21.11.1968
Sameinað þing: 14. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í D-deild Alþingistíðinda. (3127)

62. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Flutt er vantraust á ríkisstj. og má sannlega um það segja, að oft var þörf en nú er nauðsyn.

Gengi íslenzku krónunnar hefur verið fellt í fjórða sinn á 8 árum af sömu ríkisstj. og nú meir en nokkru sinni áður eða um 35%. Það þýðir, að erlendur gjaldeyrir hækkar í verði um nærri 55%. Erlent verð á innfluttri vöru hækkar, sem þessu nemur og ofan á það koma svo tollar í sömu hlutföllum og áður, en það þýðir, að ríkissjóður tekur til sín stóran hluta í leiðinni. Talið er, að verðlag í landinu muni hækka um 20% af völdum gengisfellingarinnar eftir mælikvarða vísitölunnar. En vitað er, að margar nauðsynjavörur muni hækka um 40–50%. Jafnframt er svo boðað, að enn einu sinni skuli kaupgjaldsákvæði í frjálsum samningum verkalýðshreyfingarinnar afnumin með lagaboði. Það á að banna að greiða umsamda verðtryggingu á kaupið. Launafólki er sagt, að það skuli taka á sínar herðar allar byrðar gengisfellingarinnar bótalaust. Á þennan einfalda hátt hyggst ríkisstj. lækka umsamið kaup í landinu um 20%. Þá er einnig boðað, að með lögum verði samningum hlutasjómanna breytt. Annað og lægra fiskverð á að gilda til fiskimanna en samningar segja fyrir um. Með valdboði á að færa stærri hluta aflans yfir til útgerðarmannsins og taka það frá sjómanninum. Hér kveður óneitanlega nokkuð við annan tón í garð sjómannastéttarinnar, en í hillingarræðum ráðh. til hetju hafsins á hátíðisdögum stéttarinnar. Ég efast ekki um, að sjómenn munu meta það eins og efni standa til.

Gengisfellingin, afnám verðtryggingar á kaupið og skertur hlutur sjómanna felur í sér eina mestu skerðingu á lífskjörum almennings, sem um getur á síðari tímum og er um leið hin harkalegasta árás á samningsfrelsi verkalýðshreyfingarinnar. Það er áreiðanlega ekki úr vegi að taka til athugunar hugmynd, sem Alþfl.–maður í Dagsbrún varpaði fram á fundi í því félagi s.l. sunnudag. Hann vildi, að ríkisstj. yrði kærð fyrir Alþjóðavinnumálaskrifstofunni í Genf, sem Ísland er aðili að, fyrir brot á samþykktum þeirrar stofnunar um samningsfrelsi verkalýðshreyfingarinnar. Þessum Alþfl.–manni fannst nú nóg komið af árásum ríkisvaldsins á samningsréttinn og svo mun vera um marga af fylgjendum stjórnarflokkanna. Hæstv. viðskrh. taldi það áðan jafngilda að hvetja til uppreisnar gegn löglegum ákvörðunum, ef hvatt væri til baráttu gegn lögþvinguðu afnámi á kjaraákvæðum í samningum verkalýðsfélaganna. Þennan hæstv. ráðh. mætti minna á, að alþýða þessa lands þekkir ýmis nöfn yfir þennan verknað, nöfn eins og ólög og ofbeldislög og af slíkum lögum telur almenningur sig ekki bundinn. Þau stríða gegn réttlætiskennd hans. Og það er sannarlega ekki í fyrsta sinn, sem ríkisstj. heggur í þennan knérunn.

Í tengslum við gengisfellinguna 1960 var samningum breytt með lagaboði og bannað að semja um vísitölu á kaup. Afleiðing þess varð meiri ófriður á vinnumarkaðinum, en við höfum áður þekkt. Á haustmánuðum 1963 átti að banna kauphækkanir tímabundið og var frv. þess efnis komið gegnum allar umr. á Alþ., þegar verkalýðshreyfingunni tókst að forða því glapræði. Með júnísamkomulaginu 1964 má segja, að þessu styrjaldartímabili lyki. Þá var með samningum við ríkisstj. lögfest verðtrygging á kaupið miðað við framfærsluvísitölu. Þetta samkomulag var í gildi þar til í nóv. í fyrra, að ríkisstj. rauf það um leið og gengið var fellt. Í marzmánuði s.l. voru gerðir samningar við atvinnurekendur um nýjar reglur varðandi vísitölu á kaup. Þeir samningar voru gerðir í lok víðtækasta verkfalls sem hér hefur verið háð. Þessa samninga, sem þó voru um mikið skerta vísitölu frá því, sem áður gilti á nú að ónýta með lagaboði. Andsvör verkalýðshreyfingarinnar við þeirri gífurlegu kjaraskerðingu, sem nú blasir við og árásinni á gerða samninga eru nú sem óðast að koma í ljós. Hvert félagið af öðru segir upp samningum sínum og mótmælir gengisfellingunni. Hinn fjölmenni útifundur Alþýðusambandsins hér í Reykjavík s.l. sunnudag sýndi glögglega hug launþega í höfuðstaðnum. Samningar verkalýðsfélaganna renna út um áramótin. Þeir valdamenn, sem í alvöru hugsa sér að koma á þessari miklu kjaraskerðingu verða að gera sér ljóst, að með því er stofnað til nýs ófriðar á vinnumarkaðinum og stórfelldra stéttaátaka í landinu.

Áreiðanlega eru ekki svo fáir menn í þessu landi, sem geta tekið á sig þessar miklu verðhækkanir bótalaust, án þess að það komi við pyngju þeirra. Það eru þeir menn, sem hafa á hverjum mánuði margföld verkamannalaun. Væri ekki hollt, áður en lengra er haldið, að þessir menn, t.d. hæstv. ráðh., sem hér ganga fram fyrir skjöldu, reyndu að setja sig í spor þess fólks, sem aðeins hefur 10–12 þús. kr. á mánuði til allra þarfa fjölskyldunnar, en þetta eru nú almenn laun þess verkafólks, sem atvinnu hefur. Það verður að vera öllum ljóst, að kaup þessa fólks er ekki hægt að skerða.

Af því hefur verið státað, m.a. í aðalmálgagni ríkisstj., að hér á landi væru þjóðartekjur á mann þær þriðju hæstu, sem þekktust í heiminum. Nú er að vísu sagt, að þær hafi lækkað um 15% á mann, en við munum samt vera meðal þeirra Evrópuþjóða, sem hæstar þjóðartekjur hafa á mann. Rétt er það, að nú hefur þjóðarbúið orðið fyrir verulegum áföllum í viðskiptum út á við, og ég vil sízt gera lítið úr þessum erfiðleikum. En áður en ráðizt er á kjör hins almenna launþega, sem aðeins hefur til hnífs og skeiðar, verða þeir að fórna, sem tekið hafa til sín bróðurpartinn af því, sem þjóðin hefur aflað á liðnum árum. Krefjast verður réttlátari skiptingar þjóðarteknanna og er ekki einnig sjálfsagt, að fram fari eignakönnun, er leiði í ljós eignaskiptinguna? En það virðist ekki hafa verið ætlunin að koma verulega við þá, sem ætla mætti, að frekar gætu tekið á sig byrðarnar, en verkafólkið. Athyglisvert er, að á sama tíma og launþegunum er ætlað að búa við óbreytt kaup í nýju dýrtíðarflóði, fær kaupsýslustéttin fleiri krónur er áður fyrir að afhenda sama vörumagn. Og er þá ótalinn sá mikli greiði, sem hæstv. ráðh. gerðu öllum bröskurum með því að tilkynna gengisfellinguna eða aðrar hliðstæðar ráðstafanir með margra vikna fyrirvara. Í öðrum löndum er litið á slíkar tilkynningar sem alvarlegt trúnaðarbrot og þeir, sem það gera, látnir segja af sér.

Í sambandi við gengisfellinguna er því mikið haldið á lofti, að allir verði að fórna og taka á sig kjaraskerðingu. En það er einmitt þetta, sem almennir launþegar hafa þegar gert. Kjaraskerðing gengisfellingarinnar kemur í kjölfar stórskertra tekna af völdum minnkandi atvinnu og atvinnuleysis. Þá er kaupmáttur launanna nú einnig minni sökum þeirra skertu vísitöluuppbóta, sem launþegar hafa búið við allt þetta ár. Í mörgum tilvikum er ætlað, að tekjur launafólks hafi þegar lækkað um 20—30%. Launþegar hafa því vissulega tekið á sig þungar byrðar.

Mesta áhyggjuefni verkafólks og verkalýðsfélaganna hefur á þessu ári verið atvinnuástandið, hinn mikli samdráttur í atvinnulífinu. Víða um landið hefur verið nær samfellt atvinnuleysi hjá mörgu fólki á þessu ári og aðeins unnin dagvinnan hjá þeim, sem vinnu hafa haft, en þá hrökkva tekjurnar skammt. Hér í Reykjavík kynntumst við atvinnuleysinu alvarlega fyrr á þessu ári, en þá komst tala skráðra atvinnuleysingja í 600. Nú er útlit í atvinnumálum uggvænlegra hér um slóðir en það hefur verið í áratugi. Í Reykjavík eru nú skráðir nokkuð á þriðja hundrað atvinnuleysingjar og fréttir berast sífellt um nýjar uppsagnir. Á næstu vikum getur skollið hér á fjöldaatvinnuleysi, ef ekkert verður að gert. Flestir munu geta gert sér í hugarlund, hvert er hlutskipti þess fólks, sem verður fyrir þeirri þungu raun að verða atvinnulaust. Við því blasir neyðin ein.

Í marga mánuði hefur verið ljóst að hverju stefndi í atvinnumálum verkafólks og verkalýðsfélögin hafa varað við og gert kröfur um úrbætur. En þrátt fyrir það hefur ríkisstj. lítið aðhafzt til að hindra þessa óheillaþróun. Nú ber hins vegar svo til, að hæstv. forsrh. lýsir því yfir í framsöguræðu hér á Alþ. fyrir frv. um ráðstafanir vegna gengisfellingarinnar í síðustu viku, að ríkisstj. væri fús til samráðs við verkalýðshreyfinguna, um framkvæmdir til atvinnuaukningar og þetta endurtók hann hér í kvöld. Er naumast hægt að skilja þetta á annan veg, en verkalýðshreyfingin eigi að sætta sig við kjaraskerðingu gengisfellingarinnar gegn úrbótum í atvinnumálum. Miklu berlegar kom þetta fram í forystugrein Alþýðublaðsins s.l. sunnudag, en þar er sagt, að verkalýðshreyfingin eigi að knýja fram hliðarráðstafanir í stað kauphækkana. Hún eigi að knýja ríkisvaldið til verulegra aðgerða í atvinnumálum og húsnæðismálum og ríkisstj. muni hafa skilning á því sviði, eins og blaðið orðar það. Vegna þessarar skrifa og þeirra, sem kynnu að hugsa eitthvað þessu líkt, er nauðsynlegt að taka fram, að verkalýðshreyfingin gerir nú aðeins kröfu til óbreytts kaupgjalds miðað við verðlag. En hún vill ekki sætta sig við verðhækkanir bótalaust. Hún gerir kröfu til verðtryggingar á kaupið. Þá verða menn enn fremur að skilja, að atvinnuöryggi verkafólks er ekki verzlunarvara og verkalýðshreyfingin mun ekki verzla með eitt eða neitt, til þess að þessi ríkisstj. gæti þeirrar sjálfsögðu skyldu allra ríkisstj. að gera allt til þess að halda uppi fullri atvinnu í landinu.

Sagt er, að gengisfellingin eigi að auka atvinnu og tryggja rekstrargrundvöll atvinnuveganna. Hið sama var einnig sagt fyrir ári síðan. Forsvarsmenn hinna ýmsu greina atvinnulífsins lýstu því í Morgunblaðinu í fyrri viku, að gengisfellingin ein nægði ekki til þeirra hluta. Það mun og sanni nær. Ekki nægir gengisfellingin til að opna þau frystihús, sem nú eru lokuð vegna milljónaskulda eða haldið er gangandi um skamma hríð með bráðabirgðaráðstöfunum. Ekki mun lækkun á hefðbundnum hlutaskiptum fiskimanna nægja til að standa undir auknum skuldabyrðum fiskibátanna af völdum gengisfellingarinnar og þannig mætti lengi telja. En það eru til atvinnurekendur, sem augljóslega græða á gengisfellingunni. Svissneski álhringurinn og bandaríska herstjórnin geta nú greitt vinnustundir Íslendinga með mun færri frönkum eða dollurum, en áður. Land okkar verður nú eftirsóttara fyrir erlenda auðjöfra til arðráns á íslenzku vinnuafli. Hin mikla gengisfelling, sem nú hefur verið framkvæm, og boðuð kjaraskerðing af völdum hennar, kemur í lok mesta góðæristímabils, sem komið hefur á þessu landi. Góð aflabrögð, hagstæð verzlunarkjör og þrotlaus vinna verkafólks hefur fært þjóðinni mikinn auð á undangengnum árum. Einnig hafa verið tekin stór erlend lán. Engir valdamenn þessa lands hafa nokkru sinni haft viðlíka auð úr að spila og núv. ríkisstj. hefur haft. En stefna hennar hefur verið óheft frelsi. Dýrmætum gjaldeyri þjóðarinnar hefur verið sóað og sjónarmið verzlunargróðans verið látin ráða. En undirstöðuatvinnuvegir þjóðarinnar hafa drabbazt niður. Þúsundir bifreiða hafa verið fluttar inn að ógleymdum tertubotnum, en enginn togari. Hundruðum millj. í erlendum gjaldeyri hefur verið varið til kaupa á vélum og tækjum til iðnrekstrar, en síðan standa þessi tæki að mestu verklaus vegna óhefts innflutnings á þeim vörum, sem framleiða átti. Þessi stefna er orsök þess, að allt skuli komið í þrot um leið og nokkuð bjátar á í þjóðarbúskapnum eftir hin miklu veltiár. Það er vissulega merki óstjórnar, sem mál er, að linni.

Hin harkalega kjaraskerðing, sem boðuð hefur verið, leysir engan vanda, en stofnar til ófriðar í landinu. Frá henni verður að hverfa. En verði hún knúin fram, á alþýða landsins aðeins einn kost. Hún verður að fylkja liði í samtökum sínum og beita afli þeirra til að rétta sinn hlut. Og það verður að marka nýja stefnu í efnahags– og atvinnumálum þjóðarinnar, stefnu sem tryggir batnandi lífskjör, örugga atvinnu og fjárhagslegt sjálfstæði þjóðarinnar.