19.03.1969
Sameinað þing: 36. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í D-deild Alþingistíðinda. (3086)

181. mál, vegáætlun 1969--1972

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég skal leitast við að lengja ekki mikið þessar umr. Mér er kunnugt um að koma á þessu máli til n. og ljúka þessari umr. í dag og sé ég, að þetta er eðlilegt, þar sem mjög er liðið á þing.

Það komu fram í ræðu hæstv. ráðh. upplýsingar um vexti og afborganir af lánum, sem hvíla nú á þjóðinni vegna vegaframkvæmda, en öll eru föst lán á síðustu áramótum 516 millj. En það sem mig langaði til að spyrja hæstv. ráðh. um, ef hann hefði það við hendina er, hversu mikil upphæð þetta verður t.d. á þessu ári, vextir og afborganir til samans. Hann nefndi upphæðir í hverjum flokki vega að mér virtist, en ég a.m.k. náði því ekki, hvað þessi upphæð muni verða há á þessu ári, vextir og afborganir af lánum alls. Mér sýnist fljótlega séð með því að líta á þetta, að þá hljóti það að vera einhvers staðar á milli 70–80 millj., ef maður reiknar með að, að meðaltali séu vextir og afborganir um 15% af upphæðinni, en það getur verið, að það sé eitthvað hærra eða lægra.

Þá tók ég eftir því, að hæstv. ráðh. skýrði frá því, að nú mundi ríkissjóður taka á sig að greiða vexti og afborganir af hraðbrautarlánum, ef ég hef skilið það rétt, en ég vil spyrja hann að því, hvort það eru aðeins lán vegna hraðbrauta, sem ríkissjóður ætlar að taka að sér eða hvort það verða líka lán, sem tekin hafa verið vegna þjóðbrauta og landsbrauta og hversu há upphæð það verður í heild, sem ríkissjóður tekur þannig að sér? Mér finnst þetta skipta nokkru máli, hvort þessum vöxtum og afborgunum verður létt af fjárveitingum til veganna, því að hingað til hafa þær að sjálfsögðu verið teknar af fjárveitingunum. Það skiptir ekki litlu máli, hvort ákveðnir vegir losna við þessar greiðslur og geti því notað allar fjárveitingarnar samkvæmt vegáætlun í nýjar framkvæmdir eða hvort þær skerðast mikið vegna afborgana og vaxta. Með öðrum orðum spyr ég um, hvort það sé af öllum vegum, sem ríkissjóður ætlar að taka að sér greiðslu vaxta og afborgana, eða af hvaða vegum er það og hversu há er upphæðin t.d. á þessu ári?

Aðallega stóð ég þó upp til þess að vekja athygli hv. fjvn. á því, að mér sýnist fjárveitingar úr vegasjóði til þjóðbrauta og Landsbrauta fara ískyggilega lækkandi, ef miðað er við heildartekjur vegasjóðs. Ég hef gert mér nokkra grein fyrir þessu og mér sýnist, að fjárveitingar samkvæmt vegáætlunum undanfarin ár til þjóðbrauta og landsbrauta hafi á árinu 1964 verið 21,4% af heildarupphæðinni, heildartekjum vegasjóðs, 1965 hafi þetta verið 19,4%, 1966 17,3% og 1967 14,1%. Ég hef ekki athugað þetta fleiri ár, enda getur hver og einn athugað þetta, en samkvæmt þessari vegáætlun sýnist mér, að á árinu 1969 verði þetta komið niður í 11,4% og síðasta ár hinnar væntanlegu vegáætlunar 1972, verði þetta komið niður í 10%. Þetta finnst mér ákaflega ískyggileg þróun með fjárveitingar til nýrra vega. Við vitum, að það er talsvert mikið eftir að leggja af nýjum vegum í landinu. Menn eru yfirleitt sammála um, að það þurfi að koma hringvegur um landið. Það hefur verið gerð samþykkt um það á Alþ. og ákaflega margir vegakaflar eru þannig komnir, að það þarf hreinlega að endurbyggja þá. Þörfin fyrir fjárveitingar til þjóðbrauta og landsbrauta er því ákaflega mikil og mér finnst það ískyggilegar horfur, ef það á alltaf að fara hlutfallslega minnkandi, sem til þeirra er lagt. Þetta vil ég benda á strax við þessa umr.

Hraðbrautirnar aftur á móti eru alveg geysilegt vandamál. Mér heyrðist, að hæstv. ráðh. skýrði svo frá í ræðu sinni hér áðan, að í ráðagerðum um hraðbrautir austur að Selfossi, suður í Hafnarfjörð og upp í Leirvog sé áætlað, að þær kosti um 1.200 millj. miðað við núverandi verðlag, að Hafnarfjarðarvegur kosti um 100 millj., leiðin austur að Selfossi um 800 millj. og vegur upp í Leirvog um 300 millj. Er þá ekki ætlunin, að ríkissjóður taki að sér að greiða vextina og afborganirnar af þeim lánum, sem til þess yrðu tekin, því fyrst og fremst yrðu tekin lán og það er engin smáræðis upphæð, vextirnir og afborganirnar af slíkum upphæðum. Þetta er allt ógert, en þetta er ráðgert að komi á tímabili vegáætlunarinnar, 4 árum. Það getur verið, að það sé misskilningur, en vextir og afborganir af 1.200 millj., þó að við reiknuðum ekki með hærri upphæð, en 15% hvoru tveggja að meðaltali, þá eru það um 180 millj. Svo eru þær skuldir, sem nú eru um 516 millj. til viðbótar. Þær hljóta að vísu að lækka, en það getur verið, að áfram verði tekin lán, sem nemi a.m.k. afborgununum og þá lækka þær ekki.

Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta meira, en mér þætti vænt um, ef hæstv. ráðh. hefði þessar tölur við hendina. Annars skal ég sætta mig við, að það bíði til síðari umr., ef hann hefur þær ekki svo að segja fyrir framan sig.