21.11.1968
Sameinað þing: 14. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í D-deild Alþingistíðinda. (3124)

62. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Heiðruðu áheyrendur. Þegar hæstv. forsrh. óskaði eftir því við stjórnarandstöðuflokkana í lok ágústmánaðar s.l., að þeir tækju þátt í að rannsaka leiðir til úrbóta í efnahagsmálum þjóðarinnar, þá brugðust þeir vel við þeirri málaleitan og langar viðræður hófust og upplýsingasöfnun um stöðu þjóðarbúsins, því að ekki var nú hirðusemin meiri á stjórnarheimilinu en svo, að leita varð í mörgum hillum og skúffum og tína saman úr ýmsum áttum þann fróðleik um þetta, sem eðlilegt hefði verið, að þá lægi fyrir á skrifborðum ráðh. Loksins eftir tvo mánuði lágu hinar ljótu heimildir um ástandið fyrir. Bjuggust þá flestir við, að ríkisstj. hypjaði sig úr fletinu, segði af sér og tæki síðan þátt í því að koma hér á stjórn allra flokka, sem einbeitti sér að því að hreinsa til og byggja upp nýtt og heilbrigðara stjórnarfar með heiður og hag þjóðarinnar að leiðarljósi. Þetta fór þó á annan veg. Þessa tvo mánuði, sem það tók að tína saman upplýsingatætlurnar frá liðnum óstjórnartíma, notaði stjórnin til að búa sér í hendur og smíða ný amboð, til að hún gæti slegið enn á akri og engjum þeirra, sem minnstu hafa að miðla og sízt mega missa af sínu. Nú er hún líka búin að reyta saman og draga í hlöðu feng, sem hún ætlar, að duga muni sér til náðugrar setu. En auk þess hafa borizt fréttir um, að miskunnsamir samverjar á þingmannafundi Atlantshafsbandalagsríkjanna muni beita sér fyrir einhvers konar samskotum til hennar og hefur sú mannúðarstefna glatt og hresst hjörtu ráðh. og gefið þeim vonir um varanlega setu í sínum elskuðu ráðherrastólum.

Fjórar stórgengisfellingar hefur stjórnin gert á 9 árum, sem öll hafa verið mikil aflaár, svo að áður hafa ekki komið önnur slík. Að vísu hefur nokkuð dregið úr aflanum á tveimur síðustu árum og verðið lækkað. Er þessu um kennt af stjórnarinnar hálfu, hvernig komið er. Er hart, að öllu skuli hafa verið eytt frá hinum miklu góðærum, þegar þjóðarframleiðsla og þjóðartekjur voru hér meiri að meðaltali á mann, en þekkzt hefur í hinum auðugustu löndum. Og ekki nóg með það, að öllu þessu hefur verið eytt, heldur hefur þjóðinni verið sökkt í það skuldafen, sem hún situr nú föst í og er hætt við, að hún geri um langan tíma, jafnvel þó eitthvað kynni að rofa til um tekjuöflun og stjórnarfar ætti fyrir sér að batna. Skuldir Íslendinga við aðrar þjóðir eru nú taldar vera fast að 13 þús. millj. kr. Svarar það til 65 þús. kr. á hvert nef í landinu eða sama sem 260 þús. kr. að meðaltali á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Árlegar afborganir og vextir af þessari fúlgu verða að líkindum 1/4 til 1/3 af útflutnings verðmætum þjóðarinnar á næstu árum. Ekki verður það notað til innkaupa á lífsnauðsynjum hennar. Enginn gjaldeyrissjóður er nú til. Hvað hefur verið gert við allt það mikla fjármagn, sem þjóðin hefur fengið fyrir framleiðslu sína á liðnum 10 góðærum? Sú spurning er nú á hvers manns vörum.

Höfuðatvinnuvegir landsins, sjávarútvegur, landbúnaður og iðnaður eru að þrotum komnir. Hvað liggur eftir viðreisnina af varanlegum verðmætum eða verkum? Í vegamálum má nefna einn 50 km langan vegspotta úr varanlegu efni, sem gerður var fyrir lánsfé og er allur í skuld. Aðrir vegir eru úr mold og möl, ófærir og íll færir flesta árstíma, þegar ekki er gaddur í jörð. Hvernig er með skólamál þjóðarinnar? Háskólinn rúmar ekki orðið þá, sem þar vilja nema. Í Kennaraskólanum, sem er nýbyggður, nálgast að vera neyðarástand vegna þrengsla. Fjöldi annarra skóla er í vandræðum með að anna sínu hlutverki. Þannig mætti lengi telja, en ég mun hér staðar nema að sinni.

Við framsóknarmenn höfum alltaf varað við stjórnleysinu með fjármagn þjóðarinnar. Höfum við margflutt till. og gert kröfur um, að gerðar væru skipulegar áætlanir um röðun verkefnanna í þessu fámenna þjóðfélagi og það látið ganga fyrir öðru að treysta fjárhagsgrundvöll atvinnuveganna og efla menntun fólksins. Við höfum talið, að hér yrði að hafa stjórn á fjárfestingarmálum. Munu nú margir sjá, þegar allt fjármagn er þrotið í eyðslu og sukk og gengisfellingar hafa jafnharðan étið upp reytur hinna bjargálna borgara í landinu, að betur hefði sú stefna, sem við höfum krafizt í þessu efni, verið látin ráða og tillit hefði verið tekið til okkar till.

Ef skipulag hefði verið haft hér á fjárfestingarmálum, hefði þensla og dýrtíðarskrúfa farið hægar. Þá hefði meira fjármagn safnazt fyrir sem sparifé.

Þá hefði gjaldeyrissjóður skapazt, ef gætt hefði verið hófs í innflutningi, en á því sviði hafa yfirvöld hagað sér eins og börn. Hér var fyrir nokkrum árum risinn á legg fjölbreyttur iðnaður, sem veitti íbúum landsins mjög nytsamlega þjónustu bæði á því sviði að framleiða góðar vörur og veita fjölda fólks atvinnu. Hér voru saumuð næstum öll föt á landsfólkið og prjónafatnaður framleiddur, skór smíðaðir og líkaði þessi iðnaður vel. Reynslan sýndi, að þetta og margt annað gat þjóðin tekið hjá sjálfri sér og þá varð hún að eflast um leið. En tertubotna– og kexbragðið í útlöndum reyndist valdhöfum vorum svo gómsætt, að þeir létu drjúgan hluta af aflafé þjóðarinnar fara fyrir slíkan varning, eins og börn, sem verja skotsilfri sínu í sælgætiskaup. Ef að slíku var fundið af stjórnarandstöðunni, þá svöruðu valdhafarnir með útúrsnúningum og háðsyrðum. „Ekki veldur sá er varar“, segir forn málsháttur. Framsfl. hefur oft varað við og talið slíkan glannahátt í meðferð gjaldeyris hættulegan. Þau varnaðarorð hafa stjórnarliðar kallað hrunsöng og barlómsvæl og talið okkur skömmtunar– og haftapostula.

Nú eru augu almennings að opnast fyrir því, að okkar stefna var og er skynsamleg, og ef hún hefði verið farin, þá væri öðruvísi umhorfs. Þá væri ekki atvinnuleysi framundan, þá væri krónan verðmeiri en nú og þá væri þjóðin ekki sokkin í skuldir við útlendinga, eins og nú.

Ríkisstj. getur að vísu bent á, að hér hefur mikið verið byggt í hennar tíð af verzlunar– og skrifstofuhöllum og ævintýralegum íbúðarvillum, sem helzt líkjast að stærð og búnaði því, sem sagt er frá í „Þúsund og einni nótt“, að kalífarnir í Bagdad létu reisa sér. Sjúklegt munaðarlíf og óhóf hinna ríku, sem grætt hafa á stjórnleysi viðreisnar valdhafanna, er undrunarefni margra erlendra manna, sem hér koma.

Bankakerfið hefur þanizt út, eins og gorkúla á haug. Fjárfesting þessara stofnana er 350 milljónir kr. á fáum árum. Nú trjóna þessar hallir með tóma sjóði og þykka doðranta af skuldalistum og óreiðuvíxlum. Ekki virðist eiga að snúa af eyðslubrautinni á þessu sviði, ef rétt er hermt, sem dagblaðið Vísir birti í fréttum í gærdag, því að þar var frá því sagt, að tíu arktektar vinni að því að teikna hús fyrir Seðlabankann. En hvað er um þá, sem sparað hafa saman af tekjum sínum og falið það fé bönkum landsins til geymslu? Þetta þjóðholla fólk er annað hvert ár féflett með felldri krónu. Svona hefur viðreisnarstefnan svonefnda reynzt í verki og er þá ekki hér nema fátt eitt talið. Það er því engin furða, þó borið sé fram vantraust hér á hinu háa Alþ. á ríkisstj., sem þannig hefur stjórnað.

Ég býst við því, að enn séu þeir, sem stjórnina hafa stutt hér á þingi, svo fastir við sinn keip, að þeir verji hana falli, svo hún geti hangið áfram við völd. En ef þjóðin öll mætti greiða hér atkvæði um þessa vantrauststill., þá er ég viss um, að hæstv. ríkisstj. yrði fljót að fara fram af ætternisstapanum. Þjóðin vill nýtt stjórnarfar, nýja stefnu, sem miðar að almenningsheill og traustum þjóðarbúskap. Íslendingar vilja vera stjórnarfarslega og efnahagslega sjálfstæðir. Þeir vilja halda þjóðlegum metnaði. Þeir vita, að Ísland er þrátt fyrir sín ísköldu él svo gott land, að fólkið, sem landið byggir, getur lifað hér góðu lífi, ef hófsemi er beitt í lífsháttum og stjórnað er með það í huga að jafna lífskjörin.

hæstv. ríkisstj., sem hér situr að völdum, vill ekki og kann ekki að beita öðrum ráðum, þegar stjórnleysi hennar hefur leitt til vandræða en að fella gjaldmiðil þjóðarinnar. Með því klípur hún af hvers manns diski nokkurn skammt og munar þar mestu hjá þeim, er lítinn áttu forðann fyrir. Hún minnir á Tugason gamla á Bátsendum, danska kaupmanninn, sem Grímur Thomsen orti um. Þar á meðal var þetta erindi:

En reizlan var bogin og lóðið var lakt

og létt reyndist allt sem hún vo.

Útnesjafólkið var fátækt og spakt,

flest mátti bjóða því svo.

Gengisfellingarvopn ríkisstj. er nýr Bátsendapundari. Með hverri gengisfellingu er ríkisstj. að beygja reizluskaftið og létta lóðið, eins og Tugason gamli. Á þann hátt vegur viðreisnarpundari stjórnarinnar lýðnum léttari og léttari mála fyrir störf hans og stríð. Tugason gamli gerði sig stundum blíðan í geði og bauð inn fyrir disk og veitti brennivínstár. Þá var hann með kænsku sinni að villa mönnum sýn og ná vináttu þeirra. Svona fer ríkisstj. líka að fyrir kosningar. Þá býður hún kjósendum inn fyrir disk upp á kosningakræsingar í loforðum um eitt og annað og hafa margir látið vélast. En eins og Tugason gamli, sem oftast var tyrfinn og grár í geði, þá hefur ríkisstj. sama lag. Hún bregður pundara sínum á loft og vegur hinu fátæka og spaka útnesjafólki, þ.e.a.s. verkamönnum, bændum, sjómönnum og öðru láglaunafólki léttari skammt í hvert sinn. Tugason flutti gróðann af sínum pundara til Kaupmannahafnar og þar voru fyrir hann byggðar hallir og fögur torg. Gróðinn af pundara ríkisstj. fer að vísu ekki allur út úr landinu, hann lendir hjá þeim, sem verja verulegum hluta hans í villur, lúxusbíla og verzlunarhallir hér heima. Og ef á þetta er minnzt og að því fundið, þá verður ríkisstj. tyrfin og grá í geði, eins og Tugason gamli á Bátsendum var að öllu jafni og mátti glöggt heyra það á mæli hæstv. viðskrh. áðan, að hann var í slíkum ham sem Tugason, þegar hann var verstur.

Herra forseti, mínum ræðutíma er að verða lokið. Ég vil að endingu segja þetta. Landi og þjóð væri fyrir beztu að ríkisstj. væri leyst frá störfum strax í kvöld og málefnin hið fyrsta lögð í hendur kjósendanna, svo að þeir gætu með atkvæði sínu valið nýja stefnu í stað úreltra kennisetninga, sem reynsla hefur áþreifanlega dæmt úr leik. Hér er hin mesta nauðsyn að skapa þjóðlega einingu um hag og velferð hinna starfandi alþýðumanna í byggð og borg, ásamt allsherjar sókn að því marki að bæta uppeldis– og menntunarskilyrði uppvaxandi kynslóða. Það mun reynast betri fjárfesting en allt annað. Þá mun eflast þjóðarhagur og nýr blómatími geta farið í hönd. Ég skora á íslenzku þjóðina að taka höndum saman um það takmark við fyrsta tækifæri. –Góða nótt.