21.11.1968
Sameinað þing: 14. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í D-deild Alþingistíðinda. (3131)

62. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Það er ekki í fyrsta skipti, sem hv. stjórnarandstæðingar halda því fram, að stjórnarflokkarnir hafi fyrir síðustu kosningar blekkt þjóðina og neitað því, að hætta steðjaði að í efnahagsmálum hennar. Í þessu sambandi á að nægja að minna á, að um áramótin 1966–1967 var svo komið, að bátaflotinn hefði stöðvazt, ef fiskverð ekki hækkaði og hraðfrystihúsin og annar fiskiðnaður gátu ekki vegna verðfallsins greitt hærra fiskverð. Þá leystu ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar þennan vanda með því að ríkissjóður greiddi alla fiskverðshækkunina, sem nam um 100 millj. kr. Jafnframt tók ríkissjóður á sig að greiða allt að 75% af verðlækkuninni á frystum fiski, til þess að hraðfrystiiðnaðurinn gæti haldið áfram starfrækslu sinni. Síðan þetta gerðist, hefur afkoma útflutningsatvinnuveganna farið hríðversnandi vegna minnkandi afla, verðfalls á erlendum mörkuðum, samfara sífellt hækkandi tilkostnaði við veiðarnar. Síldin hefur fjarlægzt landið, dýrari veiðarfæri og skip hefur þurft til þess að ná þeim afla og vinnslukostnaður hefur aukizt í landi. Útflutningsverðmæti þjóðarinnar var á árinu 1966 6 milljarðar 47 millj. kr., en á árinu 1967 lækkaði útflutningsverðmætið niður í 4 milljarða 204 millj. kr. eða um 1 milljarð 848 millj. kr. Á árinu 1968 er áætlað, að útflutningsverðmætið verði um 4 milljarðar 500 millj. kr. Ef gengi krónunnar hefði ekki verið breytt á s.l. ári, mundi þessi upphæð nema á árinu 1968 3 milljörðum 600 millj. kr. Ég vona, að síðasti ræðumaður, blaðamaðurinn Tómas Karlsson, skilji nú og hafi fengið svar við sinni spurningu.

Menn verða ekki vel upplýstir af því að lesa um stjórnmál og efnahagsmál í Tímanum einum blaða. Þessum hv. þm. vil ég einnig svara því til, að þegar hann talar um skuldahækkunina, sem orðið hefur í erlendum skuldum, sleppti hann því alveg að nefna, hvað hefur verið keypt fyrir allt það fé. Honum varð ekki á að segja frá því, að á árinu 1965 voru keypt skip, vélar og flugvélar til landsins fyrir tæplega 2 þús. millj. og á árinu 1966 fyrir svipaða upphæð eða bara á þessum eina lið var eignaverðmæti um 4.000 millj. kr. Hann hefur aldrei, blessaður drengurinn, séð þetta í Tímanum, og þess vegna trúir hann því ekki, að þetta hafi átt sér stað. Ég held, eftir að hafa hlustað á ræðu þessa hv. þm., að hér sé kominn leikritahöfundurinn, sem hann hefur lagt til í frumvarpsformi, að ráðinn verði að Þjóðleikhúsinu.

Þessar tölur, sem ég nefndi áðan um útflutninginn, sýna bezt, hvað vandamálin er í raun og veru alvarleg. Svo var komið, að stór hluti útflutningsfyrirtækja var stöðvaður eða um það bil að stöðvast og þarf engan að undra eftir slík áföll, sem við höfum orðið fyrir og enginn hefur ráðið við. Erfiðleikar sjávarútvegsins eru almennt miklir, en þó nokkuð mismunandi eftir hinum ýmsu greinum. Í fiskiðnaði eru áföll hraðfrystihúsanna langgeigvænlegust og skreiðarframleiðsla hefur að verulegu leyti lagzt niður vegna söluvandræða. Síldveiðar hafa dregizt stórkostlega saman á síðasta ári, en út yfir hefur tekið á þessu ári. Afkoma fólks og framleiðslufyrirtækja er nokkuð misjöfn eftir landshlutum. Austfirðir hafa orðið fyrir einna þyngsta áfallinu vegna síldveiðanna. Víða á Norðurlandi hefur lagazt með aflabrögð á þessu ári, en þar hefur afli verið lakastur á undanförnum árum. Á Suðvesturlandi og við Faxaflóa hefur ástandið hvað afla snertir verið skárra en annars staðar. Við Breiðafjörð hefur mjög dregið úr afla, en á Vestfjörðum eru þessir erfiðleikar mestir og þar hefur orðið mikill samdráttur vegna gífurlegrar minnkunar á afla, sem sennilega á helzt rót sína að rekja til óvenjuslæmrar veðráttu á síðustu tveimur vertíðum, en þó einkum á síðustu vertíð.

Undanfarna mánuði hefur verið unnið að framkvæmd ýtarlegra rannsókna á afkomu atvinnuveganna og á hvern hátt sé hægt að leysa vandamál þeirra og koma í veg fyrir atvinnuleysi. Stjórnarflokkarnir hafa kynnt sér ýtarlega öll þessi gögn og allar till. þar að lútandi. Að vandlega athuguðu máli og miðað við stærð þessa vandamáls hefur verið farin sú leið að skrá nýtt gengi íslenzkrar krónu til þess að bæta rekstursstöðu allra greina útflutningsins og á þann hátt reynt að tryggja eðlilegan rekstur. Með nýrri gengisskráningu er mögulegt að auka fjölbreytni útflutningsins, bæði hvað snertir nýjar greinar á sviði fiskiðnaðar og annars iðnaðar, sem þarf nú ólíkt betri samkeppnisaðstöðu fyrir sínar vörur á erlendum mörkuðum. Gengisbreytingin styrkir aðstöðu innlends iðnaðar og gerir aðstöðu hans sterkari í samkeppninni við innfluttar iðnaðarvörur. Innlendar skipabyggingar hafa nú fengið samkeppnisstöðu við erlendar skipasmíðastöðvar með gengisbreytingunni og þeirri ákvörðun, sem ríkisstj. tók í byrjun þessa árs, að hækka lán til skipa, sem byggð eru innanlands úr 75% í 85%. Þetta ætti að verða til þess að stórauka verkefni málmiðnaðarins, en þar hefur samdráttar orðið meira vart, en í flestum öðrum iðngreinum. Gengisbreytingin og þær ráðstafanir, sem fylgja í kjölfar hennar, eru við það miðaðar að bæta rekstrarstöðu útflutningsatvinnuveganna. Hins vegar er það ótvírætt, að efnahagur margra útflutningsfyrirtækja er mjög illa kominn vegna taprekstrar á undanförnum árum. Það er þess vegna brýn nauðsyn, að jafnhliða bættri rekstrarstöðu verði efnahagsvandamál þessara aðila tekin til bráðrar úrlausnar og lagt kapp á, að þeim fyrirtækjum, sem þegar hafa orðið að stöðva rekstur sinn eða eru af þessum sökum komin að því að stöðva hann, verði gert kleift að komast í gang, því að stöðnun fyrirtækja leiðir til samdráttar í framleiðslu og minnkandi gjaldeyrisöflunar, sem veldur algeru atvinnuleysi á þeim stöðum, sem næstum eingöngu eiga atvinnu sína undir því, að þessi framleiðslufyrirtæki starfi með eðlilegum hætti. Í þessu sambandi er eðlilegt og skylt að taka tillit til óvenju mikilla erfiðleika í ákveðnum landshlutum og leysa þeirra mál með sérstökum aðgerðum umfram þær almennu aðgerðir, sem fram þurfa að fara. Ég tel eðlilegt, að stofnsjóðir og bankar taki að einhverju leyti á sig að létta hinar þungu byrðar framleiðslufyrirtækjanna eftir þessi erfiðu ár með því að gefa eftir hluta af skuldum þeirra við þá eða breyta þeim í föst lán til langs tíma með lágum vöxtum. Það er rétt að taka fram, að þær ráðstafanir, sem nú er verið að gera, eru ekki gerðar fyrir sjávarútveginn einan, heldur vegna þjóðarinnar í heild. Starfræksla útgerðar og fiskvinnslu er undirstaða þess, að atvinna sé fyrir hendi og jafnframt, að ekki verði samdráttur í öðrum atvinnugreinum.

Það kemur engum á óvart, að þær efnahagsráðstafanir, sem nú er verið að gera eftir þau þungu áföll, sem þjóðin hefur orðið fyrir, leiða af sér skerðingu á lífskjörum. Það er engin ástæða til þess að draga fjöður yfir það. Hitt er þjóðinni mikilvægara, að atvinna haldist og ekki verði farið út í þær aðgerðir, sem eyðileggja þessar ráðstafanir. Slíkt mundi aðeins leiða til stöðvunar atvinnulífsins og atvinnuleysis. Atvinnuleysið er mesta bölið, sem yfir okkur getur komið.

Báðir flm. þessarar vantrauststill. hafa haft greiðan aðgang að öllum gögnum um ástand efnahagsmálanna og stöðu útflutningsatvinnuveganna. Þeir vita mæta vel, að það varð ekki hjá komizt að gera ráðstafanir, sem höfðu í för með sér kjaraskerðingu. Það er hyggilegra að taka á sig kjaraskerðingu um hríð, meðan verið er að komast yfir þessa erfiðleika og það er skoðun mín, að þeir, sem koma með úrræði til þess að haldið sé atvinnu í landinu, muni ekki reynast launþeganum verri en hinir, sem aldrei þora að hafa ákveðna skoðun til lausnar vandamálunum, en kynda í þess stað eld að glóðum óánægju og sundrungar. Það er víst, að jarðskjálftadeild hins nýja Alþb. vísar ekki þjóðinni leiðina til bættra lífskjara með grjótkasti í Alþingishúsið og kröfu um að lífláta forustumenn þjóðarinnar.

Núverandi stjórnarflokkum er fyrir löngu Ijóst, að einhæft atvinnulíf, sem byggist á sveiflukenndum atvinnurekstri, eins og sjávarútveginum, skapar aldrei jafna framleiðslu. En þó að sjávarútvegurinn muni um ófyrirsjáanlega framtíð verða höfuðmáttarstólpi útflutnings okkar, er brýn nauðsyn að auka fjölbreytni atvinnulífsins og eiga ekki alla afkomu undir duttlungum hafs og veðráttu. Stjórnarflokkarnir hikuðu ekki við að taka ákvörðun í stóriðjumálinu. Bygging álverksmiðjunnar í Straumsvík og Búrfellsvirkjunin eru stærstu framkvæmdir, sem hefur verið ráðizt í. Þær hafa tekið við miklu vinnuafli, sem sannarlega hefur ekki veitt af. Þegar álverksmiðjan tekur til starfa, mun framleiðsla hennar auka útflutningstekjur þjóðarinnar og sköttum af henni verður varið til uppbyggingar atvinnulífsins úti á landsbyggðinni. Hver var afstaða stjórnarandstöðunnar til stóriðjumálsins? Þeir börðust hatramlega á móti málinu. Alþb. leggst að venju á móti öllum slíkum málum. Framsfl. hafði um hríð fá orð um afstöðu sína til málsins, en að lokum varð hann að taka afstöðu. Það var vitað, að menn innan flokksins voru með stóriðjumálinu, en eins og jafnan áður réði afturhaldið innan þess flokks ferðinni og hinir létu beygja sig að undanskildum tveimur þm., sem brutu af sér hlekki handjárnanna, en höfðu þó ekki þrek til að fylgja sannfæringu sinni betur fram en það, að þeir sátu hjá víð atkvgr. um frv. hér á hv. Alþ.

Sagan endurtekur sig. Nú fyrir skömmu lagði ríkisstj. fram till. á Alþ. um, að henni væri heimilað að sækja um aðild Íslands að Fríverzlunarsamtökum Evrópu. Framsfl. átti samleið með kommúnistum í því máli og taldi ekki tímabært að sækja um aðild að EFTA. Hvort sem okkur líkar betur eða verr, er það staðreynd, að þjóðir Evrópu eru í þremur sjálfstæðum markaðsbandalögum að undanteknum tveimur þjóðum auk okkar. Við þolum það ekki að vera til lengdar utan gátta. Langstærsti hluti útflutnings okkar er til þjóða innan Fríverzlunarbandalagsins og á árinu 1966 voru 37.4% af heildarútflutningi okkar til EFTA–landanna og 20.4% til landa innan Efnahagsbandalags Evrópu. Þar næst komu Bandaríki Norður-Ameríku með 16.5%, Austur–Evrópulöndin með 11.9% og önnur lönd með 13.8%.

Eins og fram hefur komið í umr. hér í kvöld hjá talsmönnum stjórnarandstöðunnar, hafa þeir enga lausn á takteinum til þess að stýra úr þeim efnahagsvanda, sem þjóðin stendur nú frammi fyrir. Vandinn, sem vinstri stjórnin átti við að glíma 1958, er hreinn hégómi á við það, sem nú er við að stríða. En hvernig tókst hún á við vandamálin þá? Þeir komu sér ekki saman um neitt og urðu felmtri slegnir, þegar þjóðarskútan kenndi grunns og stungu sér hið snarasta fyrir borð, svo að sást í iljar þeirra. Samstaða þessara manna hefur ekkert breytzt síðan. Þeir eiga samstöðu, þegar tekin er neikvæð afstaða til mála, en eiga ekkert sameiginlegt, þegar leysa þarf aðkallandi vandamál. Formaður Framsfl., Ólafur Jóhannesson, taldi upp nokkur atriði hér í ræðu sinni í kvöld til úrbóta, sem hann sagði Framsfl. vilja gera, en honum láðist að geta þess, á hvern hátt skuli afla fjár til þess að standa undir þeim útgjöldum, sem þessar bætur kosta. Honum fórst líkt í þessum efnum og barni, sem lítur í búðarglugga og segir: Þetta allt ætla ég að kaupa, en gerir sér enga grein fyrir því, að varan í glugganum kostar peninga.

Lúðvík Jósefsson átti í ræðu sinni mörg úrræði. Ég held, að hann hafi með slíkum málflutningi sýnt oftrú sína á fáfræði manna. Sami ræðumaður taldi ríkisstj. vera að vega að sjómönnum. Þeir, sem í glerhúsi búa, eiga ekki að kasta steinum að öðrum. Þessi sami maður ákvað, þegar hann var sjútvrh., skiptaverð 1.48 kr. á kg, en verðið til útgerðarinnar var frá 14—30% hærra, en skiptaverð til sjómanna. Auk þess hlutu útgerðarmenn margvísleg önnur hlunnindi, sem sjómenn fengu ekki á þeim tíma.

Þjóðin vottaði núverandi stjórnarflokkum traust í síðustu kosningum og það er skylda þeirra, sem sýnt er traust, að takast á við vandamálin, leggja fram sínar till. og standa á því, eins og frekast er unnt, að þær nái tilætluðum árangri. Sjálfstfl. hefur verið forustuflokkur þjóðarinnar um langt árabil. Undir hans forystu hafa orðið stærri og meiri framfarir um allt land, hvort sem er til sjávar eða sveita. Hann lítur á það sem skyldu sína að takast á við erfiðleikana. Sjálfstfl. heitir á alla Íslendinga að horfa af raunsæi og skilningi á úrlausn þessara vandamála og treystir því, að fólk, hvar sem það er í stétt eða flokki, taki höndum saman, en láti ekki blekkjast af þeim hjáróma röddum, sem nú hvetja til sundrungar. Það er eins víst og dagur kemur að morgni, að ef við stöndum saman, munum við sigrast á þessum erfiðleikum og vonandi verður þess ekki mjög langt að bíða, að aftur fari lífskjör þessarar þjóðar batnandi. — Góða nótt.