20.02.1969
Neðri deild: 50. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í D-deild Alþingistíðinda. (3151)

29. mál, rannsóknarnefnd vegna kaupa á Sjálfstæðishúsinu

Frsm. meiri hl. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þessari þáltill. um skipun rannsóknarnefndar vegna kaupa á Sjálfstæðishúsinu í Reykjavík var vísað til allshn. og hefur n. haft þetta mál til ýtarlegrar málsmeðferðar og m.a., eins og fram kemur í nál. meiri hl. allshn., voru Gunnlaugur Briem póst– og símamálastjóri og Jón Skúlason, forstjóri símatæknideildar Landssímans, kvaddir á fund n. til viðræðna um þetta mál. Nm. gafst þá kostur á að beina ýmsum fsp. til þeirra varðandi kaupin á Sjálfstæðishúsinu og svöruðu þeir öllum fsp. nm., röktu gang þessa máls frá upphafi og komu með afrit af öllum þeim bréfum, sem fram fóru í sambandi við þessi kaup. Nm. hefur gefizt kostur á að kynna sér efni þeirra bréfa, jafnframt að ræða við þá og gera frekari fsp. Að þessu öllu athuguðu og eftir að hafa kynnt sér mjög ýtarlega gang þessara mála, telur meiri hl. n. ekki ástæðu til að samþykkja þessa till., því að í fyrsta lagi erum við, sem skipum meiri hl. n., sannfærðir um það, að Landssíminn þarf á auknu húsnæði að halda og við föllumst á rök forsvarsmanna Landssímans fyrir því, að það sé hyggilegt að byggja við hús Landssímans við Thorvaldsensstræti 4 og bæði vegna stofnkostnaðar vegna kaupa á þessu húsi og lóð og rekstrarlega séð, sé það Landssímanum hagstætt að fara þessa leið.

Í öðru lagi teljum við, að gangur þessa máls hafi verið með eðlilegum hætti. Hvað verð snertir, er það að okkar dómi, síður en svo hærra, en á mörgum öðrum lóðum og húseignum, sem keyptar hafa verið í miðbænum hér í Reykjavík. Í því sambandi finnst okkur ekki úr vegi að nefna kaup Alþ. á húsunum við Kirkjustræti. Enginn sá þá ástæðu til að gagnrýna þau kaup eða það verð og í raun og veru fellur fyrri flm, þessarar till., sem er hv. 6. þm. Reykv., frá sinni upprunalegu till., eftir að hafa hlustað á rök forsvarsmanna Landssímans og þau gögn, sem hafa verið fram færð í þessu máli, því að hann stendur að áliti minni hl. allshn. ásamt tveimur öðrum nm., en þar leggja þeir til, að till. verði gerbreytt og skipuð verði n. samkv. ákvæðum 39. gr. stjórnarskrárinnar til þess að rannsaka breytingar á lóðaverði í miðborg Reykjavíkur á síðustu þremur áratugum og gera sér eftir föngum grein fyrir því, hver áhrif þær breytingar hafa haft á verðbólguþróun í landinu. Mér þykir rétt að taka það fram, að hv. fyrri flm. till., sem sæti á í allshn., óskaði eftir því og reyndi að leita um það samkomulags í n., að hún gæti gert þessa breytingu á till. og orðið sammála um það, en við, sem skipum meiri hl. allshn., gátum ekki fallizt á það og vildum afgreiða þetta mál sérstaklega. En út af því, sem fram kemur í áliti minni hl. allshn., að rétt sé að hafa rannsóknina víðtækari, en lagt var til í upphafi og hin öra og stórfellda hækkun á lóðaverði í miðborg Reykjavíkur sé alvarlegt vandamál, sem mjög hafði stuðlað að verðbólguþróun og annarlegri gróðasöfnun, þá langar mig aðeins til þess að segja að þó að ég sé ekki hagfræðingur, get ég eiginlega ekki skilið, að hið háa lóðaverð í miðborg Reykjavíkur hafi stuðlað að verðbólguþróun, heldur mundi ég frekar vilja skilja það á þann veg, að verðbólguþróunin almennt í landinu hafi stuðlað að hinu háa lóðaverði, m.a. í miðborg Reykjavíkur. Og hvaða eign er það, sem ekki hækkar verulega í verði á tímum verðbólgu? Með því að leggja þessa skoðun til grundvallar, öfugt við það, sem kemur fram hjá hv. minni hl. allshn., sé ég ekki ástæðu til þess að fela 4 mönnum að rannsaka allar lóða– og húsasölur í miðborg Reykjavíkur í 30 ár. Ég hygg, að það séu svo mörg önnur mál, sem sé miklu frekar ástæða til þess að binda menn við störf, sem koma að meira gagni og liggur meira á að gera, því að þegar allt kemur til alls held ég, að þegar menn hugsa hleypidómalaust um þá öru verðbólguþróun og þá þær fáu lóðasölur og húsasölur, sem átt hafa sér stað í miðborg Reykjavíkur, annars staðar í Reykjavík og víða annars staðar á landinu, þar sem einhver gróska hefur verið, þá hefur verðbólgan leitt til þess, að þessar eignir hafa farið upp úr þessu verði og langt úr hófi fram. Ástæðan fyrir því er auðvitað verðbólgan sjálf. Ég hygg, að það eigi ekki neitt að fara á milli mála, að verðbólgan er völd að því, hvernig þessi þróun hefur átt sér stað, en húsasölurnar hafa ekki að mínum dómi skapað verðbólguna.

Ég tel ekki ástæðu til þess að fara um þetta mál fleiri orðum. Það hefur komið fram, að það var reitt nokkuð hátt til höggs út af kaupum á Sjálfstæðishúsinu í ákveðnum blöðum, eftir að þessi kaup áttu sér stað á s.l. sumri. Það er nú eins og gerist og gengur oft og tíðum í stjórnmálabaráttunni. Af því að þar á stjórnmálaflokkur hlut að máli, þá þykir kannske öðrum, sem eru andstæðingar, rétt að vekja athygli á því og reyna að láta líta út fyrir almenningi, að hér hafi verið óeðlilega að farið. Ég segi fyrir mitt leyti, að hvort sem Sjálfstfl. á hlut að máli eða aðrir flokkar eða hver sem er, á auðvitað að ganga jafnt yfir alla í þeim efnum. Engum ætti að vera leyfilegt að ganga lengra, en talið er sæmandi og öll gögn, sem fyrir liggja, sýna okkur og hafa raunar sannfært fyrri flm. þessarar till. um, að við þessi kaup hefur ekkert verið frábrugðið frá öðrum kaupum og venjum í sambandi við lóðasölu og eignasölu hér í miðborg Reykjavíkur og þó að víðar væri leitað.