21.11.1968
Sameinað þing: 14. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í D-deild Alþingistíðinda. (3120)

62. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Vel metinn guðsmaður lét fyrir skemmstu að því liggja, að við Íslendingar værum nú komnir á hreppinn. Aðrir tala um, að sjálfstæðið sé í hættu vegna of mikillar eyðslu og enn aðrir spyrja, hvort Ísland sé nógu stór efnahagsheild til að halda sjálfstæði sínu.

Það er alveg rétt, að í erfiðleikunum nú birtist höfuðveikleiki íslenzks þjóðfélags. Veikleiki, sem margir hafa þó bent á áður og stjórnmálabarátta síðustu ára hefur að verulegu leyti verið um. Þeir, sem hafa viljað leita lækninga á þessum veikleika, hafa iðulega verið sakaðir um vantrú á landinu og hinum „þjóðlegu atvinnuvegum“, eins og einn spekingurinn kemst að orði. Sakarefnið er þó það eitt að hafa brýnt fyrir mönnum hætturnar af einhæfum atvinnuháttum í okkar örðuga, en ástkæra landi. Nú ásaka þeir, sem andvaralausastir hafa verið, okkur, sem varað höfum við hættunni, fyrir að leiða kjaraskerðingu yfir landsfólkið með ráðstöfunum okkar. Sú ásökun er fjarri sanni. Kjaraskerðing nú stafar ekki af gengisbreytingu, heldur er skerðingin afleiðing okkur óviðráðanlegra orsaka. Gengisbreytingin er þvert á móti ráð til þess að draga úr kjaraskerðingu eftir föngum og gera hana sem skammvinnasta.

Á þessu ári eru allar horfur á því, að þjóðartekjur verði h.u.b. 15% lægri á mann, en þær voru fyrir 2 árum, þ.e. á árinu 1966. Hvernig, sem að er farið, komumst við ekki hjá að taka afleiðingum þessa og sníða okkur stakk eftir vexti, ef við viljum ekki hleypa okkur í sívaxandi skuldir. Þessi mikla tekjurýrnun, sem færir okkur 5 ár aftur í tímann eða á sama tekjustig og á árinu 1963, sprettur hins vegar fyrst og fremst af versnandi hag sjávarútvegsins. Hreinar útflutningstekjur hans verða nú ekki fullur helmingur þess, sem þær voru á árinu 1966. Nær allar útflutningstekjur þjóðarinnar eru sprottnar úr sjávarútvegi. Hann er okkar undirstöðuatvinnuvegur, sem gerir okkur fært að búa við sambærileg lífskjör og nágrannaþjóðirnar. Áföll þessarar undirstöðuatvinnugreinar eru sem sagt þrisvar til fjórum sinnum meiri, en nemur meðaltalsrýrnun þjóðartekna. Þess vegna er óhjákvæmilegt að flytja tekjur stórkostlega til sjávarútvegsins frá öðrum, svo að hann stöðvist ekki með öllu, enda sýnir samdrátturinn, sem þar er þegar orðinn, hver hætta öllum er búin, ef sjálf undirstaðan bregzt.

Á umrótstímum fer ævinlega margt í súginn, en þjóðarauður Íslendinga hefur vaxið meira á þessum áratug, en nokkru sinni áður og miklu meira, en skuldaaukningu nemur. Við skulum heldur ekki gleyma gjaldeyrisvarasjóðnum, sem safnað var, en nú er þrotinn, en auðveldaði mjög þau umskipti, sem óumflýjanleg eru og urðu hans vegna mun hægari en ella. Sá tekjuflutningur, sem hér þarf að gera, er svo stórfelldur, að ekkert smáræði dugar. Víst lætur vel í eyrum að tala um sparnað og að betur megi með sitthvað fara. Sukk og óhófseyðsla mega aldrei eiga sér stað. En hv. stjórnarandstæðingar hafa ekki fengizt til að nefna nokkra ákveðna sparnaðartill. í öllum þeim viðræðum, sem við höfum átt við þá í haust.

Á viðleitni til aukinnar hagnýtingar og hagræðingar má aldrei slaka. En viðfangsefnið er stærra og af öðrum rótum runnið, en við það verði ráðið með þessum úrræðum. Ekki tjáir að ímynda sér, að vandinn eyðist við það, þótt tínd séu saman allmörg atriði, jafnvel mun fleiri, en boðorðin tíu, ef skoðun sýnir, að hvert og eitt og öll saman hafi enga úrslitaþýðingu. Hvorki fögur orð né sundurleitar og gagnstæðar aðgerðir, sem litlum eða engum sárindum eiga að valda, geta komið í stað raunsæis og átaka, sem erfiðis krefjast, en óhjákvæmilegar eru.

Verðfall, sölustöðvun eða sölutregða og aflabrestur eru höfuðorsakir vandans nú, sem fyrst og fremst lýsir sér í samsvarandi minnkun útflutnings og þar af leiðandi gjaldeyrisskorti, sem aftur hefur í för með sér nauðsyn á samdrætti innflutnings. Auðvitað hefur vandinn vaxið vegna hás tilkostnaðar innanlands. Tilkostnaðurinn stafar aftur á móti einkum af launahækkunum, sem jafnóðum færðu gróða góðu áranna til almennings og tryggðu hér meiri tekjujöfnuð en annars staðar þekkist. En launahækkanirnar sköpuðu einnig meiri verðbólgu á Íslandi en í öðrum nálægum löndum. Þegar talað er um, að aflabrögð og viðskiptakjör séu nú ekki verri en á árunum 1961 og 1963, eins og hv. síðasti ræðumaður gerði, má það rétt vera. En það leiðir óhrekjanlega til þess, að við höfum nú ekki efni á hærri launagreiðslum en þá, enda mundi meginvandinn leystur, ef menn vilja sættast á þá viðmiðun, því að sú kjaraskerðing, sem viðurkennd er með gengislækkuninni, mun, þegar öll kurl koma til grafar, nema h.u.b. því, að lífskjörin færist aftur til þess, sem þau vori á árinu 1963, þegar þjóðartekjurnar á mann voru svipaðar og nú.

Með gengisbreytingunni vinnst hvort tveggja, að mjög hlýtur að draga úr innflutningi á innfluttum vörum og útflutningurinn fær samsvarandi örvun. Algjör misskilningur er, að unnt mundi að ná nauðsynlegri minnkun innflutnings með höftum eða innflutningsbönnum á einstökum vörutegundum. Reynsla okkar á slíkum ráðstöfunum um mannsaldursskeið sannaði, að þær megna ekki að rétta viðskiptahalla út á við, auk þess, sem þær hafa þau helzt áhrif á tekjuskiptinguna inn á við, að magna svartamarkað og spillingu. Á síðasta haftatímanum, árum vinstri stjórnarinnar, var þeim meira að segja beitt til að tryggja innflutning á óþarfa vöru til tekjuauka fyrir ríkissjóð og gjaldeyrisleyfi í því skyni látin njóta forréttar fram yfir innflutning á miklu þarfmeiri vöru fyrir almenning, þ.á.m. til margs konar framkvæmda.

Hækkun á erlendu vöruverði vegna gengisbreytingarinnar dregur að sjálfsögðu úr innflutningi erlendrar vöru og skapar innlendum iðnaði miklu betri samkeppnisskilyrði en áður. Jafnframt því hlýtur hún að hindra óþörf ferðalög til útlanda. Á hinn bóginn hvetur gengisbreytingin mjög til aukins útflutnings. Auðvitað gagnar engin gengisbreyting til að bæta upp verð á afla, sem brestur að mestu eða öllu, en hún ýtir undir leit að nýjum leiðum. Hún getur orðið einkaframtaki, dug og áræði sú driffjöður, sem öllu öðru fremur þarf nú á að halda. Aftur á móti skapar hvort heldur svokölluð lækkunarleið eða uppbætur ásamt sköttunum, sem afla þarf til að greiða þær, hættu á stöðnun og bitnar sízt léttar á almenningi, en gengislækkunin.

Aðalatriðið er, að það er ekki gengisbreytingin, sem skapar kjaraskerðinguna, heldur valda henni ytri aðstæður og kjaraskerðing í svipuðum mæli varð ekki umflúin, hvaða leið, sem valin hefði verið. Að sjálfsögðu fylgja ýmsir ókostir gengislækkuninni. Tekjuflutningur til útflutningsframleiðslunnar og minnkun innflutnings er ekki sársaukalaus. Hvort tveggja bitnar mjög á verzlunarstéttinni. Algert öfugmæli er þess vegna, þegar því er haldið fram, að henni sé ívilnað með þessum ráðstöfunum. Þvert á móti reynir nú meira, en nokkru sinni fyrr, á þjóðhollustu hennar. Allir frjálshuga menn skyldu þó minnast þess, að þótt eðlilegt sé, að ríkisvaldið hlutist til um leiðréttingu ýmiss konar misræmis, sem af gengisbreytingunni leiðir, svo sem ráðstafanir til að létta aukinn þunga námskostnaðar erlendis, er með þessu móti hægt að bægja frá hinni lamandi hönd allsherjar ríkisafskipta, eins og hv. síðasti ræðumaður gerðist talsmaður fyrir.

Misskilningur er, að erlendar skuldir þjóðarinnar í heild vaxi við breytinguna. Þær eru þvert á móti allar í erlendum gjaldeyri, svo að þær standa í stað, en gengisbreytingin auðveldar yfirleitt greiðslur þeirra vegna meiri gjaldeyrisöflunar en ella og minni eyðslu til þess, sem unnt er að vera án. Annað mál er, að upphæð þeirra í innlendri mynt hækkar, sem breytingunni nemur, en nokkuð lýsir sér í þessu afleiðing óhjákvæmilegs fjárflutnings innanlands, og er á okkar færi að sníða þar af verstu missmíðarnar eftir því, sem efni standa til. Innlent sparifé lækkar að verðmæti. Þess vegna væri vaxtalækkun varhugaverð, auk þess, sem hún mundi koma sjávarútveginum að hlutfallslega litlu gagni, en bitna hart á sparifjáreigendum, sem raunar hafa hlotið nokkra bót í skattfríðindum og möguleikum til kaupa á verðtryggðum sparifjárskírteinum.

Gengislækkunin kemur ekki að tilætluðu gagni, nema menn fáist til þess, meðan við erum að rétta efnahag okkar, að taka á sig þá kjaraskerðingu, sem hún ber vitni um. En hið sama á við um hverja aðra leið, sem valin hefði verið. Hlutasjómenn verða og ekki verr úti, þótt leið gengisbreytingar sé farin, en hver önnur, svo sem uppbætur til útgerðarmanna langt umfram það, sem sjómenn fá í sinn hlut, eins og var á vinstristjórnarárunum og hv. þm., Lúðvík Jósefsson, setti m.a. ýtarlegar reglur um í bréfi hinn 30. desember 1957. Hér er í öllum tilfellum um að ræða tekjuflutning fyrir ákvörðun ríkisins og ríkisvaldið hlýtur að ráðstafa honum til hinna brýnustu þarfa.

Stjórnin viðurkennir, að gera þarf sérstakar ráðstafanir til hjálpar hinum lakast settu, svo sem einstæðum gamalmennum, öryrkjum og barnmörgum fjölskyldum. Ákveðið er að hækka framlög til almannatrygginga í því skyni og mun leitað samkomulags um að verja því fé svo, að sem mest gagn verði að. Ríkisstj. leggur og áherzlu á víðtæka könnun annarra leiða til úrbóta fyrir hina lakar settu og mun efna til samninga við almannasamtökin um það og þá einkum úrræði til að tryggja atvinnu, því að nú er sú þörfin brýnust, að komið verði í veg fyrir atvinnuleysi. Ríkisstj. er raunar sökuð um aðgerðarleysi í atvinnumálum. Við, sem stjórnmálaþjarki erum vanir, kippum okkur ekki upp við ásakanir, þótt ósanngjarnar séu. En af öllu því, sem ég hef heyrt um mína daga, hygg ég þessa ásökun ósanngjarnasta og sízt á rökum reista. Hún er algert öfugmæli. Það var einungis fyrir harðfylgi ríkisstj. gegn heiftúðugri mótstöðu flestra stjórnarandstæðinga, að samþykkt var bygging álbræðslunnar og þar með tryggð Búrfellsvirkjun. Framtíðargildi þessara mannvirkja er vissulega mikið. En alveg óháð því, hafa þau undanfarin missiri fært ómetanlega björg í bú hjá þeim, sem ella hefðu átt erfitt með að afla sér vinnu. Aðgerðir ríkisstj. til að hlaupa undir bagga með fiskveiðum, fiskverkun og þá ekki sízt hraðfrystihúsunum hafa gert þennan rekstur mögulegan nú í ár. Eins er fullvíst, að úr síldveiðum hefði lítið orðið og hvalveiðum ekkert, ef atbeini ríkisstj. hefði ekki komið til. Aflinn brást að vísu, en harður hefði dómurinn orðið, ef ekki hefði verið ýtt úr vör til þessara veiða nú í sumar, eins og við blasti. Þá aflaði ríkisstj. framkvæmdaláns í Bretlandi, sem nam hátt á þriðja hundrað millj. kr. og greiddi fyrir margháttaðri atvinnuaukningu.

Lækkandi verðlag og aflabrestur gerðu fyrri ráðstafanir með öllu ófullnægjandi. En það var ekki fyrr en í haust, að slíkt ástand hafði skapazt og þá fyrst mátti vænta verulegs skilnings á þörf róttækra aðgerða. Jafnskjótt efndi ríkisstj. til viðræðna allra stjórnmálaflokkanna um lausn vandamálanna. Árangurinn varð því miður ekki sú allsherjarsamvinna, sem vonir okkar stóðu til og þjóðarþörf krafði. En nú geta a.m.k. engir skotið sér undan ábyrgð með því, að hann hafi ekki átt kost á að kynna sér ástandið jafnvel og ríkisstj. Það er annað, sem skortir, en vitneskjan um, hversu ástandið er alvarlegt. Þáltill. um vantraust á ríkisstj. sýnir, hvað stjórnarandstæðingum er efst í huga. Það er að koma núv. ríkisstj. frá. Sá tilgangur sýnist helga öll meðul. Raunar stóð ekki og stendur enn ekki á okkur um afsögn, ef tryggt væri, að önnur þingræðisstjórn væri jafnharðan mynduð. En slíkt þykir smánarboð. Stjórnin skal segja af sér, þótt fullkomið stjórnleysi og öngþveiti blasi við á miklum örðugleikatímum, þegar vegna utanaðkomandi ástæðna hefur orðið mestur afturkippur í íslenzku efnahagslífi á þessari öld. Hv. stjórnarandstæðingar þykjast sýna sérstaka hófsemi, þegar þeir segja meirihlutaflokkana mega vera með, ef þeir vilja breyta alveg um stefnu frá því, sem þjóðin sjálf hefur nú kveðið á um í þremur alþingiskosningum í röð. Ekki var látið sitja við kröfur, að upp skyldu tekin höft og hömlur, þó að sízt þurfi nú að draga úr framkvæmdum, heldur örva og hv. síðasti ræðumaður ítrekaði mjög þessar kröfur um ríkisafskipti, höft og hömlur. Við hlutum einnig magnað ámæli fyrir að leitast við að fá hraðað framkvæmd fyrirhugaðrar stækkunar álbræðslunnar, einmitt til að bæta úr atvinnuástandi, svo og til að taka með eðlilegum hætti þátt í starfi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Samstarf við hann er þó forsenda þess, að við getum með minni sársauka, en ella, brotizt fram úr erfiðleikunum, alveg eins og gjaldeyrisvarasjóðurinn hjálpaði okkur, meðan hann entist til þess að forða frá enn örari lífskjaraskerðingu en ella. Traustið, sem söfnun hans og ráðstöfun ávann okkur, gerir það að verkum, að við eigum nú kost á nauðsynlegri aðstoð til að forðast verstu skakkaföllin, ef víð sjálfir óskum og sýnum svo í verki. En það var sagt ganga landráðum næst, að embættismennirnir, sem að þessum málum eiga að vinna, sæktu aðalfund þessarar stofnunar. Og nú í síðustu viku urðu ákafar deilur um það hér á Alþ., hvort við ættum að senda umsókn um aðild að Fríverzlunarsamtökunum, EFTA. Flestir andstæðingarnir sögðust þó eiginlega ekki vera á móti þessari umsókn. Minnir það raunar mjög á afstöðu þeirra til gengislækkunarinnar, sem þeir hafa a.m.k. ekki fyrr en í kvöld lýst sig andvíga og hv. síðasti ræðumaður tvísté enn í afstöðu sinni til hennar, þótt hann reyndi að magna ókosti hennar og láta svo sem minni háttar aðgerðir hefðu dregið úr þörf hennar. Svipað er um EFTA. Þeir þykjast vilja kanna málið og viðurkenna, að aðild hafi marga kosti og muni að lokum reynast óhjákvæmileg með einum eða öðrum hætti. En og en. Öllu á að fresta. Aldrei má segja hreint til um, hvað gera skal. Borið er fyrir, að óheppilegur tími sé til að taka málið upp, þegar við öllum blasir, að erfiðleikar okkar nú eru alveg sérstaklega til þess lagaðir að vekja með okkur samhug og vilja til að veita okkur atbeina til að sigrast á örðugleikum, sem allir skynbærir, hlutlausir menn viðurkenna, að við eigum enga sök á. Þetta lýsir sér m.a. í samþykkt þingmannafundar Atlantshafsbandalagsins, sem einmitt beinist að framtíðarlausn þeirra vandamála, sem hér er um rætt.

Enginn efi er á því, að ef vel tekst til, getur aðild Íslands að EFTA orðið til að skapa hér ótalda möguleika til aukinnar atvinnu og á það jafnt við um okkar gömlu atvinnuvegi og aðra nýja. Í bili er gengisbreytingin aftur á móti langlíklegasta og raunar eina færa leiðin til að örva atvinnulífið. Hv. andstæðingar hafa aldrei fengizt til að segja, hvort þeir vildu fara þá leið eða ekki. Þeir báðust berum orðum undan að fá nokkrar till. um ákveðna gengisbreytingu frá sérfræðingunum, en án slíkra till. var auðvitað allur samanburður við aðrar leiðir þýðingarlaus. Þó kvartaði hv. þm., Ólafur Jóhannesson, undan því, að samanburðurinn skyldi ekki gerður. Sannleikurinn er sá, að hv. andstæðingar vildu aldrei láta uppi hug sinn til gengisbreytingarinnar, en án slíkrar hreinskilni var auðvitað samstarf óhugsanlegt. Ríkisstj. valdi gengisbreytinguna, af því að stjórnin setur atvinnu og aukna framleiðslu öllu öðru ofar.

Í upphafi máls síns minntist ég á efasemdir sumra um það, hvort Ísland gæti haldið sjálfstæði sínu. Því miður getum við gloprað því niður. Svo hefur farið fyrir margfalt stærri og öflugri þjóðum en okkur. En sízt af öllu þurfum við að fara svo að. Auðvitað verðum við að skilja, að úr því að margfalt mann fleiri þjóðir telja sig þurfa á samvinnu við aðrar að halda, þurfum við hennar því fremur við. En þótt slík samvinna takist, megum við Íslendingar aldrei glata sjálfstæði okkar, aldrei láta okkur til hugar koma að leysa vandræði okkar með því að gerast hluti annarrar stærri ríkisheildar. En við skulum gæta þess, að, að slepptum varnarmálunum, sem okkur hefur tekizt að leysa á okkur einkar hagfelldan hátt, þarf hver Íslendingur í miklu ríkara mæli, en einstaklingar annarra þjóða að leggja sig fram til að tryggja sjálfstæði þjóðarinnar og bæta hennar hag. Vegna fámennis þjóðarinnar, en stærðar landsins og aðstöðu allrar, má Ísland af engum dugmiklum manni missa. Í því felst einmitt ævintýrið að vera Íslendingur, sú mikla gjöf, sem okkur er gefin og hlýtur að hvetja okkur til að leggja okkur alla fram.

Að þessu sinni skiptir mestu, að allir leggist á eitt um að bægja frá víðtæku atvinnuleysi í bráð og tryggja öruggan velfarnað til frambúðar með því að koma hér upp fjölbreyttari atvinnuvegum og hagnýta öll gæði landsins þess eigin börnum til aukinnar hagsældar. Þetta kann að verða örðugt, en það er verðugt verkefni fyrir alla þjóðholla Íslendinga og þá einkum hina þróttmiklu æskumenn, sem nú hafa framtíð Íslands í hendi sér.