18.04.1969
Sameinað þing: 41. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í D-deild Alþingistíðinda. (3108)

204. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að segja nokkur orð um þær hugmyndir, sem mér virðast koma fram hjá hv. 4. þm. Norðurl. v., er hann talar fyrir þessari þáltill um að fela landbrh. að láta endurskoða lög um Stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum. Eins og hv. þm, er kunnugt og hlýtur að vera ljóst, er þessi till. mjög nálægt þeirri till., sem ég talaði fyrir áðan, en það eru þó viss veigamikil atriði, sem þarna skilja á milli, og vil ég aðeins benda á þau.

Í fyrsta lagi eru það brot á þeirri hefð, sem ég aðeins minntist á, að ríkt hefði við setningu nær allrar landbúnaðarlöggjafar hér á landi, að ég hygg að segja megi frá upphafi, en það er, að bændasamtökin, fyrst og fremst Búnaðarfélag Íslands og síðar Stéttarsamband bænda, eftir að það kemur til, hafa átt aðild að samningu laganna. En það er engin trygging fyrir því, ef þessi till. yrði samþ., að svo yrði, þar sem það er lagt í vald hæstv. landbrh. Að vísu gætum við vel treyst þeim manni til að velja menn frá þessum stofnunum til endurskoðunar laganna, en það er engin trygging fyrir því að svo verði.

Í öðru lagi vék frsm. að framkvæmdaatriðum í sambandi við jarðræktarstyrk. Ef það væri megintilgangur með flutningi þessarar till. að fá breytingu á þeirri framkvæmd, þá hefði hann greinilega átt að flytja þáltill. um breytingu á jarðræktarl., en jarðræktarstyrkur er fyrst og fremst greiddur eftir þeim. Um framkvæmd þeirra laga hefur Búnaðarfélag Íslands alltaf séð. Hins vegar hafa með löggjöf verið tekin einstök atriði frá Búnaðarfélagi Íslands og það er það óeðlilega í hlutunum, að fleiri og fleiri atriði séu tekin frá Búnaðarfélagi Íslands í þessum málum. Það, sem ég tel eðlilegt og vék að í minni till., er raunar að snúa þessari þróun við, það yrði sameining til þess að gera hlutina einfaldari. Það ætti miklu frekar að athuga það alvarlega.

Ég reikna með því, að fyrst þessar tvær till. eru komnar fram, þá sé sennilegt, að af einhverri endurskoðun á lögum um Landnám ríkisins verði. Þá ætti frekar að hafa í huga sameiningu og færa hlutina til baka til Búnaðarfélags Íslands, heldur en halda áfram að kljúfa þá frá því.

Ég vil aðeins benda á, hvað Búnaðarfélag Íslands er. Það er samtök íslenzkra bænda. Það er sérstakt íslenzkt fyrirbæri, að bændur hafa þetta sjálfstæða félag, sem Búnaðarfélag Íslands er, sem hefur töluvert mikil völd í sambandi við framkvæmd sérmála þeirra. Ég vil minna á Búnaðarþing, sem er yfirstjórn Búnaðarfélags Íslands, kosið af bændunum og það ályktar árlega um málefni bændanna og að það er ákaflega mikill styrkur fyrir íslenzka bændastétt að hafa Búnaðarþing og Búnaðarfélag Íslands til þess að standa að sínum málum. Það má segja, að Búnaðarfélagið sé að nokkru leyti starfandi sem ráðuneytisdeild. Því er falin framkvæmd ákveðinna laga. Og ég hygg, að frá hálfu ráðuneytanna sé ekkert upp á það að klaga. Það gerir það ákaflega trúverðuglega. En það er ákaflega mikill styrkur fyrir bændastéttina að hafa þetta félag, og því ber alveg tvímælalaust að vinna gegn því, að verkefnin séu frá því tekin og vald þess eða áhrifamáttur þess skertur. Ég vil benda á, að Búnaðarfélagið hefur auk ráðunautaþjónustunnar, hinnar faglegu ráðunautaþjónustu, með að gera ákaflega mörg framkvæmdatriði einmitt eftir jarðræktar– og búfjárræktarl. og það er t.d. með skipulagningu jarðabótanna og úttekt þeirra. Það er mikill trúnaður, sem ráðunautum Búnaðarfélags Íslands og búnaðarsambandanna er falinn. Og það hefur borið á þeirri óeðlilegu þróun, að Búnaðarbankinn væri að fela þessum starfsmönnum búnaðarsambandanna og Búnaðarfélags Íslands önnur verkefni, sem þeir að vísu hafa sinnt. En þetta er óeðlileg þróun og það er miklu meiri ástæða til að færa þarna til baka en kljúfa áfram. Ég get ekki varizt því, að mér fannst hálfgerður Búnaðarráðsblær á þessari framsöguræðu hv. þm.

Varðandi það, sem hann nefndi um skiptingu jarða og þann hátt, sem hafður hefur verið á að undanförnu, að veita hærri ræktunarstyrk til þeirra, sem hafa minni ræktun og minni bú, vitum við, hver meiningin hefur verið. Hún er sú að jafna bústærðina til þess raunverulega, má segja, að stækka meðalbúið til þess að lækka framleiðslukostnaðinn. Og þetta hefur verið talið eðlilegt. Þó að kannske eitthvað hafi borið á því, að væri tilhneiging til að skipta jörðum, þá vil ég fullyrða, að það sé hlutfallslega lítið og það hefur einmitt gengið miklu meira í þá átt að undanförnu, að það hefur verið stofnað til félagsrekstrar og það er ekki óeðlilegt. Þessi félagsrekstur er einmitt hagkvæmur. Þar er komizt fram hjá hinu erfiða einyrkjaspursmáli og það auðveldar einnig ættliðaskipti á jörðunum. Þá kemur oft að því, að það eru byggð tvö íbúðarhús á sömu jörðinni og þó að bændurnir njóti á einhverju stigi e.t.v. hærra framlags á meðan á þessu stendur, þá er það alls ekki óeðlilegt. Jarðræktarframlag er alls ekki það hátt miðað við þann stuðning, sem landbúnaður hefur til svipaðra framkvæmda erlendis. Það er langt frá því, að ástæða sé til þess að sjá eftir því, þó e.t.v. komi fyrir, að einhverjir bændur hefðu þarna aðeins hagkvæmari ræktun af þeim sökum.

Í þáltill. þeirri, sem ég flutti ásamt hv. meðflm., er ekki vikið sérstaklega að þessu atriði, sem að vísu má telja óeðlilegt, að jarðræktarstyrkur sé greiddur út á tveimur stöðum, en ég gæti vel fallizt á, að það væri tekið til endurskoðunar. E.t.v. þarf þá einhverja breytingu á jarðræktarl., en það ætti að vera endurskoðun, sem miðaði að því að færa þetta allt saman til baka. Ég vék að því, að það væri e.t.v. hugsanlegt, að með skipulagsbreytingu mætti fela Búnaðarfélagi Íslands hlutverk Landnáms ríkisins og þannig spara í rekstrinum. En það er í fyllsta máta óeðlilegt, ef þróunin ætti að ganga í hina áttina.

Ég vil aðeins geta þess og raunar taka undir það með hv. 4. þm. Norðurl. v., að það þarf að auka ræktunina. Ég vil benda á, að á nýafstaðinni gróðurverndarráðstefnu var það mjög undirstrikað af þeim mönnum, sem við verðum að telja, að hafi bezta þekkingu á hlutunum, að íslenzkt gróðurlendi er ofnýtt eins og er, þ.e.a.s. sú áhöfn, sem er á landinu, er of mikil. Beitilöndin eru ekki nægileg og ekki nægilega góð, en leiðin til þess að bæta úr þessu er alveg tvímælalaust sú að auka ræktunina í landinu og ég held, að það ætti ekki að vera að flytja till., sem hægt væri að benda á, að mundu leiða til minnkandi ræktunarframlaga.