07.11.1968
Neðri deild: 11. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í D-deild Alþingistíðinda. (3146)

29. mál, rannsóknarnefnd vegna kaupa á Sjálfstæðishúsinu

Flm. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Hæstv. símamrh. vék að því í upphafi ræðu sinnar og raunar einnig síðar, að enda þótt sjálf till., sem hér liggur fyrir, kveði ekki upp neinn dóm um þau viðskipti, sem hér er um að ræða, þá hafi komið fram greinilega, bæði í grg. fyrir till. og þeirri framsöguræðu, sem ég flutti, að því sé haldið fram, að hæstv. ráðh. hafi misnotað aðstöðu sína. Ég gerði mjög skilmerkilega grein fyrir því, að þær ásakanir hafa komið fram opinberlega, að þessi viðskipti séu ákaflega óeðlileg og ég veit, að hæstv. ráðh. minnist þvílíkra skrifa í blöðunum. Þar voru bornar fram mjög harðar ásakanir á hæstv. ráðh., sem ég tel óþarfa að rifja hér upp, þær eru það ferskar. Þó er e.t.v. ástæða til að minna á, að dagblaðið Tíminn, sem er málgagn annars stærsta stjórnmálaflokks á Íslandi, bar fram þá kröfu, að hæstv. ráðh. yrði vikið úr ríkisstj. og framkvæmd réttarrannsókn af þessu tilefni. Þegar bornar eru fram svona alvarlegar ásakanir, eigum við ekki að taka þeim af neinni léttúð. Þeir menn, sem bera fram ákærur af þessu tagi, eiga að vita, hvað þeir eru að gera og þeir eiga að bera ábyrgð á slíkum ummælum og ég vil vænta þess, að einhver af forustumönnum Framsfl. geri hér grein fyrir þessari afstöðu málgagnsins. Ég tel einnig, að hæstv. ráðh., sem borinn er slíkum sökum, eigi ekki að taka þeim með þegjandi þögninni, heldur eigi hann að beita sér fyrir því, að allir málavextir séu rannsakaðir gaumgæfilega, svo að rétt rök komi í ljós.

Ég lagði til með þessari till., að Alþ. ætti að framkvæma þessa rannsókn og það tel ég algerlega rétt samkvæmt eðli málsins, þetta á að vera verkefni Alþ. og Alþ. á að taka á því af mun meiri alvöru, en láta þessa till. fara til n., sem fjalli um það á þann hátt, sem tíðkast venjulega um störf n. á þinginu. Hér þarf miklu alvarlegri aðgerðir til. Og mér finnst, að ef hæstv. ráðh. er jafnsannfærður um það og hann segir hér, að hann hafi gert rétt eitt, ætti hann að vera fyrstur manna til að fagna slíkri till. í stað þess að mælast til þess, að á þessu máli verði hafður annar háttur.

Þótt í þessari till. felist enginn dómur um sjálf málsatvikin, er mér engin launung á því, að ég tel, að hæstv. ráðh. hafi komið sjálfum sér í aðstöðu, sem er algerlega óviðunandi, aðstöðu, sem alls ekki má viðgangast. Það er föst regla á Íslandi, að t.d. dómarar telja það siðferðilega skyldu sína að víkja úr dómarasæti, ef þeir eiga að fjalla um mál, sem þeir eru tengdir á einhvern hátt persónulega, annaðhvort með fjölskyldutengslum eða hagsmunatengslum. Þetta er alveg sjálfsögð regla, jafnvel þótt grandvörustu menn eigi hlut að máli. Menn eiga að hafa til þá sjálfsvirðingu, að þeir hafi þennan hátt á og ég hefði talið, að hæstv. símamálarh. hefði átt að sjá þessa einföldu staðreynd. Honum var í lófa lagið að leita til annarra aðila til þess að taka lokaákvörðun um þetta mál. Það er ekki sæmandi, að ákvörðun um fjárhæðir, eins og þarna er um að ræða, 16–17 milljónir, séu teknar af manni, sem á hagsmuna að gæta hjá báðum samningsaðilum. Og í því sambandi endurtek ég það, sem ég sagði áðan. Það skiptir ekki máli í þessu sambandi, hvort í hlut eiga grandvarir menn eða ekki. Þetta á að gilda um alla, þetta á að vera föst regla. Ég vil minna á það í þessu sambandi, að þegar tekin var um það ákvörðun að kaupa eignir Sambandsins hér í nágrenni þinghússins, þótti hæstv. ríkisstj. óhjákvæmilegt að bera það undir alla flokka, vegna þess að þarna átti hlut að máli stofnun, eins og Sambandið, sem hefur mjög öflug tengsl við einn sterkasta stjórnmálaflokk á Íslandi. Ríkisstj. taldi óhjákvæmilegt, að þetta væri kannað með viðræðum við alla flokka og það fylgdi með þeirri orðsendingu, að ríkisstj. mundi ekki gera þessi kaup, ef fram kæmi gagnrýni frá einhverjum aðila. Þetta tel ég rétta aðferð, en þetta gerði hæstv. símamálarh. ekki í sambandi við ákvörðunina um kaupin á eign Sjálfstfl.

Hæstv. ráðh. las upp mikið af bréfum og grg. og ég hef ekki hugsað mér að fara að ræða þau atriði nákvæmlega, sem þar komu fram. Ég tók þó eftir einu, sem vakti furðu mína. Í einu bréfinu var frá því sagt, að miðstjórn Sjálfstfl. hefði falið tveimur mönnum, Guðlaugi Þorlákssyni fasteignasala og Helga Eyjólfssyni húsameistara, að meta eignina. Niðurstaða þeirra varð sú, að verðmætið væri 16,2 milljónir króna. Það er eigandinn sjálfur, sem gengst fyrir þessu mati og það er þetta mat eigandans, sem síðan er grundvöllur viðskiptanna. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt um þennan hátt á viðskiptum áður. Venjulega koma menn sér saman um eitthvert óháð mat. Slíkir samningar hefjast venjulega á því, að samningsaðilar hafa dálítið mismunandi skoðanir á því, hvað eignirnar kosti, og ef þeir ná ekki samkomulagi á venjulegan hátt, kemur óháð mat. En þarna er um að ræða mat, sem framkvæmt er að tilstuðlan miðstjórnar Sjálfstfl. og það verður grundvöllur kaupanna.

Í bréfum þeim, sem hæstv. ráðh. las, koma fyrir býsna mörg nöfn, sem eru í innsta hagsmunahring Sjálfstfl. engu síður en hæstv. ráðh. Hann las m.a. bréf frá Gísla Halldórssyni arkitekt. Hitt er svo rétt, að ráðamenn Landssímans hafi verið fýsandi þessara kaupa, eins og fram kom í grg. hæstv. ráðh., bæði póst– og símamálastjóri, yfirverkfræðingur og Sveinbjörn Jónsson lögfræðingur, sem er trúnaðarmaður stofnunarinnar.

Í þessu sambandi er dálítið fróðlegt að íhuga stöðu þessarar stofnunar, Landssíma Íslands. Landssími Íslands hefur ákaflega þægilega aðstöðu í þjóðfélaginu. Hann er einokunarstofnun, hann getur ákveðið verðið á þeirri þjónustu, sem hann lætur landsmönnum í té. Ef hann þarf að ráðast í framkvæmdir og fjárfestingu, aflar hann sér fjár með því, að hann hækkar aðeins taxtann á viðskiptavinum sínum. Þessi stofnun þarf ekki að hafa miklar áhyggjur af því, hvort hún er að taka réttar fjárhagslegar ákvarðanir, hvort hún er að spara 5 eða 10 millj. eða hvort hún er að eyða 5 eða 10 millj. Þetta jafnar sig ákaflega auðveldlega, vegna þess að þetta er lagt á viðskiptavini stofnunarinnar jafnóðum. Og Landssíminn hefur haft þá ákjósanlegu aðstöðu, að hann hefur getað ráðizt í mjög stórfellda fjárfestingu á þann hátt að taka hana jafnóðum af árlegum tekjum sínum. Hann þarf ekki að sæta því, eins og aðrir, að taka lán til stórframkvæmda og greiða þau upp á löngu árabili. Hann tekur þetta jafnóðum. Og slík aðstaða hefur óhjákvæmileg sálfræðileg áhrif á forustumenn slíkrar stofnunar. Þegar menn stjórna fyrirtæki, þá velja þeir ævinlega leið hinnar minnstu fyrirstöðu og þegar menn eiga þennan kost að leggja tilkostnaðinn ævinlega á viðskiptavini sína, án þess að nokkur aðili geti haft eftirlit með því, þá er það ákaflega auðveld leið að hafa þann hátt á, sem Landssíminn gerir, að taka þátt í keppninni um okurlóðirnar hér í miðborg Reykjavíkur. Þetta er ekkert vandamál fyrir Landssímann, hann veltir þessu yfir á viðskiptavinina. Auk þess er það svo, að þeir útreikningar, sem gerðir eru af Landssímanum og ýmsum öðrum og hér hefur verið vitnað til, eru þannig uppbyggðir, að forsenda þeirra er að taka gilt það ástand, að lóðir og fasteignir hér í miðborg Reykjavíkur fari hækkandi ár frá ári. Þetta er talið eðlilegt ástand. Þetta er viðmiðunin hjá þeim, sem hafa búið til þá útreikninga, sem hæstv. ráðh. gerði grein fyrir áðan. En þessi þróun í miðborg Reykjavíkur er sannarlega ekkert eðlilegt eða æskilegt fyrirbæri og sízt af öllu fyrirbæri, sem ríkið og stofnanir þess eiga að ýta undir. Verðhækkunin á lóðum og eignum í miðborginni er ákaflega alvarlegt einkenni á sjúku efnahagsástandi, og þetta stighækkandi verð er ríkur þáttur í verðbólguþróuninni á Íslandi. Þar er ekki aðeins um að ræða sölu á lóðum og fasteignum, heldur hefur sala á einni fasteign áhrif á leiguna í þeirri næstu. Það er svo komið, að svo til allar verzlanir við verzlunargötur í Reykjavík verða að sæta hreinum afarkostum að því er varðar leigu vegna þessa brasks. Þessum tilkostnaði er auðvitað velt yfir á viðskiptavinina. Þetta er einn þátturinn í því, hvað vörudreifing er fjarskalega dýr á Íslandi. Ég held, að þessi tegund gróða sé einhver sú ósiðlegasta, sem hugsast getur. Ég skil í sjálfu sér, að því sé haldið fram, að menn, sem stjórna sínum fyrirtækjum vel og eru duglegir og útsjónarsamir, eigi að hafa gróða af starfsemi sinni. Þetta sjónarmið er hægt að skilja, en gróði sem aðeins helgast af því, að menn eiga einhvern tiltekinn blett, gróði sem menn hafa ekkert á sig lagt til þess að tryggja sér er ósæmilegasti gróði, sem til er.

Ég held, að það hafi lengi verið ákaflega brýn nauðsyn, að gerðar væru félagslegar ráðstafanir hér í Reykjavík til þess að ráðast gegn þessu vandamáli, annaðhvort með því að koma þessum eignum í eigu borgarinnar, eins og ætti að vera almenn regla um allar slíkar eignir, eða með því að stíga það skref í fyrstu að taka mjög stórfelldan verðhækkunarskatt af eignum af þessu tagi. Hæstv. ráðh. sagði, að menn hefðu sagt við hann innan Sjálfstfl., að það væri ekki víst, að hann hefði verið að gera nægilega góð viðskipti fyrir hönd flokksins. Þessi eign mundi halda áfram að hækka í verði. Það væri býsna fróðlegt að fá um það vitneskju hjá hæstv. ráðh., hvað þessi eign hefði hækkað í verði síðan Sjálfstfl. eignaðist hana á sínum tíma, hvað Sjálfstfl. hefur fengið þarna mikil verðmæti án þess að hafa lagt fram nokkurn skapaðan hlut til þjóðfélagsins, aðeins með því að verða þátttakandi í þessu síðlausa gróðabraski í miðborginni.

Það muna ýmsir eftir því, að þegar Sjálfstæðisflokkurinn settist að á þessum stað, fékk hann næsta óvenjulega fyrirgreiðslu hjá opinberum aðilum. Hann gat ekki fært sér í nyt þessa eign, nema með því að fá heimild til þess að byggja yfir eina af götum borgarinnar. Ég minnost þess ekki, að annar aðili hafi notið jafnelskulegrar fyrirgreiðslu af hálfu opinberra aðila hér í Reykjavík. En það er þessi fyrirgreiðsla, sem flokkurinn hefur síðan hagnýtt sér til þess að hækka þessa eign sína sífellt í verði og hirða nú loks ágóðann á þurru. Hitt dreg ég ekki í efa, að flokkurinn hefði vel getað haldið áfram að safna þarna miklum nýjum verðmætum.

Mér skilst, að eftir tiltölulega stuttan tíma hugsi hæstv. ríkisstj. sér að gera fjárhagsráðstafanir, sem munu verða til þess, ef að vanda lætur, að allar þessar eignir í miðborginni stökkva upp í verði rétt einu sinni. Með þessari stjórnarstefnu, sem hér er haldið uppi, er hægt að færa rök að því, að allar slíkar eignir haldi áfram að hækka og hækka. En hugleiðingar af slíku tagi og áhugi á þess háttar braski ætti ekki að nota sem rök hér á Alþ. Íslendinga.

Ég vil að lokum leggja á það áherzlu, að hér er lögð fram tillaga um, að skipuð verði rannsóknarnefnd í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar. Ég tel, að hér sé um að ræða það stórfellt mál, að það rökstyði gjörsamlega þessa aðferð og ég vil minna á það hér rétt einu sinni, sem ég sagði í framsögu minni, að uppi hefur verið að undanförnu mjög hörð og mjög réttmæt gagnrýni hjá almenningi á það, að flokkar og valda aðilar misnoti aðstöðu sína. Okkur ber að hlusta á þessa gagnrýni og okkur ber að læra af henni. Og ég tel, að það væri bæði Alþ. og hv. ráðh. til sóma, ef við samþ. einróma að hafa á þessa aðferð. Með slíkri rannsóknarnefnd er aðeins verið að kanna málavexti til fullrar hlítar og með því að hafa þennan hátt á er verið að leggja á það áherzlu, að Alþ. sé fullkomin alvara. Ég vil vænta þess að hv. ráðh. fallist á, að einnig hann þarf á því að halda, að þetta mál sé skoðað af fullri einlægni.