjóðbrautum. Ef hefði átt að mæta þeirri verðhækkun, sem er á vegavísitölunni frá 1968–1969, þá hefði þurft, til þess að notagildi fjárins væri sama 1969 og var 1968, að verja 38.1 millj. til framkvæmda í þjóðbrautum í staðinn fyrir 17.7, eins og gera á. Ég held, að menn verði ekki almennt sammála hæstv. ráðh. um það, að vel sé fyrir þessu séð.

Ef við snúum okkur að landsbrautunum, þá var varið til framkvæmda í landsbrautum árið 1968 22.4 millj. kr. Það er gert ráð fyrir, að til framkvæmda í landsbrautum 1969 verði varið 17.5 millj. kr. Það hefðu þurft að verða 26,8 millj. kr., ef miðað er við sama notagildi og árið 1968, í staðinn fyrir 17.5 millj. kr. Ef tekið er árið 1970, þá er gert ráð fyrir að verja 21.3 millj. kr. til þjóðbrauta, en hefði átt að vera, ef notagildi hefði átt að vera sama og var 1968, 40.4 millj. kr., þegar búið er að umreikna það með vegavísitölunni.

Í landsbrautum er gert ráð fyrir að verja til framkvæmda á árinu 1970 19.1 millj. kr., en hefði þurft að vera 28.4 millj. til þess að halda notagildinu frá 1968. 1971 er gert ráð fyrir því að verja til nýbygginga í þjóðbrautum 22.3 millj. kr., en hefði með notagildinu 1968 átt að verða 42.5 millj. kr. eða hér um bil tvöföld fjárhæðin, ef notagildi hefði átt að verða sama. Í landsbrautum er gert ráð fyrir að hafa til framkvæmda 1971 20.9 millj. kr., en hefði þurft að vera 29.9 samkvæmt notagildi ársins 1968. Og 1972 er gert ráð fyrir að verja til nýbygginga í þjóðbrautum 23.5 millj. kr., en hefði þurft að vera 42.5 og 21.5 í landsbrautum í staðinn fyrir 29.9. Þetta er miðað við s.l. ár. Ég held, að allir séu sammála um það, hv. alþm. og aðrir, að framkvæmdir í þjóðbrautum og landsbrautum árið 1968 hafi sízt verið um of.

Ef hv. alþm. líta á bls. 41 í grg. þáltill., sjá þeir, hvað ógert er í bæði þjóðbrautum og Landsbrautum og ég held, að það hafi verið á s.l. ári, sem afgreidd var hér till. til þál. um að skora á hæstv. ríkisstj. að hraða framkvæmdum í að leggja hringveg í kringum landið, en samkv. þessari skýrslu, sem ég vitnaði hér til, eru um 300 km rúmir, sem eru algerlega óvegaðir af þjóðvegakerfi landsins. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem ég hef fengið um kostnað við gerð km, þá mun hann hlaupa frá 0.6 millj., þar sem bezt er að gera veg, en þá þarf í raun og veru ekkert að gera annað en ýta upp melum og ekki að bera ofan í sérstaklega. Ef þannig land er til staðar, mundi vera hægt að gera km fyrir 600 þús., en kostnaður er allt að 3 millj. við gerð km í landsbrautum og þjóðbrautum. Þó er ekki gert ráð fyrir því, að þar þurfi að fara fram nokkrar sprengingar. Það má því gera ráð fyrir því að, að meðaltali kosti km a.m.k. 11/2 millj. kr. og sjá þá hv. alþm., hvað okkur muni miða áfram í gerð vega í landsbrautum og þjóðbrautum á næstu 4 árum með þeim fjárveitingum, sem hér er gert ráð fyrir, að til þeirra gangi. Ég vek athygli á þessu, að þrátt fyrir, að hv. Alþingi hafi hvað eftir annað hækkað verulega tekjustofna til vegasjóðs á síðustu árum, gengur ekki betur en þetta að skila þeim verkefnum, sem þarf að leysa á næstu árum í vegamálunum, svo að litlu mun fram haldið á næstu 4 árum með þessum fjárveitingum, sem hér er lagt til.

Um hraðbrautaþáttinn vil ég segja, að þegar gerð var breyting á vegamálunum eða tekjustofnum til vegasjóðs hér á hv. Alþ. vorið 1968, þá var það rökstutt með því, að þetta fé ætti að ganga til hraðbrauta. Eins og fram kemur í grg. till., er ástandið svo í sambandi við hraðbrautirnar, að ef vegasjóður ætti að standa undir greiðslum afborgana og vaxta af þeim lánum, sem á vegasjóði hvíla nú vegna hraðbrautargerðanna, yrði um sama og engar framkvæmdir að ræða, því að gert er ráð fyrir, að um 226 millj. kr. þurfi að ganga til greiðslu vaxta og afborgana af lánum til hraðbrauta, eins og þau eru í dag. En þau hafa sem kunnugt er, lán til vegagerða, hækkað á annað hundrað millj. kr. vegna tveggja gengisbreytinga haustin 1967 og 1968. Nú voru góð ráð dýr, ef átti að bjarga sér frá því, að algerlega væri gengið á bak orðanna um að nota féð, sem var sótt í gegnum hv. Alþ. í fyrra til bifreiðaeigenda til vegagerðar og í hraðbrautir.

Það hefur staðið yfir nokkur deila hér á hv. Alþ. s.l. 4 ár út af því, að þegar vegal. voru sett 1963, var því heitið af núv. hæstv. vegamálaráðh., að ekki minna en 47 millj. kr. skyldi verða veittar úr ríkissjóði til vegamála. Þetta stóð óbreytt, eins og lofað var, árið 1964. 1965 var þessi fjárveiting minnkuð með 20% skerðingu á framkvæmdafé það ár og 1966 var þetta gersamlega þurrkað út. Við Framsfl.–menn höfum flutt brtt. við afgreiðslu fjárl. öll þessi ár síðan til þess að fá þetta leiðrétt. Það hefur verið útmálað hér á hv. Alþ., bæði í sambandi við afgreiðslu fjárl. og oft við ýmis önnur tækifæri, að þetta sýndi ábyrgðarleysi okkar um fjárhag ríkisins, að við skyldum krefjast þessa af ríkissjóði. Þessu var haldið fram meira að segja það ár, þegar ríkissjóður hafði í tekjur um 800 millj. kr. umfram áætlun fjárlaga. En hvað gerist nú? Það gerist nú, að loksins sést árangur af þessari baráttu okkar. Og satt að segja óska ég hæstv. samgrh. til hamingju með það, að tekizt hafi að leiðrétta það, sem hann átti auðvitað aldrei að láta hafa sig til — að fella þetta út af fjárl. Þetta er auðvitað afturfótafæðing á þessu, því að nú er lagt til, að ríkissjóður greiði á árinu 1969 38.7 millj. kr. til vegasjóðs vegna afborgana og vaxta af lánum hraðbrautanna, þó að það sé ekki gert ráð fyrir því á fjárl. Og nú er ekkert ábyrgðarleysi, þó að þessu sé bætt við fjárl. þrem mánuðum eftir að þau voru afgreidd. Það var ábyrgðarleysi að ætla að taka þetta með í des., þegar verið var að afgreiða fjárl. Þá var það ábyrgðarleysi að gera till. um, að þessi útgjöld gætu verið á fjárl. 1969. Nú er þetta hins vegar þannig breytt og það gerir ekkert til. Það góða hlýtur alltaf að sigra og eins hefur það farið í þessu tilfelli og þó að þetta beri að með svona leiðinlegum hætti, þá gleðst ég yfir því og endurtek, að ég óska hæstv. ráðh. til hamingju með það að hafa þó lagað sinn hlut þar. Og á næstu 4 árum á að bæta þetta, þannig að það á að vera ekki langt frá því að halda inni 47 millj. Það er nú eitthvað fyrir neðan það. Ég held, að það vanti eitthvað 29 millj. til, en — nei, það er nú ekki alveg svo mikið, — en það eru nú smámunir miðað við annað og þess vegna hefði mér fundizt eðlilegt, að það hefði verið hægt að framkvæma fyrir þessar 6.4 millj., sem eiga að ganga til þess að greiða vexti og afborganir af hraðbrautalánum á ári næstu 4 ár. Mér finnst, að sá þáttur sé bara hafður til þess að skemmta okkur stjórnarandstöðunni, því að hann er ekki umtalsverður og hefði náttúrlega verið eðlilegt að taka það með. En fyrst menn vilja hafa þetta sem skemmtiþátt, þá hef ég ekkert við það að athuga út af fyrir sig. En mér er það fullkomlega ljóst, eins og við framsóknarmenn erum búnir að halda fram ár eftir ár, að það er vonlaust að tala um vegagerð að nokkru marki nema ríkissjóður standi undir hraðbrautafénu, – það verði gert með ríkislánum, því að eins og lagt er til með þessari vegáætlun, er framkvæmdaféð í hraðbrautirnar tekið af eðlilegu fé til framkvæmda í þjóðbrautum og landsbrautum. En ég vil endurtaka, að í raun og veru er það eina, sem er nýtt og að gagni í þessari till. um vegáætlun, að opna nú aftur inn í ríkissjóð, því að það er vonlaust að koma áfram vegamálunum í landinu, svo að nokkurt lag sé á, nema ríkissjóður leggi þar til fé með sínum framlögum meðan hann heldur þeim tekjum, sem hann heldur af vegagerðinni í landinu, eins og hann gerir nú. Þess vegna er þetta eini þátturinn, sem er nokkurs virði í vegáætluninni. Hitt er svo annað mál, að hefðu þessar 47 millj. kr. þegar verið veittar 1966, 1967 og 1968 á fjárl. þeirra ára og svo nú aftur, þá hefði notagildi þess fjár orðið margfalt meira, því að það hefur verið staðið undir greiðslu á lánum vegna Keflavíkurvegarins með því að taka ný lán, sem tvær gengisbreytingar hafa svo hækkað um nærri 150 millj. kr. Það eru vextirnir, sem við verðum að greiða, vegna þess að við tókum upp þá skammsýnu stefnu að fella þessa fjárveitingu niður. Ef við hefðum haft þessar 150 millj. kr., þá stæðum við meira en 150 millj. kr. betur nú, en við stöndum í vegamálunum. Þetta vil ég minna hv. alþm. á um leið og ég undirstrika að barátta okkar fyrir því að leiðrétta þetta aftur ber nú loks árangur.

Um brúaféð er það að segja, að hæstv. ráðh. hafði orð á því áðan, að það hefði nokkuð vel til tekizt, en betur má, ef duga skal. Á árinu 1968 var varið 50.1 millj. kr. til brúargerða í landinu. Á árinu 1969 á að verja 39.8 eða rúmlega 11 millj. lægri fjárhæð en 1968, en hefði notagildi fjárins 1968 átt að vera sama 1969, þá hefði í staðinn fyrir 39 millj. kr. þurft að verja 63 millj. kr. Hækkunin á brúarframkvæmdum er það mikil, að við hefðum þurft að verja 63 millj. kr., svo að hér vantar hvorki meira né minna en 24 millj. kr., til þess að við getum unnið jafnmikil verk í brúargerð árið 1969 og við unnum á s.l. ári. Árið 1970 er gert ráð fyrir 41.2 millj. til brúargerðar, en hefðu eftir sömu reglu þurft að vera 65 millj. kr. 1971 er gert ráð fyrir 46.8, en þá hefði þurft að vera 66.7 og 1972 48.5 í staðinn fyrir 66.7. Þessi samanburður sannar okkur, að við erum hér áfram á rangri leið, því við erum fjær því að geta sinnt verkefnunum í brúargerð á næsta ári og næstu árum en við vorum þó á s.l. ári.

Í sambandi við vélakost vegagerðarinnar vil ég segja, að það er eðlilegt og sjálfsagt að vegagerðin hafi nokkurn vélakost til þess að geta innt af hendi ýmis verk, m.a. til þess að eiga aðgang að heppilegum samanburði um kostnað við framkvæmdir við vegagerð. Ég vil hins vegar segja það sem mína skoðun, að það er ekki eðlilegt, að vegagerðin eigi öll tæki sem unnið er með í vegagerð. Það er ekki heppilegt, að opinber aðili eigi nema takmarkað af slíkum tækjum, svo að ekki þurfi að búa til verkefni handa þeim, en hitt er jafnóeðlilegt, eins og nú á sér stað, að tæki og vélar vegagerðarinnar og sá mannskapur, sem hún hefur vegna þeirra og eru ársmenn, skuli ekki hafa verkefni á sama tíma og aðrir verktakar eru að vinna að vegamálum rétt fyrir framan áhaldahúsið, eins og nú á sér stað. Sú stefna, sem tekin var með afgreiðslu á málum Vesturlandsvegar í haust, er ekki rétt og passar ekki til framkvæmda í vegagerð. Það verður þó fyrst og fremst að hugsa um það, að vegagerðin sjálf hafi vinnu fyrir þær vélar og tæki, sem vegasjóður og ríkissjóður eru búnir að leggja fjármuni sína í, til þess að vegagerðin geti eignazt og það verður ekki eðlileg nýting á tækjunum, ekki eðlilegar afskriftir og það kemur fram í því, nema nóg verkefni séu fyrir hendi, að leigan á þessum tækjum verður dýrari í þeim vegum, sem þau eiga að vinna. Þess vegna vil ég undirstrika, að vegagerðin á ekki að eignast nema hæfilega mikið af tækjum, því það er réttmætt og sjálfsagt að vinna einnig í vegagerð með tækjum annarra, en hún á að fá að nota sín tæki á undan þeim vélum, sem leigðar eru frá öðrum aðilum.

Ég skal ekki þreyta hv. þm. með langri ræðu, en ég vil leggja áherzlu á þetta að lokum: Viðhaldið á þjóðvegunum hefur ekki verið og er ekki eðlilegt og það verður að auka fé til viðhalds, ef vegirnir eiga að vera sæmilega vel færir. Það verður að leggja margfalt meira fé til framkvæmda í þjóðbrautum og landsbrautum og við verðum fyrr, en seinna, að ljúka því verki að gera hringveg í kringum landið. Til þess að við getum það, verðum við að auka framkvæmdafé í þessum málaflokkum vegagerðarinnar, bæði þjóðbrautum og landsbrautum. Það verður ekki hægt að leysa þörfina í gerð hraðbrauta, nema með ríkislánum. Tekjur vegasjóðs eru ekki meiri en það, að hann er full hart reyrður til þess að standa undir gerð þjóðbrauta og landsbrauta. Ríkissjóður verður að taka að sér að greiða vexti og afborganir af þeim lánum, sem nú eru á vegasjóði, til þess að framkvæmdirnar fái aukið fé og á þessu tímabili mundi það muna um 70 millj. kr. Það munar vegasjóð að nokkru leyti, en ríkissjóð sem sagt ekki neitt. Þess vegna verð ég að segja, ekki sízt þegar miðað er við framkvæmd á vegamálunum síðustu árin eða þátt ríkissjóðs í þeirri framkvæmd, að hæstv. vegamrh. hefði átt að beita sér fyrir því, að ríkissjóður tæki þessa greiðslu að fullu, en færi ekki að skilja þessar 70 millj. eftir, eins og gert er. Ég legg áherzlu á, að þannig verður að standa að vegagerðinni í landinu, ef við eigum að ná sæmilegum árangri í vegamálum.