21.11.1968
Sameinað þing: 14. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í D-deild Alþingistíðinda. (3121)

62. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Það er ekki að undra, þó að alþýða manna víða um land spyrji gersamlega forviða, hver ósköp séu eiginlega að gerast í efnahagsmálum, eftir þær stórkostlegu fréttir, sem borizt hafa síðustu daga frá stjórnarvöldum landsins um nýjar ráðstafanir í efnahagsmálum.

Fyrir tæpu ári var verð á erlendum gjaldeyri flestra þjóða hækkað gagnvart íslenzkri krónu um 32.6% og nú er aftur tilkynnt hækkun hins erlenda gjaldeyris, sem nemur 54.4%. Þetta þýðir í reynd, að verðgildi t.d. norskrar krónu, þýzka marksins, sænskrar krónu og Bandaríkjadollars, svo að dæmi séu tekin, hefur hækkað á einu ári um rúmlega 100% gagnvart íslenzkri krónu. Í viðskiptalífinu merkir þetta, að fiskibátur, sem samið var um smíði á í Noregi fyrir ári síðan og þá kostaði 20 millj. kr., kostar nú 40 millj. Sams konar vél og keypt var í Bandaríkjunum fyrir ári síðan á 100 þús. kr. kostar nú 200 þús. kr. eða með öðrum orðum, vörur, sem keyptar eru frá þessum viðskiptalöndum okkar, kosta nú helmingi meira í íslenzkum peningum, en þær kostuðu fyrir tæpu ári síðan. Það er ekki að undra, þó að fólk standi agndofa frammi fyrir slíkum stórkostlegum verðbreytingum með aðeins árs millibili. Það standa líka margir undrandi í dag og vita varla, hvernig við skuli bregða. Jafnvel stjórnmálaskrifarar Morgunblaðsins komast í vanda að skýra þessi ósköp. Einn þeirra skrifar t.d. í Morgunblaðið s.l. sunnudag þetta:

„Atburðir síðustu tveggja ára vekja upp tvær spurningar. Önnur er sú, hvort Ísland sé nægilega stór efnahagsleg eining til þess að vera fjárhagslega sjálfstætt. Hin, hvort við kunnum að stjórna efnahagsmálum okkar.“

Já, fyrst dettur sem sagt þessum áróðursmanni ríkisstj. það í hug, að e.t.v. séu öll þessi vandræði landinu sjálfu að kenna, að Ísland sé raunverulega of lítil eining til þess að geta verið fjárhagslega sjálfstætt land. Þetta kemur þeim auðvitað í hug, sem trúað hafa á stefnu ríkisstj. í efnahagsmálum, sem haldið hafa því fram, að allt, sem hún hefur gert í efnahagsmálum að undanförnu, væri rétt. En þessi Morgunblaðsskrifari er augljóslega farinn að efast um réttmæti stefnunnar, því að önnur spurning hans er, hvort við höfum raunverulega kunnað að stjórna efnahagsmálum okkar. Já, bragð er að, þá barnið finnur, stendur einhvers staðar. Skyldu þeir ekki fara að verða fleiri stuðningsmenn ríkisstj., sem nú fara að efast um réttmæti stefnunnar í efnahags– og atvinnumálum. Ríkisstj. situr þó við sinn keip og neitar enn öllum breytingum á stefnunni. Hún og efnahagsráðunautar hennar telja allt í lagi utan það eitt, að kaupmáttur launa almennings sé of mikill og hann verði því að skerða um a.m.k. 20%. Verði það gert, telja þeir, að allt muni lagast, gjaldeyrismálin komast í jafnvægi og atvinnuvegirnir hressast við. Afsakanir ríkisstj. á því, hvernig komið er fyrir atvinnuvegum landsins, eru eingöngu þær, að fiskafli sé nú minni en áður og verð á erlendum mörkuðum okkar óhagstæðara en áður var. Víst hefur fiskafli orðið minni en áður og verð á sumum útflutningsvörum lækkað og víst er það rétt, að af þessum ástæðum hafa gjaldeyristekjur orðið minni en áður, svo að verulegri upphæð nemur. En að skýra það ástand, sem nú er komið upp í okkar atvinnu– og fjárhagsmálum með ytri áföllum einum saman, er hin versta kórvilla. Minni fiskafli og lægra fiskverð hefur þegar bitnað sárt á sjómönnum, sem nú hafa helmingi lægra kaup í mörgum tilfellum en þeir höfðu áður og afleiðingarnar af þeim áföllum hafa þegar skollið á því verkafólki, sem við fiskaflann vinnur og reyndar á nær öllu vinnandi fólki í sjávarplássum landsins, þar sem atvinna hefur stórlega minnkað frá því, sem áður var. Áföllin hafa því þegar dunið á þessu fólki. Það þurfti því sannarlega ekki að gera nokkrar efnahagsráðstafanir í formi gengislækkunar og aukinnar dýrtíðar til þess að skerða enn frekar, en orðið er, lífskjör sjómanna og verkafólks.

Tap gjaldeyristekna, sem nemur 1.500-2.000 millj. kr. vegna ytri áfalla, er vissulega þungt fyrir þjóðarbúið. En þeim áföllum hefði verið hægt að mæta án verulegra vandræða, ef skynsamlega hefði verið á málum haldið og stefna undanfarandi ára í atvinnu– og efnahagsmálum verið með eðlilegum hætti. Hefðu stjórnarvöld landsins farið eftir till. okkar Alþb.–manna og hugsað um endurnýjun og uppbyggingu togaraútgerðarinnar í landinu í stað þess að láta hana grotna niður, hefðum við á þessu ári haft t.d. í rekstri 20 nýtízku togara og haldið þannig hlut okkar á við aðrar togaraútgerðarþjóðir. Þá hefði sá floti lagt okkur 500—700 millj, kr. í gjaldeyri í ár umfram það, sem við öflum nú. Hefði ríkisstj. á sama hátt séð um, að hinir minni fiskibátar landsmanna, þeir sem aðallega afla hráefnis fyrir fiskvinnslustöðvar, væru reknir með eðlilegum hætti, þ.e.a.s. væru ekki bundnir við bryggjur vegna fjárhagsvandræða mánuðum saman eða reknir með aðeins hálfum afköstum vegna lélegs rekstrargrundvallar og hefði ríkisstj. séð um á undanförnum árum, að þessi hluti fiskibátaflotans væri endurnýjaður eftir þörfum, hefði gjaldeyrisöflun vegna rekstrar slíkra báta ábyggilega numið 500—600 millj. kr. hærri upphæð, en nú verður. Hefði ríkisstj. beitt sér fyrir aukinni fullvinnslu á fiski, fyrir því, að komið væri upp niðursuðu– og niðurlagningarverksmiðjum og unnið að því að afla markaða fyrir slíka framleiðslu, þá hefði verið auðvelt að afla á þann hátt 500—600 millj. kr. meiri gjaldeyris, en nú hefur verið gert eða verður gert á þessu ári fyrir slíkar vörur. Og hefði ríkisstj. fylgt þeirri stefnu í efnahagsmálum að efla innlendan iðnað og hlutast til um, að þau iðnfyrirtæki, sem landsmenn höfðu þegar komið sér upp, væru rekin með fullum afköstum í stað hálfra afkasta, eins og nú hefur verið í mörgum greinum, þá hefði ábyggilega mátt spara gjaldeyri á þann hátt, sem numið hefði 500–600 millj. kr. á þessu ári. Hefði ríkisstj. t.d. farið að till. okkar Alþb.–manna og beitt sér fyrir því, að innlendar skipasmíðastöðvar tækju að sér smíði á öllum okkar fiskiskipum, en kaup okkar á þeim erlendis frá hafa numið 300–400 millj. kr. á ári, hefði mátt spara gjaldeyri þannig, sem næmi 200 millj. kr. á ári. Hefði hér ráðið önnur stjórnarstefna, hefði mátt koma í veg fyrir óþarfa fjárfestingu og óþarfa gjaldeyriseyðslu, sem numið hefur 100 millj. kr. á hverju ári og gjaldeyristekjurnar hefðu einnig getað verið miklum mun meiri en þær hafa verið eða verða nú á þessu ári. Þeir erfiðleikar, sem nú er við að fást í efnahagsmálum, stafa því ekki nema að nokkru leyti af ytri áföllum. Röng stjórnarstefna veldur hér ennþá meiri örðugleikum og kemur í veg fyrir, að hægt sé að takast á við vandann á þann eina hátt, sem að gagni mætti koma.

Það er háttur ríkisstj. að halda því fast að fólki, að engar aðrar leiðir hafi verið fyrir hendi út úr þeim efnahagsvanda, sem við var að glíma, en mikil gengislækkun eða miklar nýjar álögur. Og jafnframt er svo þrástagazt á því, að stjórnarandstaðan hafi engar till. haft og af því megi menn sjá, að óhugsandi hafi verið að komast hjá almennri kjaraskerðingu, einnig hjá hinum tekjulægstu. Þessar staðhæfingar ríkisstj. eru alrangar. Við Alþb.–menn höfum gert ýtarlega grein fyrir till. okkar og þær miða að því að leysa vanda efnahagsmálanna án þess að rýra hefði þurft launakjör almennings í landinu. Ég skal víkja hér með nokkrum orðum að þessum till. okkar:

Við bendum m.a. á eftirtaldar ráðstafanir, sem miða að því að leysa aðsteðjandi rekstrarvandamál atvinnuveganna, og þá einkum útflutningsatvinnuveganna. Fyrst af öllu verði unnið að því að lækka margvísleg útgjöld atvinnuveganna og að færa niður rekstrarútgjöldin eftir því, sem fært er. Í þeim efnum nefnum við í fyrsta lagi lækkun vaxta, yfirleitt um 2–3%, en þó meira í ýmsum greinum útflutningsframleiðslu. Í öðru lagi, að stofnlán verði lengd í það, sem þau voru fyrir viðreisn og stutt og óhagkvæm lán verði lengd og gerð hagkvæmari. Í þriðja lagi, að útflutningsgjöld verði felld niður að mestu leyti og um leið tekið upp nýtt vátryggingarkerfi fiskiskipa í stað þess óhæfa og kostnaðarsama kerfis, sem nú er. Í fjórða lagi, að olíuverð verði lækkað, m.a. með ríkisverzlun með olíuvörur. Í fimmta lagi, að tekin verði upp sameiginleg innkaup á veiðarfærum og þýðingarmiklum nauðsynjavörum útflutningsframleiðslunnar með forgöngu ríkisins. Í sjötta lagi, að felldur verði niður söluskattur á ýmsum nauðsynjavörum útflutningsatvinnuveganna og jafnframt létt af margs konar öðrum gjöldum, sem lögð hafa verið á framleiðsluna hin síðari ár. Væru þessar till. okkar framkvæmdar undanbragðalaust, mætti örugglega létta útgjöldum t.d. af sjávarútveginum, sem næmi 3–400 millj. kr. á ári.

Þá leggjum við áherzlu á, að skuldamál atvinnuveganna verði tekin til rækilegrar athugunar og þannig gengið frá málum, að óeðlilegar skuldir, sem hrúgazt hafa upp í fjármálaóreiðu síðustu ára, geti ekki stöðvað nauðsynlegan rekstur atvinnutækjanna.

Í till. okkar Alþb.–manna gerum við ráð fyrir, að nauðsynlegt verði að styrkja útflutningsatvinnuvegina meir en því nemur, að rekstrarútgjöldin væru færð niður á þann hátt, sem ég hef greint frá. Við teljum, að auðvelt sé að afla fjár, sem næmi 1.000 millj. kr. til slíkrar aðstoðar, án þess að nýir skattar yrðu lagðir á almenning eða vöruverð þyrfti almennt að hækka frá því, sem nú er. Í þeim efnum bendum við m.a. á eftirfarandi leiðir:

Í fyrsta lagi, að sparað verði í rekstri ríkisins á næsta ári, sem nemi 5% frá útgjöldum yfirstandandi árs. Slíkur sparnaður mundi nema um 300 millj. kr.

Í annan stað teljum við, að aukið skattaeftirlit og sérstaklega nýtt eftirlitskerfi með innheimtu söluskatts gæti gefið á ári um 200 millj. kr. umfram það, sem nú er.

Í þriðja lagi teljum við réttmætt að leggja á sérstakan fasteignaskatt á fasteignir ýmissa gróðaaðila, skatt, sem lagður yrði á í eitt ár eða tvö. Hér væri um að ræða fasteignir eftirtaldra aðila m. a.: Fasteignir bankanna, vátryggingafélaga, skipafélaga, flugfélaga, verzlunarfyrirtækja, skatt á hótelbyggingar, skrifstofubyggingar o. fl. slíkar fasteignir. Við Alþb.–menn teljum sjálfsagt, að eigendur þessara fasteigna, sem tvímælalaust hafa hagnazt mikið á verðsveiflum síðustu ára, leggi nú fram nokkurt framlag til að leysa vandamál útflutningsatvinnuveganna, t.d. skatt, sem næmi 100 millj. kr. í 1–2 ár.

Þá bendum við á, að til mála kæmi að breyta 20% innflutningsgjaldinu, sem lagt var á í haust og þegar er komið út í verðlagið í flestum greinum — að breyta því þannig, að það verði afnumið á nauðsynjavörum og rekstrarvörum atvinnuveganna, en verði látið hvíla áfram á lúxusvörum og ýmsum öðrum varningi. Við ætlum, að skatturinn gæti gefið þannig um 400 millj. kr. á næsta ári. Á þennan hátt væri hægt að afla 1.000 millj. kr. án þess að hækka vöruverð frá því, sem nú er og án þess að leggja nýjar byrðar á launafólk. Með framkvæmd á þessum till. okkar væri hægt að veita atvinnuvegunum meiri raunhæfan stuðning en samkv. gengislækkunartill. ríkisstj.

Jafnframt þessum ráðstöfunum, sem við gerum till. um, leggjum við svo til, að breytt verði um stefnu í efnahagsmálum í grundvallaratriðum. Við leggjum til, að tekin verði upp stjórn á fjárfestingarmálum og þannig reynt að tryggja sem skynsamlegasta notkun á fjármagni þjóðarinnar. Við leggjum til, að komið verði í veg fyrir sóun á gjaldeyri með skipulegri stjórn gjaldeyrismála. Og við teljum óhjákvæmilegt að taka til rækilegrar endurskoðunar allt verðlag í landinu með það fyrir augum að lækka verðlagið alls staðar, þar sem það er hægt. Og við teljum nauðsynlegt að breyta um stefnu í skattheimtumálum, m.a. með því, að lækka tolla og söluskatt á nauðsynjavörum, draga úr nefsköttum trygginganna, en auka að sama skapi skatta á stóreignir, gróða og eyðslu. Í till. okkar leggjum við áherzlu á, að jafnhliða ráðstöfunum til þess að ráða fram úr rekstrarvandamálum atvinnuveganna, verði einnig að ákveða nú þegar framkvæmdir, sem miða að aukinni atvinnu og uppbyggingu atvinnulífsins. Við leggjum því til, að þegar í stað verði ákveðið að semja við innlendar skipasmíðastöðvar til fjögurra ára um endurnýjun fiskibátaflotans. Við leggjum einnig til, að tekin verði ákvörðun um kaup á 10–12 skuttogurum. Og við leggjum til, að ríkið hefjist þegar handa um að koma upp aukinni fullvinnslu á sjávarafla og ýmsum nýjum útflutningsgreinum. Við leggjum einnig til, að þegar í stað verði stöðvaður innflutningur á vörum, sem hægt er með góðu móti að framleiða innanlands og að unnið verði jafnframt að því að koma á nýjum iðnfyrirtækjum í landinu.

Ég hef hér drepið á nokkur atriði úr till. okkar. Þær eru byggðar á gjörsamlega öðru viðhorfi til þess vandamáls, sem hér er við að glíma, en till. ríkisstj. Till. ríkisstj. eru miðaðar við það að leysa vandann einhliða á kostnað launafólks í landinu. Samkv. þeim eiga allar byrðarnar að leggjast á herðar vinnandi fólks. Laun verkamannsins, sem nú hefur 10 þús. kr. á mánuði fyrir fulla atvinnu, eiga að lækka að verðgildi um 20% og laun sjómannsins, sem búið hefur við lágmarkskauptryggingu, eiga einnig að lækka í sama hlutfalli, og þannig eiga öll laun að lækka.

Í till. ríkisstj. er gert ráð fyrir sérstaklega harkalegum ráðstöfunum gagnvart sjómönnum. Þó að allir viti, að kaup sjómanna hefur lækkað meira en kaup annarra vinnandi manna vegna minni fiskafla og lægra verðlags og sérstaklega á þessu ári, þar sem síldveiðar hafa brugðizt jafnhrapallega og raun er á, leggur ríkisstj. samt til, að aflahlutur þeirra verði með lögum lækkaður til muna frá því, sem verið hefur í kjarasamningum. Samkv. till. ríkisstj. á nú að lögbinda, að 10% af fiskverðinu og þar með einnig síldarverði verði tekið af óskiptu, en varið til greiðslu á afborgunum og vöxtum af stofnlánum útgerðarinnar. Síðan á að taka 17% til viðbótar af fiskverðinu, einnig áður en hlutaskipti fara fram og greiða upp í aukinn rekstrarkostnað útgerðarinnar. Þannig á að taka 27% af fiskverðinu af óskiptu og raska þannig stórlega þeim gömlu og hefðbundnu hlutaskiptakjörum, sem sjómenn hafa samið um. Hæstv. forsrh. var að reyna að afsaka þessar gerðir með því að vitna í ráðstafanir vinstri stjórnarinnar, en vinstri stjórnin gerði ekkert varðandi hlutakjör sjómanna annað, en að semja við fulltrúa sjálfa um meiri hækkun sjómönnum til handa, heldur en aðrar stéttir fengu á þeim tíma. Hér er um ótrúlega ruddalega árás á sjómannastéttina að ræða, árás, sem telja má víst, að sjómenn uni ekki, heldur hrindi af sér strax um næstu áramót. Margir sjómenn hafa á þessu ári legið mánuðum saman norður við Svalbarða í von um að fá þar síldarafla. Síðan hafa þeir verið langtímum út í Norðursjó eða langt út af Austurlandi við síldveiðar. Sömu menn hafa í mörgum tilfellum verið vikum og mánuðum saman fjarri heimilum sínum á vetrarvertíð. Aflahlutur þeirra hefur þó orðið sáralítill og kjör þeirra lakari en þeir hefðu verið í landi, a.m.k. í mjög mörgum tilfellum. Á þessa menn telur ríkisstj., að leggja þurfi sérstakar aukabyrðar, umfram það, sem lagt verður á aðra. Aflahlut þeirra á að lækka með lögum, og auk þess eiga þeir svo að taka á sig 20–30% dýrtíðaraukningu.

Viðhorf ríkisstj. til milliliða og stóreignaaðila er hins vegar annað. Samkvæmt gengislækkunarl. á að tryggja verzluninni hærri álagningu í krónum, en áður gilti. Hún fær rétt til þess að lækka á 30% þeirrar verðhækkunar, sem verður af gengislækkuninni og þó má hún leggja á alla verðhækkunina í vissum tilfellum og er þar einkum um að ræða brýnustu nauðsynjavörur. Jón Sigurðsson, formaður sjómannasambandsins og einn af forustumönnum Alþfl. sagði nýlega í ræðu, að með gengisfellingarl. væri hagur verzlunarinnar stórbættur frá því, sem verið hefði. Hann taldi, að verðhækkun á sykri og mjölvörum yrði um 50%. Jón mótmælti árásinni á sjómenn og launafólk og skoraði á allt alþýðufólk að sýna í verki, að landinu yrði ekki stjórnað í andstöðu við samtök launafólks. Í till. ríkisstj. örlar hvergi á því, að aðrir eigi að taka á sig byrðar en launafólk. Í þeim er hvergi að finna ákvæði um það, að skerða eigi hlut bankanna, að skerða eigi hlut vátryggingafélaga, skipafélaga, heildverzlunarfyrirtækja eða stóreignaaðila, eða yfirleitt milliliða. Á slíka aðila hugsar ríkisstj. sér ekki að leggja neinar álögur. Og ríkissjóður sjálfur, sem aukið hefur tekjur sínar um 500–700 millj. króna á ári í mörg undanfarin ár og aukið hefur eyðslu og margvísleg vafasöm útgjöld stórkostlega, þar á heldur ekki að spara um einn eyri, heldur þvert á móti. Útgjöld ríkissjóðs eiga að hækka um nokkur hundruð millj. kr. á næsta ári. Alþýðuheimilin í landinu eiga að færa niður útgjöld sín um 20%, en ríkisstj. sjálf ætlar ekki að færa niður útgjöldin á ríkisheimilinu um einn einasta eyri. Það er ekki að undra, að margir séu orðnir gáttaðir á háttalagi ríkisstj. og stefnu hennar í atvinnu– og fjárhagsmálum. Fjórar gengislækkanir á 8 árum, nú síðast tvær gengislækkanir á tæpu ári og skuldir þjóðarinnar við útlönd komnar upp í 12.5 milljarða og það eftir einstakt góðæristímabil. Atvinnuvegir þjóðarinnar eru illa á sig komnir og einstakir þættir þeirra beinlínis að grotna niður. Togaraútgerðin hefur minnkað um meir en helming og framleiðsla frystiiðnaðarins hefur dregizt saman um þriðjung á 10 árum. Kaupmáttur launa hefur farið minnkandi og atvinnuleysi er þegar skollið á víða um land. Stefna ríkisstj. í atvinnu– og fjárhagsmálum hefur gjörsamlega orðið gjaldþrota. En samt stritast stjórnin við að sitja. Samt heldur hún fast í þá stefnu, að duttlungar og gróðasjónarmið skuli ráða í fjárfestingamálum. Samt heldur hún fast í þá stefnu að leyfa hverjum og einum, sem peninga hefur, að ráðskast með gjaldeyrissjóðinn. Og samt heldur hún áfram þeirri ógæfustefnu að efna til stórátaka, svo að segja árlega, við allt launafólk í landinu um kjaramál og neita því um réttmæta verðtryggingu launa.

Fyrir nokkrum dögum skrifaði landskunnur bókaútgefandi, Ragnar Jónsson, grein í Morgunblaðið og vék þar að landsmálum. Ragnar hefur talið sig stuðningsmann ríkisstj., eins og kunnugt er. Í grein þessari segir Ragnar m: a.:

„Nauðsynlegt er að gera sér ljóst, að hið auma ástand þjóðarbúskapar okkar nú er því miður ekki einvörðungu afleiðing hinna hrottalegu verðlækkana á útflutningsafurðum okkar, þó að það eitt nægi til að skapa hér gífurlega erfiðleika að glíma við. En það eru líka sjálfskaparvíti og þau eru verst, en vonandi ekki óyfirstíganleg. Við höfum ekki á undanförnum góðærum kunnað okkur neitt hóf og þeirri skuld skulum við ekki reyna að skella á aðra en okkur sjálf.“ Og Ragnar segir ennfremur: „Við höfum látið ginnast af raupi um óraunhæft verzlunarfrelsi. Frelsi, sem háþróaðar iðnaðarþjóðir leyfa sér tæplega.“

Þeir eru sennilega orðnir margir, sem áður studdu ríkisstj., en gera það ekki lengur, sem hafa séð, að þeir höfðu látið ginnast af óraunhæfu raupi.

Við eigum við mikinn vanda að glíma, eins og komið er í okkar efnahagsmálum, en því fer fjarri, að rétt sé að kenna landinu um þennan vanda. Því fer fjarri, að ástæðurnar séu þær, að Ísland sé of lítil efnahagseining til þess að geta verið sjálfstætt land, en eigi að tryggja efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar, þarf að breyta um stefnu í atvinnu– og fjárhagsmálum og það fyrr en síðar. Óraunhæft raup um verzlunarfrelsi, fjárfestingarfrelsi og álagningarfrelsi verður að víkja fyrir skynsamlegu mati, fyrirhyggju og raunhæfum aðgerðum og áætlunarbúskap, en til þess þarf að taka upp nýja stefnu, ný vinnubrögð, og af þeim ástæðum þarf núv. ríkisstj. að fara frá og það sem allra fyrst.