21.11.1968
Sameinað þing: 14. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í D-deild Alþingistíðinda. (3130)

62. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Tómas Karlsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Hæstv. forsrh., Bjarni Benediktsson, gaf þjóðinni í upphafi þessara umr. hér í kvöld fróðlegar upplýsingar og fyrirheit um það, hvaða áhrif hin fjórða og nýjasta og stórfelldasta gengisfelling núv. ríkisstj. mundi hafa. Samkvæmt því fagnaðarerindi, er hann boðaði, átti þjóðin ekki að þurfa að kvíða, síður en svo, heldur fagna. En það, sem ráðh. sagði, var þó svipað og okkur var sagt, að mundu verða áhrif gengisbreytingarinnar í fyrra haust og því er eðlilegt, að menn spyrji nú eftir fagnaðarerindi forsrh.: Af hverju hafði gengislækkunin í fyrra ekki þau sömu áhrif og þessari er ætlað að hafa? Af hverju hafði hún á þessum 11 og 1/2 mánuði, sem leið frá því, að hún var gerð og þar til gera varð hina síðustu gengislækkun og hina mestu, — af hverju hafði hún ekki þessi sömu áhrif og ráðh. heitir nú þjóðinni, að þessi muni hafa? Ráðh. láðist að skýra það og að öðru leyti voru röksemdir hæstv. forsrh. um væntanleg áhrif gengislækkunarinnar svo fáránleg og blygðunarlaus gagnvart dómgreind þjóðarinnar, að í hnúkana tekur. En enn er ekki of seint að skýra þetta mál fyrir þjóðinni í þessum umr. Vill ekki ræðumaður Sjálfstfl., sem hér talar á eftir mér, hv. þm. Matthías Bjarnason — og ég skora á hann að gera það — skýra það, af hverju þessi síðasta gengisfelling muni hafa svo miklu betri og hagstæðari áhrif, en þessi næstsíðasta, sem gerð var fyrir rúmum 11 mánuðum. Reynslan er ólygin og því bíður þjóðin eftir skýringum á þessum nýja töframætti síðustu og stórfelldustu gengislækkunar ríkisstj. Er hér ekki sú leikblinda einmitt á ferð, sem hv. síðasti ræðumaður var að tala um? Hér þarf svara við, því að þetta er sjálfur mergurinn málsins í þessum umr. hér í kvöld og mættum við fá meira að heyra.

Þá sagði hæstv. forsrh., að stjórnin væri reiðubúin að víkja, en hún gerði það bara ekki af umhyggju fyrir þjóðinni, vegna þess að þá mundi ekkert taka við í landinu annað en stjórnleysi. Ráðh. lét eins og hann hefði alls ekki heyrt þá kröfu, sem fram hefur verið borin, að málin verði lögð í dóm þjóðarinnar í almennum kosningum, eins og þjóðin á skýlausan rétt til nú. Í stað þess reyndi forsrh. að hræða þjóðina með stjórnleysi, ef núv. ríkisstj. færi frá. Sannleikurinn er sá, að stjórnleysið í efnahagsmálum þjóðarinnar hefur verið slíkt að undanförnu, að verra getur það naumast orðið. Það þarf kosningar og það þarf nýja, öfluga ríkisstj. að loknum kosningum, sem hefur traust þjóðarinnar og getur stjórnað. Það er kominn tími til að fara að stjórna á Íslandi og það verður ekki gert fyrr en þessi ríkisstj. er farin frá. Það veit þjóðin nú.

Það, sem hv. síðasti ræðumaður, Bragi Sigurjónsson, upplýsti um vilja þm. Alþfl. á s.l. vori, en þeir hefðu ekki fengið að koma fram, vegna þess að bankastjórar vildu það ekki, er enn ein staðfesting um það, að það eru embættismenn og sérfræðingar hæstv. ríkisstj., sem ráðin hafa í þessu landi, og hlutverk hv. þm. stjórnarflokkanna hér á hinu háa Alþ. er ekki annað, en segja já eða nei eftir skipunum, þegar kippt er í spotta. Þetta skulið þið, áheyrendur góðir, hafa í huga, þegar þið verðið vitni að atkvgr. hér á eftir.

Herra forseti. Á því hefur rækilega verið vakin athygli í þessum umr., að skuldabyrðin við útlönd er orðin geigvænleg eða samtals um 12–13 milljarðar kr. Þegar núv. ríkisstj. tók við völdum, sagðist hún sérstaklega ætla að miða stefnu sína við það að minnka greiðslubyrðina við útlönd, sem væri hættulega mikil, þótt hún hafi þá aðeins numið broti af því, sem nú er um að ræða, því að nú svarar hún hvorki meira né minna en til allrar freðfiskframleiðslu landsmanna á heilu ári. Hvað er það, sem hér hefur skeð? Það hefur komið fram í þessum umr. hér í kvöld, að þetta erfiðleikaár, árið 1968, er þó ekki verra en það, að það er meðalár í afla og útflutningsverðlagi afurða, þegar tekið er meðaltal nokkurra undanfarandi ára. En meira að segja á mestu toppárunum, sem hér hafa komið í sögu þjóðarinnar, 1965 og 1966, jók þessi ríkisstj. við skuldir landsins um 2.000 millj. kr., einmitt þeim árum, þegar átti að leggja til hliðar til mögru áranna. Ungu menn og konur, sem á mál mitt hlýðið. Gerið þið ykkur fulla grein fyrir því, hvað hér hefur raunverulega verið að gerast? Það, sem núv. ríkisstj. hefur gert á undanförnum árum, er að lifa í sinni viðreisnar veizlu og óráðsíu á kostnað okkar, sem tilheyrum yngri kynslóðinni í þessu landi og á kostnað okkar barna. Stórkostlegum byrðum, svo geigvænlega þungum, að menn hryllir við, hefur verið velt yfir á okkur og okkar börn og framtíð okkar og þeirra í þessu landi, okkar, sem eigum að taka og erfa þetta land. Og þessu á nú að halda áfram til þess, segja þeir, að tryggja þjóðinni frelsi. Illt er þeirra ranglæti, en verra er þeirra réttlæti. Þeirra réttlæti, þeirra frelsi grundvallast á því, að við hinir yngri eigum í framtíðinni að borga brúsann, borga kostnaðinn af þessum frelsiskokkteil, þar sem skálað hefur verið fyrir því, að á Íslandi gætu gilt að öllu leyti þau sömu efnahagslögmál og stjórnunaraðferðir í efnahagsmálum og peningamálum, sem henta tugmilljónaþjóðum í iðnaðarþjóðfélögum með yfirfljótandi fjármagn í sínum löndum. Nú eru dreggjarnar drukknar og þær eru beizkar. En því miður ekki nógu beizkar fyrir þessa háu herra. Þar skal skenkt á skálina aftur. Það á að halda áfram sömu stefnu óbreyttri. Það á að taka meira af erlendum lánum, það á að velta meiri byrðum yfir á okkur hin yngri. Það erum við, sem eigum að axla þær byrðar í framtíðinni. Ég spyr: Ungu menn og konur, eruð þið reiðubúin að samþykkja það að taka á ykkur slíkar byrðar til langrar framtíðar til þess eins, að þessi ráðlausa og dáðlausa ríkisstj., þessi hæstv. óráðsíu– og skuldastjórn geti hangið lengur í ráðherrastólum? Nei, við hljótum öll að segja nei. Nú er nóg komið. Hingað og ekki lengra, herrar mínir og það segir þjóðin nú nær öll með okkur, þótt þeir, sem ráða meiri hl. hér á hv. Alþ. muni í atkvgr. hér á eftir sjálfsagt ekki viðurkenna það og séu tilbúnir að halda áfram að berja höfðinu við steininn.

Það er sagt, að við ungu mennirnir séum reiðir. Það er rétt. Og við erum einnig leiðir á þrásetu þessara manna í valdastólunum. Og það á ekki bara við um unga framsóknarmenn, heldur ungt fólk í landinu almennt. Og höfum við ekki fulla ástæðu til þess, eins og hér hefur komið fram? Jú, vissulega, því að nú hafa spilin verið lögð á borðið og blekkingarnar afhjúpaðar. Þessi ömurlega mynd blasir nú við okkur. Nú er meðalárferði í landinu og við vitum og við munum ekki gleyma því, eins og sumir virðast gera, að við búum á Íslandi, sem er gott land og gjöfult land, ef rétt er á málum haldið. Við búum ekki í háþróuðu iðnaðarþjóðfélagi tugmilljónaþjóðar, eins og hæstv. ráðh. virðast halda, ef dæma skal af verkum þeirra. Og við viljum ekki heldur vera það. Við viljum vera Íslendingar og við viljum vera stoltir af því að vera það. Við teljum, að gera megi reisn Íslands meiri, en nú er og tryggja sjálfstæði þess, efnahagslegt og stjórnarfarslegt, betur en gert hefur verið. En jafnframt þessu erum við raunsæ. Við gerum okkur grein fyrir því, að á Íslandi getur komið hart ár, og það er forsjálni ein og fyrirhyggja skynsamra manna að gera ráð fyrir því. Það er ekki sagt landinu til hnjóðs, heldur með það í huga, að gæði þess séu svo mikil, ef þau eru nýtt, að jafna megi auðveldlega milli ára, þótt á móti blási eitt eða tvö ár. Þetta er raunsæi. Með raunsæi af sama toga spyrjum við nú, þegar eins er komið og hér hefur verið lýst í meðalárferði: Hvar stöndum við t.d. í lok kjörtímabils núverandi ríkisstj., ef hún heldur áfram að bæta við erlendu skuldirnar, eins og allt bendir til, heldur áfram að velta meiru af byrðum yfir á okkur hin yngri? Hvar stöndum við eftir 2—3 ár, ef þá kemur virkilega hart ár, verulega hart ár? Hvar stöndum við þá? Svarið við þeirri spurningu er svo geigvænlegt, að það hlýtur að vekja hroll með hverjum þjóðhollum Íslendingi. Við værum þá gjaldþrota. Við værum þjóð, sem í fávizku og óráðsíu hefði glatað efnahagslegu sjálfstæði sínu, gæti ekki staðið í skilum vegna þess að hún hefði sólundað verðmætum sínum á kostnað þeirra, sem taka áttu við og erfa áttu landið. Svarið við þessari geigvænlegu en eðlilegu spurningu, sem við spyrjum nú, er það, að við værum beiningaþjóð á ómagaframfæri annarra þjóða og hefðum þar með a.m.k. að nokkru glatað stjórnarfarslegu sjálfstæði okkar, vegna þess að ómagaframfæri fylgja skilyrði, fylgja kvaðir, ef ekki beint, þá óbeint. Þetta svar liggur beint við þeirri spurningu, sem eðlilegt er, að menn spyrji nú, eins og málum er nú komið. Og þeir, sem svona hafa komið málefnum þjóðarinnar og þannig lagt drápsklyfjar á yngri kynslóðina og þær næstu í þessu landi meira að segja á mestu góðæristímunum til þess eins að geta sjálfir setið við hið fjölbreytta veizluborð viðreisnarfrelsisins, þeir létu kjósa sig í síðustu kosningum til að framfylgja vísindalegri verðstöðvunarstefnu, sem þeir sögðu, að auðveldlega mætti fylgja hér fram um mörg komandi ár. Þeir sögðu, að það væri kosið um stöðvun verðlagsins ásamt frelsi. Þeir hömpuðu gjaldeyrisvarasjóði, sem nú er upplýst, að voru bara víxlar, sem þeir höfðu slegið erlendis og lagt inn á bók í Seðlabankanum. Síðan hafa þeir hækkað verðlag á innfluttum vörum um meira en 100%, meira en helming og fellt gengið tvisvar á 11 og 1/2 mánuði og þó mest nú síðast, er þeir hækkuðu erlendan gjaldeyri um 55%, en það var fjórða gengisfelling þessarar hæstv., en mjög svo veiku ríkisstj. Leiðin út úr þeim ógöngum, sem nú er komið í, verður ekki farin undir forustu núverandi ríkisstj. Það verður æ fleirum ljóst og sú skoðun nær langt inn í raðir stjórnarflokkanna sjálfra. En þessi ríkisstj. sýnir slíka óbilgirni, að hún hafnar breiðri samstöðu og samvinnu um lausn þess mikla vanda, sem hún hefur sjálf skapað.

Leiðin út úr ógöngunum nú er sú að efla atvinnugreinar landsmanna með öllum tiltækum ráðum og styðja menn til að koma upp nýjum atvinnugreinum og tryggja þeim heilbrigðan rekstrargrundvöll og vinna markvisst að aukinni framleiðni á öllum sviðum. Það er tryggasti og bezti gjaldeyrissjóðurinn, sem þessi þjóð getur eignazt. En til þess að svo verði, þarf forustu ríkisvaldsins og skilning ráðamanna yfirleitt. Þá forustu fáum við ekki frá ríkisstj., sem í 8 ár hefur lofað okkur meiri fjölbreytni í atvinnulífi og traustan grundvöll atvinnuveganna, en skilið eftir sig rústir einar. Ríkisstj., sem nú er rúin öllu trausti, þótt þeir hv. 32 þm., sem hér segjast styðja hana á hv. Alþ., muni sjálfsagt hlýða í kvöld sínum húsbændum sem endranær. Þjóðinni er nauðsyn á nýrri forustu og samstilltu átaki við lausn vandans, sem nú er við að glíma. Hún krefst þess, að málin verði lögð í þjóðardóm og þessi ríkisstj. fari frá. Á þá lýðræðiskröfu verður hlustað, kannske ekki í kvöld af þessum 32, en ef krafan er nógu sterk og nógu almenn og hljómar um allar byggðir landsins á næstu mánuðum, þá verður þessi ríkisstj. að fara frá. Þá er aftur von, að rofi til og þjóðin geti snúið við á óheillabrautinni og unnið markvisst að því að rífa sig upp úr því öngþveiti, sem nú er komið í á öllum sviðum.

Í síðustu kosningum blekkti núv. ríkisstj. þjóðina herfilega um leið og hún kallaði þá, sem reyndu að segja henni satt, svartsýnis– og barlómsmenn. Nú, er blekkingarnar hafa verið afhjúpaðar, sýnir hún dómgreind þjóðarinnar mikið vantraust, ef hún heldur, að hún geti fengið stuðning hennar til að halda lengra út í fenið. Því vantrausti á dómgreind almennings í þessu landi mun þjóðin svara með vantrausti á þessa ríkisstj. Því fyrr, sem ríkisstj. skilst, hve það vantraust er nú almennt og dregur af því rétta lærdóma, því betra fyrir okkar þjóð og hennar framtíð í okkar landi. Herra forseti, því ber að samþykkja þá till., sem hér liggur fyrir. — Góðir hlustendur. Ég þakka áheyrnina. Góða nótt.