21.11.1968
Sameinað þing: 14. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í D-deild Alþingistíðinda. (3119)

62. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Flm. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Gengisfelling ríkisstj. mun ekki leysa þann vanda, sem við er að glíma í efnahagslífinu. Þau vandamál eru fyrst of fremst þríþætt, þ.e.a.s. fjárskortur og hallarekstur atvinnuveganna og þá alveg sérstaklega sjávarútvegsins, viðskiptahalli við útlönd, rekstrarhalli ríkissjóðs og fjárþrot ýmissa framkvæmdasjóða.

Flest öll fyrirtæki eru sögð rekin með tapi. Samkvæmt áætlun sérfræðinga hefði að öllu óbreyttu þurft að flytja til sjávarútvegsins, í einu eða öðru formi, 12–1400 millj. kr. á næsta ári, ef hann átti að skrimta. Rekstrarfjárskortur háir iðnaði og veldur samdrætti. Atvinnuleysi er víða byrjað, en annars staðar yfirvofandi. Mikill fjöldi bænda er að sligast undir skuldum og þeir eiga yfir höfði sér lokun viðskiptareikninga. Hinn svonefndi gjaldeyrissjóður er tæmdur. Áætlaður viðskiptahalli á síðasta ári og á þessu nemur mörg hundruð milljónum króna. Skuldir þjóðarinnar við útlönd námu á gamla genginu 8–9 milljörðum, en verða samkv. hinu nýja gengi um 12.5 milljarðar eða um 60 þús. kr. á hvert einasta mannsbarn í landinu. Árlegar afborganir þeirra og vextir munu nema rúmum 15% af öllum gjaldeyristekjum þjóðarinnar á útflutningi og þjónustu og menn éta upp andvirði alls freðfisksútflutnings. Gert var ráð fyrir, að greiðsluhalli hjá ríkissjóði yrði um 350 millj. kr. á þessu ári. Yfirdráttarskuld ríkissjóðs við Seðlabankann nemur um 800 milljónum kr. og hefur hækkað stórkostlega á árinu. Talið er, að fjárfestingarsjóði vanti á næsta ári um 450 milljónir kr., ef framkvæmdir ættu að verða nokkuð viðlíka á þessu ári.

Þannig eru nokkrir aðaldrættir þeirrar myndar, sem blasti við í viðræðum stjórnmálaflokkanna, samkv. upplýsingum embættismanna. Ég tek að sjálfsögðu enga ábyrgð á þeim, en ég hef heldur ekki aðstöðu til að véfengja þær. Það er athyglisvert, að þetta er lýsing stjórnarinnar sjálfrar á því neyðarástandi, sem skapazt hefur í stjórnartíð hennar. Þetta eru þau reikningsskil, sem ríkisstj. leggur á borðið eftir nær 9 ára viðreisnarstjórn. Mér finnst, að stjórn, sem slíka reikninga leggur fram, eigi að fara frá. Það er von, að þjóðin spyrji, hvernig á því standi, að svona er komið aðeins tveimur árum eftir að einu mesta góðæristímabili í sögu þjóðarinnar lauk. Og þá ekki sízt vegna þess, að í kosningunum fyrir 1 1/2 ári sögðu stjórnarflokkarnir, að allt væri í lagi.

Ég held, að orsakir efnahagsvandamálanna séu fyrst og fremst fjórar, þ.e. röng stjórnarstefna, verðbólga, verðfall útflutningsafurða og aflabrestur á vissum veiðum. Tvær hinar síðast töldu eru óviðráðanlegar. Þær eru mikið áfall, eins og á stendur, en þó engan veginn jafnmikið og stjórnarflokkarnir láta í veðri vaka. Sannleikurinn er sá, að þessi óviðráðanlegu atvik eru engan veginn sú afsökun fyrir ríkisstj., sem hún vill vera láta. Sveiflur i aflamagni og afurðaverði eru hér á landi regla, en ekki undantekning, eins og öll okkar atvinnusaga sýnir. Þess vegna er út í hött að afsaka erfiðleikana með minnkandi afla og lækkandi afurðaverði. Það verður jafnan að gera ráð fyrir því, að mögur ár komi á eftir góðum. Það var óðs manns æði að gera ráð fyrir metafla og metverði til frambúðar. Það geta verið afglöp hjá ríkisstj. að gera ráð fyrir slíkri framvindu. En auk þess er það svo, að samkv. opinberum upplýsingum er vísitala viðskiptakjara nú nokkurn veginn sú sama og árin 1961–1963. Viðskiptakjörin í fyrra voru svipuð og árið 1964. Ef verðbólgunni hefði verið haldið í skefjum, svo sem stjórnin á sínum tíma hét að gera, væri verðfallið og minnkandi aflabrögð ekki tilfinnanlegt vandamál. En undirrót verðbólgunnar er röng stjórnarstefna, ég vil segja stjórnleysi á sumum sviðum. Ýmsar ráðstafanir stjórnvalda á undanförnum árum hafa ýtt undir verðbólguna.

Stjórnarstefnan hefur einnig að ýmsu leyti verið röng í grundvallaratriðum gagnvart atvinnuvegunum. Þeim hefur verið íþyngt óhæfilega með álögum og fjármagnskostnaði, of mikið af ráðstöfunarfé þjóðarinnar hefur farið í vafasama fjárfestingu og almenna eyðslu, en atvinnuvegirnir hafa fengið of lítið af því í sinn hlut sem rekstrarfé. Taumlaus innflutningur hefur leitt til gjaldeyrissóunar og valdið innlendum iðnaði þungum búsifjum. Reynslan talar hér sínu máli. Hún sýnir í hvert öngþveiti stjórnarstefnan hefur leitt þjóðina.

En það, sem ríkisstj. er alveg sérstaklega ámælisverð fyrir að mínum dómi, er það, að hún skuli ekki hafa gripið fyrr í taumana og gert viðeigandi ráðstafanir til að mæta vandanum, því að hann hefur í öllum meginatriðum legið lengi ljós fyrir. Vissulega hefði verið auðveldara að fást við hann, ef fyrr hefði verið snúizt við honum og raunhæfar ráðstafanir gerðar í tæka tíð. En stjórnin lét reka á reiðanum, trúði á happdrættisvinning, sem aldrei kom, eyddi öllum sjóðum. Hún tók öll hugsanleg lán og fleytti þjóðarbúskapnum og lífskjörunum áfram allt þetta ár á fölskum forsendum. Samtímis horfði hún á, að fyrirtækjunum blæddi út. Þess vegna er vandinn orðinn miklu meiri og óviðráðanlegri, en áður var. Hinn óhæfilegi dráttur hefur kynt undir kaupæði, gjaldeyriseyðslu og spákaupmennsku. Sparifénu hefur beinlínis verið sópað út úr bönkunum. Í októbermánuði einum drógust t.d. bankainnlán saman um rúmar 150 milljónir. Með innflutningsgjaldinu var glæframennskunni gefið grænt ljós. Gengisfelling var í rauninni leynt og ljóst boðuð af ráðamönnum um tveggja mánaða skeið. Þegar í óefni er komið, hafa svo stjórnarflokkarnir gripið til fjórðu gengisfellingarinnar á valdaferli sínum og ætla með henni, ásamt boðaðri kaupbindingu, að vísu dulbúinni, að lækna allan vanda. Það er fullkomin blekking að halda því fram, að slík hrossalækning muni lukkast.

Þetta er fjórða gengisfelling ríkisstj. Þegar hún kom til valda, var skráð gengi bandaríkjadollars rúmar 16 kr., en með gjaldeyrisálagi raunverulega eitthvað yfir 20 kr. Nú kostar bandaríkjadollar rúmar 88 kr. Á einu ári hefur dollarinn við tvær gengisfellingar hækkað úr 43 kr. í 88 kr. eða meir en tvöfaldazt. Þetta er ljótur ferill. Allar þessar gengisfellingar hafa runnið út í sandinn. Þær hafa skapað fleiri vandamál, en þær hafa leyst. Þær hafa magnað dýrtíðina, spillt vinnufriði, ýtt undir eyðsluna, dregið úr sparifjármyndun og grafið undan gjaldmiðlinum og viðskiptasiðgæði. Örskömmum tíma eftir hverja gengislækkun hefur vandinn í raun og veru verið orðinn enn meiri, en hann áður var. Aldrei hefur þetta verið ljósara, en við gengisfellinguna í fyrra. Ég held, að hvert og eitt einasta varnaðarorð okkar stjórnarandstæðinga í sambandi við þá gengislækkun sé komið fram. Auðvitað verður reynslan af þessari gengisfellingu sú sama og af hinum fyrri, sem þessi ríkisstj. hefur staðið að. Gengisfellingin verkar kannske eins og morfínssprauta í bili. En það verður ekki lengi. Hún mun innan tíðar renna út í sandinn. Hún mun reisa nýja dýrtíðaröldu. Talið er, að hún muni hafa í för með sér 20% kjaraskerðingu, þegar öll áhrif hennar eru komin fram. Þá kjararýnun er öllum launþegum ætlað að taka á sig, hvort sem laun þeirra eru lítil eða mikil. Hvernig eiga menn, sem aðeins hafa 120–130 þús. kr. árstekjur, að taka á sig 20% kjararýrnun? Slíkt er útilokað. Hvernig eiga menn að komast af, ekki sízt, þegar atvinnuleysið má heita fyrirsjáanlegt? Það er spurning, sem leita mun á margan á næstunni. Ekkert bólar enn á hliðarráðstöfunum til að létta byrðarnar eða til að tryggja atvinnu. Enginn veit, hvað byggja má á óákveðnum og afsleppum fyrirheitum ríkisstj. Það eru ekki orð og fyrirheit, heldur athafnir, sem hér skipta máli. Til þessarar gengislækkunar er stofnað án alls samráðs við launþegasamtökin. Þess er engin von, að þau geti sætt sig við hana bótalaust, eins og allt er í pottinn búið. Það er augljóst mál, að vinnufriði er stefnt í voða. Viðbrögð verkalýðssamtakanna bera því vitni, hvers vænta má. Um áhrif gengisfellingarinnar á hag sparifjáreigenda þarf ekki að ræða. Þau liggja í augum uppi. Sama máli gegnir um aðstöðu námsmanna, einkanlega þeirra, sem stunda nám erlendis. Framundan þeim eru lokaðar dyr. En gengislækkunin verður ekki heldur án stefnubreytingar að öðru leyti það bjargráð fyrir atvinnuvegina, sem látið er í veðri vaka. Hún hefur í för með sér stórhækkaðan rekstrarkostnað, kallar á meira lánsfé og leggur óbærilega bagga á þau fyrirtæki, sem skulda erlendis, en þau eru býsna mörg. Þannig munu t.d. erlendar skuldir fiskiskipanna hækka um 350 millj. kr.

Gengisbreyting getur aldrei borið tilætlaðan árangur að mínum dómi, nema um hana sé víðtæk samstaða, að skilningur ríki á þörf hennar og hún sé innan hóflegra marka. Ekkert þessara skilyrða er nú fyrir hendi. Þess vegna er þessi gengisfelling, eins og til hennar er stofnað, fullkomið glæfraspil, sem getur innan tíðar leitt til enn meira öngþveitis. Sannleikurinn er sá, að þessi gengislækkun læknar líklega ekki vanda neins, nema þá fjmrh., þ.e. ríkissjóðsins.

En hvað átti að gera? Var nokkur valkostur fyrir hendi? Í viðræðum stjórnmálaflokkanna bentum við stjórnarandstæðingar á ýmis úrræði til þess að minnka þann vanda, sem við var að glíma. Að sjálfsögðu eiga þau sum hver ekki við, eftir að gengisfelling hefur verið framkvæmd. Við bentum t.d. á eftirtaldar ráðstafanir til að bæta stöðu atvinnuveganna og til að stuðla að atvinnuöryggi.

Að tilteknum fyrirtækjum yrði veittur greiðslufrestur. Að lausaskuldum framleiðslu– og atvinnuveganna yrði breytt í föst lán og skuldaskil framkvæmd í vissum tilvikum og komið yrði á fót sérstökum aðstoðarlánasjóði í því skyni. Að lækkaðir yrðu vextir af stofn– og rekstrarlánum atvinnuveganna. Að lækkaðir yrðu eða felldir niður ýmsir sérskattar á atvinnuvegina. Að ýmis þjónustustarfsemi við atvinnuvegi yrði tekin til lagfæringar, svo sem byggingar, rafmagnskostnaður o.fl. Að tekin yrði upp skipuleg fjárfestingarstjórn og verkefnum raðað niður, en þetta er auðvitað óhjákvæmilegt, þegar lánsfé er takmarkað.

Stjórnleysið í fjárfestingu á undangengnum árum er kannske, þegar allt kemur til alls, ein aðalrót efnahagsvandans. Við bentum á, að hið opinbera ætti að hafa forustu um ráðstafanir til uppbyggingar og eflingar atvinnulífinu og ætti að hafa um það samráð við sveitarfélög og stéttarsamtök. Við lögðum alveg sérstaka áherzlu á ráðstafanir til að tryggja atvinnu, hvar sem er á landinu. Við nefndum ýmsar ráðstafanir til að bæta hag og samkeppnisaðstöðu iðnaðarins, svo sem lækkun eða niðurfellingu tolla á framleiðslutækjum, hráefni og rekstrarvörum, sérstaka lánafyrirgreiðslu, m.a. til jafns við aðrar atvinnugreinar, takmörkun innflutnings á iðnaðarvörum á þeim sviðum, þar sem vörur til sömu notkunar eru framleiddar hér á landi.

Til þess að rétta stöðu landsins út á við höfum við lagt til, að tekin sé upp heildarstjórn á gjaldeyris– og innflutningsmálum með hlíðsjón af gjaldeyrisöflun og þörfum framleiðsluatvinnuveganna. Jafnframt yrði lögð áherzla á aukna gjaldeyrisöflun með fullnýtingu afurða, framleiðslutækja og vinnuafls ásamt bættu markaðskerfi. Ég er ekki talsmaður hafta– eða leyfakerfis. Ég vil hafa svo mikið viðskiptafrelsi í innflutnings– og útflutningsmálum, sem ástæður frekast leyfa. En vil ekki fórna þjóðfrelsi fyrir braskfrelsi, fyrir frelsi til að eyða meira, en tekjurnar leyfa. Það verður vitaskuld að hafa stjórn á þessum málum. Algert frelsi í þeim efnum hjá þjóð, sem býr við jafnóvissar og sveiflukenndar gjaldeyristekjur og er jafnháð utanríkisviðskiptum og Íslendingar, er útilokað. Þann sannleik verður að segja, hvort sem mönnum líkar hann betur eða verr. Hitt er ekki síður mikilsvert að auka gjaldeyristekjurnar með fullvinnslu afurða og bættri meðferð. Þar hefur skort forustu af hálfu ríkisins. Hvað hefur t.d. verið gert til að tryggja betri meðferð á fiski, sem fluttur er í land til frystingar, t.d. með því að setja hann í kassa? Tilraunir einstaklinga benda til þess, að með þeim hætti mætti stórauka verðmæti framleiðslunnar. Sölukerfið allt þarf að taka til endurskoðunar. Það þarf að taka upp ný vinnubrögð um markaðsöflun og markaðsleit. Það þarf að snúast við vandanum með jákvæðri sókn og baráttu eftir því, sem unnt er. Í þessum efnum erum við orðnir eftirbátar annarra, m.a. fyrir tómlæti og forustuleysi ríkisvaldsins.

Halla ríkissjóðs vildum við mæta með vægðarlausum niðurskurði á rekstrarútgjöldum ríkisins, hertu skattaeftirliti og auknum álögum á eyðslu og óþarfavöru. Þegar gerðar eru tilfinnanlegar kjaraskerðingarráðstafanir, verður ríkið einnig að spara og draga úr sinni eyðslu. Við töldum, að fulltrúar úr öllum flokkum ættu að fá það verkefni að koma fram með sameiginlegar sparnaðartill.

Við framsóknarmenn töldum, að með þessum og öðrum slíkum ráðstöfunum mætti minnka verulega þau vandamál, sem við var að glíma. Hitt viðurkenndum við, að þær leystu ekki allan vandann. Til viðbótar hefði þurft að gera einhverja tilfærslu til atvinnuveganna, en miklu viðráðanlegri en ella. Þegar þessar ráðstafanir hefðu verið gerðar eða teknar með í reikninginn, átti að okkar dómi að athuga, hvaða frekari ráðstafana væri þörf til að kom atvinnuvegunum á rekstrarhæfan grundvöll og afla fjárfestingarsjóðum nauðsynlegs fjármagns. Þar gátu m.a. komið til greina gengisbreyting, uppbótaleið og niðurfærsla og blandaðar leiðir. Af þessum leiðum átti að velja þá, án allra fordóma, sem hafði minnsta lífskjararöskun í för með sér.

Ég tel þessi úrræði boðlegan valkost, þó að þau leysi ekki allt vandamálið. Við framsóknarmenn höfum aldrei haldið því fram, að efnahagsmeinsemdirnar mætti lækna með einu pennastriki. Og mér dettur ekki í hug að reyna að afla mér og mínum flokki fylgis með því áð halda því fram, að hægt sé að komast út úr vandanum án allra fórna. Það getur engin ríkisstj. gert úr því, sem komið er. Það gerir enginn af okkur kraftaverk. En málin komust aldrei á það stig í viðræðunum, að um val milli leiða væri að ræða. Það kom glöggt fram, að stjórnarflokkarnir vildu ekki sinna ábendingum okkar. Þeir gerðu lítið úr og vildu ekki fallast á úrræði þau, sem við nefndum. Þeir vildu ekki breyta um stefnu. Þeir sáu ekkert annað, en gengislækkun eða hækkun söluskatts og uppbætur. Það kom auðvitað aldrei til mála, að við léðum máls á slíku, áður, en önnur úrræði hefðu fyrst verið reynd eða við færum að taka afstöðu til þessara leiða, eins og að málum var staðið. Af hálfu sérfræðinganna var og aldrei lögð fyrir viðræður stjórnmálaflokkanna nokkur grg. um þessar mismunandi leiðir eða samanburður á þeim.

Þegar ljóst var, að stjórnarflokkarnir höfðu upp á eindæmi valið hina margreyndu gengisfellingarleið, — að þeir vildu ekki breyta um stefnu í neinum grundvallaratriðum og fengust ekki til að segja af sér til að skapa jafnræðisgrundvöll til viðræðna stjórnmálaflokkanna, – var allt samstarf á breiðara grundvelli útilokað. Að mínum dómi hefði þó verið þörf á víðtækri samstöðu um nauðsynlegar efnahagsaðgerðir, bæði á milli stjórnmálaflokka og stéttasamtaka. Þá hefði verið möguleiki til að koma málum þessum öllum á sæmilegan grundvöll.

Sannleikurinn er sá, að efnahagsörðugleikarnir nú stafa í raun réttri ekki af minnkun afla og lækkun afurðaverðs, heldur má rekja rætur þeirra til ógætilegrar fjármálastjórnar. Á undangengnu góðæristímabili var látið undir höfuð leggjast að safna til verri ára. Þjóðartekjunum var öllum ráðstafað og eytt og að auki tekin mörg og mikil lán, sem einnig eru að verulegu leyti runnin út í sandinn. Afleiðingin er ekki aðeins sú, að engir sjóðir, — hvorki gjaldeyrissjóðir né aðrir, — eru fyrir hendi til aðstoðar, heldur vaxandi verðbólga af völdum hinnar ógætilegu fjármálastjórnar á tímabilinu, þannig að samkeppnisaðstaða útflutningsatvinnuveganna hefur stórversnað. Ríkisstj. hefur með öllu brugðizt þeirri grundvallarskyldu sinni, sem viðurkennd er í öllum helztu menningarríkjum, að hamla með fjármálastefnu sinni gegn hagsveiflum, þ.e. að draga sem mest má úr fjárfestingu og eyðslu á verðbólgutíma, en auka hana eftir þörfum, þegar atvinnuástand býður.

Það horfir því miður þunglega fyrir þjóðinni. Verði ekki skipt um stefnu, eru allar líkur á því, að gengisfellingin og aðrar efnahagsaðgerðir ríkisstj. geri illt verra, að efnahagsvandræðin verði orðin innan tíðar miklu óviðráðanlegri, en þau hafa áður verið. Að fátækt og atvinnuleysi verði hlutskipti allt of margra á næstunni. Að gjaldþrotum og nauðungaruppboðum fjölgi og að margur missi það húsnæði, sem þeir hafa verið að reyna að koma sér upp með ærnum erfiðismunum. Skuldirnar við útlönd eru ískyggilegar. Greiðslubyrðin er sligandi, yfir 2 þús. millj. á ári og maður getur varla gert sér grein fyrir því, hvernig þjóðin á að standa undir henni á næstunni. Þar hafa ljótir baggar verið lagðir á framtíðina. Og enn dettur stjórninni sjálfsagt í hug að fleyta sér á erlendum lánum. Hvað verður langt í þjóðargjaldþrot, ef ekki verður skipt um stefnu? Atvinnuhorfurnar eru uggvænlegar. Atvinnuleysið er víða orðið staðreynd. Það mun vaxa stórlega á næstunni, nema gagnráðstafanir verði gerðar.

En þó að dökkt sé í álinn, dugar ekki að æðrast. Landið á mikinn náttúruauð. Fólkið er menntað og dugmikið, en það vantar nýja stjórn og ný vinnubrögð. Það þarf að marka og fylgja fram nýrri heildarstefnu í atvinnumálum, ekki sízt í iðnaðarmálefnunum, sem framtíð þjóðarinnar er svo mjög háð. Sú stefna þarf að vera mótuð af forustu, sem fólkið treystir.

Gengisfellingin er staðreynd. Frá henni verður ekki horfið. En nú skiptir mestu í bili að gengislækkuninni sé mætt með skynsamlegum ráðstöfunum til að draga úr kjaraskerðingu og þá sérstaklega hjá þeim verst settu. Það þarf að gera margvíslegar hliðarráðstafanir, ef hér á að afstýra hreinu neyðarástandi. Umfram allt þarf strax, alveg strax, að gera raunhæfar ráðstafanir til atvinnuaukningar. Ekki aðeins í Reykjavík og nágrenni, heldur hvarvetna, þar sem atvinnuleysisplágan herjar.

Ekkert af þessu verður gert, svo að gagn sé að, nema skipt sé um stefnu í grundvallaratriðum, en það verður ekki gert, nema þessi ríkisstj. fari frá og ný stjórn sé mynduð. Sú stjórn, sem leitt hefur þjóðina í þær ógöngur, sem hún er í nú, á að fara frá. Þess vegna berum við stjórnarandstæðingar fram till. um að lýsa vantrausti á ríkisstj. Stjórnin hefur haft meiri hl. á Alþ. Hún hefur hann kannske enn. Það sýnir sig skjótt. En hefur hún meiri hl. hjá þjóðinni? Það held ég ekki. Vantraustið bergmálar og endurómar æ sterkar frá fólkinu í landinu frá innstu dölum að yztu nesjum. Ríkisstj. eru nú kveðnar bersöglisvísur á vinnustöðum, í verzlunum, á heimilum og í skólum og svo að segja alls staðar, sem tveir eða fleiri menn hittast. Þær bersöglisvísur ætti stjórnin að skilja og fara frá sem fyrst. Hún hefur ekki ráðið við vandann. Hún ræður allra sízt við hann nú. Þá á hún að fara frá. Það hafa meira að segja ungir sjálfstæðismenn sagt henni. - Góða nótt.