12.12.1968
Efri deild: 26. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í B-deild Alþingistíðinda. (313)

89. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenskrar krónu

Frsm. minni hl. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ekki skal ég tefja umræður hér um of, en ég get ekki annað en þakkað þær heillaóskir, sem hv. talsmaður meiri hl. bar fram í minn garð, og ég verð að segja það, að mér sýnast ekki allir forsvarsmenn lánastofnana vera slæmir, eins og hann vildi láta að liggja. Þeir eru ósköp mannlegir og miklu betri en hann virtist telja.

Ýmislegt er það, sem minnzt var á, sem ég verð að svara lauslega. Ég ætla fyrst aðeins að ræða þá fullyrðingu mínar að almenningur í landinu nefndi viðreisnarstjórnina nú orðið í daglegu tali stjórnleysisstefnuna. Hvernig er þessi stefna, sem nú er fylgt í þessu landi? Á yfirborðinu er fylgt stefnu kapítalismans, þar sem framboð og eftirspurn eftir fjármagni á að ráða allri efnahagsþróun. Þetta kemur margsinnis fram í viðreisnarbæklingnum fræga og í ræðum og ritum forsvarsmanna. En hvernig er svo þetta undir niðri? Undir niðri sitja fjölmargir sjóðir, Atvinnuleysistryggingasjóður, Atvinnujöfnunarsjóður, Fiskimálasjóður, Fiskveiðasjóður, stofnfjársjóðir landbúnaðarins og sjávarútvegsins og ég veit ekki, hvað þeir eru margir; ég kann ekki að nefna þá alla. Fyrir hverjum þessum sjóði situr ein stjórn, sem er að reyna að stjórna; reyna að deila út fjármagninu, sem hún hefur til skiptanna, eftir stefnu jafnaðarmennskunnar, en án nokkurrar samræmingar. Er nokkur furða, þótt fjöldinn, a.m.k. þeir, sem hafa kynnzt þessari starfsemi, komist að þeirri niðurstöðu, að þessi stefna sé endaleysa ein og stjórnleysi mjög vægt sagt. Ljóst er, að hér þarf að koma á miklu meiri samræmingu, en það er ekki til umræðu nú, þó á þetta hafi verið minnzt. Mér sýnist því, að fullyrðing mín sé á allmiklum rökum reist. Og það veit ég, að hv. þm. mundi finna, ef hann ræðir þessi mál við almenning, að skoðun sú, sem ég taldi almenning hafa, er mjög almenn.

Um vísindastofnanirnar og fiskleitarskipin og rannsóknaskipin var dálítið rætt. Ég vil endurtaka það, sem ég sagði áðan. Ég efast um, að við finnum nokkra þjóð, sem á jafnmikið undir sjávarútvegi eins og við Íslendingar, sem hefur látið útveginn sjálfan borga öll leitarskip. Útvegurinn mun a.m.k. borga sjálfur „Árna Friðriksson“, og svo er ráð fyrir gert með „Bjarna Sæmundsson“, sem nú er verið að byggja. Ég leyfi mér að fullyrða, að svo sé hvergi annars staðar. Ég teldi eðlilegt, að hið opinbera legði verulegt fjármagn til byggingar þessara skipa.

Hv. talsmaður meiri hl. sagði, að ég hefði talað um 60% aukningu tekna, ég kannast ekki við það og vil leiðrétta það hér. Ég held, að það hljóti að vera einhver misskilningur. Sú eina hundraðstala, sem ég nefndi, sem kom nálægt þessu, var 56%. (Gripið fram í: Fiskverðs.) Já, það hlaut að vera. Ég nefndi allt að 56 af hundraði aukningu fiskverðs, en vitanlega eru það ekki tekjur útgerðarinnar, eins og ég rakti, að því er ég tel ítarlega, því að útgerðin fær á sig ýmsa aðra kostnaðarliði, sem frá þessu verða að dragast.

Það er alveg rétt, að við þurfum að koma flotanum út og við þurfum að koma sjávarútveginum í heild í gang. Það er staðreynd, og enginn veit það betur en hv. talsmaður meiri hl., að mikill hluti forstjóra og forystumanna frystihúsanna og sjávarútvegsins hefur setið í Reykjavík nú mánuðum saman einmitt til þess að finna einhverja leið til þess að koma sjávarútveginum á flot, og hann hefur ekki fengið úrlausn enn; það er langt frá því. Það hefur komið fram, sem stjórnarandstaðan hefur hvað eftir annað lagt áherzlu á, að þær efnahagsráðstafanir, sem framkvæmdar hafa verið eða verið er að framkvæma, tryggja á engan hátt, að flotinn komist út eða sjávarútvegurinn almennt í gang. Við höfum í þessu sambandi drepið á fjölmörg atriði, sem ég ætla ekki að endurtaka hér. Þau hefur form. Framsfl. rakið ítarlega, bæði í ræðu og riti, og mundi vera of langt mál að telja hér upp. Þetta eru fjölmörg atriði, sem hafa verið afgreidd af sérfræðingum hv. ríkisstj. sem einskis nýt og ekki umræðuhæf. Það eru einmitt þessi atriði, sem við teljum að ætti að taka til ítarlegrar athugunar og hefði átt að gera, áður en til gengisfellingarinnar kom og þá teljum við, að sjávarútvegurinn og flotinn væri þegar kominn á flot.

Það var rætt um það, að ekki væri tími til að lækka vexti. Ég veit ekki betur en einmitt samkv. þessari stefnu eða kenningu, sem ég nefndi áðan, að framboð og eftirspurn eftir fjármagni skuli ráða efnahagsþróun, sé það einn meginþátturinn að lækka skuli vexti, þegar erfiðlega gengur í þjóðarbúskapnum og þegar kreppa er fram undan eða er skollin á. Þetta er sú stefna, sem Þjóðverjar t.d. fylgdu fyrir fjórum árum, þegar þeir lentu í erfiðleikum, sem þó voru ekki nema smávægilegir í samanburði við það, sem við Íslendingar erum nú í. Þeir lækkuðu vexti og juku fjármagnið í umferð. Hvorugt af þessu hefur verið gert hér og þykir mönnum, að þá sé illa haldið í þessa stefnu, sem þó er boðað, að fylgt skuli vera.

Ég fagna því, ef eitthvað, sem ég sagði áðan en hefur reynzt rangt, er leiðrétt. Ég viðurkenni, að það er töluverð flækja í frv., eins og hv. talsm. meiri hl. benti á. Má vel vera, að sú upphæð, sem ég nefndi um gengishagnað, sé ekki rétt. Á hitt vil ég þó benda, að samkv. upplýsingum frá Seðlabankanum sýnist mörgum a.m.k. ég hef ekki nákvæmar tölur, — að birgðir af útflutningsafurðum sjávarútvegsins séu töluvert meiri í landinu en ráð er fyrir gert í frv.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta.

En ég vil að lokum taka undir það og vil gjarnan standa með hv. flm. ÞG, að kveða niður hvern þann illan draug, sem við fáum ráðið við.